Hús úr holu

Underground-Home-2

Nú á dögum dugir hreint ekki það eitt að fá morgunnbjarta hugmynd og hafa vilja til að hrinda henni í framkvæmd þegar skal byggja hús. Þar duga ekki einu sinni byggingarmeistarar, ásamt teikningum arkitekta og verkfræðinga, hvað þá að lóðin ein nægi eins og í denn.

Nei, nú þarf þar að auki byggingastjóra sem má ekki vera sami maðurinn og byggingameistarinn, öryggisfulltrúa, tryggingafélag og utan um allan pakkann skal haldið með gæðaeftirlit sem er eftirlitskylt af skoðunarstöð og allur heili pakkinn verður að hafa fengið samþykki frá Mannvirkjastofnun ríkisins. Þar að auki verður sá sem framkvæmir að fá öll herlegheitin samþykkt í sveitarfélaginu þar sem húsið skal standa. 

Marteinn Mosdal - hvað?

Tryggvi Emilsson segir frá því, í bók sinni Baráttan um brauðið, þegar hann byggði fyrir rúmum 90 árum íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi á Akureyri. En hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáu dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Earth_house_interior1

Útsýnið eins og það gæti verið úr steyptum torfbæ 21. aldarinnar

Nú á tímum stendur ungu fólki ekki til boða aðferð Tryggva ef það vill koma sér upp húsi, til þess hefur verið séð með reglum á reglur ofan svo aurarnir rati í rétta vasa.

Það er því spurning hvort reglugerðirnar nái yfir holur á við þær sem gömlu torfbæirnir voru. Þannig hús hafði Tryggvi fyrst hugsað sér að komast í við Glerána í denn, en hætti við þegar hann sá að hann gæti byggt sitt hús eins og honum þóknaðist. það má segja að steypa og hola geti sameinað helstu eiginleika sem hús þarf að hafa. Þetta megi jafnvel gera fyrir lítið fé, á meðan reglugerðin geri lítið fyrir hús en kosti mikið fé.

eart-house plan

 Grunnmynd af lítilli steinsteyptri einstaklings torfholu

Videoið hér fyrir neðan er um mann sem lét verða af því að koma sér upp holu. Það ætti að vera lítið mál ef land er til staðar og verður ekki séð að reglugerðir og annað opinbert utanumhald þurfi að koma til svo lengi sem holan er ekki fjármögnuð með lánsfé né tengd opinberri stjórnsýslu. Þetta ætti hver sem er að geta gert í garðinum hjá sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Eftir því sem eftirlits og reglugerðarþrælunum fjölgar, minnka gæði nánast alls, sem þeir eiga að hafa eftirlit með, eða umsjón. Mygla, raki, röng efni, slugsugangur og nánast því fíflagangur viðgengst í reglugerðaþvargani nútímans, þar sem enginn ber, þrátt fyrir alla blýantsnagarana, nokkra ábyrgð. Hús hafa sennilega aldrei verið verr byggð á Íslandi en í dag, enda vitleysisgangurinn aldrei verið meiri.

 Venjulegu fólki meira að segja bannað að byggja sjálft, því fóðra þarf andskotans reglugerðaiðnaðinn og einskisnýta eftirlitsaula þess, sama hvað það kostar.

 Færi betur ef fleirir læsu öll þrjú bindi ævisögu Tryggva Emilssonar verkamanns og reyndu að læra að meta það sem þeir hafa í dag. Ein glæsilegasta og best ritaða, en um leið raunalegasta saga, sem rituð hefur verið á Íslensku. Nóbelskáld og allir rithöfundar þar hvergi undanskildir. Meistaraverk sem allt of lítinn hljómgrunns hefur notið.

 Þakka góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.10.2018 kl. 01:14

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Halldór, og takk fyrir vel orðað innlegg. Þú kannt að koma orðum að því sem máli skiptir, ég tek undir hvert og eitt einasta orð. Með kveðju úr Héraði.

Magnús Sigurðsson, 24.10.2018 kl. 05:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband