Uppruni Íslendinga - úlfar og arfleið

„Bróðir Hrólfs, sem fór til Íslands, þegar Hrólfur fór í Normandí, ...stofnaði í því vindbarða landi þjóðfélag fræðimanna og afburðargarpa". „Þessir menn urðu, þegar stundir liðu, höfundar eins hins merkilegasta þjóðveldis, sem nokkurn tíma til hefur verið, með einstæðri höfðingjastjórn, og þar þróuðust á eðlilegan hátt bókmenntir slíkar, að aðrar hafa aldrei ágætari verið. Í því landi, þar sem engar voru erlendar venjur eða áhrif til að hindra það, blómgaðist norrænt eðli og andi til fullkomnunar".

Þetta má lesa í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, sem út kom í Englandi árið 1937. Þarna er verið að skírskota til sona Rögnvaldar Mærajarls. Annars vegar til Göngu Hrólfs forföður Normandí Normanna sem unnu orrustuna um Bretland við Hastings árið 1066 og enska konungsættin er rakin til, hins vegar til landnámsmannsins Hrollaugs sem nam Hornafjörð og Suðursveit. Adam Rutherford vildi meina að þessir bræður og allflestir landnámsmenn Íslands hefðu ekki verið dæmigerðrar norskrar ættar heldur hefði þeirra ættbálkur verið aðfluttur í Noregi. Að stofni til verið ein af 12 ættkvíslum Ísraels, hvísl Benjamíns.

Í ljósi þessa uppruna væru Íslendingar, vegna einangrunar í gegnum aldirnar, ekki Norskastir Norðmanna eins og ætla mætti af Landnámu, heldur hreinasta afbrigðið sem fyrir finnist á jörðinni af ætthvísl Benjamíns. Þessu til stuðnings benti hann m.a. á að ýmsir sagnaritarar telji að þegar Normannar réðust inn í England árið 1066, þá hafi úlfur verið í skjaldarmerki Vilhjálms bastarðar. Úlfur var merki Benjamíns og algengt í mannanöfnum þeirrar ættkvíslar. Rutherford vill meina að nafngift sem ber úlfsnafnið í sér hafi verið algeng hjá landnámsfólki Íslands, s.s. Ingólfur sem sagður er fyrsti landnámsmaðurinn, Kveldúlfur, Þórólfur, Herjólfur, Brynjólfur, Hrólfur, Snjólfur osfv., enda megi úlfs örnefni víða finna á Íslandi þó svo aldrei hafi þar verið úlfar.

Vissuna um uppruna Íslendinga taldi Adam Rutherford sig hafa úr píramídanum mikla í Gíza, en hann var einn þeirra sem var þar við fornleifauppgröft og rannsóknir árið 1925, þegar áður ófundinn veggur kom í ljós sem talinn er hafa að geima skýringar hinna ímsu spádóma sögunnar þ.m.t. spádóm um fæðingu frelsarans, sem og um eyjarnar í vestri með eldlandinu sem má finna í enskri þýðingu Biblíunnar í spádómum Jesaja.

Með útreikningum komst hann auk þess að því Ísland er í geisla norðvestur hliðar píramídans, liggur þar í honum miðjum ásamt Suðureyjum Skotlands. Ísland á samkvæmt spádómnum að komast í brennidepil mankynsögunnar með því að vera á ásnum þar sem geislinn er breiðastur, „verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar". Langt mál er að fara í gegnum þessa útreikninga Rutherford og það sem hann uppgötvaði um Ísland í Gíza píramídanum enda gaf hann út bókina "Hin mikla arfleið Íslands" um þessar rannsóknir sínar auk margra annarra rita.

En hverjir voru Benjamínítar? Samkvæmt hinni helgu bók var Benjamín yngsti sonur Ísraels (Jakobs sonar Ísaks Abrahamssonar) sem bar beinin í Egyptalandi. Ætthvísl Benjamíns var sú minnsta af Ísrael. Í Dómarabókinni 19-21 segir frá refsidómi Benjamíns ættkvíslarinnar sem kveðinn var upp á þeim tíma þegar allar ættkvíslar Ísraels bjuggu í fyrirheitna landinu. Benjamín skildi eytt úr Ísrael vegna níðingsverksins í Gíbeu, mönnum, konum og börnum.

Ísraelsmenn hófu útrýminguna og sáu ekki að sér fyrr en þeir höfðu eitt svo til öllum kynstofni Benjamíns. En þá tók þá að iðrast og sögðu „Nú er ein ætthvísl upphöggvin úr Ísrael! Hvernig eigum við að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar að vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum". Það urðu því örlög Benjamíns að fara með vopnum á aðrar þjóðir og ræna sér kvonfangi. Síðar fékk Benjamín uppreisn æru í Ísraelsríki og var Sál fyrsti konungur Ísrael af ætt Benjamíns, Davíð konungur sem á eftir kom gerði Jerúsalem að höfuðborg, sonur hans Salómon lét reisa musterið þar sem hin mikla viska á að hafa verið geymd.

Þegar Ísraelsmenn voru herleiddir af Assýríumönnum voru það aðeins tvær ættkvíslar sem snéru aftur til fyrirheitna landsins, Juda og Benjamín. Benjamín hafði áður búið í Jerúsalem en þegar aftur var snúið varð Galílea heimkynni Benjamíns, Jerúsalem tilheyrði þá Juda. Lærisveinar Jesú eru allir taldir hafa verið af ætthvísl Benjamíns, nema Júdas sem var af ætt Juda líkt og Jesú. Um það bil 100 árum eftir Krist, í kjölfar ofsókna Rómverja, flyst ættkvísl Benjamíns til Litlu Asíu og dreifist þaðan til annarra landi m.a. til Svartahafslanda. Talið er að þeir hafi svo aftur lent á flakk á tímum Atla Húnakonungs skömmu fyrir fall Rómarveldis u.þ.b. árið 400.

Fleiri hafa fetað svipaðar slóðir og Rutherford varðandi uppruna þeirra Norðmanna sem námu Ísland. Þar má nefna Barða Guðmundsson (1900-1957) sagnfræðing, þjóðskjalavörð og um tíma Alþingismann. Árið 1959 kom út ritgerðasafn hans um uppruna Íslendinga. Þar leiðir Barði líkum að því að Íslendingar séu ekki komnir út af dæmigerðum Norðmönnum heldur fólki sem var aðflutt, einkum á vesturströnd Noregs.

Þessu til stuðnings bendir hann á að útfararsiðir íslendinga hafi verið allt aðrir en tíðkuðust á meðal norrænna manna. Samkvæmt fornleifarannsóknum á norðurlöndunum hafi bálfarargrafir verið algengastar, á Íslandi finnist engin bálfarargröf frá þessum tíma né sé um þann útfararsið getið í íslenskum bókmenntum. Því sé ljóst af þessum mikla mun á útfararsiðum Norðmanna og Íslendinga í heiðni að meginþorri þeirra sem fluttu til Íslands frá Noregi hafi þar verið af ættum aðkomumanna.

Barði bendir einnig á baráttuna sem var gegn Óðni í Noregi, guði seiðs og skáldskapar. Hann telur hamremmi, Óðinsdýrkun og skáldskap hafa haldist í hendur, sbr. Egils-sögu Skallagrímssonar. Seiðmennska var í litlu uppáhaldi hjá Haraldi hárfagra og lét hann m.a. Eirík blóðöxi gera ferð til Upplanda þar sem hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn ásamt átta tugum seiðmanna.

Einnig vitnar Barði Guðmundsson í Snorra Sturluson þar sem hann segir að Æsir hafi komið til Norðurlanda frá Svartahafslöndum, undir forystu tólf hofgoða, er réðu „fyrir blótum og dómum manna á milli." Óðinn er þeirra æðstur. Þykir Barða einkum merkilegt, að Snorri skuli gera ráð fyrir norrænni sérmenningu, sem upptök eigi í hinum fjarlægu Svartahafslöndum við Donósa, en njóti lítilla vinsælda sem aðflutt í Noregi.

Einn af þeim sem ekki hefur hikað við að umturna hefðbundnum kenningum sögunnar er Thor Hayerdhal. Hann hefur leitað uppruna Óðins á svipuðum slóðum og bent á að við Kasbíhaf, nánar tiltekið í Qobustan héraði í Azjerbaijan séu hellar sem hafi að geima myndir greyptar í stein af bátum sem minni á víkingaskip. Einnig taldi hann að nafngiftina Æsir á guðum norrænnar goðafræði mætti rekja til lands sem bæri það í nafninu s.s. Azer í Azerbaijan.

Við þetta má bæta að rúnaletur var notað á norðurlöndum árhundruðum eftir að latnesk letur náði yfirhöndinni í hinu evrópska Rómarveldi. Rúnir hafa, af ýmsum fræðimönnum, löngum verið kenndar við þær launhelgar sem stundaðar hafa verið við að varðveita viskuna úr musteri Salómons sem ættuð var úr Egypsku píramídunum. Að öllu þessu athuguðu þá er alls ekki svo ólíklegt að fótur sé fyrir kenningum um að uppruni Íslendinga eigi sér dýpri rætur en í fljótu bragði virðist mega ætla.

Það er í íslenskum bókmenntum sem heimildir um goðafræðina varðveitast og má því segja að fornbókmenntirnar séu hin mikla arfleið. En eins líklegt er að sá spádómur sem Adam Rutherford telur sig hafa fundið í píramídanum Gíza og viðrar í bókinni „Hin mikla arfleið Íslands", þar sem hann gerir ráð fyrir því að landið muni „verða þjóðunum ljósberi og fyrirrennari nýrrar aldar" hafi komið fram fyrir þúsund árum þegar landnámsmenn opinberuðu siglingaleið á milli Evrópu og Ameríku.

Ps. Þessi færsla var birt hér á síðunni í apríl 2014, sem Úlfar og arfleið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Þarf nokkuð að rífast um þá staðreynd, að Norðmenn, eins ágætir og leiðinlegir þeir eru, eiga ekkert sameiginlegt með okkur annað en tunguna, sem nóta bene var útflutningsafurð okkar á síðmiðöldum.

Varðandi breytileikann má hins vegar benda á að norrænn kynstofn, það er fólk frá strandhéruðum Noregs, Danmerkur og Norðurhluta Þýskalands hafði dreifst víða þegar Ísland byggðist, og mig minnir að notað sé orðið Vestnorrænn yfir þá blöndun.  Með vísan í að stór hluti landnámsmanna hefðu alveg getað komið frá Skosku eyjunum, Bretlandi og víðar.  Svo ekki sé minnst á þrælana.

En það var nú reyndar ekki tilefni þessara athugasemdar, heldur vaknaði enn einu sinni upp sú hugsun hjá mér þegar ég las um Æsina frá Kaspíahafi, að rúnir og rúnaletur er samgermanskt fyrirbrigði.  Og þó Snorri hafi verið voldugur, og vel ritfær, þá virkaði hann ekki aftur á bak, það er hann skýrir ekki germanska samsvörun við rúnir og germönsk goð.

En játa að fyrir utan sögubækur, þá er ég algjörlega ólæs á þessi fræði.

Spurningin er hvort þú vitir hvernig Barði og aðrir kenningasmiðir um sérstöðu Íslendinga afgreiddu þessi sannarlegu tengsl?

En spádómurinn er fínn, og Nei-ið við ICEsave er aðeins upphaf hans.

Eða þannig.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.1.2019 kl. 16:54

2 identicon

Takk meistari Magnús fyrir þessa góðu samantekt.

Það er synd og skömm hversu fræðasamfélagið hefur lítt gefið hugmyndum Dr. Barða um uppruna Íslendinga.  Þær eru miklu meira en skoðunar virði. Þær svo sennilegar, að mínu  mati, að þær eru eins réttar og rétt getur verið rétt og satt.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.1.2019 kl. 16:56

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið félagar.

Guðmundur Þórarinsson verkfræðingur gaf út bókina Árdagar Íslendinga 2016, þar sem hann spyr; eru Íslendingar Herúlar, ættaðir frá Svartahafi? 

Ég hef reyndar ekki ennþá lesið bók Guðmundar en ég held að hún að hún byggi að einhverju leiti á kenningum Barða Guðmundssonar.

Svo grúskaði Freysteinn heitinn Sigurðsson jarðfræðingur mikið í Herúla kenningunni og hélt fyrirlestra um hana sem má finna á Youtube. Hann kemur inn á það að þetta fólk fór oftar en einu sinni á "flakk".

Fyrir Krist fór það norður að Eystrasalti, sem það þekkti úr sínum viðskiptaferðum, og settist þá þar að til að forðast Rómarveldi. En fór síðar flest aftur til heimkynna sinna við Svartahaf.

Rúmum 400 árum síðar fór það aftur á "flakk" og þá í norður til sinna frænda sem eftir urðu eftir í norðurálfu. Þetta gerist í kjölfar Atla húnakonungs, enda greinir Völsungasaga frá þeim tíma.

Herúlar voru í bandalagi með Gotum og fleiri vandræða þjóðum sem þvældust fyrir Rómverjum. Það gæti væntanlega skýrt þessa Germönsku tengingu.

En vissulega er því ekki að neita að það voru sérvitringar sem fluttu til Íslands, sem síðan skráðu sig landnámsmenn og þarf ekki að koma á óvart að afkomendur þeirra hafi bitið af sér icesave.

Hér er fyrirlestur Freysteins;

https://www.youtube.com/watch?v=fSiXHAi7qRY

Magnús Sigurðsson, 4.1.2019 kl. 17:28

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta eru allt saman merkileg fræði

sem að ég er búinn að studera ofan í kjölinn á mörg ár.

Ég vil meina að "GEISLINN" frá pýramídanum bendi á ALTARISTÖFLUNA

á Sauðárkróki; þar sem að KRISTUR er að benda á eitthvað sér æðra:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/category/2293/

PÝRAMÍDARÁÐGÁTAN LEYST:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/2223124/

Jón Þórhallsson, 4.1.2019 kl. 17:55

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jón og takk fyrir ábendingarnar. Ég verð samt að viðurkenna það að ég er ekki alveg að kveikja á þessum krækjum hjá þér í þessu sambandi.

Magnús Sigurðsson, 4.1.2019 kl. 19:39

6 identicon

Samkv. DNA greiningum virðumst við mjög skyldir Norðmönnum, Skotum og Írum svo þessi kenning stenst illa.

Örn Johnson (IP-tala skráð) 4.1.2019 kl. 20:13

7 identicon

 Eitt hefur mér ætíð þótt skemmtilegt við Herúla kenningar Barða og það varðar siglingatæknina sem forfeður okkar lærðu mest og best við Svartahaf, þá sem málaliðar fyrir yfirvaldið í Konstantínópel og urðu þar með miklu fremri Norðmönnum sem, eins og þekkt er virðast vart hafa kunnað að sigla á milli fjarða, enda mállýskur þar ótalmargar og sem þar hafi menn verið mjög átthagabundnir, hverjir sínum jarli, en við goðum sem þekkt er að menn höfðu frelsi til að fara frá einum til annars, ef menn undu ekki hag sínum hjá einum goða og vildu fremur til annars fara.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.1.2019 kl. 20:16

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Örn Johnsson og takk fyrir innleggið. Skyldleiki við Norðmenn, Skota og Íra væri auðsær þó ekki kæmi til DNA.

Ég ræddi einu sinni við Norðmann sem hafði mikið gert af því að ferðast um -og dvelja í þessum löndum í sínum frístundum.

Hann sagði að það væri eins og sama fólkið byggi í þeim öllum. Ég er ekki frá því að ég hafi fundið hvað hann átti við þegar ég hef komið til þessara landa.

Það þarf samt ekki að vera á skjön við þessar hugmyndir, því samkvæmt þeim dreifði þetta Svartahafs fólk sér um öll þessi lönd og varð víða ríkjandi.

Rétt eins og Rutherford kemur inn á í þegar hann tilgreinir Hrólf og Hrollaug, syni Rögnvaldar Mærajarls. 

Magnús Sigurðsson, 4.1.2019 kl. 20:45

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Pétur Örn þetta er skemmtileg samlíking á goðum og jörlum. Eins og Norðmenn eru líkir okkur og almennilegir við okkur íslendinga þegar við sækjum þá heim, það er bara rétt eins og litli bróðir sé endurheimtur.

Þá er samt eitt sem maður skildi eftir að hafa unnið á mun betri launum hjá þeim í mörg ár, þ.e. hvers vegna við höfðum ekki snúið til baka í meira en 1000 ár. Það er einmitt eins og þú lýsir, þessi munur á goðanum og jarlinum.

Norðmaðurinn gerir það sem yfirboðarinn segir, þó það sé til tjóns. Íslendingurinn þverskallast, jafnvel rífur kjaft, frekar en að framkvæma vitleysu sem hann telur öllum til tjóns.

Og ef allt um þrýtur þá finnur hann sér nýjan goða.

Magnús Sigurðsson, 4.1.2019 kl. 21:05

10 Smámynd: Jón Þórhallsson

Erum við ekki sammála um pýramídinn mikli bendi á ísland og

að ÍSLANDI sé ætlað eithvert stórt hlutverk á meðal jarðarbúa?

=Að þar sé hin "GUÐLEGA MIÐJA"  / FYRIRMYND / STJÓRNVISKA

 SEM AÐ JARÐARBÚAR ÞARFNAST INN Í FRAMTÍÐINA? 

Hvar birtist okkur hin æðsta tenging við "GUÐ" 

hér á landi að þínum dómi?

Jón Þórhallsson, 5.1.2019 kl. 10:21

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jón, ég er reyndar að vitna í bók Adams Rutherford, Hin mikla arfleið Íslands, og hvaðan hann telur Íslendinga vera upprunna samkvæmt athugunum sínum, án þess að hafa myndað mér ákveðnar skoðanir á efni bókarinnar.

Þú minnist á altaristöfluna á Sauðárkróki í fyrra innleggi þínu og vilt meina að geisli Gísapíramídans, sem Rutherford talar um í bókinni, bendi á altaristöfluna. Þetta þótti mér áhugavert.

Þegar ég skoða krækjurnar sem þú gefur upp þá finn ég ekkert í fljótu bragði um þessa tengingu, þó forvitinn sé, og það sem síðra er að ég hef ekki séð altaristöflun, en með gúggli þá skilst mér hún sé eftir danska málarann Anker Lund og á henni gefi að líta túlkun listamannsins á göngunni til Emmaus.

Þú spyrð nú; "Hvar birtist okkur æðsta tenging við Guð hér á landi að þínum dómi?" Því geri ég mér ekki grein fyrir hvað staðhætti varðar, og spurningin er mér torskilin í þessu samhengi.

En til að svara spurningunni með einhverjum hætti þá tek ég til mín orð frelsaranns; "Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður." 

Magnús Sigurðsson, 5.1.2019 kl. 11:28

12 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er einmitt hægt að finna landakort í þeirri bók  

Hin mikla arfleið íslands

Sem að vísar á einhverkonar GUÐLEGT LEIÐARLJÓS:

Væri æðsta tenging við "GUÐ" ekki sú tenging

ef að það kæmi annar Kristur fram á sjónarsviðið

sem að gæti gert allt það sama og sá fyrri gerði?

Jón Þórhallsson, 5.1.2019 kl. 12:22

13 identicon

Það má til sanns vegar færa að geislinn, framlengdur, vísi til Skagafjarðar, en hvort hann hitti beint á altaristöfluna í kirkjunni á Króknum er mjög erfitt að sannreyna.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2019 kl. 15:11

14 Smámynd: Jón Þórhallsson

Eða þá á þetta félag: 

https://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/

Jón Þórhallsson, 5.1.2019 kl. 16:15

15 identicon

Í bók Rutherford eru geislarnir þrír sem vísa til Íslands:

Langanesgeislinn markar austurjaðar

Reykjavíkurgeislinn markar vesturjaðar

og í miðjunni, mitt á milli fyrrnefndra geisla,

er Íslandsgeislinn, sá vísar beint að Tindastóli ofan Sauðárkróks. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.1.2019 kl. 19:53

16 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Símon Pétur, takk fyrir ábendinguna; "Í bók Rutherford eru geislarnir þrír sem vísa til Íslands: Langanesgeislinn markar austurjaðar Reykjavíkurgeislinn markar vesturjaðar og í miðjunni, mitt á milli fyrrnefndra geisla, er Íslandsgeislinn, sá vísar beint að Tindastóli ofan Sauðárkróks."

Ég sé þegar ég skoða bók Rutherford að þetta má til sanns vegar færa. Reyndar fann ég bókina á netinu þar sem þessu eru gerð skil og kemur slóðin hér;

http://heilunarskolinn.is/hin-mikla-arfleif%C3%B0-%C3%ADslands/

 

Magnús Sigurðsson, 5.1.2019 kl. 20:54

17 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hér kemur skýringarmynd af Íslandas geislanum;

http://heilunarskolinn.is/wp-content/uploads/2015/03/Mynd-1.jpg

Magnús Sigurðsson, 5.1.2019 kl. 21:09

18 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég vil meina að geislinn bendi á kirkjuna /altaristöfluna

af því að þar er meiri "TENGING VIÐ KRIST / GUÐLEG SKILABOÐ"

heldur en að geislinn bendi á fjallið Tindastól:

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/category/2293/ 

Jón Þórhallsson, 6.1.2019 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband