Draugar í silfri Egils

Vegna þrálátra getgáta um keltneskan uppruna íslendinga og í ljósi þess að margar íslendingasögurnar eru meir í ætt við heimildaöflun úr klaustri Kólimkilla en skandinavíska sakamálasögu er ekki úr vegi að haf í huga orð Hermanns Pálssonar „Ísland byggðist að nokkru leyti af Írlandi og Suðureyjum og því þykir skylt að kanna menningu vora í ljósi þeirra hugmynda sem auðkenndu Íra og Suðureyinga fyrr á öldum“. En Hermann var lengst af prófessor í norrænum fræðum við Edenborgarháskóla og hafði því jafnan aðgang heimildum sem ættaðar voru bæði frá draugum Kólumkilla og skandinavísku sakamálasögunni.

Þessu samhliða er ekki úr vegi að beina einnig athyglinni að atburðum í Evrópu sem gerast í kringum fall Rómarveldis og varða sögu þeirra landa sem styðst vegalengd er til frá Íslandi, m.a. Bretlandseyja. Yfir þeim hafði Rómarveldi drottnað að hluta um langan tíma. Í Völsungasögu, sem varðveitist á Íslandi, er Atla Húnakonungs (406-453) getið en hann réðist hvað eftir annað á Rómverska heimsveldið úr austri en veldi hans er talið hafa náð allt frá Þýskalandi til Kína. Atli gerði innrás í Vestur-Rómverska keisaradæmið með innrás í hluta þess sem tilheyra nú Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Sögusvið Völsungasögu er talið vera frá þeim atburðum. Veldi Atla var í aðdraganda að falli Rómverska keisaraveldisins sem talið er hafa verið orðið endanlegt árið 476.

Rómarveldi náði lengst í norð-vestur til Englands að Skotlandi. Þar byggðu Rómverjar múr þvert yfir England frá Newcastle í austri yfir á vesturströndina við Carlisle, stendur þessi múr víða enn og er á heimsminjaskrá. Múrinn nefnist Hadrian wall eftir samnefndum keisara. Talið er að bygging hans hafi byrjað árið 122, hann var um 120 km langur, 3. m breiður og 5 m hár. Þar fyrir norðan var fyrirstaðan of mikil fyrir heimsveldið. Múrinn var því byggður til að verjast Caledónum en Caledonia var nafnið sem Rómverjar höfðu á landsvæðinu sem nú kallast Skotland. Rómverjar gerðu svo aðra tilraun til að sölsa undir sig Skotland 20 árum síðar og komust norður að Edinborg. En urðu þar að láta staðar numið og byggja annan vegg. Sá veggur nefndist Antonien wall, var úr timbri og náði frá austurströndinni í grennd við Edinborg stystu leið yfir á vesturströndin u.m.b. við Glasgow. Þeirri landvinninga stöðu héldu rómverjar þar til árið 208 að þeir urðu að hörfa aftur fyrir Hadrian wall og kölluðu þar eftir það, sem fyrir norðan var, heimsenda.

Erfitt er að geta sér til hvaða kraftar voru þarna að verki nógu öflugir til að stöðva heilt heimsveldi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þess. En athyglisvert er að eftir fall Rómarveldis kallar mankynssagan tímabilið þar til kaþólska kirkjan í Róm nær afgerandi yfirráðum í Evrópu „hinar dimmu miðaldir“ eða „dark ages“ á ensku. Sagan segir að á þessu tímabili hafi heiðingjar farið um með yfirgangi, morðum og ránum. Heiðnir íbúar norðurlanda eru kallaðir víkingar, útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn. Í þessu róti byggist Ísland norsku fólki en áður en það gerist tekur það fólk að flýja Noreg til Bretlandseyja s.s. Suðureyja við Skotland og til Írlands undan ofríki konungsvalds sem fljótlega varð hallt var undir kirkjuna.

Saga Skotlands greinir frá því að á tímum Rómverja og á miðöldum hafi þar búið heiðin þjóð sem kallaðist Picts og yfirráðasvæðið Pictsland. Á vesturströndinni og á Suðureyjum bjuggu Gails sem hneigðust til kristni og höfðu tengsl við Írland. Gails var þjóð sem kölluð var á þessum tíma, Skotar. Á eyjunni, Iona þétt við vesturströnd Skotlands, var frægt klaustur stofnað af írska munknum St Columbe (521-597), Kólumkilla. Sú þekking sem þetta klaustur er talið hafa haft innan sinna veggja náði allt frá Írlandi í vestri, jafnvel enn lengra því til eru heimildir um Írland hið mikla og mun þar hafa verið átt við Ameríku. Þessi landafræði er sagt að hafi verið kunn í klaustri Kolumkilla á Iona, auk Ísland, Grænlands og Svalbarða ofl.. Til austurs er vitað að fræðin sem voru varðveitt í á Iona náðu allt til Afganistan.

Tilgátan um hvað varð um þá heiðnu þjóð sem kallaðist Picts er sú að hún hafi að tekið upp kristin sið Gails og sameinast þeim þannig að úr varð skosk þjóð um svipað leiti og norrænt landnám er á Íslandi. Sagan greinir frá því að Gereg foringi Gails hafi drepið Ire höfðingja Picts 878, eftir að Gereg hafði hörfað inn í Pictsland undan víkingum. Synir Ire, þeir Donald og Constantine eru á Norður Írlandi á yfirráðasvæði Gails þjóðarinnar, í læri í klaustri vegna fjölskyldutengsla við Írska konungsætt. Þegar þeir fullorðnast verða þeir lögmætir erfingjar Pictslands, þannig hafi tvær flugur verið slegnar í einu höggi, siðaskiptum Picts og sameiningu Picts og Gails.

Skotland verður svo endanlega til þegar víkingar í Dublin á Írlandi og York á Englandi ásamt Skotum undir stjórn Constantine sameinast á móti Englendingum í orrustunni miklu (The grate battle) við Brunanburh 937 og þar staðfestist í raun skipan nútímans á Bretlandi þó svo að ríki Víkinga hafi verið við lýði á Bretlandi eftir það í York en það er talið hafa staðið með stuttu hléi frá 875 til 954. Ástæðan fyrir því að kristnir og víkingar sameinast í orrustunni miklu við Bruaburh er talin vera m.a. sú að Aðalsteinn Englandskonungur hafði náð yfirráðum yfir York af víkingum.

Í orrustunni við Bruaburh er talið að bræðurnir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir hafi tekið þátt, þó svo að Egilssaga tali þar um Vínheiði. Þeir voru þar ásamt 300 manna liði sínu á mála hjá Aðalsteini Englandskonungi. Í orrustunni féll Þórólfur og fékk Egill tvær kistur silfurs frá Aðalsteini konungi sem hann átti að færa Skallagrími í sonargjöld auk þess að fá gull í sinn hlut fyrir hetjulega framgöngu liðs þeirra bræðra. Aðalsteinn Englandskonungur var kirkjunnar konungur en þeir Egill og Þórólfur Skallagrímssynir  rammheiðnir. Fram kemur í Egilssögu að þeir bræður hafi prím signst en sá siður mun hafa verið um heiðna menn er þeir gerðust málaliðar kirkjunnar konunga, en með prím signingu gerðust þeir ekki kristnir heldur héldu sínum sið.

Sagan hefur greint frá miðöldum sem átökum á milli heiðinna og kristinna manna þar sem heiðnir íbúar norðurlanda voru útlistaðir nánast sem hryðjuverkamenn þessa tíma í gegnum víkingana. Þegar saga þessa tímabils er skoðuð í öðru ljósi er þetta ekki eins klippt og skorið. Miklu frekar má ætla að hinar dimmu miðaldir hafi verið tímabil þar sem hvorki keisaraveldið né kirkjan í Róm höfðu þau völd sem sótts var eftir í Evrópu. Það er ekki fyrr en Róm fer að sækja í sig veðrið eftir fall keisaraveldisins í gegnum páfastól að þau róstur, sem hinar myrku miðaldir eru kenndar við ná hæðum með borgarastyrjöldum og tilheyrandi þjóðflutningum. Upp úr því róti verður landnám norsk ættaðra manna á Íslandi.

Samkvæmt sögu Evrópu er víkingatímabilið talið hefjast með árás norrænna manna á klaustrið í Lindisfarne á Englandi 793, sem átti rætur að rekja til eyjarinnar Iona. Þó svo heimildirnar fyrir þeirri villimannlegu árás séu fyrst skráðar af kirkjunnar manni í Frakkland sem aldrei er vitað til að hafi komið til Lindisfarne og endurskráðar í fréttabréf til klaustra allt til ársins 1200. Víkinga tímabilinu er svo talið endanlega lokið með orrustunni við Hasting 1066 og falli Haraldar Englandskonungs sem var af norskum ættum, en þar bar Vilhjálmur bastarður afkomandi göngu Hrólfs sem fór til Normandí sigur. Síðan hafa afkomendur hans tilheyrt konungsættinni á Englandi.

Hvað það var sem fékk þá norsku menn til að halda í vestur á haf út í leit að nýjum heimkynnum er ekki vandi um að spá. Það kemur misskýrt fram í Íslendingasögunum. Ofríki konunga sem voru hliðhollir hinu miðstýrða valdi og svo vitneskja Kólumkilla um löndin í vestri. Fall rómarveldis varð því varla, eftir að keisarar hættu að ríkja, nema tímabilið þar til kirkjan tók við með sinn páfastól í Vadikaninu, sem réri svo undir borgarastyrjöldum í samfélögum manna sem ekki lutu valdinu. Með því að styrkja einstaka framagjarna höfðingja, þá sem ásældust mest völd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Ég er nýbúinn að lesa þá stórgóðu bók, Svarti víkingurinn, sem mér finnst svara mörgum spurningum um upphaf landnáms Íslands.

Hafir þú ekki lesið hana, þá get ég allavega sagt að ég hef lesið margar styttri og leiðinlegri bækur, og hún hélt áhuga mínum alveg til síðustu blaðsíðu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.1.2019 kl. 22:31

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, það er óhætt að segja það að Svarti víkingurinn er vel skrifuð bók sem heldur athyglinni allt til enda og hefur að geyma mörg svör. 

Það sem mér kom kannski meira á óvart í bók Bergsveins er hvað þrælahald hefur lítið breyst á Íslandi frá því að Svarti víkingurinn tók sér bólfestu á landinu bláa.

Bergsveinn rithöfundur Birgisson segist vera kominn í 30. lið út af þeim svarta, reyndar setti ég sjálfan mig inní Íslendingabók og komst að því sama.

En það sem mér fannst sérlega merkilegt í bók Bergsveins er það sem hann segir frá sinni fjölskyldu sem bjó í landnámi svarta víkingsins s.s. af búsetu afa síns og ömmu í Hrappsey á Breiðafirði.

"Hér bjó móðurfjölskylda mín frá 1940-1945; foreldrar móður minnar, Magnús og Aðalheiður með börnin sín tíu; þau urðu þrettán í allt. Fjölskyldan hefur einatt verið fámál um árin í Hrappsey og smásaman hefur mér orðið ljóst hversvegna. Einar einn móðurbræðra minna, sagði síðar ef ekki hefði verið fyrir byssu afa míns, hefðu þau haft lítið sem ekkert að borða. Leigan fyrir að búa í Hrappsey var nefnilega 24 kg af hreinsuðum æðardún – sem var nákvæmlega það sem eyjan gaf af sér. Á tilteknum tíma árlega átti að afhenda dúninn Magnúsi á Staðarfelli, en hann var forsvarsmaður Háskóla Íslands, sem þá var orðinn eigandi þessa eggvers. Eitt árið náðu þau ekki að safna 24 kílóum. Ekki fóru menn í mál við þau af þessum sökum, en af heimildum að dæma lá þeim við refsingu. Afi fór margsinnis í land og reyndi að semja um að fá leiguna lækkaða en allt kom fyrir ekki.,,,Afi og amma voru því tekjulaus á meðan þau bjuggu í Hrappsey. Allt vinnuframlag þeirra gekk upp í leigukostnað."

Í bókinni kemur fram að á dögum Geirmundar heljarskinns (þess svarta) voru dæmi þess að þrælar við Breiðafjörð hefðu keypt sér lausn með þriggja ára launum af vinnu sem þeim til féll samhliða þrældómnum. "Afi Magnús hefði hefði hinsvegar aldrei náð að kaupa sér lausn frá Hrappsey ef hann hefði verið þræll þar"; segir Bergsveinn.

Magnús Sigurðsson, 19.1.2019 kl. 07:08

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, ánauð á sér margar myndir, en verst er sú sem hugmyndafræði andskotans boðar, að vinnandi fólk sé ekki lengur fólk, heldur kostnaður.

Enda leitar margt til andskotans þessa dagana, þó þannig að ennþá er tiltölulega friðsælt á Íslandi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.1.2019 kl. 10:24

4 identicon

Þakka þér fyrir fróðlegan pistil. Þegar ég var að nema kirkjusöguna í guðfræðinni á sínum tíma hjá sr. Jónasi Gíslasyni prófessor og síðar vígslubiskupi, þá hélt hann því alltaf fram, að papar hafi komið hingað fyrstir allra og leitað í einveruna hér. Þegar víkingarnir komu svo, - "hvert gátu þá paparnir farið?" spurði Jónas. "Haldiði, að þeir hefðu farið að sigla á bátum sínum beint í flasið á víkingunum, eða það hefði þýtt eitthvað fyrir þá að flýja til fjalla?" Hann hélt nú aldeilis ekki. Víkingarnir hafi tekið sér þá sem þræla. Við megum nú heldur ekki gleyma Melkorku Mýrkjartansdóttur, sem var írsk konungsdóttir, svo að það er víst áreiðanlegt, að kristni hefur lifað hér í landinu frá upphafi, eins og Jónas hélt alltaf fram. Staðarnöfn eins og Papey og Patreksfjörður bera sinn vott um, að Írar voru hér frá upphafi. Víkingarnir tóku líka fólk til fanga og gerðu að þrælum sínum. Kristni hefur því verið hér frá upphafi vega, eins og Jónas sagði við okkur nemendur sína, og útbreiddu þetta til yngri kynslóðarinnar, því að írsku ambáttirnar voru jú kristnar, og sem barnfóstrur hafa þær haft áhrif á börnin í þessum efnum. Ég bendi þér á disk með umfjöllun um Melkorku Mýrkjartansdóttur og írska kristni á Íslandi og áhrifum hennar, sem sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson, fv. dómkirkjuprestur, lét gera og á að fást hjá Sögusafninu, þar sem hann rekur þessa sögu, og hver áhrif Melkorka hafði líka á son sinn Ólaf pá. Við öll, sem lærðum hjá Jónasi vígslubiskupi, urðum fyrir miklum áhrifum af honum að þessu leyti. Hann vildi líka meina, að Ari fróði hafi skrifað annað handrit af Íslendingabók, sem hann hafi orðið að eyðileggja, þar sem hann segir sögu Papa á Íslandi, því að í upphafi þeirrar Íslendingabókar, sem við höfum í dag, stendur jú, að hann hafi "gjört þessa bók biskupum vorum og skylt að hafa það, sem sannara reynist", eins og þar stendur. Jónas setti því spurningarmerki við þessi síðustu orð, og sagði, að Ari hefði tæplega skrifað svo, nema af því að hann var búinn að skrifa annað handrit, sem ekki var viðtekið eða viðurkennt af biskupunum, og því orðið að eyðileggja, og skrifa annað, sem var í anda þess, sem biskupar landsins vildu og viðurkenndu, svo og kirkjan, enda átti írsk kristni ekki beinlínis upp á pallborðið í Róm á þessum tíma, og því varð að skrifa alla kirkjusögu í anda þess. En ég er sannfærð um það, að Papar hafa verið hér, áður en land byggðist, og sé ekki ástæðu til að rengja það, enda margt, sem bendir til, að svo hafi verið.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2019 kl. 13:18

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ómar; satt er þetta með andskotann og ábendingin aldrei of oft yfir höfð. Eitt af því sem leitar í átt til andskotans þessa dagana, og mun væntanlega minnka kostnaðinn vegna vinnandi handa, er sjálfsafgreiðsla í verslunum. Maður spyr sig væri ekki líka hægt að koma á kaupandi rafrænum viðskiptavinum sem verslaði við þær sjálfafgreiðsluna? Þetta myndi allt auka hagvöxtinn á exel og þá gæti andskotinn látið okkur með vinnandi hendurnar í friði. Og kannski þeir sem vinna hugbúnaðarvinnuna fyrir andskotann snúið frá villu síns vegar áður en það verður um seinan.

Guðbjörg Snót; ég gæti best trúað að prestarnir hafi haft rétt fyrir sér með Papana. Árni Óla rithöfundur gaf út bókina Landnámið fyrir landnám og lýsir sú bók því nokkuð vel hvernig getur hafað verið umhorfs fyrir landnám þeirra norsku. Einnig segir í bók Árna að pólitíkin hafi verið þannig að æskilegra hafi verið að geta kristnu þrælanna sem allra minnst þegar Landnáma var skrifurð. Eins hef ég heyrt að mörg orð íslenskunnar séu ættuð úr gelísku, þ.á.m. orðin strákur og stelpa, þannig að ekki er ólíklegt að uppeldi formæðranna hafi skilað sér allt til dagsins í dag. Ég hafði einstaka ánægju að lesa Laxdælasögu þar sem Melkorka Mýrkjartansdóttir kemur fyrir og finnst merkilegt hvernig allt þetta landnámsfólk blandast. Ef ég set t.d. sjálfan mig inn í Íslendingabók Kára þá getur mitt ættartré náð aftur til Mýrkjartans Írlandi auk þess sem það nær til Kveldúlfs í Noregi. 

Í bloggið á undan þessu bloggi benti ég á fræði Jochums M Eggertssonar en hann sagðist hafa komist yfir fornritið Gullbringu sem skrifað hefði verið af Krýsum í Krýsuvík. Það má kannski segja að þar hafi tengslum við íra verið gert hátt undir höfði. Í bloggi þar á undan benti ég á kenningar Adams Rutherford og Barða Guðmundssonar um uppruna íslendinga. Ég gæti þess vegna átt eftir að blogga meira um dularfulla landnema, því af nógu er að taka.

Magnús Sigurðsson, 19.1.2019 kl. 14:17

6 identicon

Takk fyrir þennan pistil Magnús og mikill fengur væri að því að þú skrifaðir fleiri pistla um þá dularfullu landnema sem þú minnist á í lok athugasemdar hér að ofan, í svari til Guðbjargar.

Samantektir þínar, hinar fyrri, um þá eru bæði svo fróðlegar og ljómandi skemmtilegar aflestrar, að þær kveikja grufl og grúskáhuga okkar sem njótum pistla þinna.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 19.1.2019 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband