Orrustan um orkupakkann

Það væri ábyggilega þarft fyrir þjóðkjörinn þingheim að fá einhvern góðan upplesara á fund til sín og lesa upp tæplega hálfrar aldar gamla ritsmíð Nóbelsskáldsins um „Hernaðinn gegn landinu“. Það er engu líkara en þær kynslóðir sem fæddar eru um og eftir að Halldór Laxness ritaði greinina skilji ekki í hverju almanna hagsmunir Íslendinga felast.

Greinina skrifaði skáldið í aðdraganda þess að sökkva átti Laxárdal til að virkja Laxá úr Mývatni. Hann taldi þá fyrst land og lýð vera í háska þegar kontór á borð við Orkustofnun ríkisins ætlaði með skírskotunar til reiknistokksins að afmá eins marga helga staði á Íslandi og hægt væri að komast yfir á sem skemmstum tíma, dekkja frægum byggðarlögum, og helst fara í stríð við allt sem lífsanda drægi á Íslandi.

Fyrirætlunin með Laxárvirkjun var að afla orku handa nærliggjandi héruðum m.a. fyrir stóriðju á Akureyri. Skáldið óskaði eftir því að einhverjir gæfu sig fram og fræddu hann um það hvar stóriðjuverkalýður í heiminum byggi við betri lífskilyrði en Akureyringar stóriðjulausir. Því að til þess að Akureyringar fengju stóriðju stæði til að fórna einu af náttúruundrum veraldar.

Í grein Halldórs segir m.a.; „Áætlun þessara manna hefur verið studd siðferðilega með þremur höfuð rökum: 1) virkjun vatnakerfis Mývatnssvæðisins á að bæta skilyrði almennings, 2) með virkjuninni á að fullnægja orkuþörf héraða er nærri liggja þessum vatnasvæðum, og 3) það á að koma á stóriðju á Akureyri. Þessir þrír punktar skýra sig nokkurn veginn sjálfir. Hinn fyrsti, að „bæta skilyrði almennings“, er sú varajátning sem nú á dögum er höfð uppi í tíma og ótíma í öllum tilfellum þar sem áður fyrr var vant að segja „í Jesú nafni amen.“

Á vatnasvæði Mývatns hafði í gegnum tíðina verið eitthvert fegursta jafnvægi sem þekktist á byggðu bóli í sambúð manna við lifandi náttúru, eða allt til tíma Kísilgúrvinnslunnar. Það þarf ekki að orðlengja það sérstaklega, en stíflumannvirkið í Laxá var sprengt í loft upp árið 1973, tæpum 3 árum eftir að skáldið skrifaði greinina „Hernaðurinn gegn landinu“. Yfir 100 Mývetningar og fleiri Þingeyingar lýstu verkinu á hendur sér. Þetta var nauðvörn fólks sem taldi lífsgrundvelli sínum fórnað.

Það eru þessir almanna hagsmunir sem standa 3. Orkupakkanum nú fyrir þrifum. Þær kynslóðir, sem muna náttúruspjöllin sem rökstudd voru með almannahagsmunum, eru ekki tilbúnar til að ganga af trúnni og viðurkenna að trú þeirra hafi byggst á falsi. Eins eru komnar fram nýjar kynslóðir sem virðast ætla að láta; loftslagsvá, alþjóðlega samvinnu og frjáls viðskipti nægja, „í Jesú nafni amen“ þegar kemur að því að gefa eftir yfirráð yfir náttúruauðlindum.

Á sínum tíma þegar mótmælin stóðu hæðst á Austurvelli gegn Kárahnjúkavirkjun spurði 13 ára dóttir mín mig; „pabbi hvað er eiginlega með þessa Kárahnjúka“. Fjölskyldan var þá nýflutt af Austurlandi í höfuðborgina og kom mér spurningin á óvart. En komst svo að því að dóttir mín hafði myndað sér fáar skoðanir um  önnur fjöll en Búlandstindinn sem hún ólst upp undir. Mér varð satt að segja fátt um svör en tautaði um hag fólksins okkar fyrir austan, því ég hafði ekki heldur komið í Kárahnjúka.

Þarna um árið sagði ég samt dóttir minni að sumir héldu því fram að Lagarfljótið yrði á eftir ekki "Vatnajökuls blátt", heldur kólgu grátt líkt og Jökla. "Þá er ég á móti Kárahnjúkum" sagði dóttir mín, enda kannaðist hún við lit þess og bakka. En ég sagði þá að það væri nú alls ekki víst ef eitthvað væri að marka skýrslur sérfræðinganna.

Fljótið er nú í dag kólgu grátt, í Jesú nafni amen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir þennan pistil Magnús.  Þegar hjörtun eru döpur vegna valdníðslu laga- og framkvæmdavaldsins er í uppsiglingu, þá er þeim gott að lesa pistil sem þennan.  Í dag er hjarta mitt dapurt, í dag er allt kólgugrátt.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.5.2019 kl. 08:15

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Það kannski grátlegast er að það skuli enginn vera eftir á þingi sem talar svona, út frá sögunni, eða væntumþykkjunni gagnvart landi og þjóð.

Vissulega voru margar ákvarðanir teknar sem menn töldu nauðsynlegar til að geta lifa af í landinu og verður maður að skilja það a það var ekki alltaf með glöðu geði sem menn tóku þessar ákvarðanir.  Það held ég að gildi um marga Austfirðinga, en síðan var öðrum alveg sama um náttúruna, en meira sama um launaumslag sitt. 

Ég var einn af þeim sem var á móti Kárahnjúkavirkjun, bæði út af viðsemjandanum hinum ameríska auðhring sem ég treysti ekki fyrir næsta horn, sem og ég taldi að ef það væri ekki reynt að hamla á móti, að þá yrði allt tekið.  Og það átti svo sannarlega að nýta ICEsave til að virkja allt sem hægt var að virkja, og það var fólki á móti, Jóhanna og Steingrímur sem kynntu þær áætlanir allar saman. 

Svo talar þetta fólk og flokkar þess um náttúruvernd, hvílík tvöfeldni og hræsni.

En ég skyldi alveg sveitunga mína að vilja þessa virkjun, og í sjálfu sér er ekki hægt að rífast um að Fjarðarál er burðarás í atvinnulífinu hérna fyrir austan.

En ég taldi að það afsakaði samt ekki skammsýnina og græðgina, sem átti sér margar ógeðfeldar myndir, til dæmis mannvonskuna og mannhatrið sem Impregilo komst upp með.

Og svo þetta, að fórna fegursta héraði landsins fyrir örfáa milljarða, því eins og Helgi Hallgrímsson benti á þá var alveg hægt að veita vatninu úr Jöklu aftur í sinn gamla farveg.

Ég græt hreinlega þegar ég kem frá Seyðisfirði og lít yfir drullpollana sem einu sinni voru þeir fegurstu á landinu.

En unga kynslóðin hugsar bara svona;

"Eins eru komnar fram nýjar kynslóðir sem virðast ætla að láta; loftslagsvá, alþjóðlega samvinnu og frjáls viðskipti nægja, „í Jesú nafni amen“ þegar kemur að því að gefa eftir yfirráð yfir náttúruauðlindum.".

Það er allt eitthvað svo global að það má ekki passa það sem er lókal.

Sú kynslóð sem hugsar svona á á hættu að glutra öllu.

Takk fyrir enn eina yndislegu lesninguna Magnús.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.5.2019 kl. 09:39

3 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil og takk þið Pétur og Ómar fyrir þrotlausa óeigingjarna baráttuna gegn sjálftöku og græðgisliði. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 10.5.2019 kl. 15:14

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir innleggin félagar, mér fannst þau svo vel orðuð að ég leifi þeim að standa án þess að ég svari þeim með einhverju rausi út og suður.

Magnús Sigurðsson, 12.5.2019 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband