Húh, poppúlismi og víkingaklapp

Hvað er það sem gerir okkur að þjóð? Er það þegar landsliðið þjappar okkur saman á góðri stund og við klöppum og hrópum HÚH? Það örlaði á því að erlendir öfga þjóðernissinnar gerðu að því skóna á sínum tíma, að íslenska landsliðið væri gott dæmi um hvers samstaða hreins kynstofns væri megnug. En við vitum öll að húh-ið og víkingaklappið við Arnarhól átti ekkert skylt við það Seig Heil sem þjappaði saman Þýskalandi Nasismans.

Eru það þá kannski erfðir, eins og Kári segir með sinni greiningu, það sem gerir okkur að þjóð? Krabbi í genum sem má greina í tíma og jafnvel taka ákvörðun um að fjarlæga bara ef samþykki fæst til að upplýsa viðkomandi? Kannski á erfðagreiningin eftir að finna alsheimer genið og aðferð til að fjarlæga það með víkingaklappi fjölþjóðlega? Það er samt langsótt að genin ein, þó víkinga séu, myndi þjóð og mun líklegra að upplýsingatækni erfðagreiningar eigi sínar ættir að rekja til trixa Útgarða Loka, eða jafnvel í sjálfan money haven lyfjarisanna.

Er það þá tungumálið sem gerir okkur að þjóð? Þessi vanrækta örtunga sem á nú í vök að verjast? Oftar en einu sinni hef ég heyrt Pólverja, sem hafa búið árum saman hér á landi, halda því fram að það taki því ekki að læra tungumál sem 300 þúsund hræður tali. Nær væri að þessar hræður lærðu Pólsku sem töluð væri af hátt í 40 milljónum manna. Þessir Pólsku kunningjar mínir hafa þó engin áform uppi um að yfirgefa Ísland og ég svo sem ekki annað í huga en að skilja þá á mínum heimaslóðum. Þeir eru þá sérstakir Pólverjar, hafa þrammað úr einu union-inu í annað til þess eins geta talið sig vera sjálfstæða þjóð.

Er réttara að þjóðin hagi sér almennt eins og gamli Akureyringurinn þegar hann bauð mér Good morning við ruslatunnurnar til þess að vera alveg öruggur með að gera sig ekki að viðundri? Jafnvel þó ég væri hrolleygður bláskjár í gatslitinni lopapeysu í morgunn kulinu og svaraði með góðan daginn á því ástkæra og ylhýra. Ég varð svo uppnumin af morgunn andagt gamla mannsins að ég sagði vinnufélögum mínum að ég væri nokkuð viss um að landar okkar á Akureyri væru nú þegar farnir að búa sig undir að hætta að tala íslensku ég hefði ekki betur heyrt en þeir væru farnir að tala fjölmenningartungum.

Það er þessi tunga, sem enn í dag á það til að sameina okkur í húh-i, sem varðveitir okkar þjóðarsögu með víkingaklappi. Jafnvel þó nútíma fræðimenn telji þjóðar söguna grobb byggt á hæpnum munnmælum. Þjóðin hafi hreinlega verið óskrifandi fyrstu fjögur- fimmhundruð árin sem hún byggðu þetta land. Víkingaklapp sé lygagrobb, kannski fyrir utan Egil Sklallgísmsson, þetta hafi verið hæglætis sauðfjár bænda bjálfar sem hafi skemmt sér við að þylja sáldskap í kuldanum á dimmum vetrarkvöldum.

Samt var frétt af því ekki alls fyrir löngu að Sænskir sérfræðingar teldu sig hafa fundið íslenska skáldið Jökul Bárðarson sem Ólafur helgi Noregskonungur lét drepa á Gotlandi árið 1029. Það kom þeim á sporið að áverkar voru á höfðakúpu íslenska haugbúans á Gotland, sem  samsvöruðu nákvæmlega víkingaklappi, sem passaði þar að auki við nútama greiningar, og húh-að hafði verið um á sínum tíma. En Grettis sagan á að hafa verið húh-uð í 3-400 ár áður en hún komst á prent. Jökull á að hafa verið frændi Grettis sterka Ásmundssonar og var skáldmæltur. Honum hafa verið eignuð fleygustu orð Grettis sögu, jafnvel íslenskrar tungu í gegnum tíðina, s.s.sitt er hvað gæfa eða gjörvuleikur, lítið verk og löðurmannlegt, lengi skal manninn reyna, ofl., ofl..

Sturlunga er sögð samtímasaga, þ.e.a.s. skrifuð á þeim tíma sem hún gerist. Fræðimenn hafa ætlað Snorra Sturlusyni höfundarréttinn af fornsögunum. Það er samt ekki minnst einu orði á það í Sturlungu að Snorri hafi hripað niður glósur á meðan landsmenn húh-uðu í myrkrinu. Hann var höfðingi á sinni tíð samkvæmt sögunni, og umtalaðasta bókmenntaverk hans í þann tíma var Háttartal sem var talinn leirburður ætlaður til að smjaðra fyrir slektinu, og sköpuðu Snorra óvinsældir sem jöðruðu landráðum, þar til Gissur jarl Þorvaldson tók af honum ómakið fyrir fullt og allt.

Það breytir samt ekki því að Snorri taldi sig einnig eðalborin, af ætt Ynglinga og gat rakið þann þráð til Goðsins Freys, sem var af Vanaætt frá Svartahafi. Snorra er m.a. ætluð Ynglingasaga, þó svo að hann hafi verið athafnamaður í ætt við þann Kára sem færði okkur fyrir skemmstu Íslendingabók, ættfræði grunn þjóðar sem nær til landnáms og er notaður í genarannsóknir. Goðið Freyr var tvíburi Freyju sem Njörður í Nóatúnum átti með systur sinni þannig að þjóðaruppruni Íslendinga væri samkvæmt genunum hrein blóðskömm ef ekki kæmu til Skjöldungar afkomendur Óðins í Ásgarði við hið sama Svartahaf.

Enski fornleifafræðingurinn Neil Price, sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á víkingum norðurlanda notaði ekki bara Íslendingasögurnar heldur einnig íslensku þjóðsögurnar til að átta sig á hugarheimi víkinga. Þessu greindi hann frá í fyrirlestrum sínum „The Viking Mind“. Hann segir að íslensku þjóðsögurnar hafi haldið áfram að geyma þennan heim hugans með sögum af draugum, álfum og alls kyns vættum. Það getur nefnilega verð margt sem tungumálið geymir og við innbyrðum umhugsunarlaust með móðurmjólkinni, sem gerir okkur að sérstakri þjóð.

Samkvæmt Íslendinga bók erfðagreiningar á ég ættir að rekja til þriggja barna skáldsins á Borg, þeirra Þorgerðar, Beru og Þorsteins. Börn Egils og Ásgerðar voru fimm, tveir synir þeirra Gunnar og Böðvar áttu ekki afkomendur. Um þá orti víkingurinn Egill Skallagrímsson kvæðið Sonatorrek með aðstoð Þorgerðar dóttir sinnar. Ljóðið hefur að geyma frægustu ljóðlínur víkinga aldar, sem enn varðveitast á íslenskri tungu og eru oft viðhafðar við jarðarfarir. Ef við ætlum að gerst svo miklir poppúlistar í eigin landi að bjóða dzien dobry eða good morning, má ég þá heldur biðja um einfalt húh með víkingaklappi. Því þá yrði komið fyrir íslenskri þjóð líkt og var komið fyrir Agli, henni yrði mjög tregt um tungu að hræra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Húh!

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 8.6.2019 kl. 09:08

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Íslenska víkingaklappið" er reyndar ættað frá Skotlandi. cool

Þeir sem eru íslenskir ríkisborgarar eru einfaldlega Íslendingar og ríkisborgarar allra ríkja í heiminum geta orðið íslenskir ríkisborgarar, svo og þeir sem eru ríkisfangslausir.


Undirritaður hefur búið í mörgum löndum, til að mynda Svíþjóð, en ég hef aldrei verið Svíi, þar sem ég hef alltaf verið íslenskur ríkisborgari.

Í mörgum ríkjum eru töluð mörg tungumál og í danska ríkinu eru til að mynda töluð þrjú tungumál í þremur löndum, danska í Danmörku, færeyska í Færeyjum og grænlenska í Grænlandi.

Og þjóðirnar Danir, Færeyingar og Grænlendingar eru að sjálfsögðu til, enda þótt þær búi allar í danska ríkinu.

Í Finnlandi eru finnska og sænska jafn rétthá tungumál, enda er sænska móðurmál margra Finna.

Rússneska er móðurmál margra sem búa í Úkraínu en ef þeir eru úkraínskir ríkisborgarar eru þeir einfaldlega Úkraínumenn en ekki Rússar.

Í Eistlandi búa margir af rússneskum ættum og í kvikmyndahúsum þar hef ég séð bandarískar bíómyndir með bæði eistneskum og rússneskum texta.

Undirritaður átti þar kærustu sem talaði reiprennandi bæði eistnesku og rússnesku, enda var hún Eistlendingur af rússneskum ættum og fæddist í Rússlandi.

Í Kanada og Bandaríkjunum búa margir af íslenskum ættum og eru kallaðir Vestur-Íslendingar, enda þótt þeir séu kanadískir og bandarískir ríkisborgarar og hafi aldrei búið hér á Íslandi.

Þeir eru hins vegar Kanadabúar og Bandaríkjamenn, enda þótt sumir þeirra geti talað íslensku.


Að sjálfsögðu eru einnig til Íslendingar af pólskum ættum og þeir urðu Íslendingar þegar þeir fengu íslenskan ríkisborgararétt, jafnvel þó þeir tali hugsanlega ekki góða íslensku.

Margir Íslendingar eru heyrnarlausir og nota táknmál en þeir eru að sjálfsögðu Íslendingar, enda þótt þeir tali ekki íslensku.

Og fleiri íslenskir ríkisborgarar búa erlendis en erlendir ríkisborgarar hér á Íslandi. cool

Víkingaklappið kom frá Skotlandi

Þorsteinn Briem, 8.6.2019 kl. 11:36

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Sonur Helga Tómassonar Ballett stjórnanda,hefur marg reynt að tala við Íslendinga á íslensku,en þeir grípa jafnan til enskunnar. Hann hafði hugsað sér að æfa tungumálið sem pabbi hanns ólst upp við. Nánar í Mbl.dagsins

Helga Kristjánsdóttir, 8.6.2019 kl. 17:36

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir skemmtilega grein Magnús.

Er ekki hægt að telja upp eina enn góða ástæðu til að telja sig til þjóðar, og það er að þykja vænt um landið sitt og inn við beinið að þykja vænt um hina í þjóðinni, þó þeir séu eins og þeir eru.  Og maður sjálfsagt líka.

En vildi nota tækifærið og hrósa skemlinum honum Steina, sem hefur valdið öldungnum ómældum þjáningum, eins og til dæmis þeirri að núna þarf hann alltaf að lesa yfir athugasemdir mínar áður en hann hleypir þeim í gegn.

Steini, það var bara skemmtilegt að lesa þig hér að ofan.

Af hverju getur þú ekki notið þess að vera til hérna eins og við hin??

Þótt vænt um okkur í stað þess að skelma okkur.

Bara spyr,.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.6.2019 kl. 23:47

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Bjarni; Takk fyrir húh-ið.

Steini; Takk fyrir leiðsögnina. Hef reyndar smá grun um að þú hafir misskilið pistilinn viljandi. Í honum eru vangaveltur um hvað gerir hóp fólks að þjóð en ekki ríkisborgurum.

Auðvitað er klapp og húh til í öllum löndum hjá fólki sem hefur hendur og raddbönd. Þó svo stuðningsmenn Motherwell í Skotlandi hafi klappað með húh-i þá var það ekki okkar víkingaklapp. 

Helga; takk fyrir innlitið. Það er einmitt þetta með að grípa alltaf til enskunnar, hef grun um að margir verði fyrir sömu vonbrigðum og Helgi Tómasson hvað mikið er gripið til hennar.

Tvisvar hef ég hitt konur sem buðu góðan daginn á íslensku og stoppuðu mig svo þegar ég ætlaði að gera þeim auðveldara fyrir með því að svara á ensku. Önnur var frá New York og var búin að ferðast um landið í þrjár vikur með það að markmiði að læra eins mikla íslensku og hún gæti á einum mánuði. Hin var frá N.Noregi og sagðist vera að kanna hversu auðveldlega norðurlandabúar gætu talað saman ef þeir bara reyndu, hún sagðist vera búin að vera á Íslandi í nokkra daga, en norskan í N-Noregi er reyndar einna líkust íslensku í framburði.

Ég gæti trúað að margur túristanum finnist hann fara mikils á mis í samskiptum við Íslendinga. Ég æfði mig til dæmis eins og ég gat í spænsku í fríum á Spáni og varð alltaf fyrir vonbrigðum þegar innfæddir gripu til ensku við þær æfingar. Um tíma vann ég í Ísrael og varð mikið ánægður þegar ég náði því að byrja daginn með salom og fékk það til baka í sömu mynt.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2019 kl. 00:21

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrirl Ómar, satt segirðu um landið. Það er nefnilega svo margt sem mótar íbúa þess sem það upplifa frá blautu barnsbeini þanngað til að þeir tilheyra þess þjóð.

Sem dæmi þá átti ég við það að stríða á meðan ég bjó í Noregi að setja undir mig hausinn í hvert sinn þegar ég fór fyrir húshorn í logni og varð alltaf jafn undrandi þegar það var logn báðu megin við hornið.

Það er eins með næðinginn og tungumálið, og ábyggilega svo margt fleira, sem sjaldan er íhugað hvernig mótar.

T.d. hafði ég ekki gert mér grein fyrir því að það er ekki sjálfgefið að allar þjóðir geti sett sig inn í The Viking Mind, sem Neil Price talaði um í sínum fyrir lestrum, nema að hafa aðgang að íslenskum þjóðsögum.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 9.6.2019 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband