Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

Það kemur fyrir að við hjónin setjumst upp í okkar gamla Cherokee frá því á síðustu öld. Þá hlustum við á þjóðskáldið syngja um það þegar það hlustaði á Zeppelin og ferðaðist aftur í tímann. Sjaldnast verða úr þessum Cherokee setum undur og stórmerki í fjaðrasófum grænum, en kemur þó fyrir.

Um síðustu helgi skein t.d. skyndilega við sólu Skagafjörður, eða kannski réttara sagt sólin og Skagafjörðurinn skinust á. Reyndar hafði blundað í mér pílagrímsför í Skagafjörðinn, þó þar megi finna margar helstu perlur íslenskrar byggingalistar er þar ein slík sem hefur glitrað lengur og skærar en allar þær háu svörtu turnlöguðu með skúrþökunum, og jafnvel skærar en sjálft Sólfarið við Sæbraut. 

Það var semsagt síðastliðinn föstudag sem tekin var skyndiákvörðun um að bruna í Skagafjörðinn með gömlu fermingar svefnpokana og láta endanlega verða af því að skoða Víðimýrarkirkju. Í leiðinni var litið á fleiri perlur íslenskrar byggingalistar, m.a. Grenjaðarstað í Aðaldal, Glaumbæ í Skagafirði, Hólakirkju í Hjaltadal, Grafarkirkju við Hofsós og Saurbæjarkirkju inn í Eyjafirði.

IMG_2728

Já skrítið, aðallega torf, sprek og grjót og það hjá steypu kalli. Það má segja sem svo að ég hafi verið orðin hundleiður á að horfa út undan rofabarðinu á kólgugrátt Urriðavatnið og skrapa steypugólfið í niðurgröfnum moldarhaug sem mér var komið fyrir í vor, svo að ég gat ekki lengur á mér setið. Enda minnir mig Nóbelskáldið hafi einhversstaðar komist svo að orði að sementið væri byggingarefni djöfulsins og getur það svo sem verið rétt ef það nær til að harðan sem ómótaður óskapnaður.

En um Víðimýrarkirkju hafði Nóbelskáldið þetta að segja; „Tveggja íslenskra bygginga er oft getið erlendis og fluttar af þeim myndir í sérritum um þjóðlega byggingalist. Önnur er Víðimýrarkirkja. Ég held að það sé ekki of djúpt tekið í árinni þótt sagt sé að aðrar kirkjur á Íslandi séu tiltölulega langt frá því að geta talist verðmætar frá sjónarmiði byggingarlistar. Víðimýrarkirkjan litla er okkar Péturskirkja – þar sem hver rúmmetri ber í sér innihald þannig að virðuleiki hinnar litlu frumstæðu byggingar er í ætt við sjálfar heimskirkjurnar, þótt sjálft kirkjuinnið sé ekki stærra um sig en lítil setustofa og verðgildi byggingarinnar komist ekki til jafns við meðal hesthús.“

Þegar við hjónin komum að Víðimýrarkirkju í glampandi sól og sumarhita þá var hún læst. Við vorum varla farin að hugleiða það að naga þröskuldinn þegar staðarhaldarinn Einar Örn kom askvaðandi yfir túnið á ensku. Við heilsuðum á íslensku og tókum tvisvar fram að hún væri okkar móðurmál. Hann bað afsökunar á margítrekuðu athugunarleysinu en sagðist hafa það sér til málsbóta að sjaldséðir væru hvítir hrafnar. Þetta var reyndar ekki eini staðurinn í þessari ferð sem þetta kom upp, þetta var viðkvæðið á öllum þeim stöðum sem höfðu að geyma þjóðlega menningu og byggingalist sem við skoðuðum í þessari ferð.

Einar Örn bætti heldur betur fyrir óþrifalega enskuslettuna með því að segja skemmtilegar  sögur úr kirkjunni. Það á t.d. að hafa tekið 6 tíma að ferma Stefán G Stefánsson Klettafjallaskáld samkvæmt því sem skáldið sagði sjálft eftir að hann var fluttur til Ameríku. Presturinn sofnaði þrisvar og þurfti jafn oft út þegar hann vaknaði til að fá sér ferskt loft og hressingu en hafði alltaf gleymt hvar í athöfninni hann var staddur þegar hann kom inn aftur og byrjaði því upp á nýtt. Þessi langdregna fermingarmessa fór illa í suma Skagfirska bændur því það var brakandi heyskaparþurrkur.

IMG_2736

Altaristafla Víðimýrarkirkju er frá kaþólskum sið því ekki þótti taka því að skipta henni út við siðaskiptin. Eins fengum við að heyra að kirkjan væri vinsæl til hjónavígslna, og þá oft um erlend pör að ræða, ekki væri óalgengt að þau bókuðu með margra mánaða, jafnvel ára fyrirvara. Fyrir nokkru hafði samt verið gefið saman í skyndingu par, þar sem hann var gyðingur en hún kaþólikki. Þau hefðu verið spurð hvernig þau ætluðu að skýra út fyrir sínum nánustu valið á guðshúsinu. Gyðingurinn svaraði fyrir þau bæði og sagði að það væri seinna tíma vandámál sem biði þar til heim væri komið.

Þó svo litla listaverkið sem kostað var minna til en meðal hesthúss, að mati Nóbelskáldsins, hafi ekki staðið í Víðimýri nema frá 1864 þá eru margir munir hennar mun eldri, líkt og altaristaflan. Í Víðimýri hefur verið bændakirkja frá fornu fari, eða allt frá kristnitöku á Íslandi. Hún var samt ekki talin til sóknarkirkna fyrr en árið 1096. Það er ekki vitað hver lét reisa upphaflegu kirkjuna. En sú hefur verið rúm miðað við núverandi kirkju, því að í henni voru sögð vera 4 altari, eitt háaltari og þrjú utar í kirkjunni. Víðimýrarkirkja var helguð Maríu mey og Pétri postula.

Það hafa margir merkir prestar þjónað staðnum, þ.á.m. Guðmundur góði Arason, sem varð síðar biskup á Hólum 1203-1237. Kolbeinn Tumason var þá héraðshöfðingi í Skagafirði og kom Guðmundi góða á biskupsstól og hugsaði sér með því gott til glóðarinnar. En öðruvísi fór með sjóferð þá því Guðmundur lét ekki að stjórn og endaði Kolbeinn líf sitt í Víðinesbardaga við Hóla þegar einn af mönnum Guðmundar góða kastaði grjóti í hausinn á honum. 

IMG_2732

Þá var öldin kennd við Sturlunga og menn ortu sálma á milli manndrápa. Kolbeinn Tumason var af ætt Ásbirninga og hafði lagt margt á sig til að halda höfðingja tign m.a. við Lönguhlíðarbrennu, þar sem Guðmundur dýri Þorvaldsson og Kolbeinn fóru að Lönguhlíð í Hörgárdal og brenndu inni Önund Þorkelsson ásamt Þorfinni syni hans og fjóra aðra en mörgum öðrum heimamönnum voru gefin grið. Þeir Önundur og Guðmundur höfðu átt í deilum og brennan var talin níðingsverk.

Sálmurinn Heyr himna smiður er eftir Kolbein Tumason í Víðimýri, hvort hann hefur fengið hugmyndina af honum kirkjunni eftir Lönguhlíðarbrennu skal ósagt látið, en talið er að hann hafi samið hann rétt fyrir andlát sitt þegar hann fór fylktu liði í Hóla til að tukta Guðmund góða biskup Arason, er svo slysalega vildi til að einn af liðsmönnum biskups kastaði steini í höfuðið á Kolbeini. Eins og Sturlunga fer greinilega með heimildir og nafngreinir þá sem að manndrápum koma þá upplýsir hún ekki hver var grjótkastarinn.

Kolbeinn kvað; „Heyr, himna smiður, hvers skáldið biður, komi mjúk til mín miskunnin þín. Því heit eg á þig, þú hefur skaptan mig, ég er þrællinn þinn, þú ert Drottinn minn.“ Þessi sálmur er ein af gersemum íslenskrar tungu sem fer stórum á youtube með yfir 7 milljón áhorf. Eftir pílagrímsferð í Mekka íslenskrar byggingalistar er þá nema von að sonur þjóðar, sem  þarf að kynna sín helstu menningarverðmæti á ensku á eigin heimavelli til þess að hafa áheyrendur, spyrji líkt og Bubbi; Hvar er gimsteinninn í augum þínum ljúfan?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Takk fyrir þetta, greinilega áhugavert tómstundagaman að skoða þessi gömlu hús. 

Nú má velta fyrir sér hvort Guðmundur hafi verið svo góður eftir allt saman að láta kasta svona steini í manngreyið og eins hitt hvort sá er kastaði hafi ekki örugglega verið  syndlaus þ.e. hafi þetta þá verið fyrsti steinninn?

Hugsanlega hefur þó gilt þarna hið forkveðna að það sem helst stöðvar vondan mann með stein er góður maður með stein!

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 20.6.2019 kl. 22:25

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni og takk fyrir innlitið. Já það er ágætis tómstundagaman að skoða hús og hýbýli forfeðranna svo síjast menningin með í leiðinni.

Skagafjörður er sérstaklega áhugaverður með sinn Glaumbæ og allar sínar kirkju, nánast á öðrum hverjum bæ. Má þar nefna Víðimýrarkirkju, Grafarkirkju, Reynistað og náttúrulega dómkirkjuna sjálfa á Hólum

Skagfirðingar hafa átt svo mikið af kirkjum að þeim munaði ekkert um að láta höfuðborgarbúa hafa eina um árið en ef ég man rétt þá er torfkirkjan á Árbæjarsafni að upphafi úr Löngumýri.

Verðum við ekki að trúa því að Guðmundur hafi verið góður þrátt fyrir grjótkastið. Allavega gera Skagfirðinga nú út á sögu Sturlunga en sú söguskoðun er verð nýrrar menningarferðar í Skagafjörðinn.

Varðandi það fornkveðna þá man ég eftir  grjótkast bardögum úr bernsku og hvað það var afleitt að fá grjót í hausinn, maður fékk hreinlega blóðbragð í munninn og hefur sennilega verið skrýtinn í hausnum síðan.

Magnús Sigurðsson, 21.6.2019 kl. 06:50

3 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

 Án gríns þá er þessi saga af þeim Kolbeini og Guðmundi ágætt dæmi um að stríð eru sjaldnast svört og hvít hvar hið vonda fæst við hið góða. 

Guðmundur fær hreinlega viðurnefnið "góði" og Kolbeinn skilur eftir eilífa ljóðaperlu. 

Við eigum öll okkar slæmu og góðu stundir!

Góðar stundir!

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 21.6.2019 kl. 09:53

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Já, góðir menn og grjótkastarar eru ekkert til að grínast með. Það má segja það um Sturlungu að þrátt fyrir að sú öld hafi verið blóði drifin og borgarstyrjöld okkar Íslendinga þá eru gersemar hennar á marga vegu, rétt eins og sjá má sálmi Kolbeins Tumasonar.

Einnig fer varðveisla þeirra bókmennta sem kenndar eru við Snorra Sturluson fram á Sturlungaöld. þar arfleið sem litið er til við víða þegar kemur að því að raða saman sögu N-Evrópu og teygir anga sína suður til Svartahafs. 

Ég fór rangt með hvaðan kirkjan á Árbæjarsafni á uppruna sinn og leiðréttist það hér með. 

"Kirkjan á Árbæjarsafni er af þeirri gerð sem víða var í sveitum á 19. öld. Hún á uppruna að sækja til Silfrastaða í Skagafirði. Þar var reist torfkirkja árið 1842. Smiður var Jón Samsonarson, sem einnig smíðaði Víðimýrarkirkju í Skagafirði."

Magnús Sigurðsson, 21.6.2019 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband