Öldin er önnur en þokan sú sama

Það verður seint sagt um suma staði að þeir megi muni sinn fífil fegurri. Þeir eru einfaldlega eins og fíflarnir sem þrífast betur eftir því sem harðar er að þeim sótt. Einn af þessum stöðum er Djúpivogur sem er á Búlandsnesinu á milli Berufjarðar og Hamarsfjarðar. Það er ekki nóg með að staðnum hafi fleytt fram, heldur hefur Búlandsnesið stækkað svo um munar. Þar hafa hafstraumar sópað upp sandi og búið til nýjar landfyllingar á milli eyja sem áður voru úti fyrir landi.

IMG_2945

Búlandsnesið, þar sem Djúpivogur sker sig inn í landið, hefur þá sérstöðu að vera kristfjárjörð, þ.e. að hafa verið arfleitt Jesú Kristi en hvorki ríki né kirkju. Í bók sinni Að Breyta fjalli fer Stefán Jónsson fréttamaður yfir þau vandkvæði sem felast í því þegar kristfjárjarðir eru annarsvegar og engir pappírar finnast um gjörninginn. Hann segir m.a.; „hitt er ljóst að einhver eigandi jarðarinnar til forna gaf hana fátækum í Geithellnahreppi fyrir sálu sinni“ og rekur síðan vandræði sveitarstjórnarmanna í hinum forna Geithellnahreppi.

Það er ekki víða á Íslandi sem fólk býr bókstaflega í landi Jesú Krists; við ævintýr, sem innihalda leyndardómsfullt landslag, heimsins hæsta píramída og sannar sjóræningja sögur. Og það sem dularfyllst er af öllu, hina óendanlegu Austfjarðaþoku. Nikólína Weywadt, sem fyrst tók veðurathuganir fyrir Veðurstofuna við Berufjörð og fyrsti ljósmyndari á Austurlandi, taldi á þriðja hundrað þoku daga um margra ára skeið í veðurathugum sínum á síðustu ártugum 19. aldar. Þeir sem vilja gera lítið úr Austfjarðaþokunni hafa haldið því fram að ekki hafi þokubólstur mátt bera í Búlandstindinn svo Nikólína hafi ekki talið þokudag.

Eftir að hafa búið á Djúpavogi hátt á annan áratug, í lok síðustu aldar, dettur mér ekki í hug að rengja veðurathuganir Nikólínu Weywadt, og er ég ekki frá því að hafa upplifað á þriðjahundrað daga á ári umlukinn þoku. Eins bera fjölmargar ljósmyndir Nikólínu frá Djúpavogi þess merki að þokan hafi verið venju fremur ágeng á hennar tíð. Þokan á sér mun fleiri hliðar en dulúðina, að úr henni ýrist úði og í henni geti leynst álfabyggðir og falleg fjöll. Stefá Jónsson fréttamaður sagði um hana m.a.í bók sinni Gaddaskata að þokan gæti orðið svo þykk í Djúpavogsblánum að lítið hefði þýtt að leita þar að belju fyrr en andardráttur hennar hefði fundist við eyrað.

IMG_2921

Síðustu helgi var varið á Djúpavogi og naut ég þess að upplifði sólskinsbjarta Jónsmessunótta í eitt skiptið enn. Byrjaði á að fara upp á Bóndavörðu þar sem útsýnið yfir bæinn er best. Þokan kom yfir Búlandsnesið og byrgði fljótlega sýn. Drunur sem ég gat mér til að væru frá skipsvélum heyrðust út úr þokunni í gegnum næturkyrrðina, skreytta fuglasöng. Ég hugsaði með mér hvað ef Hundtyrkinn væri nú aftur á ferð um þennan bjarta tíma. Það var fyrir hátt í 400 árum sem þokan bjargaði þeim fáu sem þá urðu eftir við þennan fjörð.

Um þá nótt var sumarblíða á Djúpavogi, bjart en þoka í miðjum hlíðum. Sjóræningjaskipin sigldu inn Berufjörð að Djúpavogi og vörpuðu akkerum á móts við Berunes. Um morguninn og næstu tvo daga á eftir fóru sjóræningjarnir með ránum og manndrápum um verslunarstaðin við Djúpavog, Hálsþinghá, en svo nefndist íbúabyggðin þá, Berufjarðarströnd og Breiðdal. Hundtyrkinn drap fjölda fólks og tóku á annað hundrað manns til fanga er þeir seldu í Barbaríinu í Alsír.

Þeir fáu íbúar sem sluppu undan Tyrkjunum, sem voru ekki Tyrkir, komust inn í þokuna til að leynast þangað til sjóræningjaskipin léttu akkerum og hægt var að snúa heim á ný. Jón Helgason segir í bók sinni um Tyrkjaránið; „Ömurlegastir voru þó í umkomuleysi sínu þeir bæir, er enginn vitjaði, þótt skipin væru horfin á braut og þeir voru margir um Berufjarðarströnd og Hálsþinghá: Allt fólkið hertekið. Börnin sem þar höfði signt sig á bæjarhlaðinu hvern morgun, tóku ekki gleði sína á ný við leik á hóli eða fjörusandi, þau grétu í dimmum og fúlum lestum víkingaskipanna.“

IMG_2993

Svalbarðstanginn sem aðskilur Gleðivíkurnar, farþegaskip stefnir inn á þá innri þar sem höfnin er með heimsfrægu eggjunum hans Sigurðar í "Himnaríki". Út á firði liggur annað farþegaskip við akkeri og ber í þokuna, sem ferjaði farþegana í land með skipsbátunum.

Þegar ég rýndi út í þokuna, þaðan sem drunurnar heyrðust, sá ég grilla í stórt skip koma út úr þokunni. Fljótlega koma annað og stemmdu þau inn Berufjörðinn. Það fyrra kastaði akkerum út af Djúpavogi á móts við Berunes rétt eins og sjóræningja skipin forðum. Seinna skipið sigldi fullri ferð fram hjá því fyrra inn á höfnina í Innri-Gleðivík. En í þetta sinn voru það skemmtiferðaskip og við Matthildur mín stödd á Djúpavogi sem barnapíur dótturdóttir okkar, sólargeislans Ævi, en foreldrar hennar þjónustuðu ferðamenn þessa Jónsmessuhelgi.

Undanfarin ár hefur á Djúpavogi verið gert gríðarlegt áttak í ferðaþjónustu og varðveislu gamalla húsa, bærinn bókstaflega blómstrar hjá öllu því unga fólki sem þar lætur drauma sína rætast. Ég notaði nóttina til að rölta um og skoða fyrrum heimabæ okkar Matthildar og minntist góðra daga okkar bestu ára. Þá voru farin að sjást merki þess í hvað stefndi. Þá gengu húsin Geysir og Langabúð í endurnýjun lífdaga eftir erfið ár. Þá voru þau hús sem mín kynslóð byggði ný og glæsileg en mörg gömlu húsin í lakar ástandi. Nú má segja að öldin sé önnur. Þegar ég skoðaði húsin sá ég að rétt var að nota þokuna til að fara með veggjum, eða réttara sagt klettum. Því það sama á við um mig og verkin mín, að eldast illa.

Við Matthildur yfirgáfum Djúpavog um aldamótin. Það voru erfiðir tímar. Hún sjómannsdóttirin fædd og uppalin í einu af fallegu húsum bæjarins. Stuttu áður höfðu fjögur stór fiskiskip verið seld frá staðnum á nokkrum mánuðum. Íbúum fækkaði, nemendum í skólanum fækkaði um helming á örfáum árum. Aflaheimildir og fiskvinnsla var vistuð hjá Vísi í Grindavík sem hélt uppi skertri vinnslu á Djúpavogi, þar til fyrir skemmstu að þeir léttu akkerum hurfu á braut.

IMG_3022

 Gamli góði Djúpivogur, verslunarhöfn í 430 ár og fiskihöfn frá ómunatíð.

Þó svo að áfallið hafi verið stórt þegar fleiri þúsund tonna kvóti fór frá staðnum á svo til einni nóttu þá hefur unga fólkið á Djúpavogi aldrei misst móðinn, það þrífst líkt og fíflarnir sem vonlaust er að slá, því þeir spretta bara enn fleiri blómstrandi upp aftur morgunnin eftir. Staðurinn sem stendur í kristfjárjörðinni hefur sennilega alla tíð átt því láni að fagna að þar fær unga fólkið tækifæri til að láta drauma sína rætast, rétt eins og sá maður sem stal sjálfum sér forðum -Hans Jónatan; fyrsti blökkumaðurinn er sögur fara af á Íslandi.

Á mínum manndómsárum á Djúpavogi varð ég þess heiðurs aðnjótandi að vera í hreppsnefnd í því sem næst tvö kjörtímabil, það fyrra var styttra vegna sameiningar sveitarfélaganna, Búlands-, Berunes- og Geithellna-hreppa. Oft var tekist á um málefni dagsins á minni tíð en aldrei um varðveislu þess gamla. Það er helst að ég minnist þess að við höfum jagast um staðsetningu Geysis. Ég vildi ekki færa Geysi um sentímetra, en við húsið var í þá daga eitt helsta blindhorn bæjarins. Þar varð ég undir í argvítugum minnihluta eins og vanalega.

Ég sá það, þegar þokunni létti svo undursamlega á þessu Jónsmessunætur rölti, að auðvitað hef ég hagað mér eins og hálfviti mest alla tíð, en læt mig samt dreyma um að þokan hafi byrgt mér sín og öldin verið önnur.

Ps. set hér inn nokkrar myndir af misjafnlega gömlum húsum í bænum.

IMG_2959

Geysir var byggður sem hótel rétt fyrir aldamótin 1900 og þjónaði sem slíkur fyrstu árin. Húsið var lengist af notað sem íbúðarhús, og fyrir verslunina Djúpið þegar ég kom á Djúpavog. Hýsir nú skrifstofur Djúpavogshrepps. Húsið gekk í endurnýjun lífdaga um aldamótin 2000. 

 

IMG_0657

Nýja Lögberg, fjölbýlishús með fjórum íbúðum, byggt einhvertíma í kringum 1940.

 

IMG_0659

Gamla Lögberg sagt byggt 1914. Mig minnir að bakhliðar þess hafi verið torfveggir áður en það fékk yfirhalningu, sem gæti bent til þess að það hafi verið byggt í eldri tóft.

 

IMG_0680

Björk, var áður með "kastala brjóstvörn" og torfþaki. Sennilega byggt fleirum en einum áfanga eftir brjóstvitinu. Nýtur sín vel nú sem fyrr, þó svo "brjótsvörn kastalans" sjáist ekki lengur, orðið að húsi funky stíl.

 

IMG_0718

Ásbyrgi byggt 1947 gekk í endurnýjun lífdaga 1989.

 

IMG_0710

Langabúð t.v. er í reynd röð gamalla sambyggðra húsa frá árunum 1758-1850, endurgerð 1989-1997 - Faktorshús t.h. byggt 1848. Bæði húsin tilheyrðu versluninni á Djúpavogi um aldir og fór verslun Kaupfélags Berufjarðar þar fram til ársins 1985.

 

IMG_0741

Bæjarstæðið á Djúpavogi séð frá Bóndavörðu. Hann er óvíða fegurri sjóndeildarhringurinn en á þessum góða útsýnisstað, heyrst hefur fagnaðar kliður frá ferðamönnum sem koma í þoku og sjá henni létta. Hálsþinghá og Hamarsfjörður fjærst t.h., Berufjörður t.v.,,,,jú ég sé að það leynir sér ekki að Geysir hefði átt að fá að standa áfram á sínum stað á bláhorninu í Hótelhæðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Að breyta fjalli er ein best skrifaða bók sem ég hef lesið, hún kom ófús uppí hendur mér á sínum tíma, hafði eitthvað með hallæri veikindanna að gera, en fór fús uppí bókahillu, með því fororði að hún yrði lesin aftur, sem gekk eftir. 

Snilld Stefáns fólst í því að skrifa texta sem varð eins og kvikmynd í huga manns, það var oft eins og maður væri vitni af því sem um var skrifað. 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las þennan pistil þinn eða prósa ef maður vill vera nákvæmur.

Takk fyrir þessa upplifun.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.6.2019 kl. 21:24

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, Að breyta fjalli er meiriháttar bók. Reyndar er allt það sem Stefán skrifar um æskustöðvar sínar meiriháttar. Má þar nefna bækur eins og Ljós í rófunni og Gaddaskata. Í Gaddaskötu segir frá Álfkonunni í Sólhólsblánni og flotbeljum. Sammála þér með að "snilld Stefáns fólst í því að skrifa texta sem varð eins og kvikmynd í huga manns, það var oft eins og maður væri vitni af því sem um var skrifað."

Stefán notar 25 bls. bókarinnar Gaddaskötu til að segja frá rannsókn sinni á austfirskum blám. Aðallega blánum á æskustöðvunum við Djúpavog. Sólhólsblánni, sem hafði að geyma botnleysurnar litla Rot og stóra Rot með sínum flotbeljum, en hún er nú horfin undir stóran hlut byggðarinnar og fótboltavöll. Eins víðfeðmri Borgargarðsblánni þar suður af, með Borgargarðsvatninu sem ekki hefur enn verið ræst fram. Í kaffispjalli við Valda vin sinn á Norðfirði upp í Oddskarði um miðsumarnótt, kemst Stefán að því hjá Valda að blá sé ekki það sama og mýri. Mýri megi finna í hverju krummaskuði en undir blár þurfi heilu sveitirnar. Mýrin sé í mesta lagi dý við túnfótinn á meðan bláin umkringi túnið.

Sumarlangri rannsókn á austfirskum mýrum líkur Stefán í Hjaltastaðaþinghá með því að sofa eina ágúst nótt undir berum himni í Hjaltastaðablánni, því engin veit hvað blá er fyrr en hann hefur komið í Útmannasveit. Valdi vekur Stefán svo upp af værum blundi í blánni með þeim orðum að hann hafi spurt marga austfirðinga að því hvernig nefna bæri votlendi. Þar hefði orðið ofan á að bláarheitið væri flatarmálsfræðinni gjörsamlega óviðkomandi. Blár væru af ákaflega mörgum stærðum á Austurlandi, í landþröngri sveit héti það blá, sem tæpast yrði kallað dý á Héraði.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 28.6.2019 kl. 07:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband