Brotnar byggðir og ríki Ratcliffs

Tímana tvenna

Það má segja að æðsta þroskastig hverrar mannveru sé að komast frá A til B án þess að gera í brækurnar, og verandi sjálfbjarga við það séu bestu árum ævinnar varið. Svona er þessu í reynd farið í bókstaflegri merkingu. Við hefjum leikinn með því að fá aðstoð og endum hann eins ef ekkert óvænt kemur upp á, megin hluti ævinnar snýst sem sagt um það að sleppa við að skíta á sig.

Það hefur færst í vöxt núna síðustu ár að skilgreina brothættar byggðir úti um land og eru þetta þá oft byggðir sem hafa verið rændar með lögum sjálfsbjargarviðleitninni til að nýta lífviðurværið sem svamlar fyrir framan nefið á þeim íbúum sem þar hafa dagað uppi. Ef engin kemur Ratcliff til að kaupa vatnsréttindi og óðul eða setja upp löggilta ferðaþjónustu er flest von úti.

Ráðnir hafa verið til þess bærir sérfræðingar að hjálpa brothættu byggðunum og eru þá oftar en ekki ráðnir mógúlar sem hafa yfirgripsmikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, jafnvel ævilanga reynslu í að rugga ekki bátnum á meðan kvótinn var seldur, en hafa þrátt fyrir allt ekki náð að koma byggðarlögunum sem þeir unnu fyrir gjörsamlega fyrir kattarnef. Þannig að verkefnisstjórnunin í brothættu byggðinni er svona nokkurskonar síðasti séns.

IMG_3479

Nú er sumarfrí og hefur því verið varið á heimaslóðum í byggð sem mætti ætla að seint yrði skilgreind sem brothætt. Það eru samt ekki nema örfá ár síðan að stærsta framkvæmd íslandssögunnar kom til bjargar. Áður hafði massíf skórækt átt að redda bændum, þar sem Alaska öspum og Síberíulerki var þéttraðað í tún og skurði svo ekkert sést lengur til kolefnissporsins og jafnvel sýnin á kólgulitað Lagarfljótið er óðum að hverfa.

Ásýnd Héraðsins er að breytast í heila helvítis Svíþjóð. þegar keyrt er um svoleiðis landslag er það eins og að keyra framhjá strikamerki, lúpínan hefur þó það fram yfir að maður stendur upp úr henni og getur klofast yfir hana, já og vel á minnst lúpínan var upphaflega boðin velkomin af ríkinu. Núna síðustu tvö árin hefur svo Skóræktin tekið upp á því að hefta för fólks með hengilás og keðju í gegnum þá fáu slóða sem má komast í gegnum óræktina niður að Lagarfljóti, nema þar sem þeir telja sig geta haft starfsmann á launum við að rukka fólk.

Í vikunni gerðumst við hjónin svo ferðamenn í ríki Ratcliffs og hluta þeirra mölbrotnu byggða sem leynast við norðurstrandarveg eða samkvæmt tíðarandanum, The Arctic Coast Way. Snemma í sumar opnuðu tveir úr hópi mestu skítbuxna byggðar í landinu ímyndað stórvirki með því einu að klipp á borða. Annar hokin af reynslu með sultardropann niður úr nefinu í nepjunni austur í eyðilegum Bakkafirði og hinn með bringuna þanda upp í vindinn vestur á Hvammstanga þar sem sjá má yfir á dýralæknislausu Vestfirðina.

IMG_3545

Raufarhöfn minnti á margan hátt á Seyðisfjörð og Djúpavog, þar sem ungt atorkusamt fólk og listamenn hafa sest að og tekið sig saman um stórvirki. Um hana verður ekki lengur sagt; Þú ert rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur. / Andskotinn á engin nöfn / yfir mörg þín forarsöfn. / Þú ert versta víti jöfn / viðmótið er kuldahrollur. / Farðu í rassgat Raufarhöfn / rotni, fúli drullupollur.

Við létum ferð um Bakkafjörðinn, Melrakkasléttuna auk ríkis Ratcliffs nægja í þetta sinn. Okkur til ánægju þá urðu skiltin um land í einkaeign fáséðari eftir því sem þokan varð þéttari. Það eru slétt 25 ár síðan við fórum þennan vegspotta síðast, en það hafði staðið til um nokkurra ára skeið að endurnýja kynni sín við þessar byggðir. En drottinn minn dýri stór hluti þessa svæðis er gjörsamlega komin í auðn.

Það eru orðin rúm 40 ár síðan ég kom á þessar slóðir fyrst og hafði margoft farið um þær á níunda áratug síðustu aldar en var minntur á það í fyrra að ég hafði aldrei komið á Rauðanúp eða það sem er kallað Núpskatla. Þennan núp hafði mig dreymt um að sjá í bernsku og meir að segja komist í grennd við hann 1976 þegar mér bauðst að fara með skólabróðir mínum á Laugum í helgarfrí í hans heimasveit. Þá varð ekkert úr Núpskötlu ferð því að svo mikið var um frændur og félaga á næstu bæjum að ekki gafst til tími.

IMG_3697

Hreiðrið Gesthouse eitt af þremur gistihúsum á Raufarhöfn

Nú þessum rúmu 40 árum seinna leit ég við á heimaslóðir vinar míns með von um að rekast á hann, því hann hefur átt það til síðustu ár að nýta sér brothætt úrræði stjórnvalda og stunda strandveiðar á slóðum þar sem hann þekkir öll mið. Ekki hittum við fornvin minn en þess í stað frænda hans í mýflugumynd. Frændi hans var á Leirhafnartorfunni að dytta að sumarhúsi og sagði mér að frændi sinn hefði ekkert sést í sumar og ætti það tæplega eftir.

Níels Árni Lund hefur gefið út Sléttungu svona nokkurskonar minningargrein um Melrakkasléttu í þremur bindum. Nú er hann að minnast forfeðranna á torfunni með því að safna saman tólum og tækjum sem tíðarandinn myndi flokka sem rusl.

IMG_3690

Við komumst þvottabrettin alla leið á enda að Núpskötlu og verður ég að hæla fólkinu sem þar dvelur í sumarævintýrinu fyrir að hafa ekki girt landið af úti við þjóðveg eins og hver annar ríkisbubbi, sem setur upp hlið með hengilás og skilti um land í einkaeign í girðingar Vegagerðarinnar, og hafa þar að auki rétt getað stillt sig um að negla merki á vegstikurnar um það að öll stangveiði sé bönnuð. Ferðin um Sléttu var virði allra holanna á endalausu þvottabretti The Arctic Coast Way, þannig að við ákváðum að þræða hana aftur til baka næsta dag.

Ósjálfrátt varð manni á að hugsa, „hvernig gat þetta gerst á minni vakt“ og maður hefur ekki einu sinni þá afsökun að hafa verið í sumarfríi. Sennilega má segja að fáum þjóðum hafi verið eins mislagðar hendurnar við við að krossa sér forustufólk. Það er ekki nóg með að það hafi rænt fólki lífsbjörginni á stórum svæðum landsins, auk þess lætur það landsölu viðgangast til allra landsliðana í kúlu. Og þegar ein mannvitsbrekka alþingis tjáði sig um þetta í vikunni þá sagði hún að setja yrði einhverskonar skorður en gæta yrði að því að erlendum og innlendum skiltagerðamönnum yrði ekki mismunað.

IMG_3495

 

IMG_3606

Jú víst get ég sannað að hafa verið á Núpskötlu

 

IMG_3701

Það er margt sem fangar augun við "The Arctic Coast Way"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Þegar stórt er spurt, þá er oft reynt að leita svara.

"Ósjálfrátt varð manni á að hugsa, „hvernig gat þetta gerst á minni vakt“ og maður hefur ekki einu sinni þá afsökun að hafa verið í sumarfríi. Sennilega má segja að fáum þjóðum hafi verið eins mislagðar hendurnar við við að krossa sér forustufólk. Það er ekki nóg með að það hafi rænt fólki lífsbjörginni á stórum svæðum landsins, auk þess lætur það landsölu viðgangast til allra landsliðana í kúlu.".

En þetta þarf ekki að vera svona.

Þess vegna er tekið á móti ófétunum sem ætla að markaðsvæða orkuna okkar.

Takk fyrir skemmtilega pistil, jafnt texta sem myndefni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.7.2019 kl. 10:07

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og takk fyrir athugasemdina. Það er víst alveg rétt hjá þér "En þetta þarf ekki að vera svona."

Það verður fokið í flest skjól ef ófétunum, þjóðkjörnum jafnt sem sjálfskipuðum, tekst að selja markaðsvæða orkuna okkar til útlendinga.

Af því að við höfum svo gaman af því að miða okkur við norðmenn þá hækkaði raforkan þar heil ósköp til almennings við markaðsvæðingu á efnahagssvæðinu en þeir hafa eftir sem áður olíuna til að jafna lífskjörin í Noregi. 

Eitt af því sem ég tók eftir þau ár sem ég bjó í Noregi var að skattakerfið var notað til að jafna mun á búsetu. Fyrir hreina tilviljun komst ég að því að ég var látin borga lægri skatta af því að ég bjó í N-Noregi og þar að auki enn lægri skatta af því að ég hafði flust þangað.

Hérna er jöfnuðinn á þann veg að fólk er látið borga virðisaukaskatt ofan á ójöfnuðinn. Þar dettur heldur engum í hug að banna fólki að renna öngli í sjó til að draga fram lífið, hvað þá að gera út sérfræðinga að sunnan til að hafa eftirlitið í lagi. Þó svo að hver sem er megi ekki reka stórútgerð í Noregi á eilífu kennitöluflakki.

Allt þetta varð nú samt ekki til þess að ég ílentist þar enda hafði ég hrakist héðan úr óræktinni á landinu blá vegna aðgerða landsliðsins í kúlu og þeirra þjóðkjörnu áhangenda, sem er náttúrulega alveg ótækt ef maður vill á annað borð glíma við óréttlætið. 

Magnús Sigurðsson, 18.7.2019 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband