Túristatrekkjari úr torfi og steypu

Vök

Það hefur farið mikið fyrir fréttum af nýjum hótelherbergum á landinu bláa undanfarið og hafa þær hlutfallslega haldist í hendur við fréttir af fækkandi ferðamönnum. Það veitir því varla af að bjóða upp á eitthvað sem trekkir túristann svona allavega á meðan fjármála hrun, eldgos og önnur óáran trilla þá ekki til landsins.

Ég sagði frá því hérna í bloggi fyrir nokkru að mér hafði verið komið fyrir í rofabarði, og það um hásumar við skrapa niður grjótharða steypu því einhverjum stjörnuleikmönnum  landsliðsins í kúlu hefðu dottið í huga að fjármagna gamla og blauta drauma sveitavargsins á Héraði um ylströnd við Urriðavatn í svokölluðum Þvottavökum. Svo vildi til núna um helgina að Vök-Baths varða endanlega að veruleika.

Þessi framkvæmd er búin að ganga fram af flestum heimafengnum iðnaðarmönnum. Enda eru íslenskir iðnaðarmenn að mestu lúin lýður nátttrölla kominn á grafarbakkann, sem verður  brátt hvíldinni feginn. En ekki þótti annað við hæfi en opna herlegheitin í sumar, annað er víst svo slæmt „PR dæmi“ úr því að útsendarar kúluspilaranna voru búnir að þenja út bringuna og slá sér á bjóst. Auk þessi er talið afleitt að „opna inn í veturinn“ í þessum PR heimi landsliðsins, en flinkastir eru þeir á dagatal.

IMG_0984

Þessi hvínandi steypu skröpun í rofabarðinu hefur orðið til þess að ég tek mér langt sumarfrí það lengsta á ævinni, svo snakkillur varð ég þegar það var búið að hafa af mér að steypa ferska steypu úti í guðs grænni náttúrunni eins og vanalega. Að vinna fyrir aura landsliðsins í kúlu hefur af minni hálfu því sem næst kostað uppgjör við bæði guð og menn. Allavega eru pólsku vinnufélagarnir fyrir löngu búnir að tilkynna mér vinslit þó svo að þeim hafi ekki þótt taka því hingað til að skilja íslensku.

Núna við opnunina um helgina hitti ég svo verkfræðinginn við drulluskurðinn ofan við hús og hafði vit á að óska honum til hamingju með daginn. Ég sagði honum að þetta kæmi mér allt saman verulega að óvart, ég hefði ekki haft nokkra trú á öðru en að þeir hefðu allt niður um sig „inn í veturinn“ nema þá í besta falli sem PR dæmi með tölvugerðum myndum á facebook. En Vök-Baths hefur verið opið alla daga vikunnar á heimasíðunni 11 am - 11 pm frá því 1. maí, bara uppbókuð þar til nú um helgina vegna einkasamkvæmis iðnaðarmanna.

IMG_0979

Verkfræðingurinn tók brosandi hringinn í spaðann á mér þó svo að orðalepparnir mínir um vitsmuni verkfræðinga hafa dunið á honum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir það hefur hann ekki ennþá tilkynnt vinslit líkt og Pólverjarnir sem ekkert skilja. En hann er nú reyndar óvenjulegur að því leiti að hann byrjaði sinn starfsferil sem handlangari í múrverki og hef ég aldrei skilið hvernig honum tókst að fara í hundana.

Það verður samt að viðurkennast að vel hefur tekist til með Vök-Baths og ætti þessi framkvæmd að vera síðuhafa til yndisauka, sem hefur hér margoft dásamað innlend byggingarefni á við torf, grjót og steypu. Það má kannski að sumu leiti segja að draumur hafi ræsts um að fá að taka þátt í byggingu mannvirkis úr svo heimafengnu efni, steypumöl úr hinni fornu horfnu Jöklu, torfi úr Tungunni og lerki úr Hallormstaðarskógi, í byggingu aðstöðuhúss við volgar vakir Urriðavatns. Eins verður trauðla hjá því komist að lofsama hönnuði fyrir efnistök og útlit.

IMG_0990

Þetta verkefni mitt í rofabarðinu miðaði að því að ná fram einhverskonar steypulúkki á gólf úr grjótharðri steypu. Eftir að hafa slípað, pússað og bónað um tveggja mánaða skeið varð árangurinn eins og gamall slitinn fjósflór. Stærstu kostirnir við verkið voru að sumt af grófustu fíneseringunum þurfti að vinna á nóttunni og sú vinna hitti á bjartasta tíma ársins. Björt sumarnóttin er eitthvað sem engin ætti að sofa af sér.

Þrátt fyrir þessa jákvæðu punkta þá ætla ég að þrjóskast eitthvað lengur í sumarfríi þó svo Austfjarðaþokan nái niður fyrir eyrnasnepla og þeim fari óðum fækkandi steypudögunum. Enda fer kannski að verða nóg komið af þessari steypu.

Vök steypa 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband