Út um þúfur

IMG_3988

Ennþá er búið í torfbæjum á Íslandi, það kom heldur neyðarlega í ljós í síðustu viku. En eins og þeir vita, sem hér líta inn, þá hef ég blæti fyrir því að ljósmynda torfbæi, og hef verið að reyna að venja frúna af því að liggja á gluggum rétt á meðan, svona myndana vegna. Um daginn keyrðum við að torfbæ sem ekki átti að vera til samkvæmt mínu registri. Við renndum í hlað og ég sagði strax og stoppað var; ekki liggja á gluggum eins og hver annar túristi, það er dónaskapur að liggja á gæjum hjá fólki. það hnussaði í; hva,,, heldurðu virkilega að það búi einhverjir ennþá í torfbæ.

Það leið ekki á löngu að út um bæjardyrnar á miðburstinni birtist sköruleg kona, sem bauð góða kvöldið á ensku og spurði hvort hún gæti eitthvað fyrir okkur gert. Ég áttaði mig fljótlega á að þetta var ekki álfkona. Við reyndum að bjarga okkur út úr aðstæðunum með því að þykjast ekkert skilja og töluðum bara íslensku, en það dugði skammt. Sú sem var greinilega ekki álfkona upplýsti okkur um það að hún og hennar fjölskylda væru Íslendingar sem byggju í þessum torfbæ og hefði það verið gert um aldir þó svo að stutt væri síðan að þau hefðu gert bæinn upp. Fljótlega fóru umræður út um þúfur eins og íslendinga er siður og hefðu leikandi getað endað í ættfræði eða jafnvel dagþroti ef ekki hefðu birst erlendir túristar til að bjarga málum.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem við Matthildur mín komum okkur í vandræði með forvitni. Fyrir nokkrum árum urðu við að gjöra svo vel að sitja í skammarkróknum því sem næst heila messu, ef svo má segja, en þá vorum við á ferð í Loðmundarfirði. Það á nefnilega það sama við um kirkjur og torfbæi að ég umkringi pleisið með myndavélina að vopni á meðan hún hefur áhuga á því sem fyrir innan er, og enn kemur fyrir að kirkjur eru ólæstar. Þegar við ætluðum að kíkja inn fyrir kirkjudyrnar á Klyppstað þá stóð þar yfir árleg messa í þessum eyðifirði sem telur enga safnaðarmeðlimi.

Þar var fyrrum lærimeistari minn hringjari og ekki var við annað komandi en okkur yrði troðið inn í yfirfulla kirkjuna. Það fór svo að við Matthildur sátum á milli prestanna upp við altarið og snérum að kirkjugestum. Prestarnir voru tveir sem messuðu, þær sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir og sr. Jóhanna Sigmarsdóttir. Sr. Davíð Þór Jónsson radíusbróðir, sem var þarna sem kirkjugestur, var einnig komið fyrir með okkur Matthildi við altarið og átti hann skilið að sitja í skammarkróknum enda hafði hann komið sér þangað af sjálfsdáðum.

Séra Sigríður Rún talaði úr stólnum og lagði út frá fjallræðunni, um það hvernig varast skyldi farísea og fræðimenn sem væru oftar en ekki sauðir í úlfsgærum. En sleppti því sem betur fer alveg að leggja út frá gluggagæjum. Hún kom síðan inn á að ekki væri samt sjálfgefið með að menn slyppu alfarið við heimsendinn þó svo að vísindamenn væru komnir á slóð óendanleikans.

Okkar tími kynnu þess vegna að líða undir lok á hraða ljóssins. Vísindamenn hefðu komist á slóðina þegar þeir áttuðu sig á að ljósið færi hraðar en hljóðið með því einu að hlusta eftir þrumunni, sem heyrist á eftir að eldingin birtist. Með þessa vitneskju að leiðarljósi hygðust þeir bjarga heiminum og komast aftur fyrir upphafið á hljóðinu og síðan á hraða ljóssins fram fyrir óendanleikann. Spurningin væri samt alltaf sú hvort tíminn hægði þá ekki það mikið á sér að hann stæði að lokum í stað svo allt yrði dimmt og hljótt, og tíminn jafnvel búinn, sem væri þá kannski bara heimsendir.

Litli drengurinn hennar sr. Sigríðar, sem var farið að leiðast langdregin prédikunin, þar sem hann sat með pabba sínum og eldri bróðir á fremsta bekk, hékk orðið á haus á milli fóta föður síns. Á hvolfi horfði hann upp í prédikunarstólinn á móður sína og rétt náði að segja; en mammaaa! áður en pabbi hans dreif sig með hann út úr kirkjunni svo ekki yrði frekari truflun á heimsenda hugleiðingunni.

Þeir voru fleiri feðurnir sem þurftu að fara út með óþreyjufull börn úr árlegri messu á Klyppstað þetta sumarið. Um miðja prédikun var ég farin að ókyrrast og hugleiða hvað það væri gott að hafa börn í sinni umsjá við að kíkja á glugga, en tók svo eldsnöggt þá ákvörðun að fara út með barnið í sjálfum mér þó svo að ég þyrfti að þramma kirkjuna endilanga, fram hjá prédikunarstólnum, á móti söfnuðinum með marrandi gólffjalir undir fótum. Mér er ekki örgrannt um að orð eins þjóðskáldsins gætu átt við þessa brottför barnanna úr Klyppstaðarkirkju "Á flótta undan framtíðinni sem fætur toga burt eitthvað til baka, aftur fyrir upphafið af týndum tíma er af nægu að taka".

Hann var miklu skeleggari og skorinorðari kínverski túristinn sem Matthildur hitti í árlegri sumar heimsókn á heiðina um helgina. Þegar hún ætlaða að fara inn torfbæinn og kíkja á kettlinga sem það eru vanir að vera sumarlangt. Þá stóð skyndilega bálsteyttur Kínverji blásvartur í framan úti í bæjardyrunum, rétt eins og úrillur álfur út úr hól, og skrækti prívat, prívat.

 

Ps. Set hér fyrir neðan nokkrar myndir af þjóðlegum þúfnagangi í síðustu viku.

IMG_4002

Á Reykjum Reykjaströnd við Skagafjörð hafa torfhúsatóftir verið endurhlaðnar og eru notaðar sem þjónustuhús við tjaldstæði. Það er allt til alls í þessum húsum og er þetta með skemmtilegri tjaldstæðum sem við höfum gist. Rétt utan við tjaldstæðið er Grettislaug og Grettiscafé. Það var yfir á Reykjaströnd sem Grettir sterki sótti eldinn þegar hann þreytti Drangeyjarsundið um árið og yljaði sér í lauginni á eftir. Engir Íslendingar gistu tjaldstæðið þegar við vorum þar en margt var um erlenda ferðamenn sem vildu ekki fyrir nokkra muni missa af því að upplifa sólarupprás við Drangey.

 

IMG_4482

 Á Keldum Rangárvöllum er torfbær af fornri gerð og er hann jafnframt eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Keldur er einstök heild bæjar- og útihúsa frá fyrri tíð. Bæjarhúsin eru af elstu varðveittu formgerð torfhúsa, þar sem framhúsin snúa langhlið að hlaði. Sandfok hefur eytt mjög landi kringum Keldur og hafa bændur þar lengi barist harðri baráttu til að bjarga landinu frá því að verða örfoka. Keldur draga nafn sitt af uppsprettum sem koma víða fram á bænum og hefur bærinn og ábúendur hans komið við sögu í mörgum fornum bókmenntum, m.a. Njáls sögu, Sturlunga sögu og Þorláks sögu. Gamli bærinn á Keldum er í umsjón Þjóðminjasafnsins og hægt er að skoða hann daglega á sumrin.

 

IMG_4755

Pilthús goðans í Grágæsadal var áður kallað Safnaðarheimilið, en innan við húsið er önnur burst sem í er bænhús. Þó goðinn sé ekki viðlátinn í Grágæsadal er bænhúsið ávalt opið en þar er ætlast til að beðið sé fyrir landinu. Við hjónin höfum tvisvar komið í Grágæsadal til að heimsækja Völund frænda minn, og höfðum með í för jarðverksverktaka ásamt fleira fólki um síðustu helgi komið til að biðja fyrir landinu okkar. Í Grágæsadal er landsins hæsti skrúðgarður í yfir 600 m hæð í þetta sinn var stórfjölskylda úr Reykjavík við garðyrkjustörf, þannig að goðinn gaf sér góðan tíma til að spjalla.

 

IMG_4525

Bænhúsið á Núpsstað er torfhús, talið reist um miðja 19. öld, eftir umfangsmiklar breytingar á eldra húsi. Á Núpsstað var kirkja, sem í máldaga frá 1340 er kennd við heilagan Nikulás. Kirkjan virðist hafa verið vel búin fram eftir öldum, en halla tók undan fæti á seinni hluta 16. aldar. Upp úr 1650 var byggð ný kirkja á staðnum og er talið að bænhúsið sé að stofni til úr þeirri kirkju. Þjóðminjasafnið hefur sett tugi milljóna króna í viðhald og merkingar við gamla bænhúsið, en getur ekki hleypt ferðamönnum að bænhúsinu því jörðin og byggingarnar þar eru í einkaeigu.

 

IMG_4512

Neðan við Núpstað niður við þjóðveg er hengilás og keðja í heimkeyrslunni, í keðjunni hangir skilti með áletrun um einkaeign. Því er ekki hægt að komast til bæna í þjóðminjunum nema fara í gegnum hlaðið á Núpstað. Bærinn á Núpstað er samkvæmt mínu registri síðast torfærinn af Skaffellskri gerð sem uppi er standandi og væri verðugt verkefni að koma honum til vegs og virðingar þó svo að það væri ekki nema fyrir þær sakir einar, jafnvel þó hann yrði áfram prívat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Takk fyrir skemmtilegan pistil að venju!

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 8.8.2019 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband