Galdur, fár og geimvísindi

Það er sagt að galdur sé andstæðan við vísindi, svona nokkurskonar bábiljur á meðan vísindin byggi á því rökrétta. Því séu þeir sem trúi á galdur draumórafólk í mótsögn við sannleik vísindanna.

Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.

Ef sönn vísindi væru einungis rökhyggja sem byggði á því sem þegar hefur verið reynt, væru þau þar að leiðandi eins og sigling þar sem stýrt er með því að rýna í straumröst kjölfarsins. Þannig vísindi notfæra fortíðar staðreyndir sem ná ekki að uppfylla þrána eftir því óþekkta. Þar með munu vísindin aðeins færa rök gærdagsins á meðan þau steyta á skerjum og missa af draumalöndum sem framundan eru vegna trúarinnar á að best verði stýrt með því að rýna í kjölfarið.

Um miðjan áttunda ártug síðustu aldar tók það um ár fyrir geimförin Víking 1 og 2 að komast til Mars, lögðu þau af stað frá jörðu 1975 og lentu á Mars 1976. Mun lengri tíma tekur að fá úr því skorið hvort líf gæti verið á rauðu plánetunni og það eru ekki nema örfá ár síðan að almenningi voru birtar myndir frá ökuferð þaðan. NASA sendi svo Voyager nánast út í bláinn 1977 til að kanna fjarlægustu plánetur í okkar sólkerfi. Og fyrir nokkrum árum komst hann þangað, sem að var stefnt fyrir áratugum síðan, vegna þess að markmiðið var fyrirfram skilgreint úti í blánum.

Nýlega hafa verið kynntar niðurstöður geimvísindamanna sem hafa fundið sólkerfi sem hafi plánetur svipaðar jörðinni, þar sem talið er að finna megi líf. Plánetur sem eru þó í tuga ljósára meiri fjarlægð en en þær fjarlægustu í okkar sólkerfi þangað sem Voyager komst nýlega. Með tilliti til vísindalegra mælieininga s.s. ljóshraða og fjarlægðar er ekki nema von að spurningar vakni um hvernig geimvísindamenn komust að þessari niðurstöðu úr fjarlægð sem fyrir örfáum árum síðan var sögð taka mannsaldra að yfirvinna, jafnvel á ljóshraða.

Það þarf að láta sig dreyma eða detta í hug töfrandi skáldskap, nokkurskonar galdur, til að skýra hvernig fjarlægðir og tími er yfirunninn geimvísindalega. Þá er líka skýringin einföld; tíminn er mælieining sem vanalega er sett framan við fjarlægðina að takmarkinu, með því einu að setja þessa mælieiningu aftan við fjarlægðina þá er hægt að komast án þess að tíminn þvælist fyrir, hvað þá ef bæði fjarlægðin og tíminn eru sett fyrir aftan takmarkið.

Þannig draumkennda galdra virðast geimvísindamenn nota við að uppgötva heilu sólkerfin og svartholin í órafjarlægð. En þarna er hvorki um að ræða skáldskap né rökfræði, samt sem áður fullkomlega eðlilegt þegar haft er í huga að tíminn er ekki til nema sem mælieining. Það sama á við um fjarlægðina sem gerir fjöllin blá með sjónhverfingu.

Sjónhverfingar mælieininganna má best sjá í peningum sem eru mælieining á hagsæld. Síðast kreppa íslandssögunnar stóð yfir í góðæri til lands og sjávar, ekkert skorti nema peninga sem eru nú orðið aðallega til í formi digital bókhaldstalna.

Allar mælieiningar búa við þau rök að verða virkar vegna þess samhengis sem við ákveðum þeim. Það dettur t.d. engum í hug að ekki sé hægt að byggja hús vegna skorts á sentímetrum, en flestir vita jafnframt að sentímetrar eru mikið notuð mælieining við húsbyggingar. En varla er hægt að byggja hús nú til dags ef peninga skortir þó nóg sé til af byggingarefni, vinnuafli og sentímetrum.

Svo lengi sem við samþykkjum hvernig með mælieiningarnar skuli farið þá verður okkar veruleiki byggður á þeim, rétt eins og víst er að tveir plús tveir eru fjórir, eða jafnvel verðtryggðir 10, svo lengi sem samkomulagið heldur.

Þeir sem á öldum áður fóru frjálslega með viðurkenndar mælieiningar voru oftar en ekki, rétt eins og nú, litnir hornauga, jafnvel ásakaðir um fjölkynngi eða fordæðuskap. Hvoru tveggja eru gömul íslensk orð notuð yfir galdur. Fjölkynngi má segja að hafi verið hvítur galdur þar sem sá sem með hann fór gerði það sjálfum sér til hagsbóta án þess að skaða aðra. Fordæðuskapur var á við svartan galdur sem var ástundaður öðrum til tjóns. Síðan voru lögin notuð til að dæma, og viðurlögin voru hörð.

Nú á tímum er auðvelt að sjá að mælikvarðar laganna sem notaðir voru til að brenna fólk á báli vegna galdurs voru hinn raunverulegi fordæðuskapur. En það var ekki svo auðvelt að sjá galdrabrennurnar í því ljósi á þeim tíma sem mælikvarðar galdrafársins voru í gildi. Rétt eins og nú á tímum eru tölur með vöxtum og verðbótum viðurkenndar sem mælikvarði á hagsæld, burt séð frá dugnaði fólks og hagfelldu árferði, þegar reglum mælistikunnar er fylgt. 

Ofsóknir með tilheyrandi galdrabrennum hófust hér á landi árið 1625, og er 17. öldin stundum kölluð brennuöldin, en talið er að 23 manneskjur hafi þá verið brenndir á báli. Þetta gerðist næstum hundrað árum eftir að galdraofsóknirnar í Evrópu náðu hámarki. Þar með hófst skelfilegt tímabil fyrir fjölfrótt fólk þegar þekking þess var lögð að jöfnu við galdra. Tímabil þetta er talið hafa náð hámarki með þremur brennum í Trékyllisvík á Ströndum en síðasta galdrabrennan á Íslandi fór fram árið 1683 Arngerðareyri í Ísafjarðardjúpi.

Því hefur verið haldið fram í seinni tíð að geðþótti og fégræðgi valadamanna hafi verið orsök galdrabrenna á Íslandi, en ekki almanna heill. Þorleifur Kortsons sýslumaður í Strandasýslu átti þar stóran hlut að máli umfram aðra valdsmenn, þó er þessi neikvæðu mynd af honum ekki að finna í ritum samtímamanna hans. Hvort þeir hafa haft réttara fyrir sér en þeir sem stunda seinni tíma fréttaskíringar sem gera hann að meinfisum  fjárplógsmanni fer eftir því við hvað er miðað. Þorleifur átti til að vísa málum aftur heim í hérað og krefjast frekari rannsóknar ef honum fannst rök ákærunnar léleg. Röksemdir Þorleifs breytir samt ekki þeim mælikvarða að hann er sá íslenski valdsmaður sem vitað er að dæmdi flesta á bálið.

Fyrsti maðurinn á Íslandi sem var sannanlega brenndur fyrir galdur var Jón Rögnvaldsson, var hann brenndur fyrir kunnáttu sína með rúnir. Stórhættulegt var að leggja sig eftir fornum fræðum, hvað þá að eiga rúnablöð eða bækur í fórum sínum, sem og að hafa þekkingu á grösum til lækninga, en slíkt bauð heim galdragrun.

Hin fornu fræði, sem í dag eru talin til bábilja, sem var svo viðsjálfvert að þekkja á 17. öldinni voru á öldum þar áður talin til þekkingar. Í fornsögunum má víða lesa um hvernig fólk færði sér þessa þekkingu í nyt. Eru margar frásagnir af þeim fræðum hreinasta bull með mælikvörðum nútímans. Nema þá kannski geimvísindanna.

Egilssaga segir frá þekkingu Egils Skallagrímssonar á rúnum og hvernig hann notaði þær í lækningarskyni þar sem meinrúnir höfðu áður verið ristar til að valda veikindum. Eins notaði hann þessa þekkingu sína til að sjást fyrir sér til bjargar í viðsjálu.

Grettissaga segir frá því hvernig Grettir var að lokum drepinn út í Drangey með galdri sem flokkaðist undir fordæðuskap og sagan segir líka hvernig sá sem átti frumkvæðið af þeim galdri varð ógæfunni að bráð með missis höfuðs síns út í Istanbul.

Færeyingasaga segir frá því hvernig Þrándur í Götu beitti galdri til að komast að því hvað varð um Sigmund Brestisson og lýsir hvernig hann leiddi fram í málaferlum þrjá framliðna menn til vitnisburðar sem höfðu verið myrtir.

Í Eiríkssögu rauða segir frá Þorbjörgu lítilvölvu, sem sagan notar orðið "vísindakona" yfir, þar sem hún breytir vetrarkulda í sumarblíðu. Þetta gerði Þorbjörg vísindakona á samkomu sem líst er í sögunni, sem tilkomu mikilli skrautsýningu með hænsnafiðri og kattarskinni svo áhrifin yrði sem mest. Þar voru kyrjaðar varðlokur sem þá var kveðskapur á fárra færi, svona nokkurskonar Eurovision.

Allar sagnir af galdri bera það með sér að betra er að fara varlega þegar hann er við hafður, því fordæðuskapur þar sem vinna á öðrum mein kemur undantekningalaust til með að hitta þann illa fyrir sem þeim galdri beitir. Hins vegar má sega að fjölkynngi hafi oft komið vel og til eru heimildir um fólk sem slapp við eldinn á brennuöld vegna kunnáttu sinnar. Má þar nefna heimildir tengdar Jóni lærða Guðmundssyni og Ingibjörgu Jónsdóttur Galdra Imbu.

Nú á tímum er gengið út frá því að snilli mannsandans sé hugsunin, sú sem fer fram í höfðinu. Á meðan svo er þá er rökfræðin oftast talin til hins rétta og ekki rúm fyrir bábiljur. Jafnvel þó svo að rökfræðin takamarki okkur í að svara sumum stærstu spurningum lífsins, líkt og um ástina, sem seint verður svarað með rökum.

Áskoranir lífsins eru náttúrulega mismunandi eins og þær eru margar, sumar eru rökfræðilegar, á meðan öðrum verður ekki svarað nema með hjartanu. Svo fjölgar þeim stöðugt nú á 21. öldinni, sem þarfnast hvoru tveggja.

Það er sagt að heilinn ráði við 24 myndramma á sekúndu sem er ekkert smáræði ef við búum til úr þeim 24 spurningar sem þarfnast svara. Svo er sagt að við hvert svar verði til að minnsta kosti tvær nýjar spurningar. Upplýsingatækni nútímans ræður við, umfram mannsheilann, milljónir svara sem býr til síaukinn fjölda spurninga á hveri sekúndu. Þannig ætti hver viti borinn maður að sjá að rökhugsun mannsins ein og sér er ofurliði borin.

Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".

Fólk á brennuöld gat verið sakað um galdur fyrir það eitt að fylgja innsæinu opinberlega. Langt fram eftir síðustu öld fann hinsegin fólk sig knúið til að vera í felum vegna fordóma ef það opinberaði hjarta sitt.

Galdur sem fjölkynngi er byggður á margþættri vísindalegri greind, á tónum mannsandans þegar hann hefur slitið sig úr viðjum tíðarandans til að njóta töfra tímaleysisins og verður því sjaldnast sýnilegur með mælikvörðum samtímans, því ef svo væri gengi fjölkunnáttan oftar en ekki í berhögg við lög fordæðunnar.

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni fyrir tæpum tveimur árum síðan og er nú endur birt lítillega breytt í tilefni daga myrkurs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sjálfur stunda ég ekki galdra og hef aldrei gert

en mér eru hugleikin orðin úr NÝJA-TESTAMENTINU

"VERIÐ MEÐ SAMA HUGARFARI OG MEISTARINN" (NT:Fil:2:5):

=ímyndaðu þér að þú sérst Kristur

og hvar væri þá mest þörf fyrir þig hér á landi?

https://www.facebook.com/Þar-sem-að-3-koma-saman-%C3%AD-m%C3%ADnu-nafni-þar-er-ég-mitt-á-meðal-Kristsorka-171087759942160/

Jón Þórhallsson, 6.11.2019 kl. 20:16

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jón, mér sýnist á prófíl myndinni þinni að þú ferðist um á geimfari. Kannski er Kristur sem geimvísindamaður á meðal okkar í dag?

En höfum hugfast að "Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma".

Magnús Sigurðsson, 6.11.2019 kl. 20:52

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Sjálfur ferðast ég ekki um í geimfari;

en allir hefðu gott af því  að velta því fyrir sér hvernig þeir myndu bregðast við ef að þeir sæu UFO-disk fyrir ofan sitt samfélag?

Væri fólk almennt opið fyrir KURTEISIS-HEIMSÓKNUM utan úr geimnum?

Þó svo að geimgestirnir væru 100% mennskir?

EÐA myndi skapast allsherjar hræðluástand?

Jón Þórhallsson, 6.11.2019 kl. 22:03

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Stórt er spurt Jón. Ég hygg að við hvert svar sem fengist við slíkum spurningum myndu jafnvel verða til fleiri en tvær nýjar spurningar.

Magnús Sigurðsson, 7.11.2019 kl. 06:02

5 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Í fróðlegu spjalli um Nietzsche í útvarpi nýlega kom fram að honum var hin svokallaða tómhyggja hugleikin. Að rökfræðin sem Grikkirnir færðu heiminum hafi verið hálfgerður grikkur því í henni hefði barnið farið með baðvatninu, sjálf lífsgleðin og sorgin.  Vildi hann fremur gefa gaum að því sem fyrr var vinsællt hjá Grikkjum þ.e. harmleikurinn. 

Ýtrasta túlkun væri í dag að tala um jafnaðarmennsku vs. framsóknarmennsku (Miðflokksku). 

Nú er bara spurningin hvort er hættara við að rökhyggjumaður taki upp á því að brenna náunga sinn eða sá harmræni?

Þar má benda á að í allmörgum tilfellum voru galdrabrennurnar rökréttar þ.e. af manngæsku sinni voru menn að stytta vist galdramannskins í hreinsunareldi því þær drógust frá svona eins og gæsluvarðhald í dag. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 7.11.2019 kl. 08:13

6 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

ps.  Svo má einnig benda á að fyrrum formaður Framsóknarflokks talar mjög um hin rökréttu stjórnmál.  Svo þetta eru jú nokkuð flókin fræði. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 7.11.2019 kl. 08:15

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni, ég held að þú sért að hitta naglann á höfuðið með samlíkingunni um barnið og baðvatnið. Rökhyggja styðst að mestu við þá rökleysu að vera tímanna tákn.

Nú þykir t.d. rökrétt að rukka himinháa vexti fyrir það eitt að halda bókahald utan um húsnæði almennings, þar þarf ekki einu sinni að styðjast við 2+2 og hafa rökin verið framreiknuð verðtrygging.

Og af því að Jóni er hugleikið hér að ofan í fyrstu athugasemd "VERIÐ MEÐ SAMA HUGARFARI OG MEISTARINN" þá er rétt að hafa í huga að Kristur sakaði víxlarana um að vera ekkert annað en ræningja og rak þá úr musterinu.

Þetta hefur eins og ævinlega að gera með hvort galdurinn er hvítur eða svartur, fjölkynngi eða fordæða. Kolsvört fordæðan á það nefnilega oftar en ekki til að skreyta sig með rökum á meðan fjökynngið styðst við að "Þú skalt ekki gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér".

En það er varasamt að benda þeim svarta á "hjartans rök" án þess að lenda á rökréttur á bálinu. Nú til dags er til fjöldi fólks sem er þannig skólaður að það myndi aldrei gera fólki heima hjá sér það sama og það gerir því í vinnunni.

En mig grunar að rökrétt stjórnmál séu bara skollaleikur.

Magnús Sigurðsson, 7.11.2019 kl. 18:50

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Takk fyrir yndislega lesningu, fjölkynngi orða þinna er slíkur að skammdegið lýstist upp og ylur breiddist út sem aldrei fyrr í hjarta.

Oft hefði ég viljað mæla þessi sannindi, og örugglega reynt að hugsa þau, eða allavega innst í hjarta mínu skilið þau; "Svo hafa þeir alltaf verið til sem vita að galdur byggir á hávísindalegum lögmálum sem hafa mun víðtækari tengingar en rökhyggjan, s.s. krafta náttúrunnar, traustið á æðri mætti og síðast en ekki síst vissunni fyrir eigin getu við að færa sér lögmálin í nyt.".

Og gegn óreiðunni, hinu óendanlegu spurningaflóð rökhyggjunnar, á mannsandinn aðeins eitt svar; "Því er tími innsæisins runnin upp sem aldrei fyrr. Þess sem býr í hjartanu, því hjartað veit alltaf hvað er rétt. Nútíma töframenn vita að galdur felur í sér visku hjartans við að koma á breytingum í hugarheiminum, sígilda visku Gandhi þegar hann sagði "breyttu sjálfum þér og þú hefur breytt heiminum".".

Eins og þú bendir réttilega á þá veður mörg fordæðan uppi þessa dagana, og mistök sögunnar ríða röftum líkt og niðurlag þitt í pistlinum um Hauganesbardagann vekur athygli á.

En það er líka mörg ljós og birta, ég hef nýtt morgunsárið til að lesa yfir síðustu pistla þína Magnús.

Hafðu mikla þökk.

Kveðja úr neðra til ykkar í efra.

Að sjálfsögðu að austan.

Ómar Geirsson, 12.11.2019 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband