Manngerðar hamfarir

Það sagði mér maður, að eftir óveðrið, sem gekk yfir fyrir tæpum mánuði, hefði komið í ljós að ástæða hins víðtæka rafmagnsleysis væri sú að maðurinn með vasahnífinn hefði verið skorinn niður. Þetta hafði hann eftir reynsluboltum sem unnu sólahringum saman á vettvangi hamfaranna, en létu ekki ljós sitt skína í fjölmiðlum.

Rafmagnseftirlit ríkisins hafði m.a. það hlutverk að ganga reglulega með rafmagnslínum og kanna ástand þeirra. Þar á meðal með því að bora vasahníf í staurana sem halda línunum uppi og kanna hvort þeir væru farnir að fúna þannig að hægt væri að skipta þeim út í tíma. Þessa sumarlöngu göngutúra gengu allavega tveir æskufélagar mínir á sínum skólaárum fyrir meira en 40 árum, ásamt manninum með vasahnífinn, sem þá heyrði undir Rarik.

Nú eru tímarnir breyttir og þegar 1. og 2. orkupakkinn komu í dagsljósið var ekki talin þörf lengur á manninum með vasahnífinn, enda markmið orkuframleiðslu og dreifingar að skila arði til eigenda sinna en ekki greiða fyrir göngutúra. Áður fyrr var þetta sem sagt tiltölulega einfalt, eftirlitið með raflínum ríkisins sem fluttu rafmagni ríkisins til íbúa ríkisins var ríkisins.

Í flóknum umhverfi nútímans sjá tæknimenntaðir menn um þetta eftirlit úr fjarlægð með drónaflugi þegar þeir skjótast á góðviðrisdegi út úr annríki skrifstofunnar, rýnandi í myndskjá og er þá vasahnífur talinn óþarfur. En hátæknimenntun á snjallsíma, drónar og orkupakkar breyta ekki því að innviðir tréstaura halda áfram að fúna og því aumkunarvert að heyra tæknimalandi talsmenn orkufyrirtækja og þjóðkjörna verndara innviða kenna landeigendum um þegar vasahnífurinn er sparaður.

Þó svo að það komi þessu ekki beint við,- og þó,- þá var í Fréttablaðinu um helgina snjallorður pistill Guðrúnar Arnbjargar Óttarsdóttir skrifstofustjóra fjármálasviðs Rarik á Suðurlandi. Þar kemur hún inn á í örfáum orðum hvað snýr að fólki út í hinum dreifðu byggðum landsins, annað en rafmagns- og snjallsímaleysi í aftakaveðrum auk skilningsleysisins fyrir notagildi vasahnífsins. Hún segir;

"Það sem gerir þjóð að þjóð er arfleið, saga og menning. Þjóðgarður er gildishlaðið orð sem vekur upp þjóðerniskennd og stolt og það gerir orðið þjóðgarður líka. En þjóðgarður er ekki allur þar sem hann sýnist. Þegar landsvæði er breytt í þjóðgarð er ekki verið að búa til garð þjóðarinnar né hugsa um afleiðingar fyrir þjóðina og enn síður almenna búsetu í dreifðari byggðum landsins."

Þarna hittir höfundur naglann lóð beint á höfuðið því Þjóðgarður er fyrir flesta aðra en þjóðina sem við hann býr. Nafngiftin virðist vera meira notuð til að slá vopnin úr höndum þeirra sem láta sig þjóðarhagsmuni varða, af fólki sem möndlar keisið annað hvort af litlum skilningi eða í allt öðrum tilgangi. Guðrún heldur áfram að hamra stálið á fleiri sviðum, eða kannski snúa hnífnum í sárinu eftir því hvernig á það er litið;

"Náttúran er orðin söluvara í ferðamannabransanum. Sveitarfélög hafa til þessa haft skipulagsvald á hálendinu og haft hemil á átroðningi en með stofnun þjóðgarðs verður það tekið frá þeim. Við hér í dreifðum byggðum landsins missum forsjána, en vissulega er hálendið auðlind þjóðarinnar, líkt og kvótinn sem var hreinsaður af landsbyggðinni og skildi eftir auð þorp og atvinnuleysi."

Þannig er nú komið að sveitarstjórnarfólk hefur verið upptekið við það undanfarna þrjá áratugi að sameina sveitarfélög með þá glapsýn að leiðarljósi að til verði öflugri "stjórnsýslueiningar" (já hugsið ykkur eitt andartak óskapnað orðskrípisins stjórnsýslueining). En þar virðast eiga að standa ein eftir öfugmælin, ásamt sveitastjórnarfólki sem ekki hefur hundsvit á sínu nánasta umhverfi í víðáttum víðfermisins, innanum alla sérfræðingana. Einnig kemur fram í grein Guðrúnar;

"Bændur hafa í gegnum tíðina nýtt hálendið til beitar fyrir fé sitt vegna þess að tún dugðu með naumindum fyrir vetrarforða. Sauðfjárrækt hélt lífi í okkur Íslendingum fyrr á öldum, háð duttlungum náttúrunnar, en nú þykir torfkofabúskapur ekki smart."

Eftir að hafa búið í síðasta bænum í dalnum svo til heila mannsævi þá get ég ekki annað en tekið undir lokaorð Guðrúnar Arnbjargar og gert þau að mínum, þó svo að ég eigi ekki von á að á þau verði hlustað nú frekar fyrri daginn;

"Ég skora á íbúa sveitarfélaga og sveitarstjórnir landsins að vakna úr dvala, halda forsjá í heimabyggð og standa vörð um atvinnumöguleika á sínu svæði, auðlindir þjóðarinnar og hagsmuni okkar allra."

Ágæta greini Guðrúnar Arnbjargar má lesa í heild sinni hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Tær snilld þessi pistill hjá þér. 

Það er ljóst að þessi engisprettufaraldur umhverfissinna er orðinn hrein martöð.  Yfirtaka, vernda, ráða, friða.  Fyrir hverja?  Einhverja sem hafa enga yfirsýn, né eru þess umkomnir að sjá nokkurn skapaðan hlut í samhengi.

Ef landið er svona dýrmætt, ætti sveitarfélög, sem lenda í þessum umhverfistætara, að fá árlega sem svarar mánaðarlaunum umhverfisráðherra á hvern verndaðan hektara, til að sinna lögbundnu eftirliti og tilfallandi viðhaldi á sínu landsvæði.

Benedikt V. Warén, 7.1.2020 kl. 11:50

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þetta er snilldar pistill um opinbera umhverfisstefnu og þjóðgarða hjá Guðrúnu Arnbjörgu. Vegna þess að hann er nokkurskonar hugvekja og minnti mig á manninn með vasahnífinn, af einhverjum undarlegum ástæðum, þegar ég las hann.

Eins og flest hugsandi fólk veit, þegar það er vakið til vitundar, þá hefur "maðurinn með vasahnífinn" ekki notið sannmælis undanfarin ár hvorki hjá starfsmannastjóranum né mannauðsstjóranum, hvað þá fjárfestinum.

Og þegar við komum að sveitarstjórnum í hinum dreifðu byggðum þá virðast þær liggja kylliflatar fyrir kerfi, sem byggir á mörgum sviðsstjórum og jafnvel mannauðsstjóra við næsta borð.

Sumt af þessu fólki við skrifborðin er þar að auki komið með ritara. En "maðurinn með vasahnífinn" á helst að vera í ekki meira en 10-50% hlutastarfi einhvertíma á milli kl 9-5.

Magnús Sigurðsson, 7.1.2020 kl. 17:22

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Vandamálið í hnotskurn, eftir langa setu í háskólum, að ef hægt er að velja um einfalda, ódýra, hagkvæma lausn, sem virkað hefur í áraraðir þá þurfa þeir lærðu auðvita að sýna snilli sína og leysa málið á hinn veginn.

Maður veltir t.d. oft fyrir sér, hvers vegna er ekki hægt að byggja venjulegar brýr úr forsteyptum einuðingum, einskonar ríkisbrú, sem hægt er að kasta upp á nokkrum vikum, tilbúna fyrir umferð þegar hún er risin, í stað þess að eyða ómældu fjármagni í að hanna sérstaklega brú á hverja sprænuna af annarri.

Hvaða vit er í slíkum vinnubrögðum? 

Benedikt V. Warén, 7.1.2020 kl. 21:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband