Vanhugsaðar aðgerðir pappírspésa

Þeir kosta þjóðfélagið orðið stórfé vanhugsuðu sérfræðingarnir að sunnan, og þá sem fyrir þeim verða oft á tíðum lífsviðurværið um leið og æruna. Auk þess eru aðgerðir sérfræðinganna oft brútal villimennska.

Ef síðuhafa misminnir ekki þá var rollunum í meðfylgjandi frétt slátrað lambfullum, og nú er verið að dæma bændum miskabætur. Samkvæmt fréttum á sínum tíma amaði ekkert að rollunum en fjárhúsin stóðust ekki ýtrustu  reglugerðir, enda í snjóléttri sveit þar sem sauðfé hefur verið haft við opin hús í gegnum aldirnar.

Stutt er síðan frétt var af því að MATS var dæmt fyrir að taka Gæðakokka í í Borgarnesi, því sem næst af lífi, vegna kjötlausra kjötvara sem MATS sagðist hafa rannsakað 2013. Þetta gerðist í kjölfar þess að hrossakjöti hafði verið blandað í matvörur í stað nautakjöts úti í Evrópu og gátu sérfræðingarnir að sunnan ekki verið minni menn en kolleikarnir á Evrópska efnahagsvæðinu. Nú hafa Gæðakokkum verið greiddar 112 milljónir í bætur úr ríkissjóði vegna atvinnurógs.

Sumarið 2017 lét MATS skjóta hesta á færi í Hörgárdal vegna meintra vanhalda. Hestarnir lágu svo eins og hráviði dögum saman og blésu út í sumarhitanum. Það kom væntanlega stofnuninni verulega á óvart að eigandi hrossanna skyldi ekki hafa fyrir því að urða hræin eftir að MATS hafði svipt  hann forræðinu og séð um að losa hann við hestana. Þetta var með ljótari fréttum af dýraniði það árið.

Veturinn 2018 sendi MATS sveit vaskra manna til að skjóta sauðfé í Loðmundarfirði. Þessar kindur sem þar voru skotnar á útigangi voru svo látna liggja og úldna uppblásnar í vorsólinni. Stofnunin sá enga annmarka á því að skjóta rollurnar á einkalandi í leyfisleysi tófunni til dýrðar og það við eitt af stærstu æðarvörpum landsins, þar sem dúnn er nytjaður. Er nema von að fólk spyrji í forundran eru sérfræðingarnir að sunnan fábjánar.


mbl.is Dæmd til að greiða sauðfjárbændum bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það er ömurlegt að horfa upp á hin ýmsu embætti landsins hrauna yfir almenna borgara og fyrirtæki þessa lands. Ávallt er ekki nokkur einasta skepna innan óskapnaðarins dregin til ábyrgðar og látin taka afleiðingum gjörða sinna. 

 Helsta meinsemd nútímasamfélagsins eru steinrunnir, gagnslausir og eyðandi bjúrókratar andskotans, auk hugsjónageldra stjórnmálamanna, sem hika ekki við að draga niður menn, málefni og skynlausar skepnur, hvar sem til þeirra næst, því regluverkið er hið heilaga gral í augum þessara liðleskja.

 Möppudýr Andskotans, sem ávallt fá greitt fyrir sín störf, óháð árangri eða afköstum. Meira að segja verðlaunuð eftir starfslok, langt umfram þolendur gjörða þeirra.

 ´´The lowest of the low´´.

 Þakka góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 18.2.2020 kl. 22:01

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er alls ekki loku fyrir það skotið að "fálkinn á Bessastöðum"verði nældur í brjóstkassann á einhverju "möppudýrinu"; sem farið hefur fyrir "bírókratíinu", fyrir álíka árangur í starfi þegar kemur að starfslokum. Með kveðju suður.

Magnús Sigurðsson, 19.2.2020 kl. 05:39

3 Smámynd: Benedikt V. Warén

Þurfum við ekki að losa okkur við öll þessi kerfi og láta fyrirtæki og einstaklinga fá að þroskast í friði.

Það mundi klárlega auka hagvöxtinn.

Eins og þetta er orðið, virkar þetta á mann svipað og mafían, gegn greiðslu færð þú að starfa óáreittur.

Verst er að þetta kerfi er farið að taka of stóran hlut af fjárlögum, sem nýta mætti til annarra þarfari verkefna.

Benedikt V. Warén, 20.2.2020 kl. 11:43

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Nú ertu að misskilja málið eitthvað Pelli, -þetta kerfi er hagvöxtur.

Þó svo að blóðmjólka þurfi mjólkurkúna þá kemur það ekki í ljós fyrr en hún er dauð að það verður til "slaki í hagkerfinu" eins og er kallað nú um stundir.

Og þá er að blásið til innspýtingar "innviða" og með þeim verður að hafa eftirlit, þannig skapast svo aftur hagvöxtur.

þetta eftirlit þarf svo dauða mjólkurkýrin að borga. Það er ekki fyrr en hræið er horfið af yfirborði jarðar sem þetta kerfi er ekki lengur hagvöxtur.

"Þurfum við ekki að losa okkur við öll þessi kerfi og láta fyrirtæki og einstaklinga fá að þroskast í friði." Mæl þú manna heilastur.

Magnús Sigurðsson, 20.2.2020 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband