Tímana tákn

Við mágarni stóðum við gluggann á gamla bænum og virtum fyrir okkur snilldar handverkið á linolíum kíttinu sem hélt glerinu í gamla sex rúðu glugganum. Bærinn hefur nú verið gerður upp samkvæmt minjaverndarbókinni. Hinu megin við hlaðið er litla kirkjan og ástæðan fyrir veru okkar þarna sú, -að lokaþáttur útfarar systur og mágkonu var ný lokið í kirkjugarðinum.

Þessi útför hafði tekið hátt í hálft ár, enda tímarnir fordæmalausir,- engin faðmlög, ekki einu sinni hönd lögð blíðlega á öxl, heldur fólk á tveggja metra stangli innan um legsteinana í garðinum. Nýi ungi presturinn klæddur í fornfáleg svört messuklæði með hvítan pípukraga, blakti í hlýrri vestan golunni og fór fallega yfir ævihlaupið, sem hafði ekki verið dans á rósum.

Ásdís hafði ung flutt suður ásamt fjölskyldu, en henni hafði alltaf þótt það undur vænt um æskustöðvarnar að hvergi annarstaðar kom hinsti hvílustaður til greina. Hún greindist með krabbamein í byrjun árs, sjúkrahúslegan varð stutt. Nú var hún komin í nánd við frændgarðinn, -við fótskör afa og ömmu. Duftkerið hafði sonardóttir hennar komið með úr Reykjavík svo hægt væri að verða við síðustu ósk ömmu um legstað í helgri mold.

Á meðan presturinn fór með minningarorðin galaði haninn heima við bæ, grágæsirnar rufu kyrrðina með gargi sínu niður á leiru og heimalingarnir komu að kirkjugarðsgirðingunni að jarma til þessa ókunnuga fólks. Það fór því aldrei svo að Ásdís væri ekki kvödd af sveitinni sinni.

Þessi elsta systir Matthildar minnar hafði ferðast, fyrir nokkrum árum úr Reykjavík, með frænku sinni, þá á sjötugasta aldursári, á litlum sendibíl sem þær frænkurnar gistu í nótt og nótt við að njóta dásemda sumarsins á æskustöðvunum.

Með þessu ferðalagi kenndi hún okkur Matthildi hvernig best væri að njóta íslenskrar náttúru. Eina nótt í þessu ferðalagi gisti hún hjá okkur og sagði að bókaskápurinn okkar væri alltaf jafn áhugaverður, en í honum er að mestu safn austfirskra rita.

Við þremenningarnir við gluggann ræddum þarna þjóðmálin afturábak, en forðuðumst að ræða þau áfram. -Hérna voru hátt í 30 manns í heimili þegar ég fyrst man-; sagði Hilmar mágur, -nú búa tvær manneskjur um áttrætt ofan við veg.

Það eru reyndar bara orðnar leifar af vegi þarna uppfrá, ef vel er að gáð. Það er búið að flytja þjóðveginn út á fjörð og þannig búið að stytta þjóðveg eitt um nokkra kílómetra, -og loksins búið að leggja hringveginn allan með bundnu slitlagi. Þessi kafli á Berufjarðarleirunni var lokahnykkurinn.

„Hérna lá sennilega fyrsti þjóvegurinn um sveitina“ sagði mágur, og benti á hlaðið milli gamla bæjarins og kirkjunnar, inn tún og að gömlu brúnni við fjarðarbotninn. „Það var gaman að heyra hann Ásgeir heitinn lýsa því þegar bílvegur um sveitina var lagður; -heyrðir þið það aldrei hjá honum“. „Nei“ -þá sögu höfðum við ekki heyrt.

„Það var þannig að vegurinn átti að liggja niður í fjöru á Berunesi og þaðan átti að vera ferja yfir fjörðinn, en Hjálmar afi tók á rás inn fjörð á jarðýtunni sinni og kláraði fjárveitinguna án þess að fara niður í fjöru. Síðan fékk einhver, sem ég man ekki hver var, fjárveitingu úr sýsluvegasjóði að mig minnir, til að gera brú við Gautavík“.

„Þannig að vegurinn hélt áfram inn fjörð þegar næsta fjárveiting kom í þjóðveginn svo hægt væri að nota brúna. Anti á Berunesi og margir gömlu mennirnir urðu alveg ævir og sögðu að ef þetta ætti að halda svona áfram þá styttist í að sveitin legðist í eyði. -Svona var nú hugsunarhátturinn í þá daga.“

Ég gat ekki stillt mig um að spyrja, -þó svo að ég vissi svarið; -„og hvernig er staðan í dag?“

Ofanritað punktaði ég hjá mér í bók dagana 08.08.2020. Einn af okkur mágunum var ekki með í samræðunum við gluggann, sem annars var vanur að vera við á slíkri stund, -og hafði mest vit á vegagerð. Hann var nýkominn heim eftir 10 daga dvöl á sjúkrahúsinu á Norðfirði.

Þangað hafði hann verið fluttur þegar öll sund virtust vera að lokast, eiginkonan ekki fengið að fylgja honum í sjúkrabílnum og heimsóknir takmarkaðar á sjúkrahúsið vegna kóvíd reglna. En nú var Stebbi komin aftur heim í faðm fjölskyldunnar, og Nína bauð okkur í heimsókn.

Í heimsókninni ræddum við bæði heima og geima, Stebbi afsakaði fjarveru sína í nýafstaðinni jarðför Ásdísar, sem hann hafði verið við í upphafi útfarar í Reykjavík mörgum mánuðum fyrr. Ég sagði honum frá hananum, gæsunum og heimalningunum, hún Ásdís hefði verið kvödd með virktum í sveitinni sinni. Við ræddum m.a. framtíðina, sem Stebbi sagði að væri bara allt of stutt. En hann hafði barist í fimm ár af æðruleysi hetjunnar við krabbamein.

Þessi ár höfðu ekki verið neitt volæði veikinda. Hann hafði unnið flesta daga, sem fyrr, þegar heilsan leifði, við fyrirtækið sitt og farið í ferðalög um fjöll og firnindi i fríum með Nínu sinni, og systrum hennar, þar sem við svilarnir flutum með á góðum stundum. Örævi Íslands, Austfirðirnir, Grímsey og Færeyjar höfðu verið áfangastaðir undanfarinna sumra í ógleymanlegum ferðum.

Þegar ég kom vegalaus á Djúpavog kynntist ég Stebba og Nínu. Á Djúpavogi var ég fengin til að múra slökkvistöðvarbygginguna þegar ég var á ferð þar um, sem er beint á móti Ösp. Börnin þeirra Halla og Gunnar komu til að leika sér í sandhaug múraranna. Stebbi kom fljótlega og fékk þá til að múra húsið að utan fyrir sig og Nínu þar sem Anton svaf í barnavagni úti undir vegg.

Þegar við Matthildur mín rugluðum saman reitum nokkru seinna, í sumarbyrjun, þá kom Matthildur inn í Urðarteig til að sækja mig á 1. maí ball í Álftafjörð. Hún fékk Stebba og Nínu til að skutla sér að ná í gæjann. Síðan höfum við verið saman og ég ekki vegalaus á lífsins ævintýri.

Þeir eru margir vegirnir sem Stebbi hefur komið að í gegnum tíðina, og verður mér oft hugsað til þess þegar ég er á ferð um Klifbrekkurnar í Mjóafirði, Breiðdalinn, yfir Öxi eða Fossárvíkur leiruna, um Þvottár- og Hvalnesskriður eða Suðursveit. Og þessa dagana bruna rauðu MAN-arnir hans Stebba Gunnars um þessa vegi merktir "SG-vélar - Djúpivogur" með laxinn úr Berufirðinum í veg fyrir skip Norrænu.

Þau voru ekki ófá skiptin í gegnum tíðina sem Stebbi sagði „mér varð nú hugsað til þín þegar ég sá , , , hvort þetta væri ekki eitthvað fyrir þig?" Og er ég viss um að fleiri sem honum kynntust eigi svipað í minningunni, úrræðabetri manni er hæpið að kynnast um dagana. Meðan ég stóð í steypunni á Djúpavogi var Stebbi óbilandi hjálparhella, hann sá bæði um mölina og sementið.

Nokkrum dögum eftir heimsóknina í Ösp, núna í ágúst, fór Nína með Stebba sinn í aftursætinu í hinstu ferðina suður, með von um að hitta lækninn sem gæti gefið nokkrar samverustundir í viðbót með börnum og barnabörnum, sem búa nú öll á höfuðborgarsvæðinu.

Laugardaginn 10.10.2020 kvaddi Stebbi þetta jarðlíf, langt fyrir aldur fram, að morgni dags í faðmi fjölskyldunnar. Söknuðurinn er sár, það er mikil gæfa að hafa fengið að kynnast manni eins og Stefáni Gunnarssyni vörubílstjóra á Djúpavogi.

Í dag verður útför frá Garðakirkju í Garðabæ, og í Garðakirkjugarði mun Stebbi hvíla. Það fer vel á að útförin sé á sunnudegi, eina degi vikunnar sem Stebbi taldi frídag, -og að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að handvelja þá, sem hefðu viljað kveðja þennan mikla öðling, við dyr Djúpavogskirkju. Þannig birtast táknin í fordæmaleysi tímanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ágætur pistill að vanda Magnús.

Annars vakti línolíukíttið sérstaklega athygli mína. Það hefur nefnilega verið mitt uppáhalds efni eftir að hann Óli smiður nágranni minn kenndi mér á það í fyrra. Mikið dáindis kítti.

Þorsteinn Siglaugsson, 18.10.2020 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband