Þrjú áheit á Strandarkirkju

Það hæfir kannski ekki á trúleysis tímum að segja sögur af áheita kirkju suður með sjó. Mikið hefur verið heitið á Strandarkirkju í gegnum tíðina, og vegna þeirra er hún sögð ríkust allra kirkna á Íslandi. Sagt er að heitið hafi verið á kirkjuna í tengslum við alls konar erfiðleika.

Ætla mætti nú á tímum þyrfti maður að vera annað hvort örvinglaður eða trúgjarn, til að láta sér detta í hug árangur af slíku, þó ekki væri nema einu sinni. En þar sem ég hef verið hvoru tveggja þá ætla ég að segja frá þremur áheitum, og það ætti ekki að koma þeim á óvart sem eiga það til að líta inn á þessa síðu að Matthildur mín komi við sögu.

Veturinn 1986 vann ég við múrverk á byggingaráfanga öldrunardeildar heilsugæslustöðvarinnar á Egilsstöðum þar sem Baldur og Óskar sf voru aðalverktakar. Frá því í október fram í apríl bjó ég hjá afa mínum og nafna á Selásnum. Þar las ég þjóðsögur auk þess að fræðast af afa um gamla tíð.

Þennan vetur rakst ég á frásagnir af áheitum á Strandarkirkju í Selvogi. Sumarið áður hafði ég hitt Matthildi á balli á Djúpavogi og litist ljómandi vel á að kynnast henni betur. En vegna þess hvað ístöðulaus ég var gagnvart brennivíni var ég hræddur um að ég myndi klúðra málum nema að koma mér úr allri óreglu.

Það var þarna um veturinn sem mér datt í hug að heita á Strandarkirkju svo mér mætti auðnast að ná um Matthildi. Þegar ég kom í Berufjörðinn, eftir vetrarverkefnið, fór ég á ball á Djúpavog, Matthildur var þar og í sem allra stystu máli þá höfum við höfum verið saman síðan í meira en 35 ár og innan skamms verða einnig 35 ár síðan ég síðast bragðaði brennivín.

Sumarið 1993 vorum við Matthildur með börnin okkar í heimsókn hjá systur hennar og fjölskyldu í sumarbústað sem þau voru með í viku í Grímsnesi. Þetta sumar var afspyrnukalt á norður og austurlandi, og ekki var hlýtt í Grímsnesinu þó svo sólin skini.

Einn þessara daga var farið í Selvoginn og þá sá ég í fyrsta sinn Strandarkirkju. Fyrirtækið mitt Malland var á þessum tíma mjög illa statt. Margir sem töldu sig vita hvað til rekstrarhæfis heyrði, sögðu það gjaldþrota. Hvað mig varðaði þá vissi ég, að ef af gjaldþroti yrði þá töpuðum við Matthildur öllum okkar eignum.

Þar sem ég stóð í Strandarkirkju og minntist fyrra áheits, þá datt mér í hug að heita á kirkjuna um áframhaldandi lífdaga Mallands. Árið 1997 voru allir rekstrarörðuleikar fyrirtækisins úr sögunni, það skuldlaust og á eftir fóru einhver bestu ár sem við höfum átt fjárhagslega. Árið 2000 seldi ég Malland og við fluttum frá Djúpavogi til Reykjavíkur. 

Þegar við fluttu aftur austur í Egilsstaði árið 2004, stofnaði ég ásamt félögum mínum Múrberg, sem var með rekstur í múrverki. Stuttu seinna, ásamt örðum félaga, stofnaði ég Varberg sem hélt utan um fasteignir. Árið 2007 keypti ég félaga mína út úr rekstri Múrbergs og árið 2008 hrundi um allt Ísland. 

Við Matthildur höfðum gengist í persónulega ábyrgð við kaupin á Múrberg. Árið 2009 flutti félagi minn í Varberg til Noregs. Það fóru erfiðir tímar í hönd hjá okkur Matthildi föst í persónulegri ábyrgð vegna Múrbergs og skuldir Varbergs stökkbreytt erlend lán. Veturinn 2011 missti Matthildur heilsuna og ég var atvinnulaus.

Um vorið flutti ég til Noregs þar sem ég fékk vinnu hjá norsku múrarafyrirtæki. Þriggja ára tekjur í Noregi dugðu til að losa um persónulegar ábyrgðir og ég flutti aftur heim. En áfram voru mál Varbergs óleyst sem var svo sem í lagi heimilisins vegna. En í Varbergs eignunum var gullmolinn Sólhóll, -gamall dekurkofi leigður sem orlofshús, auk Salthússins þúsund fermetra aflagt fiskvinnsluhús, leigt út sem húsbílageymsla.

Árin eftir Noreg til 2016 voru vörðuð hjartaáfalli og fjárhagslegum vonbrigðum. Mér kom reyndar Strandarkirkja í hug til bjarga gullmolanum Sólhól, en þorði ekki að heita á hana einu sinni enn af ótta við að missa trúna. Þegar öll sund höfðu lokast hét ég enn einu sinni á Strandarkirkju ef það mætti verða til bjargar því að Sólhóll lenti í gini bankans. Þá kom óvænt símtal hvort hægt myndi vera að fá Salthúsið keypt og þá á hvað.

Salthúsið hafði verið auglýst hjá fasteignasölu í mörg ár, ásamt Sólhól. Ég skýrði út hvað kauptilboðið þyrfti að vera til að bjarga Sólhól, sem var ekki langt frá ásettu verði, -af sölu varð. Í öll þrjú skiptin sem ég hef heitið á Strandarkirkju var upphæðin svipuð, eða ígildi svipaðrar upphæðar, ca. 50.000 krónur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var afskaplega áhrifamikil lesning Magnús og dagurinn í dag er sérstaklega viðeigandi fyrir þessa bloggfærslu. En mér finnst þú gera lítið úr þínum eigin þætti í öllum þessum áheitum á Strandakirkju, en það er mín trú að Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir, þannig að til að koma málum í það horf sem þú vilt að þau séu þarft þú að vinna í þeim og það hefur þú gert, að mínum dómi.......

Jóhann Elíasson, 13.5.2021 kl. 12:46

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir Jóhann þetta góða innlegg. Ég tek heilshugar undir með þér að Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir. En það er erfitt að hafa trú á sjálfum sér sokknum í alkahólisma. Hvað þá að maður sé fær um að fara gegn fjármálaöflunum nýstiginn upp úr hjartaáfalli.

En það má segja að sama gildi varðandi þetta og spurninguna um alkaólismi, -þá hvort hann sé sjúkdómur eða aumingjaskapur. En segja má að alkahólismi sé aumingjaskapur sem stafar af sjúklegri þörf fyrir áfengi.

Maður verður í hvoru tveggja að nota þau meðul sem duga. Og það er trúin sem gefur fókusinn á að gefast ekki upp og gera það sem dugir í málunum, -þar kom Strandakirkja sterk inn.

Magnús Sigurðsson, 13.5.2021 kl. 13:44

3 identicon

S T R A N D A R K I R K J A

Bodvar Gudmundsson (IP-tala skráð) 13.5.2021 kl. 15:41

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er alveg sammála þér Magnús, menn verða að hafa trúna í liði með sér til að ná þeim markmiðum sem þeir ætla sér en menn verða að trúa því að þeir nái því sem þeir ætla og trúin á æðri máttarvöld getur aldrei gengið fullkomlega ein og sér sama hversu heit hún er og ég held að þessi saga þín staðfesti það,  Ég held að trú þín hafi gert þig staðfastari í að ná fram markmiðum þínum.......

Jóhann Elíasson, 13.5.2021 kl. 15:58

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir ábendinguna Böðvar, ég held að ég sé búin að leiðrétta þessa leiðu villu í fyrirsögninni og megin textanum, Strandarkirkja en ekki Strandakirkja.

Magnús Sigurðsson, 13.5.2021 kl. 17:41

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég held að við séum alveg sammála Jóhann. Trú er til einskis án staðfestu, -og gerða þess sem trúir. Rétt eins og frelsarinn benti á, -og margir fleiri hafa gert, "Guðs ríki er innra með yður".

Magnús Sigurðsson, 13.5.2021 kl. 18:15

7 identicon

Sæll Maggi.

Ég samgleðst þér vegna góðra málaloka á erfiðum tímum. Ég ætla ekki að gera lítið úr trú annarra á yfirnáttúrleg og æðri öfl. En í mínum huga eru þetta hindurvitni. Góð endalok erfiðra mála eru oftar en ekkí blanda af heppni og hreinum tilviljunum. Áheit eru gamall grunnur að peningaplokki kirkjunnar. Fyrr á öldum var hægt að kaupa aflátsbréf og fá í staðinn fyrirgefningu sinda sinna og örugga vist í himnaríki. Áheit eru önnur grein á sama tré.

Ég vona að þú takir þessu ekki illa, mín skoðun á alveg eins rétt á sér.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 15.5.2021 kl. 02:22

8 identicon

þarna átti að standa "..synda sinna".

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 15.5.2021 kl. 02:23

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir athugasemdina Óli, ég tek heilshugar undir með þér hvað þetta varðar.

En því verður ekki á móti mælt að með því að skýra fókusinn á hvaða niðurstöðu maður vill, þá kemst maður nær takmarkinu. Mörg andleg speki segir að maður hafi náð þangað sem maður ætlar um leið og maður hefur fundið það í hjarta sér og þetta veit ég að er satt.

Hvernig svo hver og einn fer svo að því að skýra þennan fókus er hjá flestum prívatmál. Hjá mér var það Strandarkirkja í þessi þrjú skipti og það eru einu skiptin sem ég hef heitið á eitthvað og alls ekki sjálfgefið að segja frá því á þennan hátt í bloggi.

Ég vil taka það sérstaklega fram að ég er alls ekki að hvetja til áheita hvorki á Strandarkirkju né nokkuð annað, heldur segja frá hvaða aðferð ég notaði til að ná fókus.

Magnús Sigurðsson, 15.5.2021 kl. 09:29

10 identicon

Láta hjartað ráða för. Eins og talað úr mínum munni.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 15.5.2021 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband