Paradísarfuglinn

Í dögun hvarf hún innum aðrar dyr

mig óraði ekki fyrir því sem skeði

en fyrren varði – fyrirgefiði

mér feimnina – hún gjörðist veik á geði

hún gjörðist veik

hún gjörðist veik á geði.

 

Þeir gáfu henni truntusól og tungl

og tróðu hana út með spesstöðluðu smæli

en hann sem vissi allt var ómálga

– afsakiði meðan að ég æli

meðanað ég,

meðanað ég æli

en paradísarfuglinn fló og gelti

mér finnst því líkast sem ég sé í svelti.

 

Loks kvað hún uppúr innri mann með sinn

og æpti: ég vil heim í hass og sýru – og basa

þeir glottu útað eyrunum í spíss

og önsuðu: þú hefur gervinýru – og vasa

þú hefur nefnilega fengið

risagervinýru – með vasa

og paradísarfuglinn fló og gelti

ég fíla mig eins og ég sé í svelti.

Höfundur Megas


mbl.is Þykir bréfið til Lilju stórfurðulegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Samkvæmt meðfylgjandi frétt leynir sér ekki að kosningar eru í grennd og styrkþegarnir því farnir að tjá sig um Samherjamál.

Um hvað þeir eru að tjá sig er álíka stórfurðulegt og bréfið til Lilju og engin veit ennþá hverja Samherji bað afsökunar.

Magnús Sigurðsson, 1.6.2021 kl. 20:33

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Sæll Magnús og nafni Megasar.

 

Megas útskýrði þetta lag fyrir mér sjálfur.

Ég sat við fótskör meistara Megasar um langt árabil, náði að kynnast honum persónulega, aðstoðaði hann við að búa til demó meðal annars. Ég spurði hann um tilurð fjölmargra laga og hann var fús að lýsa því í smáatriðum.

Hljómplatan "Á bleikum náttkjólum" varð til á annan hátt en hinar plöturnar þennan fyrsta áratug, sagði hann. Hann var með helling af ókláruðum lögum sem hann kom með í stúdíóið og kláraði þar, þetta var eitt af þeim. Yfirleitt var hann með allt útsett nótu fyrir nótu. Mér skildist á honum að samt hafi helmingur laganna verið fullkláraður "Á bleikum náttkjólum" áður en að upptökum kom.

"Paradísarfuglinn" var endurgerð og skrumstæling á ljóði eftir Davíð Stefánsson. Hann hafði sem strákur samið lag við eitt ljóðanna hans en þegar kom að plötugerðinni vildu Spilverksmennirnir að hann breytti laginu og hann var til í það. Hann endurorti texta Davíðs og gerði úr þessu skammarsöng um heilbrigðiskerfið, þannig að ljóð Davíðs varð næstum óþekkjanlegt á eftir. Svo breytti hann eigin lagi og sneið að nýja kvæðinu. 

Einhver áhrif á viðhorfin í ljóðinu hafði það að hann hafði lent á slysavarðsstofunni eftir slagsmál eða drykkju, en hann lýsti því ekki vel. Sá sem hlustar á lagið skilur ekki baksöguna því Megas nær glettilega vel að nota þannig orðalag að hægt er að túlka þetta á ýmsan hátt.

Síðan kom Valgeir Guðjónsson með sólóið og þar komu þessar hugmyndir um að búa til pönklag úr öllu saman, fyrsta pönklagið á íslenzku. Megas fylgdist vel með útlendri tónlist þá og Spilverksmennirnir líka.

Þetta lag sló í gegn og varð eitt af topplögunum hans. Snilldarverk, sérstakt og ferskt.

Ingólfur Sigurðsson, 2.6.2021 kl. 21:34

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þessar upplýsingar Ingólfur. Mér datt nú reyndar strax í hug heilbrigðiskerfið þegar ég heyrði þetta lag fyrst á sínum tíma, og þessa plötu eignaðist ég volga. Sennilega hefur það verið vegna risagervinýra með vasa.

Mér hefur þótt meistari Megas bera titilinn vel í gegnum árin og hef haft sérstakt dálæti á textunum hans. Það var gaman að fá að vita að þessi skuli eiga rætur í ljóði eftir Davíð Stefánsson.

Ég er sammál þér með það að textinn hefur mun víðtækari skírskotanir en bara í heilbrigðiskerfið. Mér datt þessi texti hreinlega strax í hug þegar ég las þessa frétt. 

Magnús Sigurðsson, 2.6.2021 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband