Herragarðurinn

1654927

Á miðju sumri 1912 kom biskupinn yfir íslandi, herra Þórhallur Bjarnason, úr yfirreið um Austurland. Segir hann frá því i blaði sínu, Nýju Kirkjublaði, 1. ágúst, að viða þar eystra, bæði á Héraði og í Fjörðum séu miklar framfarir. Eitt ber þó af að dómi biskups: Framkvæmdirnar í Vallanesi. Þar er presturinn, sr. Magnús Bl. Jónsson, búinn að byggja íbúðarhús, sem ólíklega á „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru."

Í annan stað telur biskup peningshúsin engu snilldarminni byggingu, öll úr steinsteypu í einni hvirfingu, þar í 1800 hesta hlaða. Í þriðja lagi nefnir biskup ræktunina, 12 dagsláttur nýplægðar í örreytis móinn, bíðandi, ásamt meiru, sáningar á næsta vori. Segir biskup, að sér hafi dottið í hug að hér væri i byggingu verulegur herragarður i fullri líkingu við herragarða í þjóðmenningarlöndum, „til gagns og sóma og fyrirmyndar lýð og landi”.

Segja má sem svo að steinsteypa hafi tekið við af torfi sem byggingarefni húsa víðast hvar í sveitum landsins fyrir meira en öld síðan. Nú er svo komið að sú byggingarlist er að hverfa af yfirborði jarðar með álíka hraða og torfbæirnir á fyrri hluta 20. aldarinnar.

Eins og einhverjir hafa áttað sig á þá hefur höfundur þessara síðu einstakt dálæti á steypu. Mér hefur því verið hugleikið, nokkuð lengi, fyrsta steinsteypta húsið sem ég kynntist, enda kannski ekki undarlegt þar sem ég var viðloðandi það hús fyrstu 10 ár ævinnar. En þetta hús heitir Jaðar og er í Vallanesi á Héraði.

Hér á síðunni s.l. vor var ótæpilega vitnað í Endurminningar sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, en það var einmitt hann sem byggði Jaðar í Vallanesi. Við lestur endurminninga sr Magnúsar hélt ég að mætti fá glögga lýsingu af þessi mikla byggingarafreki. Íbúðarhús og öll útihús eru steinsteypt á tímum sem þurfti að flytja sementspokana á hestum frá höfn við sjó yfir fjöll langt inn í land.

Að vísu stendur Jaðar skammt frá bökkum Lagarfljótsins svo vel má vera að eitthvað af byggingarefninu hafi verið flutt síðasta spölinn á bátum upp Fljótið. Ég var sem sagt með það í huga að fræðast um byggingarsöguna á Jaðri þegar ég las endurminningarnar og byrjaði á byrjuninni, því mér þótti rétt að kynnast manninum frá bernsku sem þetta afrek vann.

En viti menn! -eftir 700 síðna lestur var ekkert um uppbygginguna á Jaðri. Þetta er ekki vegna þess að sr Magnús hafi ekkert um hana skrifað, heldur vegna þess að þeir sem gáfu út endurminningarnar, árið 1980, ákváðu að stoppa við aldamótin 1900. Þó einungis 2/5 væru óútgefið, þá kemur fram í eftirmála, að þar hafi mest verið framkvæmdamál og minna áhugavert veraldarvafstur.

Einn frændi minn, sem heimsótti mig í sumar og ólst upp á Jaðri, sagði mér að vísu að í óútgefnu efni væri mun fleira en óáhugavert veraldarvafstur. Þar væri óþverrinn, auk uppbyggingarinnar á Jaðar. En útgefnar endurminningar sr Magnúsar sagði hann að væru einhverjar áhugaverðustu endurminningar sem hann hefði á ævinni lesið og það óútgefna væri örugglega ekki óáhugaverðara en það sem komst á prent.

Og get ég tekið undir það að endurminningarnar eru einstakar. Þær fara um mest allt land, frá Eyjafjöllum í Hrútafjörð, þaðan í Dali og norður í Ísafjarðardjúp, úr Djúpinu í Breiðafjörðinn þaðan til Reykjavíkur áður en þær enda snubbótt austur á Héraði. Einlægari og betur orðaðar frásagnir af lífi og störfum í íslenskum sveitum frá seinni hluta 19. aldar eru tæplega til á prenti.

Ég ætla samt að gera steypunni á Jaðri fátækleg skil hér á síðunni. Sumstaðar í endurminningunum komu fram örlitlar upplýsingar um uppbygginguna á Jaðri. Sr Magnús var með umdeildari mönnum á Héraði á sinni tíð og má kannski segja að svo hafi verið allt fram á daginn í dag. Allavega hefur nafni hans frekar verið haldið til hlés þegar framfaramála Héraðsins í upphafi 20. aldar er getið. Meira er um spaugilegar sögur honum tengdum.

Jaðar er nýbýli frá Vallanesi, formlega stofnað 1918, en farið að byggja upp á því íbúðarhús og útihús fyrr, eða á árunum 1909-1915. Stofnandi var sr Magnús Blöndal, og keypti hann landið, en seldi Kirkjujarðasjóði aftur við brottflutning árið 1925. Hann ræktaði mikið, byggði og bjó stórt. Býlinu fylgdi þriðjungur Vallaneslands og nær bæði austur í Grímsá og vestur í Lagarfljót.

Íbúðarhúsið er úr steinsteypu, stofuhæð á háum kjallara, portbyggt með 2 kvistum. Tveir steyptir veggir ganga þvert í gegnum húsið upp í hanabjálka sinn hvoru megin við kvistina. Stærð hússins er 13,70x9,60 m, vegghæð á kjallara 2,70 m, á stofuhæð 3 m og porthæð 1 m, en rishæð frá porti og upp í mæni 4,50 m. Á kjallara eru 14 gluggar úr járni, á stofuhæð 16 gluggar úr tré, á lofti 12 gluggar, og á hanabjálka 4 kringlóttir járngluggar og 6 þakgluggar. Útveggir í kjallara eru 14 tommur á þykkt, veggir ofan á kjallara 11 tommur og milli þverveggir 2,9 tommur.

Magnús Blöndal JónssonSéra Magnús Blöndal Jónsson kemur inn á það í endurminningum frá bernsku árum sínum hversu dýr séu skynug enda sat hann oft yfir kindum sem drengur. Þegar hann segir frá því hvers hann varð áskynja þar, tekur hann einnig sem dæmi hvernig talað var við dýr þegar byggingaframkvæmdir stóðu yfir á Jaðri

“Því læra börn málið að það er fyrir þeim haft, segir máltækið. Það þarf að tala við hundana og láta þá skilja hvað orðin tákna alveg eins og börnin. Og það er alveg ótrúlegt þeim, sem ekki hafa reynt, hve næmir þeir eru og fljótir að skilja. Áður var mér þetta alls ekki ljóst fremur en öðrum, þangað til ég þreifaði á af tilviljun, í Vallanesi, þá orðinn fjörutíu og sex ára gamall.

Þá var ég að byggja nýbýlið Jaðar. Aðal smiðurinn við bygginguna, sem var úr steinsteypu, var Guðmundur Þorbjarnarson múrarameistari. Lék hann sér að því, eftir mötun á máltíðum, að kenna dálitlum hvolpi nýsloppnum af spenanum ýmsar smá-hundakúnstir. Allt þetta gerði hann með því að tala við hvolpinn og lét hann jafnframt skilja hvað hann ætti að gera.

Þetta var þolinmæðisverk mikið fyrst í stað, meðan hvolpurinn var mjög lítill. En furðulegt var hve ört honum óx viska með aldri. Þegar Guðmundur var að finna að við hann, kallaði hann hvolpinn ávalt “Strák”, og það nafn festist við hann, enda hélt hann því meðan hann lifði. (Svo heldur Magnús áfram að segja frá málskilningi Stráks og hvernig hann fylgdi honum á ferðalögum) (I bindi bls 166)

Jafnvel nautheimsk nautin hlýða tali manna, ef þeim er kennt að skilja orðin. Þegar ég var að byggja upp hinar miklu steinbyggingar á nýbýlinu Jaðri í Vallanesi, var steypusandinum ekið neðan frá Lagarfljóti.

En leiðin var öll á fótinn og hallinn all-verulegur á kafla. Reyndist það ofraun dráttarhestunum mínum, vönum bæði vögnum og plógi, að draga kerruna þarna upp á móti nema með litlu sandhlassi, að hálfgerð verkleysa varð og allt of mannfrek. Hugkvæmdist mér þá það snjallræði að taka úr básnum þrévett naut, æfa það lítið eitt fyrir léttum drætti á nesinu utan við túnið, og setja það svo fyrir kerruna.

Var byrjað með léttingshlassi þó ekki minna en hestarnir höfðu dregið. Var svo smá þyngt á bola. Á þriðja degi ók hann fullri kerru sands. -En þá var hann jafnframt orðin fullæfður í því, að hlýða orðunum: “Fram – Bakk – Hægri – Vinstri.” Aldrei þurfti að blaka við bola með svipu eða keyri. Fleira var ekki reynt að kenna honum. Vinnan var einhæf. Þess þurfti ekki. (I bindi bls 170)

Það má segja að þessar fátæklegu upplýsingar um málskilning dýranna séu þær einu sem segja frá uppbyggingu mannvirkjanna á Jaðri. Ef ekki kæmu til nokkrar setningar þar sem séra Magnús fer yfir viðhorf mótstöðumanna til sín. En Magnús mátti búa við klofinn söfnuð alla sína presttíð í Vallanesi og var meir að segja fríkirkja reist á þeim árum að Ketilsstöðum gegnt Vallanesi.

Þegar sr Magnús gerir grein fyrir því viðhorfi, sem forkólfar fríkirkjusafnaðarins höfðu til hans, segir hann frá heimsókn sunnanmanna á Austurland, sem tóku land á Djúpavogi og fóru landveg á Seyðisfjörð í veg fyrir strandferðskipið, til að kynnast Héraðinu. Þeir stoppuðu á Ketilsstöðum og höfðu orð á stórhuga uppbyggingu prestsins í Vallanesinu á Jaðri og fannst mikið til koma, enda blasir Vallnesið við af hlaðinu á Ketilsstöðum.

Þar kom til tals að presturinn hlyti að vera mikill verkmaður því þeir hefðu heyrt að hann hefði vinnufólk, sem öðrum hefði líkað miður, en hefði jafnvel meira en full not fyrir við fleira en búreksturinn. Þá sagði Gunnar Pálsson stórbóndi á Ketilsstöðum; “Það er ekki svo mikið. Þetta er maður sem tekur allstaðar tvo peninga fyrir einn”. Ferðamennirnir spurðust einskis frekar um framkvæmdirnar á Jaðri. (II bindi bls 191).

Séra Magnús virðist sjaldan hafa notið sannmælis sem Guðs maður á Héraði ef marka má almannaróm. Þessi vísa um hann ber þess merki að hann hafi hins vegar þótt slunginn  viðskiptamaður.

Mikið er hvað margir lofa hann,

menn, sem varla hafa séð hann,

skrýddan kápu Krists að ofan,

klæddan skollabuxum neðan.

Heimilisfólk á Jaðri, Magnús og Guðríður efst

Heimilisfólk á Jaðri í tíð sr Magnúsar Blöndal Jónssonar. Hann og Guðríður Ólafsdóttir Hjaltested, seinni eiginkona, fyrir miðjum dyrum í efstu röð 

Þó svo að upplýsingarnar séu svo að segja engar um það hvernig sr Magnús byggði mannvirkin á Jaðri í útgefnum endurminningum, sem hann lét eftir í handriti af sér gengnum, þá geta þær samt sem áður Guðmundar Þorbjarnarsona múrarameistara. Guðmundur var Akurnesingur tengdur sr Magnúsi fjölskylduböndum. Hann var í Vallanesi þar til sr Magnús fór þaðan.

Guðmundur Þorbjarnarson stóð fyrir mörgum stórbyggingum víðsvegar á Austurlandi, og gat sér hið besta orð fyrir, sá m.a. um múrverk Húsmæðraskólans á Hallormsstað sem byggður var árið 1929. Eins er Guðmundar minnst á Akranesi, þar var hann fengin til að standa fyrir byggingu steinsteyptrar stöplabryggju, sem var byggð í Steinvör árið 1907. Það þótti vanda verk á þeim tíma að steypa í sjó.

Útihúsin á Jaðri voru í tíð sr Magnúsar 26,46x13,86x5,4, að stærð, sumt á tveimur hæðum. Ris 3 m. Í öðrum enda fjárhús á gólfi fyrir 320 fjár; í hinum endanum haughús á gólfi með fjósi og hesthúsi yfir á steinsteyptu gólfi, sem hvíldi á járnbitum. Fjósið tók 14 nautgripi, en hesthúsið 15 hesta. Jötur og básar og skilrúm steypt úr vandaðri sementssteypu með vatnsleiðslu. Við enda þessa húss – við haughúsið – er steypt safnþró 12,6x2,1x3 m, sami veggur undir báðum húsum.

Sagt er að gestkomandi manni hafi eitt sinn verið sýnt fjósið og hann hafi haft á orði, að kýrnar væru smávaxnar. Séra Magnús sagði það sjónhverfingu, þær sýndust litlar, vegna þess að fjósið væri svo stórt. -þær sýndust þá víst ekki stórar undir berum himni; svaraði gesturinn. Til eru fleiri en ein útgáfa af því hverjum er eignað gesthlutverkið, enda hafa kannski fleiri en einn viljað eigna sér orðsnilldina.

Árið 1952 fauk fjósið og var ekki byggt upp aftur, heldur rifið, og á eftir varð hlaðið grasi gróið á steypunni norðan við íbúðarhúsið. Það sem áður var gólf fjóssins varð á eftir flatt torf þak yfir hesthúsi og geymslu þar sem áður var haughús. Ný fjós komu í þess stað. Þau hús voru byggð af tíðarandans toga, en árið 1939 hafði jörðinni og byggingum verið skipt í Jaðar I og II, nýju fjósin og hlöðurnar við þau voru voru að mestu bárujárnsbraggar.

IMG_0427

Íbúðarhúsið og útihúsin á Jaðri. Framan við útihúsin, á milli þeirra og íbúðarhússins, stóð fjósið sem fauk, með haughúsinu og safnþrónni undir, sem glittir í á myndinni

Eins og ég sagði hér að ofan þá var Jaðar eitt fyrsta húsið sem ég kynntist og þar gæti ég þess vegna hafa tekið fyrstu sporin. Björg Jónsdóttir amma mín var eiginkona sr Sigurðar Þórðarsonar, aðstoðarprests sr Magnúsar Blöndal Jónssonar, þess prests sem sameinaði söfnuðinn á Völlum eftir deilur og daga sr Magnúsar.

Björg amma varð ung ekkja á Jaðri, tveggja barna móðir, og réði þá til sín ráðsmann, Magnús Jónsson afa minn, þau gengu fljótlega í hjónaband. Amma og afi bjuggu á Jaðri til ársins 1970, amma þá búin að búa þar í 45 ár og afi í 35 ár. Þó svo að ég hafi oft komið í Jaðar í huganum síðan, þá hefur það aldrei verið nema í draumi sem ég hef gengið þar um gólf í rúma hálfa öld.

Eins og kom fram hér að ofan var Jaðri skipt í tvíbýli árið 1939. Íbúðarhúsið skiptist þannig á milli ábúenda þegar ég man; að amma og afi höfðu hálfan kjallarann og stofu hæðina. Rúna og Þórir höfðu vestari helminginn af kjallaranum og portbyggða efri hæðina ásamt hanabjálkanum.

Þetta þættu ábyggilega svolítið sérkennileg húsakynni að búa við í dag. Stofu hæðin samanstóð af risastóru eldhúsi, búri, salerni, einu löngu svefnherbergi og þremur stórum stofum auk kontórs með innmúruðum peningaskáp. Lofthæðin 3 metrar, semsagt hátt til lofts og vítt til veggja.

Efri hæðin var svo með svefnherbergum og vistarverum sem ætlaðar voru vinnufólki herragarðs með um 30 manna áhöfn. Aðal inngangurinn tilheyrði efri hæðinni og var þar nánast eina rýmið þar sem íbúðarhlutarnir sköruðust lítillega. En ef farið var fram á kontór þurfti að fara í gegnum forstofuna hjá Rúnu og Þóri. 

166217867_1405555819796047_1056103947019118680_n

Magnús Jónsson, afi minn, með Sigurð föður minn, sem fæddist á Jaðri eins og öll börn ömmu og afa. Feðgar (Áskell bróðir og Sigurður) við innganginn fyrir framan eldhúsglugga ömmu. Þó svo að aldrei hafi verið handriði á þessum útitröppum fara engar sögur af slysum þeim tengdum, -amma sá til þess. En öryggiskröfur við nýbyggingar í dag myndu krefjast þess að úrbætur yrðu gerðar hið snarasta

Inngangurinn hjá afa og ömmu var framan við eldhúsgluggann þar sem komið var upp tröppur og gengið inn í bíslag, en inngangurinn í kjallarann var undir dyrapallinum. Fyrst var komið inn í litla forstofu áður en komið var inn í stórt eldhús. Eldhúsið var fyrir miðju húsi við norður hlið. Innangengt var úr eldhúsinu inn á náðhús og niður í kjallara. Austan við eldhúsið var langt og mikið búr þar sem voru bæði skilvinda og strokkur auk annarra gamalla áhalda til matargerðar.

Inn úr eldhúsinu lá leiðin í borðstofu við miðja suðurhlið, sem hafði tvo glugga, borðstofan var notuð til að sofa og sem setustofa en á hátíðum sem borðstofa, nóg pláss var dags daglega við stórt eldhúsborð í eldhúsinu. Í suð-austur horni hússins var betri stofa með tveim gluggum til suðurs og einum í austur. Inn af henni, í norð-austur horn hússins, var svefnherbergi með norður- og austurglugga, sem lá samhliða eldhúsbúrinu, það var kallað langalína.

Úr borðstofunni í vestur voru stórar dyr yfir í stofu, sem var í suð-vestur horni hússins, jafnstór betri stofunni og með sömu gluggasetningu. Þessa stofu notuðu amma og afi sem svefnherbergi á sumrin. Þar höfðum við barnabörnin rúm inni hjá þeim, enda yfirleitt afkomendur í sumarsveit á Jaðri í minni bernsku. Úr þeirri stofu voru dyr í norður yfir í forstofuna fyrir efri hæðina hjá Rúnu og Þóri. Úr forstofunni voru svo dyr inn á kontórinn í norð-vestur horni hússins. Þar var bókasafnið, ásamt mörgum árgöngum af Vikunni í innmúruðum peningaskáp, sem hafði að geima ævintýri Skugga og Gissurar Gullrass. 

IMG_0410

Jaðar á fardögum vorið 1970. Myndin er fengin úr Morgunnblaðsgrein, sem upphafsorð pistilsins eru sótt til

Sr Magnús Blöndal var ekki alinn upp við glæsileg húsakynni, það kemur vel fram í endurminningum hans. Bernskuna hafði hann búið við kröpp kjör í torfbæjum víða um land.  Síðan fá ár í Reykjavík eftir að hann varð fullorðinn, áður en hann fluttist austur á Hérað. Hann kom sem prestur í Þingmúla í Skriðdal, en segir í endurminningunum að Vallanes hafi orðið örlögagavaldurinn í hans lífi. Hann lýsir húskynnunum á Þingmúla og telur þau þá hafa verið dæmigerðan húsakost á Héraði.

Húsaröðin austur að hlaðinu var þá þessi: Syðst austurhlið baðstofunnar, torfveggur og torfþekja, með fjórum gluggum niðri og fjórum uppi, þá bæjardyraþil með dyrahurð og litlum glugga yfir, og loks skemmuþil með tveimur gluggum niðri og einum uppi. Á bak við og vestan við þessi þrjú hús var svo búr, eldhús og fjós, og innangengt í öll frá vesturenda bæjardyra. Voru það hlunnindi fyrir mjaltakonur á vetrum að þurfa ekki út til mjalta, og fyrir alla yfirleitt að hafa innangengt á náðhúsið. En það var fjósflórinn. Þannig var þessu fyrir komið um allt Hérað, eða víðast. (Um húsaskipan í Þingmúla 1891 II bindi bls 141)

Náðhúsið á Jaðri er mér minnistætt, það var rúmgott með handlaug og postulínsklósetti á gólfi. Bali var notaður til baða og við krakkarnir sett upp á stórt koffort til þerris eftir bað. Tíminn var notaður í skeinispappír enda færður í reikningi í kaupfélaginu hvort sem hann var lesin eða ekki. Hátt fyrir ofan klósettið, ca 3m upp undir lofti, var vatnskassi úr postulíni og rör úr honum niður í glósettskálina. Niður úr vatnskassanum hékk keðja með hnúð á endanum, sem tekið var í til að sturta niður.

Úr klósettinu lágu svo rör niður í kjallara og út á hlaðið neðanjarðar, niður í þró innan við haughúsið, sem hafði verið undir fjósinu sem fauk, þangað flaug Tíminn með öllu saman þegar togað var í keðjuna og sturtað niður. þar fyrir framan var grasið grænast og okkur krökkunum strax innprentað að láta þau strá í friði. Þetta fyrirkomulag hefur vafalaust verið eitt það nýstárlegasti á Héraði á sínum tíma og hefði verið gaman að vita hvað gestinum, sem sá litlu beljurnar í fjósinu, hafi þótt um tæknina.

Útihús Jaðar

Útihúsin; safnþró og haughús næst þar sem fjósið sem fauk var ofan á. Fjárhús þar fyrir utan. Fjærst t.v. á mynd sést í fjósið hans afa, steinsteypt með torfþaki og glittir í bragga þar fyrir aftan en í honum var heyhlaða. Fjósið hans Þóris á Jaðri II sést ekki á myndinni það var í bragga utan við fjárhúsin. Hlaða og votheysgryfjur sjást ekki heldur, þær eru aftan við fjárhúsin

Að geta sér þess til hvers vegna sr Magnús Blöndal Jónsson byggði þennan herragarð í búsældarlegu Vallanesinu væri efni í mun lengri pistil, en sennilega má allt um það finna í óútgefnum endurminningum. Jaðar, sem tvíbýli, var engin kostajörð sem slík. Hús stórt og óhentugt til íbúðar, ásamt því að útihús voru í belg og biðu. 

Geta má sér til, þegar  hugmyndin kviknaði að herragarðinum, að þá hafi verið tímar mikilla þjóðfélagsbreytinga á Íslandi, þegar sveitir landsins breyttust úr torfi í steypu. Þá hafi sr Magnús séð fyrir sér stórbúskaparhætti herragarða að erlendri fyrirmynd þar sem margt fólk hefði lífsviðurværi og endastöð, enda voru hvorki atvinnuhorfur né almannatryggingar annarstaðar að hafa en í sveitinni.

Samhliða lestri Endurminninga sr Magnúsar Blöndal Jónssonar togaði Jaðar mig til sín, og gekk ég í sumar frá Vallanesi niður að Jaðri. Þar standa enn uppi flestar þær byggingar sem sr Magnús byggði auk þeirra sem bættust við þegar fjósið fauk, flestar þær sem uppistandandi voru árið 1970.

Það væri mikið verk og kostnaðarsamt að endurreisa steinsteypt útihús herragarðsins á Jaðri, en vel þess virði sögunnar vegna. Glæsilegt er íbúðarhúsið og sómir sér vel. Enn þann dag í dag, ber það vitni um stórhug, -sem á sínum tíma átti sér ólíklega „nokkurn maka að hugvitsamlegu og meistaralegu fyrirkomulagi í smáu og stóru" -allt úr steypu.

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

IMG_1280

Íbúðarhúsið á Jaðri sómir sér vel rúmlega aldar gamalt. Húsið samsvarar sér einstaklega vel þrátt fyrir stærð. Heildar gólfflötur hússins, -að með töldum hanabjálka, er um 400 m2. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt, sá sem teiknaði m.a. Húsavíkurkirkju, á að hafa heimsótt Vallanes um það leiti sem hugmyndir að Jaðri voru í býgerð, en sr Magnús mun hafa ráðið um útlit og skipulag húsa

IMG_1287 (2)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér enn einn frábæran pistilinn um sögu lands og lýðs. Mikil synd er það að enginn sjái sér og öðrum hag í að endurbyggja þetta glæsilega mannvirki.

Með kveðju.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 27.11.2021 kl. 08:58

2 identicon

Sæll Magnús. Þórhallur biskup var BJARNARson, faðir hans var séra Björn í Laufási.

Önnur útgáfa var svo gerð af þessari vísu: Mikið er hve margir lof'ann/að ofan /Menn sem varla hafa séð hann/að neðan. 

Ég veit ekkert hver setti þetta saman, né heldur man ég hvar ég sá það.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 27.11.2021 kl. 17:13

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitin og athugasemdirnar, Sigurður og Ingibjörg.

Sigurður; vissulega væri gaman ef einhver hefði bolmagn og nennu til að endurbyggja þessi miklu mannvirki og hugmyndaflug til að koma þeim í gagnið fyrir land og lýð. Af framkvæmd sr Magnúsar hefur engu ennþá verið tortímt af öðru en tímanum og náttúruöflunum. Að mörgu leiti er það eitt og sér alveg einstakt.

Takk fyrir ábendinguna Ingibjörg. Ég sé að  Þórhallur biskup var Bjarnarson sonur sr Björns frá Laufási. Ég tók þetta upp eftir Morgunnblaðsgreininni sem upphafsorðin eru tekin úr og sé nú að þar hefur þetta misritast.

Varðandi vísuna þá gæti allt eins verið að sú útgáfa sem þú ert með sé sú upprunalega og svo hafi hún verið yfirfærð á sr Magnús með nokkurra orða viðbótum. Það hefur engin gengist við höfundarréttinum að því að ég best veit, en Guðmundur Hagalín taldi sig vita hver höfundurinn væri.

Magnús Sigurðsson, 27.11.2021 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband