Fjallagrös, auðrónar og dánumenn

IMG_3716

Í gær var ríki Ratcliffs heimsótt, farið fram í heiðanna ró eða þannig. Eins og landslýður væntanlega veit þá hefur auðmaður eignast stóran hluta norðausturlands, keypti m.a. hlut í lögheimili forseta alþingis á sínum tíma. Segja má því að um nokkurskonar utanlandsferð sé að ræða.

Ferðin var farin til fjallagrasa og dagurinn tekin snemma, rétt eins og þegar farið er í Leifsstöð. Eins og ég hef komið inn á hér á síðunni þá erum við hjónin komin í sumarfrí og heiðanna ró heillar okkur bæði því eru þessar fjallagrasaferðir orðinn árlegur hluti sumarfrísins.

Í ríki Ratcliffs er nóg af bæði heiðum og fjallagrösum, enda hefur hann ekki legið á því að hann ætlar að eignast land á vatnasvæði villta Atlantshafs laxins norðan Vatnajökuls. Íslensku suðfé á sömu slóðum til sárrar gremju og fer því ört fækkandi þessi árin.

Suðandi flugurnar trufluðu til að byrja með í lognstilltri fjallakyrrðinni, þannig að tekin var pása og farið út Vopnafjörð að Gljúfurárfossi. Svo undarlega hefur viljað til að þar hafa verið einungis örfáir erlendir ferðamenn á sama tíma og við síðustu ár, aðallega þýskir Norrænu farþegar.

Mér hafði því leikið forvitni á að vita hvort hugsanlega eitthvað fleira trekkti erlenda ferðamenn að á þessar slóðir, annað en Hellisheiðin, Gljúfurárfossin og stórbrotin norðurströnd Vopnafjarðar. Komst svo að því þegar ég las um Þorstein uxafót Ívarsson í þeim slitrum sem enn eru til úr Vopnfirðingasögum að hugsanlega væri fleira áhugavert að skoða á ströndinni neðan við foss.

Þegar hafgolan og austfjarðaþokan tóku að svífa inn Vopnafjörðinn héldum við aftur til fjalla í grösin, laus við flugaur í heiðar golunni sem blítt blés um kinn. Það er fátt betra en búa sér ból í heiðanna ró og leggjast upp í loft á milli þúfna og fá sér miðdegislúr við mófugla söng.

Þegar við töldum okkur hafa tínt nóg af fjallagrösum í hafragrautinn næsta árið héldum við aftur niður í dali Vopnafjarðar í ríki Ratcliffs þar sem heimamenn standa vart lengur upp úr trénuðum túnunum, fórum út Hofársdalinn austanverðan.

Þar keyrðum við fram á virkjunarhús sem sprottið hefur upp eins og gorkúla á mykjuskán. Vatnsrörin lágu í bunkum á áreyrunum og einungis á eftir að umsnúa Þverárdal með stórvirkum innviðjarðýtum til að koma þeim fyrir svo hægt verði að fara framleiða raforku fyrir Guð má vita hvern.

Þetta ku víst vera samtarfsverkefni Rarcliffs og stórfjölskyldumeðlima fjármálaráðherra við að vernda villta Atlantshafs laxastofninn á vatnasvæðinu norðan Vatnajökuls og kallast þá Arctic Hydro.

Ekki höfðum við áhuga á að skoða gorkúluna á mykjuskáninni frekar en hallarbyggingu auðrónans í vesturhlíðum Vesturárdals þar sem austantjaldinum hefur verið staflað niður í gámum ásamt verkfræðingum Íslenskum aðalverktaka og einum gámi af lögfræðingum svo heimamenn fái hvílt í friði í trénuðu túnunum.

Skömmu áður hafði ég snarstoppað enda steypa neðan við veg þannig að ég snaraðist með myndavélina út úr bílnum. Ég sagði Matthildi minni að þarna væru sennilega menningarverðmætin Guðmundarstaðir, æskuheimili Hrannar fyrrverandi sveitunga okkar á Djúpavogi, -og aftur nú í sameinuðu Múlaþingi.

Ég klofaðist yfir gaddavírinn á meðan Matthildur beið upp við veg og efaðist um að ég hefði rétt fyrir mér hvað stað og stund varðaði, hvað þá að þennan stað ætti ekki nokkur lifandi sála. Þarna óð ég puntinn í trénuðu túnunum til að ná myndum af steypu áður en hún hyrfi ofaní svörðinn.

Þegar heim var komið stóð allt eins og stafur á bók, Guðmundarstaðir voru það þó svo að ég hafi aldrei komið þarna áður þekkti ég þá, svo vel hafði Ómar Ragnarsson gert fólkinu á þessum bæ skil á síðustu öld, gott ef það var ekki upphafið á hans mesta afreki.

Þó svo að ég hafi aldrei fyrr séð Stikluna hans Ómars í sjónvarpi þá var það mikið um hana rætt að ég var aldrei í vafa um að þarna hefðu búið þeir dánumenn, sem vissu að skuldlaus kemur þú í þennan heim og skuldlaus skal stefnt á úr honum að fara, það sem umfram er hvort eð er bara til leiðinda fyrir eftirlifendur á hvorn veginn sem fer.

 

IMG_3723

Byggingasaga til sveita; timburhús byggt við torfbæinn, steypt hús byggt við timburhúsið, nýtni í hávegum höfð öld fram af öld. Skildu innfluttu krosslímdu mygluhjallarnir endast betur?

IMG_3730

Meir að segja sementið var drýgt með stórum steinum, svo kölluðu púkki

 

IMG_3736

Þekjan á nýjustu viðbyggingu íbúðarhússins hefur verið einangruð með torfi sem hengt er upp með gaddavír

 

IMG_3737

Húsaþyrpingin að Guðmundarstöðum

 

IMG_3746

Það verður sennilega hvorki réttað sauðfé né slegin tún í bráð á kotbýli auðrónans

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dásamlegur pistill og snilldar Stikla.

Gott væri RÚV að endursýna Stiklur Ómars.

Til einhvers væri það þá.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 12.7.2022 kl. 09:21

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Skemmtileg frásögn.

Birgir Loftsson, 13.7.2022 kl. 00:30

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur athugasemdirnar Símon Pétur og Birgir.

Tek undir að það má gera Stiklum Ómars Ragnarssonar hærra undir höfði, þó svo að ég horfi ekki á sjónavarp og oft ekki á Stiklurnar hans Ómars fyrr en mörgum áratugum seinna.

Þær eru kannski ekki alltaf neitt sérstaklega almenn heimild um veröld sem var, en sína oft einstaklinga með annan vinkil á veröldina og annan hugsanahátt.

Ómar náði utan um það hjá Guðmundarstaðafólkinu að það notaði minni orku í að búa til umbreytta orku en flestir aðrir bændur og skuldaði þar af leiðandi minna og hafði meiri tíma fyrir sjálft sig.

Þetta er umhugsunarvert í allri orkusóun nútímans, þegar á að byggja heilu vindmylluakrana úr innfluttum efnum sem hafa verið flutt langar leiðir til landsins.

þetta hefur nú þegar raungerst í byggingaiðnaðinum, þar sem innlendum efnum er hafnað af tíðarandanum, með húsum sem hvorki hæfa  landinu né endast, -hvað þá að þau séu umhverfisvæn. Kannski er það bara fyrir misskilning sem fólki finnst fínna að puða í ræktinni en við skapandi vinnu. 

Í dag yrðu kannski einangruðustu sérvitringarnir taldir vera þeir sem ekki eru með snjallsíma og ekki kæra sig um internetið með öllum sínum orkufreku gagnaverum sem taka gríðarlega orku í það eitt að geyma ljósmyndir fólks af löngu liðnum sólsetrum sem engin á eftir að hafa gagn af né skoða.

Internetið er fyrir löngu orðið umhugsanavert fyrirbæri. Bæði hvað það gerir fyrir mannlífið með tilliti til sóunarinnar sem því fylgir, og ekki síður persónulegs frelsis fólks.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2022 kl. 08:08

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Stórgóð frásögn.  Það hefur hvergi komið fram hver RAUNVERULEGUR tilgangur Ratcliffs er með þessum kaupum á landi er þarna á Norðausturlandi........

Jóhann Elíasson, 13.7.2022 kl. 10:00

5 identicon

Dýralæknirinn sagði í gær að nú ætti að byggja "öruggt húsnæði", 35.000 íbúðir.  

Dýralæknirinn vill greinilega "byggja betur" fyrir 500.000 manna "samfélag".

Framsóknarflokkurinn "að lyfta þeirri svörtu"?

Veistu annars hvað Dýralæknirinn á Animal Farm á við?

Og hvaða tungumál verður talað í því "samfélagi"?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.7.2022 kl. 10:05

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hvort sem tilgangur Ratcliffs er góður eða vondur þá breytir það ekki því að þetta er gamalmenni sem á sér ekki fleiri ævidaga að meðaltali en það fólk sem lifað hefur og starfað á Norðausturlandi í gegnum aldirnar.

Það er nýlunda í Íslandsögunni að land sé selt erlendum aðilum. Landið sem auðrónar hafa keypt er skráð á hin og þessi félög. 

Ratcliff hefur auðgast á að vera í forsvari fyrir félag, sem er sérhæft í orkuöflun með aðferð, sem kallast fracking og var aðferðinni gerð skil í heimildarmyndinni Gasland.

https://www.youtube.com/watch?v=dZe1AeH0Qz8

Hann hóf verndun villta Norður Atlantshafs laxastofnsins í Skotlandi með gríðarlegum landakaupum. En eftir að hann komst að því að laxinn er á Íslandi hefur hann staðið í málaferlum við skosk stjórnvöld vegna þess að þau setja hömlur á landnotkun.

Ætli bújarðir séu ekki ennþá bújarðir fyrir bændur í Skotlandi, þrátt fyrir auðróna.

Dýralæknirinn og hans líkar byggja íbúðir þessi misserin með handabandi eins og engin sé morgunndagurinn. Ekkert er lengur að marka þessi handabönd og pennastrik.

Þetta er allt gert í samstarfi við fjárfesta sem hafa aðgang að sjóðum almennings og lofast til að panta CE vottuð hús á netinu.

Halda að það nægi að flytja inn einn og einn gám af austantjöldum með öllum hinum gámunum til að reisa hús.

Íslensk verátta sér síðan til þess að þetta eru orðið að mygluhjöllum áður en húsin komast í notkun.

Svo eru það síðustu Móhíkanarnir, á við mig, sem skrifa upp á herlegheitin, innlenda regluverksins vegna, og halda í hendina á umkomulausum austantjaldinum, því ekki má hengja bakara fyrir smið.

Allt er orðið yfirfullt af fábjánum með frábærar hugmyndir á landinu bláa, sem vantar bara hendur til að framkvæma.

En þetta er að verða alþjóðlegt vandamál þannig að ég er ekki viss um að austantjaldurinn selji sig á slikk mikið lengur, gott ef hann ekki hirðir húsin af landanum með frábæru hugmyndirnar í næstu kollsteypu og allir sættist á að tala hroðalega ensku.

Magnús Sigurðsson, 13.7.2022 kl. 11:38

7 identicon

Takk fyrir kjarngott svar. 

Tek undir orð þín, heils hugar. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.7.2022 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband