Helvíti fyrr og síðar

Það er nokkuð síðan að kirkjan hætti að prédika helvíti opinberlega barnanna vegna, en þá tók kolefniskirkjan boðskapinn upp á sína arma. Nú fara þeir með himinskautum, sem vilja að venjulegt fólk verði skattlagt fyrir að draga andann, gott ef þeir eiga ekki eftir að þjóta einhverja hringi í kringum hnöttinn með kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu í viðleitni sinn í að koma á neyðarástandi til tekjuauka fyrir stjórnmálamenn og auðróna.

Þegar svona árar er ágætt að líta í gamlar heimildir, -jafnvel í þjóðsögur. Því helvíti hefur yfirleitt verið í Langtíburtukistan nema svo óheppilega vilji til að það sé á staðnum. Árni Magnússon sagði í Chorographica Islandica, að um 1640 hafi verið vegur frá Hoffelli í Hornafirði upp í Fljótsdalshérað. Hafi það verið stíf dagleið, en á hans tíma hafi jöklar lokað leiðinni. Þessi frásögn, þótt ósennileg sé, fær þó styrk í Droplaugarsona sögu. Enn í dag lokar Vatnajökull leiðinni og skriðjökull sem heitir Hoffellsjökull.

Það er til Þjóðsaga um Hornafjarðafljót, -og er hún svona:

Hornafjarðarfljót koma úr jökli þeim er kallaður er Heiðnabergsjökull. Falla þau niður miðjan Hornafjörð og eyddu þau þar bæi marga er þau hlupu fram. Segir sagan að þar hafi áður verið fögur sveit og þéttbýl. Jökullinn hljóp um nótt og var fólk allt í svefni. Fórust þar allir og engu varð bjargað, hvorki mönnum né skepnum. Sópuðu fljótin gjörsamlega öllu, bæjum og húsum og því er í var, og fylgdi þar grassvörðurinn með. Þurrkaðist þannig sveitin öll í burtu og þótti það mikil sjón og ógurleg um morguninn er menn sáu vegsummerki.

Þrem árum síðar var smali á ferð niður við ósinn á fljótinu. Hundur var með honum og nam staðar við þúfu eina á sandinum. Smalinn ætlaði að halda áfram, en rakkinn flaðraði upp um hann og hljóp ýmist að þúfunni og rótaði í henni snuddandi eða að smalamanni. Smalamaður gekk þá að þúfunni og vildi vita hvað um væri. Heyrði hann þá gelt niðri í henni. Reif hann þá til og fann þar stúlku eina og hund hjá henni. Hún hafði þar verið síðan hlaupið varð og hafði húsið sem hún var í haldið sér og sandorpið. Hafði hún fundið þar vistir margar og því hafði hún getað lifað. Smalamaður fór nú heim með fund sinn, og þótti þetta merkilegur atburður og þykir svo enn í dag.

Finnist einhverjum þjóðsagan um Hornafjarðafljót helst til ótrúleg þá má þetta finna í ferðabókum Kålund:

Sé haldið inn Nesjasveit, er komið að prestsetrinu Bjarnanesi (Njála) um mílu vegar frá fjarðarmynni, en á bakka Eystra fljóts, en margar hjáleigur allt í kring. Eystra fljótið skilur Bjarnanes frá Skógey, sem fyrr var nefnd og er nú næstum gróðurlaust sand- og hraunsker, en sagnir herma að upphaflega hafi verið þar frjósöm ey með 18 bæjum. Sýslulýsing frá síðustu öld segir að þar hafi enn sést tóftir og gamlir grjótveggir húsa. Af máldögum mætti ef til vill draga að þar hafi eitt sinn verið kapella. Sennilega hefur eyjan beðið mikinn hnekk við skyndilega breytilegt vatnsmagn Fljótanna, mikinn vöxt, stíflun óssins, jökulhlaup ofl. Sóknarlýsingar Bjarnaness segja frá jökulhlaupum eða skyndilegu og óreglulegum vexti vatnsmagnsins, sem einkennir Hornafjarðarfljótin eins og aðrar jökulár. (Íslenskir sögustaðir IV- Kristian Kålund bls 58)

Í sóknarlýsingu sr Magnúsar Bergsonar frá árinu 1839 fyrir Stöðvarsókn í Stöðvarfirði má lesa eftirfarandi um veðurfar á hans tímum:

Hafís kemur hér þráfaldlega en þykir aldrei góður gestur, stundum kemur hann seint á góu, stundum á einmánuði, um og eftir sumarmál, og stundum seinna, en því fyrr hann kemur því skemur liggur hann hér við land. Komi bráð norðvestanveður öndverðlega á vetri en liggi í norðanátt og norðaustrum þegar á hann líður, þykja líkindi til eftir því veðráttufari að hafís komi á vorinu og það reynist ogsvo oft. Meðan hafís er í reki er loft oft sífelldlega hulið gráu þykkni og hrein sólskin gefst þá mjög sjaldan; um það bil eru og stöndugir norðaustan þræsingar og ýmist norðanveður með kófi og frosti, regn kemur þá mjög sjaldan úr lofti. Af þessu leiðir að jörðin skrælist upp og gróður hindrast, ýmisleg óhollusta fylgist með honum er fyrir verkanir sínar, einkum á sauðpeningi, í hvörn að detta ýmsir sjúkdómar, aflleysi, útbrot og fleira sem almennt er kölluð hafísplága, en þegar hafís er orðin landfastur, búinn að fylla firði og víkur, þá reynist það oft að tíð stillist og mildast og jafnvel koma þá mildar rigningar og loftvarmi. (Sýslu- og sóknarlýsingar Múlasýslur bls 450)

Nú segja prédikarar kolefniskirkjunnar að vá sé fyrir dyrum um allt Langtíburtukistan það sé að breytast í hamfarahlýnunarhelvíti, nú þegar hafi hlýnað um 1,2 gráðu frá því að séra Magnús í Stöðvarfirði upplifði hafísinn þráfaldlega, en Stöðfirðingar hafa nú verið blessunarlega lausir við landsins forna fjanda frá því 1968.

Hækki hitastig í heiminum um gráðu í viðbót, samkvæmt loftslagsvísindunum, verður það svipað og á landnámsöld, það nálgast nú óðfluga það sem var á Sturlungaöld, -og ekki vill fólk það er það, þó réttast væri að hver fengi að eiga sitt helvíti án þess að þurfa að borga sérstaklega fyrir að draga andann.


mbl.is „Á hraðri leið til loftslagshelvítis“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Fólk hefur löngum trúað því að þjáningar í þessu lífi færi það nær himnaríki

Hér áður stunduðu margir meinlætalifnað = líf í þjáningu, jafnvel sjálfspíningu, gjarnan í þágu trúar.

Vandamálið með þessa loftlagspostula er að þeir vilja endilega láta aðra þjást meðan þeir  þeysast  milli matarboða um allan heim á sínum einkaþotum

Grímur Kjartansson, 7.11.2022 kl. 20:16

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ég held að þú sért nánast alveg komin með þetta Grímur, auk þess sem meinlætablætið er til staðar, -á bara að bíta aðra og gefa aur. Það eru tækifæri í þessu segja vindmyllu verkfræðingarnir.

Magnús Sigurðsson, 7.11.2022 kl. 20:28

3 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Góðar greinarnar þínar Magnús Sigurðsson. 

Þú flettir upp í heimildunum og opnar okkur nýja sýn. 

Gangi þér allt í haginn. 

Egilsstaðir, 08.11.2022 kl. 01:15  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 8.11.2022 kl. 01:16

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir góð orð í minn garð Jónas, heimildanna er ekki leitað langt út fyrir hólinn og myndu kannski flestir kalla heimsku.

Við höfum ekki hugmynd um hvað er að gerast Langtíburtukistan nema fyrir ritskoðaða medíuna og þegar ég sá að þotuliðið í Sharm El-Sheikh var að fræða heimsbyggðina um mannskæð flóð í Pakistan þá datt mér þetta í hug með þjóðsöguna um Hornafjarðarfljót.

Það er eitthvað svipað með góða veðrið eins og sólskinið að ef er meira af því á einum stað þá er minna á öðrum og því best að njóta þess á meðan er, allavega langar manni lítið til að veðurlýsing séra Magnúsar í Stöðvarfirði 1839 verði niðurneglt í sviðsmynd spálíkansins sem hið eina og sanna veður.

Magnús Sigurðsson, 8.11.2022 kl. 07:53

5 identicon

Þjóðkirkjan er reyndar aftur farin að boða tortímingu á jörðu og heimsslit. Og það er vissulega framundan. En nú er orsökin ekki lengur synd mannsins gegn Guði heldur synd mannsins gegn jörðinni. Nú er markmið Þjóðkirkjunnar að menn bjargi jörðinni með því að iðrast synda sinna gegn jörðinni.

Kirkjuþing Þjóðkirkjunnar samþykkti 25. október s. l. að gera Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (The Global Goals) að LEIÐAVÍSI ALLS STARFS, tvinni þannig sjálfbærni og réttlátri framtíð í alla starfsemi.

Í samþykktinni er ekki minnst á Biblíuna, vilja Guðs, eða Hans handleiðslu.

Hér hefur Kirkjuþing Þjóðkirkjunnar ákveðið að hefja boðun á nýju fagnaðarerindi. Í Galatabréfinu 1:8-9 stendur : En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður. Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.

Heimsmarkmið Kirkju Krists er að boða Fagnaðarerindið öllum þjóðum um alla jörð. Lúkasarguðspjall 2:10-11: Engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 8.11.2022 kl. 13:56

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir upplýsingarnar Guðmundur, mér var ekki kunnugt um þetta. Það eru vissulega heimslit framundan, ef þau eru þá ekki þegar orðin, því það er svo að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvenær nýr veruleiki tók við.

Má þar t.d. nefna að peningakerfi heimsins er byggt á skuldum. Þess vegna er auðvelt að trúa boðskap WEF að innan skamms muni einstaklingurinn ekki eiga neitt en samt vera hamingjusamur, -fjárhagslega, sem byggir jú á aðgengi hans að skuldum, nú keyrt sem sosial cretid score í Kína, en hefur verð prufukeyrt undir nafninu greiðslumat á vesturlöndum.

En ég fæ ekki betur séð, samkvæmt þessum útlistingum þínum, en þjóðkirkjan viðurkenni að hún sé orðin rammheiðin, -hafi jafnvel tekið landvættina í dýrlingatölu. Sjálfur hygg ég að margir séu í þjóðkirkjunni af sömu ástæðum og Ögmundur, -vilja að orgelið sé lagi við jarðaförina.

Magnús Sigurðsson, 8.11.2022 kl. 16:16

7 identicon

Það er ágætt að vísindaheimurinn skuli gera sér grein fyrir að hækkandi hitastig á jörðu er að mestu manninum sjálfum að kenna og erfitt er að snúa til baka ef hitastig verður óbærilegt á mörgum stöðum í heiminum.Ef mörg svæði verða óbyggileg af þeim sökum myndi það valda miklum flóttamannstraumi til kaldari svæða hnattarins og einhvern veginn finnst manni að það séu vandamál sem ollið geta ágreiningi og vandræðum hjá leiðtogum þjóða. Kirkjan gerir ekkert í málunum,hún hefur ekki einu sinni almennilegan skilning á því hvernig lífið er eftir dauðann.Sjálfur hef ég trú á því að við andlát fari maðurinn í andaheim og síðan fari sálin annaðhvort til himnaríkis eða heljar allt eftir hvernig breytni hans og hugsun hefur verið á jörðinni,maður getur ímyndað sér að kremlverjaleiðtogar fari til heljar.Hvað verður um þá sem illa hafa gengið um jörðina með tilheyrandi mengun eða ofríki verður hver og einn að líta í eigin barm,og hugsa hvort eitthvað hefði mátt gera betur í umgengni sinni um náttúruna sem hlýtur að vera sköpun guðdómsins eins og mannsins sjálfs.Er ekki manninum nauðsynlegt að ganga vel um það náttúrufyrirbæri sem jörðin er og hann hefur fullkomin yfirráð yfir til afnota og lífsviðurværis,en virðist ganga um eins og enginn sé morgundagurinn.  

Sigurgeir Árnason (IP-tala skráð) 8.11.2022 kl. 18:56

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér góða athugsemd Sigurgeir, -ég held að ég geti tekið undir þetta allt með þér, -nema þá kannski aðferðafræði þeirra veðurvísinda sem notuð eru í sviðsmynd spálíkansins.

Í sumar ákvað ég að fylgjast með Bresku hitabylgjunni, þar sem metin féllu, enda var hún vel auglýst. Það var samt hvergi hægt að sjá metin falla á Windy, -vefnum sem ég hef til að skoða veðrið í heiminum.

Skýringin var einföld "Þetta veðurfar er algjörlega fordæmalaust. Við höfum aldrei áður séð slíkar hitatölur í reiknilíkönum okkar" sagði Penelope Endersby, forstjóri Veðurstofu Bretlands.

Ef staðirnir eru skoðaðir þar sem hitametin féllu þá eru það staðir sem ekki hafa verið notaðir fyrr en kolefniskirkjan tók yfir hitamælingar, s.s í tíbrá malbiks á flugvöllum, skjólgóðum görðum stórborga og jafnvel gróðurhúsum.

Ég hvet þig til að kynna þér þessa meðfylgjandi frétt á Vísi, -einfaldlega gúggla staðina sem standa fyrir metunum sem féllu á Bretlandi í sumar og eru gefnir upp af Met Office.

https://www.visir.is/g/20222288650d

Sóun og illri umgengni um náttúruna á að sjálfsögðu að stöðva og verður þar hver að líta í eigin barm eins og þú bendir réttilega á, besta aðferðin til þess er t.d. að stemma stigu við flækingi.

Það eru engin teikn á lofti um að það standi til að minka ferðalög um jörðina enda gera hagkerfi heimsins orðið út á vilja fólks til flækings. Og postular kolefniskirkjunnar skapa m.a. fordæmið með því að kalla eftir enn meiri vöruflutningum og sóun á auðlindum jarðar.

Magnús Sigurðsson, 8.11.2022 kl. 20:56

9 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Fékkstu leyfi hjá Umverfisráðherra fyrir færslunni?

Guðjón E. Hreinberg, 12.11.2022 kl. 22:46

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Mér láðist það nú Guðjón, hann var í formannsslag þegar ég laumaði þessu inn, nú er bara að vita hver eftirmálin verða.

Magnús Sigurðsson, 13.11.2022 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband