Var Kólumbus sömu ættar og Íslendingar?

Sú saga hefur lengi verið á kreiki að Kristófer Kólumbus hafi komið til Íslands áður en hann rambaði á Ameríku. Vísindavefurinn hafnar þessum sögusögnum nánast sem innistæðulausu þrugli. Svo er aðrir sem telja að til séu skjalfestar heimildir fyrri því að Kólumbus hafi komið í aðdraganda Ameríku uppgötvunar sinnar.

Í Velvakanda Morgunnblaðsins 1974 skrifar Skúli nokkur Ólafsson athygliverða grein um aðdraganda Ameríkufundar Kólumbusar og rökstyður hvað hann telur sannast hvað þetta varðar.

Ég fékk ábendingu um þessa grein fyrir nokkrum vikum síðan og þótti hún benda á stórmerkilega sögu, sem talsvert er til í, þó svo að Kólumbus sé látin liggja á milli hluta.

Ég hef samt ekki, þrátt fyrir eftirgrennslan, komist að því hver Skúli Ólafsson er eða hvort hann hafi látið fleira frá sér fara sem komist hefur á prent. Kannski þekkir það einhver sem þetta les?

- 0 - 0 - 0 - 0 - 0 - 0 -

 Kólumbus hinn norræni

Suðurgöngur til Rómaborgar og Jerúsalem Vesturlanda (Santiago de Compostella á N—V Spáni voru mjög algengar m.a. sem aflausn fyrir brot. Þegar páfastóll var fluttur frá Róm í byrjun 14. aldar og leiðin lokaðist til landsins helga, óx straumur pílagríma til Compostellu m.a. frá Norðurl.

Konungsstjórn lauk í Noregi 1384, þá fór Ólafur konungur, sonur Margrétar drottningar til Danmerkur. Hirðin i Noregi varð að draga saman seglin, m.a. var sent skip til Íslands með nær níu tugum manna, en það festist í hafís við Austfirði, og fórust allir. Andlát Ólafs konungs 1387 kippti fótunum undan sjálfri hirðinni í Noregi.

Margir ráðamenn úr Björgvin eru komnir til Rómar 1388 og falla þar í ófriði, sem Napólímenn gerðu á hið endurreista páfariki í Róm (endurreist 1378 i óþökk Frakka, Napólí o.fl. Verzlun dróst svo saman í Noregi, að til Íslands komu 11 skip, en 3 voru fyrir. Meira vín kom til Íslands, en menn mundu fyrr.

Björgvin var rænd 1393 af þýzkum málaliðum Albrikts Svíakonungs, sem þá var i fangelsi I Danmörk. Það, sem hinir þýzku komust ekki með frá Björgvin, sökktu þeir i sjávardjúp, en höfðu brottu skip og akkeri. Eftir ránin i Björgvin komu fjögur skip til Íslands 1393, eitt í Tálknafjörð, þ.e. Cristóforussúðin og er Kraki þar formaður.

Maður með sama nafni er trúnaðarmaður Oddaverja 1259. Halldór Cristóforusson mun einnig hafa komið út að Cristóforussúðinni, en öll skipshöfnin tók þátt i aðför að Birni Einarssyni i Vatnsfirði, sem var talsmaður Margrétar drottningar. Flestir Íslendingar þ.á.m. starfsmenn við hirðina í Noregi, hafa talið Ísland laust allra mála við konungsstjórn, eftir dauða Ólafs (gamli sáttm).

Björn Einarsson kom árið eftir með 100 manna liði vel vopnuðu yfir Glámujökul og fékk sjálfdæmi í máli uppreisnarmanna þ.á m. Halldórs Cristóforussonar, sem hlotið hefur útlegðardóm, en landvist undir konungs miskunn. Halldór hefur verið í vörzlu Bjarnar i Vatnsfirði e.t.v. til 1406, en þá fór Björn og kona hans til Rómar og líklega Halldór með þeim.

Vefnaður á stórbúum eins og Vatnsfirði var í stórum stíl, og hefur Halldóri verið haldið að þvi verki þar. Björn Einarsson, nefndur Jórsalafari, þar sem hann komst til landsins helga á skipi frá Feneyjum, kom frá Grænlandi 1387 eftir 2ja ára dvöl þar. Í þeim leiðangri voru 4 skip og má reikna með að Zeno-bræður hafi verið þar þátttakendur. Þeir voru frá Feneyjum trúlega frændur Carlo Zeno, sem vann stórsigur á flota Genúu 1380.

Leiðin um Miklagarð til Krím var enn lokuð Feneyingum, en Krím var ein mikilvægasta miðstöð fyrir verzlun Feneyinga við Austurlönd. Zeno-bræður hafa átt að kanna norðlægar slóðir i von um að ná sambandi við Krím og Austurlönd framhjá ríki Miklagarðskeisara. Björn hefur trúlega haft samband við Antonio Zeno I Rómarferð sinni (sbr. kort A. Zeno).

Eftir Jórsalaferðina fór Björn til Compostellu og lá þar veikur hálfan mánuð, og þar hefur Halldór Cristóforusson orðið eftir. Dóminico, faðir Cristofóro Colombo var vefari, heitinn eftir spænskum dýrlingi, og synir hans skrifuðust á, eingöngu á spænsku með latínuslettum (mistakes in Latin).

Colombo virðist dregið af Columba dýrling, sem var kunnur á íslandi frá landnámstíð og auk þess var Kolumbamessa 9. júní tiðkuð hér, en Columba var bannfærður og það gat vakið grunsemdir rannsóknarréttarins á Spáni, og orðið til þess, að Dominico Colombo yrði að flýja Spán.

Sögusagnir eru um, að Kolumbus hafi gengið í skóla í Vigo skammt frá Compostellu, en hann fór í siglingar 14 ára gamall. Þegar Kólumbus kemur til Spánar er hann búinn að breyta nafni sínu í Collon (sbr. Kollr, þ.e. Sæmundur fróði, forfaðir Oddaverja) og síðan i Cristobal Cólon til aðlögunar við spænskuna.

Magnús berbeinn og Oddaverjar

Bartholomeusmessa var Oddverjum minnisstæð vegna þess, að Magnús berbeinn konungur, forfaðir þeirra, féll í Ulster á Bartholomessudag 1103 og Hákon Hákonarson, sem einnig taldi sig afkomanda Magnúss berbeins, miðaði herför sína við Bartholomessudag, sjálfsagt i minningu hins mikla herkonungs. Ferdinand, sonur Kólumbusar, aðalheimildarmaður um hann, sagði, að faðir sinn hafi verið af aðalsættum.

Það má til sannsvegar færa ef átt er við Oddaverja afk. Cristoforuss Vilhjálmssonar riddara (d. 1312) og eins fullyrðir Ferdinand, að faðir sinn hafi komið til Íslands (1477) en það draga margir í efa, en hinsvegar kom Halldór Cristóforusson, sem ég tel föðurföður Kólumbusar til Íslands.

Synir Dominico Colombo vefara voru Barthholomeo (1445—1514)?) Diego 1450—, Christofóro 1451—1506. Nöfnin Bartholomeo og Christoforo hafa e.t.v. verið valin til minningar um Oddaverja og Magnús konung berbein, en Diego er nafn aðaldýrlings Spánar, Jakobs postula, sem hvílir i Compostellu.

Ferdinand er heitinn eftir Spánarkonungi. Konungsnöfn voru tíð hjá Oddaverjum, og augljóst er, að Kólumbus hefur í samningum við Spánarkonung viljað fá fulla viðurkenningu sem aðalsmaður, og engu líkara er, en að Kólumbus telji sig vera að semja við jafnréttháa aðila.

Tilefni þessa bréfs

Grein í Mbl. 28/2 er tilefni þessara skrifa. Þar er því haldið fram, að Ísabella og Ferdinand hafi verið vinveitt Gyðingum. Staðreyndin er sú, að allir Gyðingar og Márar voru reknir frá Spáni á stjórnarárum þeirra eða voru brenndir eins og Wiessenthal minntist á. Spánverjar hafa nú gefið málamyndaleyfi fyrir Gyðinga í Tyrklandi til að flytjast til Spánar, en þeir verða að framvisa óyggjandi sönnunargögnum fyrir, að forfeður þeirra hafi verið reknir frá Spáni 1492.

Fæstir Íslendingar, sem eru manna fróðastir í ættfræði, geta lagt fram skjöl um forfeður sina um 1492. Einföldustu staðareyndum er neitað þegar Suðurlandamenn ræða um „fund" Ameríku t.d. Fanfani.

Grænland er landfræðilegur hluti Ameríku eins og eyjar þær, sem Kólumbus sigldi til 1492. Siglingar frá Evrópu (Noregi) til Grænlands stóðu óslitið í 4 aldir 986—1387, en lögðust niður þegar Noregur varð hjálenda Danmerkur 1387.

Margir skipaeigendur ekki síður en ráðamenn úr Björgvin hafa þá flutzt til Suðurlanda, sem voru mönnum kunnugust næst föðurlandinu vegna pílagrímsferða. Compostella á Spáni og einnig Sevilla var Norðmönnum mjög hugstæð þar sem Hákon Hákonarson gifti Kristínu dóttur sína þangað 1257.

Pinzon (Finnsson?) voru kunnir skipstjórar af úthafssiglingum m.a. til Kanaríeyja, Pinzon-bræður lögðu Kólumbusi bæði til skip og reynda sjómenn, að það er mjög athyglisvert, að úthafssiglingar Portúgala og Spánverja hefjast upp úr 1400, eða svo skömmu eftir að Noregur missir sjálfstæði sitt, en frá Noregi einum voru úthafssiglingar fram að 1387.

Ráðamenn úr Björgvin voru margir hverjir athafnasamir útgerðarmenn, komu ekki til Noregs eftir Rómarferð 1388 og þó að sumir hafi fallið í Róm, gat eins verið, að þeir hafi ekki farið heim, eftir að Noregur varð hjálenda Danmerkur.

- 0 - 0 - 0 - 

Svo mörg voru þau orð Skúla Ólafssonar í Velvakanda 4. mars 1974.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Magnús, góð grein og áhugaverð eins og alltaf.

Tókst að koma mér á óvart :)


Nota bene, ég held að það hafi verið Björn Þorsteinsson sagnfræðingur sem taldi líkur á að Kólumbus hafi komið til Ísland 1475 eða 1477 með Englendingum og frétt af landi í vestri. Svo þarf að kempa bókasafn Páfagarðs, hefur einhver Íslendingur gert það? Hvað vissu Íslendingar um vesturheim á síðmiðöldum og deildu með öðrum Evrópubúum? Hvað vissu evrópskir menntamenn um Ísland?  Held að margur Íslendingurinn hafi farið til Rómar á miðöldum, fleiri en við vitum um.

Birgir Loftsson, 16.12.2022 kl. 18:11

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Birgir, og þakka þér fyrir þessar upplýsingar.

Þú hefur örugglega mikið til þíns máls með að fleiri Íslendingar hafi farið til Rómar fyrr á öldum en kunnugt er um, og vissulega væri gagn og gaman ef einhverjir íslenskir sagnfræðingar glugguðu í skjalasafni Páfagarðs með íslenska Vínlandssögu að leiðarljósi.

Mér sjálfu hefur alltaf þótt Björn Jórsalafari Einarsson og Solveig Þorsteinsdóttir í Vatnsfirði vera einstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Þau voru sögð hafa verið tvö ár á Grænlandi og hafa efnast stórlega á þeim hrakningi, svo rækilega að þau þurftu að gera grein fyrir því í Noregi og Björn svo með Suðurgöngu.

Þeirra ferðalag vestur um haf og ríkidæmið eftir heimkomu minnir óneitanlega á ferðalag þeirra Guðríðar Þorbjarnardóttir og Þorfinns karlsefnis Þórðarsonar. Guðríður og Þorfinnur kaupa Glaumbæ að eftir að heima var komið og Björn og Solveig Vatnsfjörð fyrir metfé, svo ekki sé nú minnst á Suðurgöngu Guðríðar til páfagarðs í Róm í því samhengi.

Thor Heyerdahl sagði við útkomu bókar sinnar og Per Lilleström, Ingen grenser, hafa séð mikið af efni í skjalasafni Páfagarðs sem segir frá ferðum norrænna manna vestur um haf.

Magnús Sigurðsson, 16.12.2022 kl. 18:49

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Magnús. Ég skrifaði ritgerð um Björn í háskólaum á sínum tíma. Mér fannst og finnst maðurinn áhugaverður með eindæmum.

Hér kemur smá fróðlegur um kappann:

Björn Jórsalafari Einarsson var af yfirstéttarfólki kominn.  Móðir hans, Grundar-Helga varð fræg, vegna þess að hún var talin hafa staðið fyrir drápinu á Smiði Andréssyni hirðstjóra en það er ósannað.  Hún var barnsmóðir Einars, föðurs Björns,  en ekki eiginkona.

Kona Bjarna var Solveig Þorsteinsdóttir en ekki Ólöf Loftsdóttir eins og síðari tíma menn töldu. Synir þeirra hjóna, Þorleifur og Einar urðu báðir hirðstjórar á Íslandi.  Forfeður og niðjar Bjarna voru hinir mestu höfðingjar og höfðu mikil áhrif á Íslandssöguna.

Til var reisubók eða ferðabók um ferðir Bjarna erlendis og var hún enn til um 1580-1590, en glataðist síðan.  Síðari tíma ágrip úr bókinni eru að uppruna komin frá Jóni lærða sem hafði séð hana í æsku. Til eru samtímaheimildir um ferðir Bjarna.

Björn fór að minnsta kosti tvisvar til Rómar og einu sinni til Jórsala.  Ekki er hægt að fullyrða að hann hafi farið þrisvar sinnum eins og síðari tíma ágrip úr reisubókinni staðhæfa.

Aðeins er vitað um að Björn hafi farið einu sinni með hernað á hendur öðrum höfðingja.  Þá lenti honum saman við Þórð Sigmundsson, höfðingja á Núpi.  Tilefni deilna og átaka þeirra á milli er ókunnugt en líklegasta skýringin er að þeir hafi deilt um jarðir.  Björn tapaði bardaganum við Þórð en sigraði hann síðar með tilstyrk æðstu valdsmanna Íslands, sem voru jafnframt vinir hans.

Björn var stórhöfðingi og gegndi um hríð hirðstjóraembætti í fjarveru Árna biskups Ólafssonar og hafði einnig sýsluvöld.  Hugsanlega var hann riddari að nafnbót, a.m.k. hélt hann sig að hætti riddara, hafði um sig hirð og sveina.  Hann var því mjög háður konungsvaldinu um upphefð og frama en líklega urðu honum drýgri tekjurnar af sjávarútvegi en umboðum eins, og Björn Þorsteinsson heldur fram.

Ókunnugt er hvenær Björn lést en giskað hefur verið  árið 1415.

 

Birgir Loftsson, 16.12.2022 kl. 20:04

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það er margt sem bendir til þess að Kólumbus hafi verið af Genóvískum ættum, en hvort hann sigldi hingað veit ég ekki. Hitt er ljóst að hann og bróðir hans voru viðurkenndir kortagerðamenn og sem slíkir er næsta víst að þeir grúskuðu í öllu sem slíku viðkom.

Genóvísar voru ekki síðri siglingamenn en t.d. Feneyingjar og Hansakaupmenn og sterk tengsl voru á tímum Máraríkisins við bæði Genóvesana og Feyingana.

Mesópótar, Tyrkir og Persar (MTP) iðkuðu á þessum tíma mikil vísindi og mörg vísinda Endurreisnarinnar í Flórens voru í raun afrit frá Andalúsískum akademíum sem Ísabella og Ferdínand sendu til DeMedici í Flórens, en sá alræmdi banki sem er hugsanlega enn til, fjármagnaði yfirtöku þeirra á Íslömskum hluta Spánar.

Þeir sem líta út fyrir þýfis- og áróðursvísindi Endurreisnarinnar komast að raun um að MTP vissu vel af kortum sem sýndu bæði Azoreyjar og stóran hluta Karabíska hafsins ef ekki allan Mexíkóflóann. Vitað er að Cherokee menn á suður Nýja-Englandi hafa fönískt blóð, að fönikíumenn voru allsráðandi í Íberískri menningu frá því fyrir daga Rómarveldis og að arfur vísinda þeirra og siglingafræði var þekkt þar fram á daga Ísabellu.

Þá er margt sem bendir til þess að Kólumbus sjálfur hafi verið af Sephardim ættum, þ.e. Spænskra gyðinga sem ýmist voru neyddir til kristnitöku eða flúðu ýmist til Niðurlanda eða Tyrkja.

Stöðva þetta hér, en sjálfur held ég að Kólumbus hafi haft aðgang að gamalli siglingaþekkingu Fönikíumanna. Auk þess er vel vitað að Fönikíumenn höfðu stek ítök á verslunarsvæðum við Norðursjó, s.s. Rotterdam svæðið, Kent svæðið og Árósasvæðið.

Minni á að Færeyjar, eru ekki Skandinavískt heiti. Auk þess hatar meitlara elítan sem öllu hefur ráðið síðan Róm sigraði Karþagó, hatar þekkingu af þessu tagi og hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að afmá hana.

Guðjón E. Hreinberg, 17.12.2022 kl. 09:10

5 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

... og ekki má gleyma fjármögnun Genóvísa og Flórentína á Napóleón, en faðir hans var sjálfur af valdamiklum Genóvískum ættum, og þó það fari hlj́óðlega eru þessar ættir (og ætt Nappa sjálfs) enn áhrifavaldar í Evrópskum efnahags- menningar- og stjórnmálum. Eins og Cosimo DeMedici sagði við páfann, þú finnur aldrei gullið mitt - en enginn hefur átt stærra bóka- og þekkingarsafn en DeMedici (höfundar Rothschild hliðvörslu/samsæriskenningarinnar).

Guðjón E. Hreinberg, 17.12.2022 kl. 09:13

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyri þessar upplýsingar Birgir, í fræðandi og góðri ritgerð. 

Það sem mér finnst áhugaverðast við Velvakanda skrifin í pistlinum hér að ofan er að Skúli Ólafsson telur Halldór Cristofórusson, vefara hjá Birni Jórsalafar í Vatnsfirði, vera föðurbróðir Kólumbusar og vera af ætt Magnúsar berfætts Noregskonungs, hafi ég skilið rétt.

Það er semsagt ættfærslan í þessum Velvakanda pistli sem mér þykir einstaklega áhugaver. Já, og mér hefur þótt Björn Jórsalafari og Solveig einstaklega áhugaverð í Íslandssögunni og honum jafnframt verið gerð lítil skil í nútímanum.

Fyrir nokkru birti ég hér á síðunni pistla sem eru undir heitinu Vesturfararnir hér til hliðar á síðunni í Færsluflokkar þetta hér að neðan er úr einum þeirra, Hvað varð um íslensku Grænlendingana?

Þar kemur fram að til eru heimildir um að Magnús (Smek) VI Svía- og Noregs konungur sendi leiðangur til Grænlands, sem sennilega fór alla leið til Minnesota, um svipað leiti og Björn Jórsalafari var á ferð á Grænlandi.

Það virðist vera að Grænlandsferðir Íslendinga hafi einungis ratað í heimildir þegar þær vörðuðu við lög. Þó er ferðasaga þeirra Björns Jórsalafara og Sólveigar konu hans undantekning. Hún var rituð löngu eftir Grænlandsferð þeirra og er glötuð. En engu að síður virðist vera til talsvert um það ferðalag, sem helgast m.a. af gríðarlegum hagnaði þeirra hjóna af "hrakningunum", sem einna helst á sér samsvörun í ferð annarra íslenskra hjóna vestur um haf rúmum 200 árum fyrr.

Grænlandsför þeirra Björn Einarssonar Jórsalafara og Sólveigar Þorsteinsdóttur er um margt sláandi lík Grænlandsför þeirra Þorfinns Karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur. Bæði þessi hjón hagnast gríðarlega á ferðinni, sá er þó munur á að Björn Jórsalafari og Sólveig er sögð hafa hrakist til Grænlands. En Grænlendingasaga segir af ásetningi Karlsefnis og Guðríðar að komast alla leið til Vínlands og af því hvað þau efnuðust á þeirri ferð.

Þess verður að geta að verslun við Grænlendinga var ólögleg án leyfis konungs á tímum Björns og Sólveigar. Árið 1385 sigldu þau frá Noregi samskipa fleirum en hröktust til Grænlands og voru teppt þar í tvö ár en komu þá til Íslands. Þau efnast gríðarlega í ferðinni því þegar heim kemur kaupir Björn Vatnsfjörð fyrir 150 kýrverð, sem var fimmfalt nafnverð.

Það sem undarlegra er að hann arfleiðir seljanda Vatnsfjarðar að jörðinni komi hann og Sólveig ekki heim úr Noregsferð og suðurgöngu til Rómar. Þau sigla síðan til Noregs 1388 til að standa fyrir máli sínu varðandi "ólöglegu Grænlandsdvölina" og höfðu meðferðis vitnisburði um tildrög þeirra hrakninga og viðskipti sín við heimamenn.

Björn var dæmdur sýkn saka í Björgvin 20. maí 1389. Síðan fór hann í suðurgöngu til Rómar rétt eins og Guðríður Þorbjarnardóttir rúmum 200 árum fyrr. Björn og Sólveig komu til Íslands aftur 1391 og eru á sinni tíð einhver valdamestu og víðförulustu hjón landsins. Jórsalanafnbótina fékk Björn síðar vegna heimsóknar sinnar til Jerúsalem.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2022 kl. 13:25

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir þetta Guðjón, þú kemur ekki með tóman kofan frekar en venjulega. Í þessari athugasemd þinni er mýgrútur af upplýsingum sem ég hef ekki heyrt áður.

Mér hefur lengi grunað að mankynssagan sé ekki skráð nema að hluta og þá þeim hluta sem tilheyrir hinum svokölluðu sigurvegurum, þú ert örugglega með mörg púsl þarna.

Eins hef ég grun um að íslenska fornbókmennta arfleiðin hafi verið mun yfirgripsmeiri áður en nú er þekkt, enda kemur víða fram hvað mikið glataðist á þeim öldum sem Íslendingar voru ánauðugir.

Mér hefur meir að segja komið til hugar að Íslendingasagnirnar séu nokkurskonar gral þess hluta mankynsögunnar, -þeirra menningaheima sem hurfu.

Völsungasaga er einstaklega athygliverð í því ljósi, því í henni segir frá stórum uppgjörum, sem hvergi er getið um í opinberu mankynssögunni, þar er meir að segja tímalínan önnur.

Mig hefur lengi grunað að lykillinn sé falinn á þeim slóðum sem þú nefnir í þessari athugasemd, og að Hellas og Karþagó komi þar n.a. við sögu.

Það kæmi mér ekki á óvart að það ætti eftir að opinberast áður en langt um líður, að þessir menningaheimar, sem áttu undir högg heimsveldis að sækja, hafi farið til Ameríku á öldum áður.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2022 kl. 13:50

8 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir það, Magnús, við eigum Skugga margt að þakka. Hann kenndi manni að grúska aðeins betur og að taka mark á innsæinu.

Guðjón E. Hreinberg, 17.12.2022 kl. 14:05

9 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Magnús. Hér kemur spurning. Þorfinnur karlsefni efnaðist á Vínlandsdvöl sinni? Veistu hversu mikið?

Ég hef greinilega skrifað tvær greinar á blogginu um Kólumbus.

Dvaldi Kólumbus á Íslandi veturinn 1477?

Kristófer Kólumbus – landakönnuður eða landvinningarmaður og þrælasali?

Birgir Loftsson, 17.12.2022 kl. 14:09

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Birgir, ekki veit ég það svo gjörla, en í Grænlendingasögum kemur fram að skip Karlsefnis og Guðríðar hafi verið með einn verðmætasta farm sem hafði yfirgefið Grænland og farmurinn var seldur í Noregi, ef ég man rétt, og Glaumbær í Skagafirði var keyptur í kjölfarið.

Þakka þér kærlega fyrir tenglana, seinni pistillinn um þrælasalann hafði nefnilega farið fram hjá mér af einhverjum ástæðum. Ég á eftir að liggja í honum og melta. Í fljótu bragði sýnist mér þú negla naglann rækilega á höfuðið.

Magnús Sigurðsson, 17.12.2022 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband