Sólstöður og jól sko

Að skelfast ekki af örlögum sínum, en óttast afdrif sín, er að veltast frá ógn til ógnar en bera sig karlmannlega, allt til þess óhjákvæmilega. Tíminn er líkastur framhaldssögu sem maður á engan þátt í að skrifa. Þó sagan sé á heimsmælikvarða, þá flytur þjóðsagan kjarnann en medían málatilbúnað þeirra sem oft af þekkingu sniðganga sannleikann.

Í dag eru vetrarsólstöður, dimmastur dagur og sólin  stöðvast við krossinn í suðri. Eftir þrjá daga hefst ferðin norður, eitt hænufet, -og má þá fara að greina lengri dag. Enn eitt sólárið er liðið og myrkurtíð gefur tilefni til að líta yfir farin veg, þó svo áramót séu skot út í bláinn á hringekju eilífðarinnar.

Þetta hefur verið ár pesta og stríðsátaka, full ástæða verið til að óttast afdrif sín í lífsins ólgu sjó. Síðuhafi hefur ekki farið varhluta af óttanum og pestunum, bæði fengið kóvít í fyrra vetur og flensu nú í haust, auk þess hland fyrir hjartað, þess á milli steypa. Það má segja að sumarið hafi þetta árið farið forgörðum vegna óttans við afdrifin.

Ég ætla ekki í þetta sinn að spá fyrir um hvað er framundan, síðustu sólstöður var spáin þessi: árið framundan mun einkennast af stríðsbrölti í stökkbreyttri mynd veirunnar og munu efnahagslegar afleiðingar koma í ljós. En kvefið sjálft mun dala með vorinu, eins og venjulega, samfara því að áhuginn minnkar á símanum og sjónvarpinu með hækkandi sól.

Það eru orðin rúm fjórtán ár síðan ég hóf að láta ljós mitt skína á þessari síðu og hafa athugasemdir við pistlana aukið mér víðsýni. Þetta árið hef ég að vana bloggað um þjóðleg gildi, sjálfan mig og tuðað út í tíðarandann, -líkast rispaðri plötu frá því á síðustu öld. Eins og alltaf hafa það verið athugasemdirnar sem hafa gert pistlana frambærilega.

Þau eru farin að staðna bloggin og hef ég hugsað mér, -eins og reyndar svo oft áður, að láta staðar numið í bili. Hvort það tekst og hvað lengi verður tíminn að leiða í ljós. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa enst til að lesa langlokurnar og tuðið á þessari síðu, -sérstakar þakkir eru til þeirra sem hafa gert við þær athugasemdir.

Hér á síðunni hefur mér orðið tíðrætt um Davos dúkkulísur þetta árið, en læt nú hinar einu og sönnu Dúkkulísur míns heimabæjar óma jóla kveðjuna. Ég óska öllum þeim sem hafa náð að lesa þetta langt, gleðilegra jóla, árs og friðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góður pistill að vanda Magnús, en ég verð að viðurkenna að ég fékk hland fyrir hjartað þegar þú viðraðir það að taka þér frí frá blogginu.  Vonandi hef ég misskilið eitthvað við lesturinn en ég tek undir það að ekki er "mikið" að gerast þar undanfarið en getur ekki verið að árstíðin hafi þar einhver áhrif?  Lagast ekki allt með hækkandi sól???????

Jóhann Elíasson, 21.12.2022 kl. 08:50

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur góð orð Guðmundur og Jóhann, og margar hugvekjandi athugasemdir í gegnu tíðina.

Farðu vel með þig Jóhann, ekki má bloggið við að missa pistlana þína, sem ættu fyrir löngu að vera komnir við háborðið, -í Umræðuna.

Árstíðin hefur alltaf sín áhrif, fátt trekkir mig betur upp en hækkandi sól og um sumarsólstöður á ég í mestu erfiðleikum með að gefa mér tíma til sofa.

Sannleikurinn er sá að þó ég hafi mjög gaman að því að blogga, þá þarf ég að hafa talsvert fyrir því, og læt þá á meðan annað sitja á hakanum.

Magnús Sigurðsson, 21.12.2022 kl. 13:57

3 Smámynd: Haukur Árnason

Þakka þér Magnús, fyrir "langlokurnar og tuðið" Og gleðileg jól til ykkar og gott ár 2023. Jamm, ég mundi sakna þín af blogginu.

Haukur Árnason, 21.12.2022 kl. 14:45

4 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Dúkkulísurnar eru góð hljómsveit, og minna á níunda áratuginn meira en margt. Flensurnar koma og fara og minna stundum á kófið. Ætli það verði ekki umgangspest eins og sumir fræðingar spáðu fyrir um?

Vonandi að heilsan verði góð hjá þér Magnús. Bloggin þín eru meira en góð, þau eru einstök á köflum. Nauðsynleg lesning þegar svo margir týna sér í léttvægum málefnum.

Ég las það í bók eftir Einar Pálsson að hann var sammála mér um að Baldur í goðafræðinni hefði gegnt svipuðu hlutverki og Ósíris hjá Egyptum.

Þar með erum við komin með þá niðurstöðu að sólstöðuhátíðin hér nyrðra hafi verið í samræmi við fæðingarhátíð Sol Invictus, sem varð að jólum. Ævafornar hefðir til að blóta til árs og friðar. Menn höfðu mikla þörf á að lyfta sér upp og halda hátíð í mesta skammdeginu.

En það vantar sárlega í íslenzkar heimildir að jólum til forna á heiðnum tíma sé lýst í smáatriðum. Oft kemur þú með þjóðlegan fróðleik sem fyllir uppí þær eyður, Magnús. 

Bloggin þín hafa verið mjög góð á þessu ári, Magnús. Vonandi að þú hafir þrek og áhuga á að halda þeim áfram vel og lengi.

Ingólfur Sigurðsson, 21.12.2022 kl. 15:48

5 identicon

Bestu þakkir fyrir pistlana, Magnús.

Megi þeir verða, svo sem verið hefur, með þínu einstaka lagi að vekja hjá lesendum hugsanir og vangaveltur um hin fróðlegustu málefni.  

Óska þér og fjölskyldu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.12.2022 kl. 17:44

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir mig Haukur og Ingólfur.

Haukur, athugasemdin þín um Einar Ben þar sem hann vitnaði í Benedikt Gíslason frá Hofteigi varð til þess að ég las bókina Íslenzki bóndinn sem mér hefði aldrei til hugar komið að væri eins áhugaveð og hún er, hef ég þó lesið margt eftir Benedikt. Nú er ævisaga Einars Ben komin á dagskrá ásamt Jóni lærða, bækur sem mér voru óvænt færðar að gjöf, engar smá bækur það.

Ingólfur, ég held reyndar að kóvítið hafi verið flensan 19, 20 og agenda 21, flensan sem ég fékk í haust var verri en kóvið ef eitthvað er. Þú heldur fágætilegum fróðleik á lofti. Þið eruð allavega 3-4 hérna á blogginu sem ég les hvert einasta blogg sem þið setjið í loftið.

Magnús Sigurðsson, 21.12.2022 kl. 17:56

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakk þér fyrir Pétur Örn. Ég tók forskot á sæluna, gat ekki stillt mig, og naut loftbóla andans, en það hafði ég hugsað mer að gera yfir jólin. 

Ef ég á að segja þér alveg eins og er þá eru ljóð mitt uppáhald, enda átti ég forföður sem gaf út 4-5 ljóðabækur fyrir meira en hundrað árum síðan og á ég þær allar í frumútgáfu. Ljóðin í þeim hafa veitt mér einstaka sýn á liðinn tíma.

Í kynjum og víddum og loftbólum andans eru einhverjar þær bestu og fallegustu samtíma hugleiðingar sem ég hef lesið, og hef ég lesið loftbólurnar að minnsta kosti þrisvar á síðustu 9 árum, og sumar þeirra búbblað oftar og lengur eins og gengur og gerist.

Sá sem hefur þann hæfileika að koma slíku frá sér í stuttu máli, -eins og ljóði, ætti alvarlega að íhuga framhald á. Annars þarf ég ekki að kvarta hef notið frábærra ljóða frá þér hér í athugasemdum. Þakka þér fyrir höfðingi.

Magnús Sigurðsson, 21.12.2022 kl. 18:15

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gleðileg jól og farsælt komandi ár Magnús.

Gunnar Heiðarsson, 22.12.2022 kl. 09:53

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Gunnar.

Magnús Sigurðsson, 22.12.2022 kl. 19:35

10 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér þínar frábæru greinar, þær opna okkur minni spámönnunum sýn til allra átta. Hvíld er góð og við vonum að þú getir miðlað til okkar fróðleik áfram þegar þér hentar. 

Hér er smá undirbúningur til framtíðar sem við stöndum allir frammi fyrir.

In 1801, an English physicist named Thomas Young performed an experiment that strongly inferred the wave-like nature of light. 

https://www.olympus-lifescience.com/en/microscope-resource/primer/java/doubleslitwavefronts/

Þessi tilraun hefur verið skoðuð alla tíð síðan, og leiðir í ljós að þegar ekki er horft, slökkt á sjónvarps heilmyndinni, þá kemur bylgju munstur á bakspjaldið. 

En ef maðurinn horfir, mælir, eða á einhvern hátt skynjar gerðina, kveikt á sjónvarps heilmyndinni, þá sést eitthvað sem við köllum rafeind (ljóseind, rafeind, nifteind o.s.frv.) fara í gegn um rifuna og punktar koma á bakspjaldið.  

Rafeindin býr til truflum, interference á bak spjaldið og virkar þá sem bylgja, og þá fáum við raðirnar á bakspjaldinu. 

Þessi tilraun, þá sannleikur, þykir kenna okkur að þarna sé komin myndpunkturinn í heilmyndinni, hologram, sem er leikin af okkur í geisla skjánum hans Nikola Tesla.  

Þá er helst að hugsa að í hinum næsta heimi séum við settir í hermi, nokkurs konar flug hermi og plataðir til að trúa að við búum í efnis heimi. 

Af hverju erum við settir í þennan hermi? Ég hef stundum sagt að efnisheimurinn neyði okkur til að hugsa og starfa út frá miðju, en ekki vera flögrandi allstaðar og hvergi. Nú er kallað á mig og tími til að hætta. 

Hvað er til ráða, hvað skal gera, hver er fyrirmyndin? 

Drottin, vertu mér syndugum miskunn samur sagði tollheimtu maðurinn.

Drottin hjálpaðu mér. 

Þá verðum við öll að laga það sem við getum til að heyrist í okkur.  

Þetta er mín nálgun

Verð að hlaupa. 

Egilsstaðir, 23.12.2022   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 23.12.2022 kl. 01:12

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Jónas, og þakka þér fyrir að rifja þetta upp. Ég velti þessu talsvert fyrir mér þegar ég hafði nógan tíma í fjörbaugsgarðinum og bjó einn í útlegð í Noregi þrjú ár eftir hrun. Þessi tveggja punkta ljóspunktur í gegnum vegg kenndi mér að treysta því sem maður sér öðruvísi en það er sagt vera og átta mig á að við búum í leikmynd og -riti.

Við þurfum að fara að hittast í góðu tómi yfir kaffibolla og ræða heimsmálinn og alheiminn. Þegar þú segir að greinarnar mínar séu góðar þá ber að hafa í huga að í flestum, ef ekki öllum, fékk ég skýrustu hugmyndirnar eftir spjall við þig og þína líka, og náttúrulega í kjölfar athugasemda hér á síðunni.

Ég óska þér gleðilegra jóla og bið þig fyrir bestu jólakveðjur í þinn bæ.

Magnús Sigurðsson, 23.12.2022 kl. 06:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband