Glitský

Útsynningurinn hefur verið þrálátur síðustu vikuna með tilheyrandi ófærð í lofti, oft er hann samt fallegur. Suðvestan hraglandi er samt hjá flestum óvelkominn á þorra með sínum storméljum, spilliblotum og svellum, -þar að auki rignir ekki eins þétt niður öllum velkomnu flóttamönnum á klakann, og landinn kemst ekki viðstöðulaust í loftið til að telja tærnar á Tene.

Þorrinn byrjaði með nýju tungli og má því allt eins vænta umhleypinga út tunglið, -samkvæmt gömlum fræðunum, -eða allt til góu tungls. Reyndar virðist vísindaleg veðurfræðin í síauknum mæli vera farin að færa sér í nyt visku karlsins í tunglinu í langtíma spálíkönum sínum, nema þegar til hamfara hlýnunar horfir.

Sjálfur spái ég mest í skýin og hef jafnvel fengið skýjafar með hröfnunum héðan úr loftkastalanum mínum við þannig spádóma. Ég bý við skýjaborg og get ferðast um á heilu skýjaflotunum með því einu að líta út um stofugluggann, og það án alls loftslagskvíða svo lengi sem ég hef vit á að líta á hitamælinn heima hjá mér en ekki Langtíburtukistan.

Alla vikuna var skýjarekið magnað áhorf fyrir einlægan skýjaglóp. Þó svo dögum saman kæmust engar á loft carbfixaðar flugvélarnar með kolefnisstrókandi túristavaðalinn, þá svifu hrafnarnir um að venju í suðvestan þræsingnum og þegar himininn dró gluggatjöld sín frá, allt frá vestri til austurs, blöstu við himnesk undur og stórmerki.

 

IMG_5752

Á sama augnabliki og himininn

 

IMG_5762

gluggatjöldum sínum svipti í sundur,

 

IMG_5748 

ákvað sólin að draga saman sinn sjóð.

 

Skýjafar

Líkt og gullið draumfagurt undur,

 

IMG_5767 

lýsti síðasti geisli hennar upp marglit ský,

 

IMG_5765

-og í glugganum á rökkvaðan karlskrjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Í þessum stutta pistli tekst þér að draga saman mörg áhugaverð málefni, Magnús og auk þess að vekja þægileg hughrif hjá lesendum. Þetta eru fallegar myndir og minna á útsýnið frá æskuheimilinu, og mér sýnist þú hafa ágæta hæfileika til ljósmyndunar.

Já það er óþarfi að fjölyrða um stormélin í pólitíkinni eða puntudúkkurnar sem mæta á ráðstefnurnar. Það er skemmtilegt að lesa tvíræðnina í orði sem þú notar um sjálfan þig - skýjaglópur, en mér finnst ekkert neikvætt við að láta glepjast af fallegum skýjum eins og menn hafa gert um aldirnar. Síðan kann að vera að menn hafi farið að glepjast af reykskýjum og mengunarskýjum stóriðjanna og þá hafi orðið fengið aðra og verri merkingu.

Ég les útúr orðalaginu einnig þegar þú minnir á krummana að þú hefur í huga þá er gátu spáð um framtíðina úr skýjum og fuglaferðum. Fyrir mig sem hef einnig áhuga á fornum fræðum veit ég þegar menn ýja að því.

Í fyrra hlustaði ég á athygli á nokkra hrafna sem krunkuðu mjög merkilega við opinbera byggingu og snéru hausnum í ákveðna átt, til Rússlands (ég miðaði við áttirnar og fjöllin þegar ég túlkaði þetta) og fannst mér þeir boða að stríðinu væri ekki að fara að ljúka og að þrjózkan yrði mikil í öllum sem að þessu koma, vestanhafs og austan.

Mér fannst þeir segja mér eitthvað og fannst mér þá að vit væri í því sem sagt var til forna að menn hafi stundum skilið mál dýra, ekki sízt Óðinn sjálfur.

Þegar mannheimar drógust saman í myrkur og kúgun fyrr á tímum varð almenningur að leita á náðir fornra fræða. 

Við búum við stjórnskipulag þar sem lýðskrumið hleypir lýðnum í kreppur og tjón. En ráðherrarnir láta stjórnast af mönnum og andlegum öflum, og bak við púkana sem stjórna þeim mörgum eru álfar og góðar verur sem reyna að bæta tjónið. 

Fuglar hafa innbyggða áttavita í sér, og kannski þeir viti meira heldur en hvernig eigi að fljúga á milli landa. 

Ég hef lesið lærðar og miklar greinar eftir vísindamenn um að alheimurinn sé eins og eitt stórt tauganet og að dýr geti verið móttökutæki rétt eins og menn. Þannig vita þeir ekki hvar efnisheimurinn byrjar og skynjun manna - eða annarra vera - endar. 

Eftir því sem þeir verða meiri skýjaglópar með sterkari sjónaukum efast þeir um margt sem þeir höfðu lært áður.

Já, þessi stutti pistill kemur inná margt, og myndirnar eru fallegar.

Ingólfur Sigurðsson, 29.1.2023 kl. 18:52

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrri Ingólfur, þessi athugasemd þín er ein af þeim innihaldsríku sem verulegur fengur er í að fá við svona blogg.

Þú kemur inn á svo margt, sem erfitt er að koma í orð öðruvísi en í ljóði, -sem er ekki mín sérgrein. Með myndunum vonaði ég að eitthvað af því, sem ég vildi sagt hafa kæmi fram, -á annan hátt en í heljarinnar langloku. Þessi athugsemd þín er því verulega góð vegna þess að hún skýrir fókus.

Það sem mér finnst vera mest áberandi þessi misserin er hvað samtíminn er blurraður á það góða í lífinu. Það er engu líkara að flest, sem fólk átti auðvelt með afgreiða hjá sjálfu sér hvort væru gott eða slæmt, -sé orðið of flókin í nútíma samfélagi. Og með snjallsímunum og allri upplýsingatækninni eru fæstir lengur staddir á stað og stund.

Nú þarf veturinn t.d. ekki endilega að vera á veturna. það má alltaf skjóta inn viku og viku á Tene. Fyrir aðeins nokkrum áratugum síðan þá hafði fólk fullan fókus á veturinn, fólk hélt sig heima yfir umhleypingarnar. Svo fóru eldri borgarar að dvelja nokkrar vikur eða mánuði í sólinni á veturna sér til heilsubótar. Nú hendist ungt tímatrekt fólk viku og viku í sólina með flóknum afleiðingum.

Af því þú talar um ratvísi fuglanna; -vissirðu að spóinn flýgur í einni lotu, án millilendingar til V-Afríku -lengra en til Tene. það sem merkilegra er að ungarnir fara ekki með fullorðnu fuglunum heldur einhverjum vikum seinna, og rata samt sem áður sömu leið í einni lotu. Þessu hefur nýlega verið komist að með því að setja senda á spóa.

Hrafninn og máríerlan hafa alltaf veið mitt uppáhald og ég get sagt þér það að máríerlan heilsar upp á mig þegar hún kemur á vorin. Hún verpir hérna í þaksskegginu, kemur upp ungunum og kveður þegar hún fer á haustin. Máríerlan flýgur líka til V-Afríku eins og spóinn en ekki án millilendinga. Það sama átti við í Noregi við máríerlan þekktumst og gátum átt samskipti. Fuglarnir hafa aðra skynjun en mennirnir sem við skyldi ekki vanmeta.

Máríerlan mín fer venjulega um haustjafndægur, en í haust kom hún hérna inn á svalirnar til að kveðja daginn fyrir fyrsta vetrardag, og þótti mér það aldeilis alveg stórmerkilegt. Hélt fyrst að hún hefði lokast einhverstaðar inni og væri allt of sein til að komast á vetrarstöðvarnar, en ég hef ekki séð hana eftir að hún kvaddi.

Myndirnar með pistlinum eru allar teknar á gamla einfalda Canon myndavél, svo að segja á sama klukkutímanum. Mér fannst þær lýsandi fyrir það sem fyrir augu ber ef við bara höfum athyglina á umhverfið hjá okkur, þó svo þær komist ekki í hálfkvist við að upplifa augnablikið.

Magnús Sigurðsson, 29.1.2023 kl. 20:15

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Yndislegir.

Takk félagar, fyrir bæði pistil og umræðu.

Kveðja að neðan Magnús og að austan Ingólfur.

Ómar Geirsson, 30.1.2023 kl. 09:28

4 identicon

Betra getur það ekki verið,

pistill, myndir sem og athugasemdir.

Bestu þakkir, meistari Magnús.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband