Fífl í glerhúsi

Nú babla bankarnir og Why Iceland viðundrið úr sér stöðugleikanum eins og hverri annarri stolinni lygasögu af eyjunni hans Ingólfs. Ef hækkandi stýrivextir með okur húsnæðisvöxtum í kjölfarið, eiga ekki eftir lækka verðbólguna og bjarga skuldsettum heimillum unga fólksins, -þá veit ég barasta ekki hvað.

Blessaður bjálfinn hefur ekki ennþá komið innlendu greiðslumiðluninni í skjól eftir að auðrónar landsins seldu glópa gullið aflands. Akkúrat á sama tíma og Fjármáleftirlitið var innlimað í Seðlabankann, og drengur með engilsásjónu klæddur litlum bláu jakkafötunum með vaxtalækkanir í farteskinu sveif inn í Svörtuloft úr dyggri þjónustu gamma, -og gjörningur var klappaður og klár.

Ef óhappið um árið, hið svokallaða hrun, ætti sér stað nú á dögum væri ekki nóg með að unga fólkið yrði að yfirgefa landið allslaust einn ganginn enn, öll þjóðin sæti auk þess uppi á skerinu alagjörlega auralaus, -meðan flækingarnir flæddu að svo skipta megi um þjóð í landinu.

Þá mun ekki einu sinni duga að sauðurinn með úlfseyrun biðji Guð um að blessa Ísland í beinni.


mbl.is Ekki skrítið að fólk verði reitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Þar sem fáir hafa tjáð sig, þá finnst mér rétt að tjá mig.

Það sem þú segir hér að ofan er nöturlegur sannleikur, og það er eins og enginn hafi lært.

Níðumst á unga fólkinu, eins og enginn sé gærdagurinn til að læra af, og það sem öllu verra er, að enginn sé morgundagurinn fyrir þau sem landið eiga að erfa.

Það er samt landvættur í efra.

Kveðja úr neðra.

Ómar Geirsson, 17.3.2023 kl. 17:44

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar og þakka þér fyrir að leggja orð í belg, var farinn að halda að ádrepan væri það mikil fljótaskrift að það skyldi hana engin.

-Já hún er einkennileg þögn þeirra sem betur eiga að vita. Kannski er andaktin svo mikil við að telja tærnar á Tene að fáir megi verða við þeirri truflun að leggja unga fólkinu lið, -þó ekki væri nema í orði.

Ég ætla ekki unga fólkinu að gera sér grein fyrir þeirri illsku sem liggur að baki þeirra klækjabragða, sem síendurtekin eru á landinu bláa, við að gera heimilið að féþúfu, -og fara síversnandi.

Þá illsku höfum við sem eldri erum mátt horfa upp á ítrekað. Það er því okkar, - í þessu sem öðru, - að vera hollar vættir unga fólksins.

Með bestu kveðju úr efra í neðra.

Magnús Sigurðsson, 17.3.2023 kl. 18:18

3 Smámynd: Ingibjörg Magnúsdóttir

Þegar unga fólkið hættir að geta borgað af húsnæðislánum sínum hjá bönkunum, munu þeir fara í þrot. Er að velta því fyrir mér að fara að sofa með peningana undir koddanum eins og ég gerði 2008. Það bjargaði mér.

Ingibjörg Magnúsdóttir, 17.3.2023 kl. 23:59

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eitt sem hvergi kemur fram, en í vikunni var stýrivöxtum í Bandaríkjunum breytt; hvaða áhrif hefur það á vaxtagreiðslur Lýgveldisins af lánum Elítunnar?

Guðjón E. Hreinberg, 18.3.2023 kl. 00:24

5 identicon

Sæll Magnús.

Góða dátann Svejk henti eitt sinn að hershöfðingi stöðvaði hann á förnum vegi og horfði með ygglibrún á hann og kvað upp
svofelldan dóm: Fífl!

Svejk var veluppalinn, vandaður til orðs og æðis, háttvís og
og vissi hvað sómdi sér, kurteis, hreinskilinn og heiðarlegur og svaraði: Tilkynni herra hershöfðingi: Fífl!

Er ekki eitthvað í Fjallræðunni sem á við hér?

Hef ekkert fundið um tvær úr Tungunum!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.3.2023 kl. 01:49

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdirnar, Ingibjörg, Guðjón og Húsari.

Það er spurning Ingibjörg, bankarnir urðu reyndar ekki meira en það gjaldþrota síðast að þeir hafa aldrei áður skilað viðlíka hagnaði. Ég segi það sama og þú, koddinn bjargaði síðast, en nú eru flest fyrirmyndar fyrirtæki hætt að taka við seðlum svo ég held að staðan í ísskápnum og móðir jörð bjargi því sem bjargað verður í næsta bankahruni.

Guðjón; nú þarftu að skýra málið betur áður en þú spyrð, eða kannski réttara sagt skjóta áður en þú spyrð. Hvað var það sem breyttist í varðandi stýrivexti í Bandaríkjunum í vikunni sem hefur áhrif á vaxtagreiðslur elítu Lýgveldisins?

Rétt er það Húsari að fara með orðið fífl er alltaf fíflalegt og ætti það aldrei að gera nema í sambandi við fífla, en nú var mér mikið mál.

Mér er Sveik minnisstæður las hann mér til sáluhjálpar einu sinni á ári fram eftir aldri. Hann var svekktastur þegar honum var hent út af geðveikrahælinu, ef ég man rétt, því þar taldi hann best að vera, þjónustaður eins og lítið barn. Gott að vera minntur á góða dátann og messugjörð herprestsins Otto Katz.

Fjallræðan er magnað samsafn heilræða sem má finna flestu stað. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Og neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær.

Hvað tvær úr Tungunum varðar þá man ég ekki betur en þær stöllur segðust vera vergjarnar og veðurbitnar valkyrjur í spreng.

Magnús Sigurðsson, 18.3.2023 kl. 06:13

7 identicon

Sæll Magnús.

Og þá er nú komið að járnsmiðnum í Saurbæ
og veraldlegu kvæði hans, Aldarhætti!

Húsari. (IP-tala skráð) 18.3.2023 kl. 09:19

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir þessa ábendingu Húsari, -hún á vel við.

Land lögum vörðu, þeir vitug ráð gjörðu svo vandræðin bættu,

fyrr frelsi kjörðu en Fáfnis skriðjörðu, þó flest kostar ættu.

Geði þá hörðu var hótað einörðu, með hugprýði mættu.

Manndáð ei spörðu við nýta seims Njörðu, ef nærri lá hættu.

Nú er öld snúin á aðra leið búin, þar yfir má klaga.

Fræleikur lúinn af landi burt flúinn, því líða menn baga,

röggsemdin rúin, sést rýr vina trúin og rekin úr haga,

ágirnd fram knúin, en grær lasta grúinn, flest gengur aflaga.

Magnús Sigurðsson, 18.3.2023 kl. 10:07

9 identicon

Það er þetta með innlendu greiðslumiðlunina sem seðlabankastjóri talar fyrir. 

Fyrir löngu komst ég að þeirri niðurstöðu að ef maður væri orðinn sammála krötum þá þyrfti maður að hugsa málið betur.  Líklega á það sama við um seðlabankastjórann. 

Við fyrstu sýn hljómar það skynsamlega að koma greiðslumiðluninni "heim" enda eigum við Íslendingar í flestu að haga okkur sem þjóð og nýta þá kosti og það öryggi sem því fylgir. 

En hvað mun gerast?

Stofnað verður íslenskt greiðslumiðlunarfyrirtæki og síðan einkavætt. 

Skúringa-Bensi eða einhverjir slíkir vel tengdir aðilar munu eignast þar fákeppnisfyrirtæki fyrir lítið og náttúrulega með það sama tengja sig við erlend greiðslumiðlunarfyrirtæki, hagkvæmnin sjáðu til!

Niðurstaðan verður sú að hér verður einn kostur til greiðslumiðlunar fákeppnisvæddur og án þess öryggis sem upphaflega var stefnt til. 

Auðvitað þyrfti þetta ekki að fara svona og hugmynd Seðla þar með í grunnin góð, en hver er reynslan?  Hvað sýna dæmin?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.3.2023 kl. 11:03

10 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Bjarni og alveg rétt hjá þér, reynslan er svona og þetta sýna dæmin.

Það breytir samt ekki því að þegar Guð blessaði Ísland, og innistæðurnar, þá var það innlenda greiðslumiðlunin sem bjargaði. Annars er hætt við að allt hefði verið fryst með hryðjuverkalögum, þangað til við hefðum sem þjóð samþykkt að greiða skuldir gjaldþrota einkabanka.

Á meðan við höfum Why Icland viðundrin skúringa Bensa og ámóta kóna í þrifunum þá mun þetta ekki breytast. Að láta skúringafyrirtæki skúra opinberar stofnanir er rándýr sóðaskapur eins og dæmin sanna. Að nenna ekki að skúra heima hjá sér er hreinn og klár aumingjaskapur.

Magnús Sigurðsson, 18.3.2023 kl. 14:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband