Hleinarnar neðan við kot

Nú væru dagarnir ljúfir hérna fyrir austan mána í sunnan sól ef ekki væri fyrir steypuna og stautið, -ekki einu sinni Tene gæti freistað.

Ég hef stundum sagt frá því hérna á síðunni hvernig ég legg á flótta undan veruleikanum með henni Matthildi minni þegar við förum í gamla gula bárujárnshjallinn úti við ysta haf.

Útidyrnar þar eru þrem skrefum frá þjóðvegi eitt, þar sem tímatrektir túristarnir strauja niður farfuglana á hraðferð sinni um landið, -sex skref í viðbót - í gegnum húsið, út um garðdyrnar, -og komið er í paradís.

Þar syngur þrösturinn, -og máríerlan ber flugurnar í tuga tali heim í hreiðrið sitt úr grýttu fjörunni sem úthafsaldan gjálfrar við undir klappar bakkanum.

Æðakollurnar dugga svo úandi við hleinarnar neðan við kot og stöku sinnum má sjá hnísur fara með þýðum sporðaköstum og blæstri fyrir tangann þar sem krían skellir sér í sjóinn úti fyrir með hvellu kneggi sínu í leit að æti.

Á þessum hleinum á skarfurinn sinn sess á öðrum árstímum við að þerra vængina í hafgolunni, en um varptímann hef ég heyrt að hann haldi sig við Breiðafjörðinn. Veiðibjallan á því það til að tylla sér þar þessa dagana við litlar vinsældir.

En núna um helgina var nýr gestur mættur, -himbrimi, sem ég hef ekki séð svamla við hleinarnar fyrr. Hann kafaði í gríð og erg, kom svo upp með hvert sílið af öðru og á endanum þyrskling sem hann átti í mesta basli með sporðrenna eftir að hafa kokgleypt.

Að verða vitni að andardrætti náttúrunnar milli flóðs og fjöru við þennan stóra spegil hafsins er sennilega sömu andagiftar virði og upplifa almættið.

Almættið og náttúran sér um sína og gefur öllu sem lifir nóg að bíta og brenna, en græðgi mannanna mun hún samt ekki metta því hún fær aldrei nóg. Nú eru áform uppi að setja niður laxeldi í endilangan Stöðvarfjörðinn eins og hvern annan Austfjörð. 

Ég hafði á orði við Búdda bróðir um daginn að réttast væri að friða allt Ísland fyrir ferðamönnum og fiskeldi sem Galápagos norðursins. Hann sagði; ræddu þetta við Attenborough það er aldrei að vita nema að hann myndi stróka norður á einkaþotunni sinni til að taka einn hring yfir herlegheitin.

Þarna í paradísinni sitjum við Matthildur mín tímunum saman úti á palli, sambandslaus við umheiminn, blíðum í blænum við öldunnar vaggandi nið á meðan þrösturinn syngur fyrir okkur hástöfum og fylgjumst með því sem fyrir augu ber við hleinarnar neðan við kot, á meðan túristavaðallinn flæðir fram og til baka ofan við hús um þjóðveg eitt, -hún prjónandi, á meðan ég spái í steypu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Svei mer þá, pistillinn var svo velskrifaður, að mér fannst ég vera kominn á pallinn hjá þér að drekka kaffi með þér....... smile

Jóhann Elíasson, 30.5.2023 kl. 08:28

2 identicon

Ekkert er betra en að komast burt frá ysnum og þysnum, hverfa um stund og nema vaknandi lífið í eilífð almættisins.

Megi allt verða ykkur Matthildi þar til heilla og hamingju.

Segi svo sem Jóhann, að svo myndræn er frásögnin að ég finn kaffiilminn leggja alla leiðina frá ódáinsvöllum ykkar og suður til borgar óttans.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.5.2023 kl. 09:23

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka ykkur fyrir innlitið og athugasemdirnar Jóhann og Pétur Örn.

Já það væri sannur heiður ef þið kæmuð í kaffi á pallinn og fylgdust með undrum almættisins við Stöðvarfjörð.

Vissulega eru svona staðir um allt land, þó svo að Atlantshafið sé í bakgarðinum við Sólhól og þar af leiðandi stutt að fara til að hella uppá.

En meiningin, ef það þá var einhver meining með þessum pistli, var einmitt að benda á hvað gott er að búa sér til flóttaleið frá interneti og síbylju.

Í Sólhól er hvorki netsamband né sjónvarp og ekki til siðs að kveikja á útvarpi nema þá stöku sinnum til að hlusta á dægurlög frá síðustu öld. Og ég lýg því ekki að andrúmsloftið getur með því allt eins verið árið 1973 eins og 2023.

Í fyrra komu sagnfræðingar sem Jóhann þekkir, annar íslendingur og hinn amerískur. Sá ameríski varð eyðilagður eftir erfiðan dag að uppgötva að ekkert netsamband væri í kotinu.

Ég sýndi honum bækur Daniles Bruun - Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár - til að reyna að hugga hann með myndasögum fyrir svefninn. Hann sagið amazing tvisvar, þrisvar sinnum lokaði svo bókunum og fór að sofa.

Morguninn eftir fór hann á fætur fyrir kl 7, ég var kominn á fætur fyrir nokkru og sestur út á pall með kaffið og til að fylgjast með morgunnþokunni á ferðalagi sínu um fjörðinn.

Auðvitað fór ég strax inn þegar ég varð var við hann til að gefa honum kaffi og athuga hvort allt væri í lagi með morgunnmatinn. Hann kíkti strax út um gluggann og sagði; viða kulum heldur sitja þarna, -og benti á stólana úti á palli.

Og þarna sat hann í 4 klukkutíma á meðan þokunni létti, hnísur fóru um fjörðinn og krían stundaði ákafa veiði. Kríuna kannaðist hann vel við og vissi að hún fer skautanna á milli til að vera í eilífri birtu.

Þess er skemmst að geta að hann fór bara einu sinni inn og það var til að ná í úlpu utan yfir náttfötin. Hann minntist ekki einu orði á netsamband og við vorum í vandræðum með að koma honum af stað út í verkefni dagsins.

Hann hringdi í mig fyrir skemmstu, en Jóhann hafði hitt hann og lét mig vita að hann væri á Íslandi, svo ég svaraði erlendu númeri sem ég geri annars aldrei.

Hann hafði margt að segja enda að gefa út sagnfæði bækur um Ísland um allan heim. Hann var ekki búinn að gleym dagpartinum á pallinum, en minntist ekki einu orði á internetið.

Magnús Sigurðsson, 30.5.2023 kl. 15:03

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Já Magnús, það kemur alltaf viss glampi í augun á Adam þegar hann talar um tímann á "pallinum" á Stöðvarfirði og Karl Smári talar oft um það hvað þið Adam náðuð vel saman....

Jóhann Elíasson, 30.5.2023 kl. 16:01

5 Smámynd: Haukur Árnason

Takk fyrir pistilinn, góður að vanda. Jamm það er nauðsinlegt að eiga afdrep.

Og ekki var sá á undan síðri, um Ódáinsakurinn. Þar kemur fram að þangað, að Hvanndölum, hafi bara verið fært af sjó. En það var nú gengið yfir fjöllin, úr Fljótum, Héðinsfirði og Ólafsfirði. Er komið í tísku núna, Ferðafélag Íslands er meira að segja búið að markaðssetja þetta.

Góðar kveðjur í Sólhól.

https://www.fi.is/is/gonguleidir/gps-ferlar/fljotaleidir

Haukur Árnason, 30.5.2023 kl. 20:14

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir kveðjurnar, leiðréttinguna og ábendinguna Haukur, -ég var of fljótur á mér með að fullyrða það hvernig komist er til Hvanndala. 

Fann eftir að ég setti pistilinn í loftið sögn af því þegar húsmóðirin í Hvanndölum þurfti að sækja eld í bæinn eftir að hann hafði slokknað þar þegar hún var ein heima með börnin.

Þá fór hún fyrir neðan skriðurnar á milli Hvanndala og Héðinsfjarðar með yngsta barnið með sér og varð að vaða tvisvar fyrir forvaða þar sem sjórinn náði henni í brjóst.

Bestu kveðjur.

https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/grein/?itemid=efcee0b7-2a11-ea11-810a-005056bc594d

Magnús Sigurðsson, 30.5.2023 kl. 20:48

7 identicon

Ég er svo heppinn að hafa komið í Sólhól. Ég get því staðfest að upplifa slíkrar stundir sé næst því að upplifa almættið. Ég er einnig svo heppinn að eiga hús, með fjölskyldu minni, hús við hafið í austfirði einum ekki svo langt frá Sólhóli. Þegar ég kem þangað þá fer hjartað mitt að að slá hægar. Þegar Sóló eldavélin fer að suða og ég hlusta eftir vagginu í öldunum og úinu í æðarfuglinum, þá verður heilagt.

Ólafur Arason (IP-tala skráð) 31.5.2023 kl. 00:16

8 Smámynd: Haukur Árnason

HRAUNAHVALIRNIR OG TÍÐARFAR Í FLJÓTUM 1882

https://timarit.is/files/45019479

....“ En á annan í páskum gekk í norðanátt með hríðum og illviðrum. Út yfir tók dagana 20.–29. apríl. Þá var eitt hið ofsalegasta norðanveður sem dæmi eru um. Þessa tíu daga mátti heita að hvergi væri út komandi á Norðurlandi fyrir stórhríðum og kafaldsbyljum. Svo mátti heita að frá 10. apríl til 15. júní væri einn samfelldur stórhríðarbálkur sem aldrei linnti nema fáeina daga í maí. Hafís lá frá Straumnesi við Aðalvík á Vestfjörðum, með öllu Norðurlandi, samfrosta upp í hverja á og hvern lækjarós, suður með landi að austan, allt vestur undir Dyrhólaey“......
.....“
Taldist mönnum svo til að tíu sinnum hefði alsnjóað nyrðra, frá Jónsmessu til rétta. Verst var hríðarkastið dagana 12.–14. september. Þá var 7 gráðu frost. Þá voru ár riðnar á ís í Skagafirði, Dalasýslu og víðar, en gengið á skíðum úr Fljótum inn í Hofsós sakir ófærðar.“...
.....“
Það var nú í vikunni fyrir hvítasunnu að tveir hvalir sprungu upp í vök upp við land á Hraunakrók. Var nú hraðboði sendur um sveitina og til Siglufjarðar til að fá menn til hvalskurðar. Heyrt hef ég að hvalirnir hafi verið 3 en sannindi veit ég ekki á því fyrir víst. Gamlir menn sem sögðu mér frá þessum hvalreka nefndu aldrei nema tvo hvali. Hvalrekinn bægði frá hungusneyð, ekki aðeins í Fljótum, heldur og líka hinum nærliggjandi sveitum. Til dæmis báru Svarfdælingar mikið af hval heim til sín. En löng og erfið leið var að fara með hval á baki sér fram Fljót og yfir Klaufabrekkur. Fyrsta sprettinn í hábölvuðu færi en fljótlega kom slóð því að heiðríkjur og sól var og klökknaði að deginum en gaddfraus á nóttunni. Að síðustu var slóðin svo hörð yfir fjallið að farið var með hesta eftir henni og gekk vel. Sá hét Jóhann bóndi á Jarðbrú í Svarfaðardal sem fyrstur fór í slóðina yfir Klaufabrekkur með hest. Siglfirðingar óku hval heim til sín á ís norður fyrir Almenninga, Dalaland, Stráka og svo inn Siglufjörð. Inn um Sléttuhlíð og Skagafjörð var flutt á hestum. Til Ólafsfjarðar var hvalnum ekið fram Fljót og yfir Lágheiði. Þetta eru einu hvalrekarnir í Fljótum sem nokkur brögð hafa verið að, enda munaði um það því að þetta voru stærðar steypireyðir. Það sögðu mér gamlir menn að þessi hvalreki hefði bætt vel úr bjargarskorti og efalaust hefði orðið stórkostlegt
 hungur, ef ekki mannfellir, ef guð hefði ekki sent þessa björg. Þetta er þá í stuttu máli lýsing á veðurfari og ástæðum öllum í Fljótum, Skagafirði og víðar þegar ,,Hraunahvalina“ rak sem svo oft var vitnað til í mínu ungdæmi.“..
---------------------------------------------------ooooo------------------------------------------------------

Guðlaug frá Hvanndöæum.  https://timarit.is/page/2368088?iabr=on#page/n3/mode/2up

Móðir hennar var Guðrún Þórarinsdóttir

Fór að skoða hvort nokkuð af hvalkjötinu hefði farið í Hvanndalina. En það hefur líklega verið komið í eyði 1882.
Með klifjahesta um Klaufabrekkur til Svarfaðardals.
Og ekið á ís fyrir Almenninga til Siglufjarðar. Ja hérna.

Svo er verið að kvarta yfir að hlýni aðeins.

Haukur Árnason, 31.5.2023 kl. 00:46

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir að staðfesta helgi Sólhóls Óli, -ekki amalegt að fá svoleiðis staðfestingu frá manni sem þekkir til þegar helgi húsa og staðsetningar þeirra fer saman.

Þakka þér fyrri að benda á þetta Haukur, -já og svo eru menn að tala um hamfarahlýnun og hið heilaga hitastig á að vera miðað við þessi ár og þegar hitastigið hefur hækkað að meðaltali um 1-2 gráður frá þessu þá eru sagðar hamfarir. Nútíma Íslendingar sem trúa á þennan boðskap ættu skammast sín forfeðranna vegna.

Magnús Sigurðsson, 31.5.2023 kl. 05:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband