Biðin langa

 

Það er óbærilegt að vera svo gjörsamlega ósammála fólki, sem telur sig hafa velferð þjóðarinnar að leiðarljósi, að maður geti þess eins óskað að því mistakist. En þannig hefur mér liðið hvað varðar þau málefni sem íslenskir stjórnmálamenn hafa verið að vinna að um langt skeið.  Það sem maður hefði viljað sjá Alþingi vera búið að hrinda í framkvæmd, í það minnsta vera að vinna að íslenskri þjóð til hagsbóta er í stórum dráttum eftirfarandi;

Afnema verðtrygginguna, losa sig við AGS samstarfið, ná sátt meðal þjóðarinnar með því að hafna icesave samningnum, setja ESB aðildarumsókn í salt á meðan unnið er að brýnustu björgunaraðgerðum fyrir heimili og fyrirtæki.  Þess í stað er pukrast við að hella skuldum yfir þjóðina og því borið við, í hverju málinu á fætur öðru, að hún hafi ekki vit til að meta hvað henni er fyrir bestu.

Um þetta hefði ég getað skrifað langan pistil en þess í stað hef ég fengið leifi til að birta pistil Jóhannesar Björns Lúðvíkssonar á www.vald.org enda kemur hann vel orðum að mörgu af því sem mér liggur m.a. á hjarta. Eins vil ég benda fólki á að kynna sér skrif Jóhannesar á vald.org en hann hefur bent á um langa hríð inn í hverskonar efnahagsumhverfi heimurinn stefnir og hefur haft rétt fyrir sér til þessa. Sjálfur las ég bókina hans "Falið vald" þegar hún kom fyrst út um 1980 og hefur sá lestur alla tíð síðan haft áhrif á mína heimsmynd.

 

En hér kemur pistill Jóhannesar:

 

[13. júlí 2009] Þeir sem bara bíða og vona verða venjulega fyrir vonbrigðum. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu hafa frá byrjun einkennst af óskhyggju-von um að tíminn lækni öll sár-og getuleysið hefur líka verið sláandi. Þess vegna hafa "vinir" okkar í Evrópu getað vaðið yfir okkur á skítugum skónum og í leiðinni stefnt þjóðinni í gjaldþrot.

 

Margar staðreyndir sem hafa verið að koma í ljós varðandi Icesave-samninginn benda til þess að hér sé um nauðungarsamning að ræða og gjörningurinn sé því tæknilega ógildur. Þjóðinni var stillt upp við vegg og meira að segja "frændur" okkar í Svíþjóð og Noregi voru í aftökuliðinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti líka ólöglegri fjárkúgun. Alþingi á að kasta þessum samningi út í ystu myrkur.

 

Nú er líka rætt um að við verðum að ganga í samtök sömu þjóða og eru að kúga okkur þessa dagana. Það er svipuð lógíg og að segja konu sem er þunguð eftir nauðgun að það sé skynsamlegast að hún giftist árásarmanninum ... það einfaldi málið fjárhagslega! Sannleikurinn er nefnilega sá að flestir stuðningsmenn báknsins í Brussel eru eingöngu að spá í efnahagslega hlið málsins og minnast sjaldan á nokkuð annað. En hvernig í ósköpunum verðum við betur stæð fjárhagslega ef við beygjum okkur undir vald aðila sem eru nýbúnir að kúga okkur efnahagslega? Hvaðan koma þessar væntingar? Er þráin eftir evru að rugla menn alvarlega í ríminu?

 

Ríkisstjórnin sem sat við völd þegar bankarnir hrundu var gjörsamlega lömuð og lagði drög að samningum við Breta og Hollendinga sem allt að því má flokka undir landráð. Tölurnar gengu ekki upp og voru ekki boðlegar næstu kynslóðum skattgreiðenda.

 

Stjórnin sem núna situr hefur verið lítið skárri og hrósar sér helst að því að það séu varnaglar í landráðssamningnum sem leyfa endurskoðun ef illa fer. Bíða og vona er viðkvæðið. Allir heilvita menn hljóta þó að sjá að það er miklu hagstæðara að semja upp á nýtt heldur en að reyna að leiðrétta ónýtan samning seinna. Við þetta bætist að enginn veit hvað (ef eitthvað) fæst út úr erlendu eignasafni bankanna. Það á bara að bíða og vona.

 

Hræðslan um hugsanlegan gjaldeyrisskort hefur lamað íslenska embættismenn í átta mánuði og fært gömlu nýlendukúgurunum ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allt of mikil völd yfir þjóðinni. Það þarf erlenda mynt til þess að kaupa eldsneyti á faratækin og endurfjármagna eldri lán, t.d. hjá Landsvirkjun. En hafa þessir þjónar fólksins gert nokkurn skapaðan hlut til þess að bjarga málunum, annað en að skríða marflatir fyrir AGS og gömlu nýlenduherrunum?

 

Eitt af því sem átti að fara í gang strax í upphafi hrunsins voru samningaumleitanir við sem flestar þjóðir um gagnkvæm gjaldeyrisskipti. Hér er átt við samninga eins og Kínverjar hafa þegar gertvið nokkur ríki. Sem dæmi, þá sömdu Argentínumenn um að taka 70 milljarða kínverskra yuan (jafnvirði $10 milljarða) í skiptum fyrir sömu upphæð í pesetum. Argentínumenn nota kínversku peningana til þess að kaupa hvað sem þeim þóknast frá Kína og Kínverjar nota pesetana til þess að kaupa vörur og þjónustu frá Argentínu. Þetta eru miklu sveigjanlegri viðskipti en t.d. gömlu rammasamningarnir sem Ísland gerði við Sovétríkin hér áður fyrr vegna þess að það er ekki verið að semja um skipti á ákveðnum vörutegundum.

 

Gagnkvæm gjaldeyrisskipti Íslands bara við Rússland færu langleiðina að bjarga okkur frá hugsanlegu hruni ef Evrópa reynir aftur að refsar okkur. Við getum þá keypt af Rússum það sem okkur vanhagar mest um, olíu og bensín. Við seljum þeim svo fisk og ýmislegt annað.

 

Kínverjar eru leiðandi í þessari tegund viðskipta og sennilega til í að taka krónur upp í yuan. Kínverskir ferðamenn gætu þá keypt krónur í Kína áður en þeir leggja land undir fót og heimsækja okkur, Íslensk orkufyrirtæki gætu selt þjónustu sína í Kína og fengið greitt í íslenskum krónum, margvísleg þjónusta er hugsanleg (t.d. umskipun) þegar siglingaleiðin yfir norðurhvel opnast o.s.frv. Og hvernig væri að opna fríhöfn í nokkrum skemmum á Keflavíkurflugvelli þar sem hægt er að umskipa vörum tollfrjálst og jafnvel fullvinna? Allar stærðir flugvéla geta lent í Keflavík og nálægðin við meginland Evrópu, Ameríku og Asíu er ómetanleg. Fríhafnirnar í Hong Kong og Panama eru peninganámur. Fríhöfn sem notfærir sér vaxandi vöruflutninga í lofti ætti ekki að vera neitt síðri.

 

Þegar neyðarástand ríkir þá hafa menn ekki tíma til þess að bíða og vona. Fáránlegir stýrivextir eru búnir að kvelja atvinnustarfsemina árum saman, en samt halda margir áfram að tala eins og eitthvað hljóti nú að fara að gerast. Kannski lækka stýrivextir í júlí ... kannski í september ... kannski með vorinu ... bara að bíða og vona.

 

Háir stýrivextir eru verðbólguhvetjandi í litlu hagkerfi vegna þess að innlend verðsamkeppni er óveruleg. Fyrirtækin reikna þá kostnað okurvaxtanna inn í verðlagninguna. Rannsóknir hafa líka sýnt að háir stýrivextir verja engan gjaldmiðil nema í örstuttan tíma. Spekúlantar kaupa í augnablikinu á meðan almennilegir fjárfestar halda sig í fjarlægð frá hagkerfi sem sýnir sjúkleika sinn með því að beita okurvöxtum. Hagkerfi sem laðar til sín spákaupmenn byggir á sandi.

 

Glæpur sem gengur undir nafninu verðtrygging lána er á góðri leið með að gera heila kynslóð gjaldþrota. Þessi menntaðasta kynslóð Íslandssögunnar verður flæmd úr landi á meðan menn bíða og vona að verðbólgan fari nú að hægja á sér. Sannleikurinn er hins vegar sá að líkt og okurvextirnir þá er verðtryggingin verðbólguhvetjandi. Í venjulegu árferði býður fólk of hátt í húsnæðið ef mánaðarleg greiðslubyrði er lækkuð með óeðlilegum aðferðum sem fela okurvaxtabyrðina þar til seinna.

 

Það verður að höggva á hnútinn.

 

Verðtryggð lán, þar sem annar aðilinn er látinn taka alla áhættu, eru sennilega ólögleg og þau eru vissulega stórskaðleg. Það er furðulegt að þetta siðleysi skuli viðgangast á meðan eignir fólks sem ekkert braut af sér fuðra upp.

 

Leggjum niður verðtryggingu lána-strax! Stórlækkum stýrivexti á sama tíma og verðbólgan hverfur á nokkrum mánuðum. Tökum krónuna af floti og festum við körfu gjaldmiðla. Við erum í stórkostlegu tímahraki og bráðum verður ekkert hægt að gera til þess að koma í veg fyrir miklu verra hrun og brunaútsölu á auðlindum landsins.

www.vald.org


mbl.is Leynd ekki aflétt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gerður Pálma

ALLT sem ég hef kynnt mér í alþjóða valdbeitingu fjármagns er EINMITT staðhæfing á Földu Valdi, fólk hreinlega vill ekki vita sannleikann, og þessvegna rennur það í farveginum beina leið á sleipan botninn.

Gerður Pálma, 13.7.2009 kl. 15:01

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Flestir fjölmiðlar þegja þunnu hljóði um að í Icesave samningnum er kveðið á um að Ísland "afsali sér griðum ótímabundið og óafturkræft". Samninganefndarmennirnir vissu ekki hvað þetta þýddi en það gera þjóðréttarfræðingar og þeim rennur kalt vatn milli skinns og hörunds yfir hugarfarinu.  Eftir Versalasamningana var það viðurkennt að að ekki mætti knýja neina þjóð til skuldbindinga sem brjóta niður innviði samfélagsins. 

Íslendingar virðast vera í því að láta blekkja sig sbr. bloggfærslu mína í dag

Sigurður Þórðarson, 13.7.2009 kl. 16:28

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

mynd Rósa í Rjóðri orðin heimilislaus.

Vistmönnum úthýst af elliheimili;þarna er um íbúa Helgafells á Djúpavogi að ræða samkvæmt visi.is og ruv í kvöld.  Þetta fólk á hug minn allan þarna er um vini, samstarfsfólk og fyrrum sveitunga að ræða.  Hvað verður biðin löng hjá velferðarstjórninni.

"Að sögn Guðbjargar hefur móðir hennar, sem er á níræðisaldri, búið á Djúpavogi í sextíu ár.

„Ég hef reynt að fá hana til Hafnar, en þarna vill hún fá að vera. Ég þarf að taka hana nauðuga," segir Guðbjörg, sem sjálf býr á Höfn í Hornafirði. Hún segir móður sinni hafa verið gefin róandi lyf áður en þær yfirgáfu öldrunarheimilið í hinsta sinn."

http://www.visir.is/article/20090713/FRETTIR01/990107471/-1 

Magnús Sigurðsson, 13.7.2009 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband