The Living Matrix.

 

IMG 0102

Síðastliðinn þriðjudagskvöld fór ég á fyrirlestur hjá Sigrúnu Theodórstóttir þar sem myndin The living matrix var sýnd.  Bæði fyrirlestur Sigrúnar og myndin voru sérstaklega áhugaverð.   Þessi mynd greinir frá því hvernig það sem oft er flokkað sem kraftaverk, getur orðið að hversdagslegum viðburðum.  Um það hvers hugurinn er megnugur þegar kemur að því ná góðri heilsu sem af einhverjum orsökum er ekki til staðar.

 

Ég vissi ekki af þessum fyrirlestri fyrr en ég kom heim um tæpum klukkutíma áður en hann byrjaði. Matthildur sagði mér frá því að á dagskrá Ormteitisins væri fyrirlestur um lækningamátt eigin hugsanna, þarna væri sennilega eitthvað fyrir sérvitring eins og  mig.  Fyrst í stað ætlaði ég ekki að nenna á þennan fyrirlestur, hafði hugsað mér að sjá eitthvað viðtal sem var í Kastljósi sjónvarpsins og fjallaði væntanlega um efnahagserfiðleika hér á landi. Svo hugsaði ég sem svo þessa erfiðleikaumræða get ég hvenær sem er meðtekið í gegn um fjölmiða, en það er ekki víst að á þennan fyrirlestur komist ég á jafn auðveldlega í annan tíma.  Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun og kom það reyndar nokkuð á óvart að það skyldu vera um 50 aðrir sérvitringar á fyrirlestrinum.

 

Það sem mestu skiptir hjá hverjum og einum er hugarfarið, hvernig hann hugsar og hvernig hann tengist jákvæðri orku með hugsunum sínum.  Fjölmiðlarnir hafa upp á síðkastið verið ötulir við að færa fréttir slysum, glæpum, náttúruhamförum og þeim erfiðleikum sem framundan eru í efnahagslífinu.  Það getur því verið erfitt að komast í það jákvæða hugarfar að það sem telst til kraftaverka verði jafn eðlilegt og daglegt brauð.

 

Seinnihluta vikunnar ákvað ég því að nota til að koma mér í verulega jákvætt hugarfar, fór niður að "sælureitnum við sjóinn"  kveikti hvorki á útvar, sjónvarpi né las blöð í nokkra daga.  Það er eins og að hafa lifað í öðrum heimi.  Ég stakk upp á því við Matthildi að hún kæmi með og við prófuðum að lifa á því sem náttúran gæfi, tíndum ber, fengum okkur njólasalat og nöguðum hvannarstöngla auk þess að dorga í soðið.  Hún spurði hvort ég ætlaði ekki að éta arfa og hundasúrur líka, afþakkaði gott boð og sagði að hún hefði meiri áhuga á dagskrá Ormsteitisins. 

 

Dagarnir síðsumars eru oftast hlýir og margbreytilegir, birta dagsins oftast einstaklega tær þegar næturnar eru farnar að vera dimmar og svalar.  Þetta er því minn uppáhalds tími en honum fylgir oft söknuður þess liðna sumars sem leið allt of fljótt.  Eftir að kreppan skall á hætti ég þeirri vinnu sem ég hef haft lífsviðurværi af alla æfi.  Þar sem grundvöllurinn hvarf fyrir verktakastarfsemi í byggingariðnaði ákvað að gera bara það sem er skemmtilegt hér eftir.

 

Sumarið hjá mér hefur farið í að selja ullarfatnað og íslenskt handverk til erlendra ferðamanna þar á meðal prjónaskap Matthildar.  Þegar fundur forsætisráðherra norðurlandana var haldin á Egilsstöðum í júní keyptu flestar norrænar forsætisráðherra frúr hosur gerðar af Matthildi, þó ekki sú íslenska.    Auk þess að selja ullarhandverk hef ég tekið þátt í því með einstöku fólki að setja upp fiskvinnslusýningu, markað, ljósmynda og málverksýningu á Stöðvarfirði sem var opin frá því í byrjun júní og til síðustu helgar.  Þetta hefur verið einstakt sumar og það er alveg öruggt að ég hefði átt að taka þá ákvörðun fyrir löngu að gera bara það sem er skemmtilegt.  Núna síðustu dagana hef ég toppað það með því að liggja í berjamó, sólbaði og virða fyrir mér fugla himinsins.

 

Það er greinilegt að það eru fleiri sem hafa fengi þá hugmynd að gera það sem er skemmtilegt.  Það má sjá báta í hverjum firði á góðviðrisdögum.  Hafnir sem hafa verið lífvana undanfarin ár eru nú fullar af smábátum og iðandi af lífi.  Það eru ekki bara strandveiðar ríkisstjórnarinnar sem orsaka þetta líf, einnig er það sú staðreynd að fólk hefur rýmri tíma, hvað er þá betra en að blanda saman skemmtun og búdrýgindum, róa og fiska í soðið.  Undanfarna viku hef ég heimsótt marga af uppáhaldsstöðunum mínum m.a. Djúpavog og séð eina af undursamlegu skemmtunum sumarsins, en það er listaverk Sigurðar Guðmundssonar "Eggin í Gleðivík".

 

Vinir og samstarfsfélagar, kjarkmeiri en ég, hafa notað tækifærið sem breytingarnar gefa.  Gera það sem þá hafði alltaf langað til að prófa, flytja til annarra landa og hefja nýtt líf.  Söknuður sumarsins er að miklu leiti sú eftirsjá sem er af vinum og samstarfsmönnum sem ég hef umgengist daglega undanfarin ár.  Söknuðurinn yfir því að hafa ekki daglegt samneyti við vini sem sönnuðu fyrir mér kenningu Krists í þeim verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur; "Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim".

 

Samt kem ég sennileg seint með að hafa hugrekki bróður míns, til að gera það sem hugurinn býður.  Hann lét af störfum sem verkfræðingur hjá Mannvit.  Þar hafði hann starf sem tengdist byggingu Tónlistarhússins, kom að hönnunar þeirrar byggingar frá upphafi þegar hann vann með dönskum arkitektum hússins Kaupmannhöfn.  En í september 2007 sagði hann upp og hætti um áramót, fór í það sem honum langaði mest til, þ.e.a. kynna sér Búdda fræði.  Nú er hann Búdda munkurinn Kelsang Lobon en hjá okkur, hans nánustu, verður hann alltaf Sindri.

 

The Living Matrix ; lífið er því draumur og við ímyndun eigin hugsanna.  Hér á síðuna hef ég sett myndaalbúmið Ágúst 2009 þar er að finna myndir frá síðustu viku.  Það er svo skrítið að það gerist æ oftar þegar tekin er mynd af mér að þá er grár karl á myndinni en ekki snaggaralegur glókollur eins og áður fyrr.  Þó get ég svarið að glókollurinn er í speglinum þegar ég lít í hann.  En þess ber að geta að ljósmynd þarf ekki að vera annað en óraunveruleg túlkun á fyrirmyndinni.  En eitt datt mér ekki í hug þegar Þursaflokkurinn söng á sínum tíma;  "Vill einhver elska 49 ára gamlan mann" að hann kynni að vera að syngja um mig.

Hér má sjá myndina The Living Matrix.

http://www.youtube.com/watch?v=fCWhXbtqx0k

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Jamm þetta er falleg hugvekja hjá þér. Hugsunin er til alls fyrst. Og það góða við kreppuna er að menn taka að staldra við og setja spurningamerki við daglegu hlutina. Gangi þér vel vinur.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 27.8.2009 kl. 21:08

2 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=aFaCvtYEGC8&feature=related     got hja ter Magnus tad er lifsnaudsin ad slokva a sjonvarpinu

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 23:11

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þór;  takk fyrir góð orð í minn garð.  Sammála hugsunin er til alls fyrst og með henni getum við búið til okkar veruleika þess vegna skiptir það svo miklu máli um hvað við hugsum og hverju við trúum.  Gangi þér vel og láttu ljós þitt skína.

Helgi;  takk fyrir þetta video þetta er bæði skemmtilegt og sýnir á táknrænan hátt hvernig við látum hafa okur að fíflum í gegnum fjölmiðla sem færa okkur stöðugar hörmungar heim í stofu.  Við erum jafnvel farin að ímynda okkur að við búum innan um eintóma glæpamenn.  Það er hressandi að lesa skrif "Gammon" http://gammon.blog.is/blog/gammon/entry/932639/  bloggvinar míns um "ruslveitur" og "raðlygara" sem þrífast sem aldrei fyrr þrátt fyrri mega gjaldþrot.  Það segir meira en mörg orð um mikilvægi fjölmiðlanna við að halda uppi kerfinu.

Magnús Sigurðsson, 28.8.2009 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband