Átta nýjar reglur fyrir fjármál framtíðarinnar.

 Sparnaður

Undanfarnar vikur hef ég verið að kynna mér bókina hans Robert Kiyosaki sem kom út í september s.l., Conspiracy of the Rich - The 8 new rules of money.  Ég las fyrst bækur Kiyosaki fyrir nokkrum árum síðan, Rich Dad / Poor Dad frá 2000 (kom út á íslensku í fyrra) og Prophecy frá 2001.  Bækur Kiyosaki er skrifaðar á máli fyrir venjulegt fólk, gefa ráð sem virka og framtíðarsýn hans er nákvæm. 

 

Í þessari nýju bók bendir Kiyosaki á 8 reglur fyrir einstaklinginn til að taka málin í sínar hendur í því fjármálaumhverfi sem blasir við flestum eftir atburði ársins 2008.  Fyrri hluti bókarinnar fer í að gera grein fyrir tilurð þess fjárhagslega upplausnarástands sem við lifum nú í, þ.e.s. þætti stjórnvalda og hvers við getum vænst af þeim í nánustu framtíð.  Hvað hefur menntakerfið kennt okkur um fjármál og hvað eru peningar.  Síðar hlutinn fer síðan í að benda fólki á hvernig það getur komist þokkalega af í því gjörbreytt efnahagsumhverfi sem er framundan.  Hann telur mestu breytingarnar eiga eftir a opinberast á tímabilinu 2012 - 2016 við séum nú stödd í miðju fellibylsins.  Því er enn nokkur tími til undirbúnings.

 

Nokkrar af mínum síðustu færslum hafa fjallað um fjármál þó svo að ég hafi tengt þær við fréttir sem þær hafa ekki beinlínis fjallað um.  Þetta hef ég gert til að freista þess að fá fleiri komment.  Núna ætla ég að birta þessar hugleiðingar eins og þær eru án fréttatenginga, en þær eiga við um fyrri hluta bókarinnar.  Ég stefni á að birta glósur úr seinnihlutanum hér á síðunni við tækifæri.

 

 

Hvers má vænta af stjórnvöldum:

Stjórnvöld víða um heim og fjármagnseigendur, þeir ríkustu, hafa komið sér saman um að það þurfi engin áþreifanleg verðmæti að vera á bak við peninga.  Fram til 1971 var USD bundin við ákveðna þyngd af gulli en í tíð Nixon var sú tenging afnumin.  Eftir það hafa nánast allir peningar farið í umferð í formi skulda, þ.e. einhver þarf að taka lán til þess að peningar fara í umferð.  Þetta peningakerfi hefur leitt til þess að æ fleiri eru komnir á skulda færibandið og verða að hlaupa hraðar og hraðar því ef þeir stoppa til að líta í kringum sig mun færibandið kippa fótunum undan þeim.

 

 

Munu stjórnvöld koma almenningi til hjálpar í skuldasúpunni?  Sennilega ekki, sagt er að grundvallar tilgangur ríkisstjórna nútímans sé að vera verkfæri fjármagnseigenda að vösum almennings.  Þau sannindi hafa sjaldan opinberast eins rækilega og síðastliðið ár.  Ræningjar nútímans eru eru jakkafataklæddir og njóta aðstoðar stjórnmálamanna.  Rán nútímans fara fram með því að ræna banka og sjóði innanfrá og láta síðan almenning borga brúsann í formi, skatta, vaxta, verðbólgu og greiðslna í lífeyrissjóði.  Skattar eru notaðir til að greiða skuldir ríkisins við lánadrottna sem urðu til þegar sömu aðilar tæmdu banka og sjóði innanfrá,  almenningur er látin borga vexti af stökkbreyttum höfuðstól, verðbólgan malar gull í gegnum vertrygginguna og sem fyrr er launafólki gert að láta 12 % tekna sinna renna í lífeyrissjóði.

 

 

Sömu aðilar og komu okkur í þessa stöðu telja síðan almenningi trú um að þeir séu best til þess fallnir að greiða úr flækjunni og ránið heldur áfram. Staðan er orðin þannig að hinn almenni borgari þarf í reynd að taka lán, til að borga sér laun, borga skatta og safna upp lífeyrissréttindum.  Síðan á að treysta þeim aðilum sem létu greipar sópa innanfrá til að ráðstafa pakkanum.

 

Hvað er okkur kennt um fjármál:

Það hefur verið viðtekin venja að hvetja ungt fólk til að afla sér menntunnar og undirbúa sig þannig fyrir lífi.  Því hefur verið sagt að með góðri menntun fái það gott starf sem geti skapað því tekjur til að stofna heimili með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir. Íbúðarhúsnæðið sé stærsta fjárfesting þess, að auki beri að spara til efri áranna í gegnum lífeyrissjóði og viðbótar lífeyrissparnaði fjármálafyrirtækjanna.

 

Ævin gengur út á í stuttu máli sagt; farðu í skóla, fáðu starf, vertu duglegur, sparaðu peninga, húsið er þín mesta eign og stærsta fjárfesting, lifðu ekki um efni fram, komdu þér út úr skuldum, fjárfesti í langtímasparnaði s.s. í gegnum viðbótarlífeyrissparnað og lífeyrissjóði þar sem sérfræðingarnir eru en þú hefur nánast ekkert um ráðstöfun þíns sparnaðar að segja, þegar þú ferð á eftirlaun mun hið opinbera sjá um það sem upp á vantar.  Þannig er leiðarvísir ungs fólks út í lífið.

 

Flestir nemendur hafa stofnað til mikilla skulda við að afla sér "dýrmætrar" sérfræðiþekkingar, koma þannig stórskuldugir inn á atvinnumarkaðinn.  Stofna til ennþá stærri skulda til að eignast m.a húsnæði og bíla til að komast til og frá vinnu.  Það má því segja að fólk hafi þegar ráðstafað lífi sínu strax á námsárum sínum.  Þessari skuldsetningu fylgir að störfin gefa miklar skatttekjur í ríkissjóð og öruggt fjárstreymi til fjármálageirans í gegnum lífeyrisgreiðslur,það jafnhliða vaxtagreiðslum af öllum skuldunum sem til eru orðnar.  Það má segja að allt það fjárstreymi sem í gegnum æfi manneskjunnar streymir lendi þannig með einum eða öðrum hætti hjá fjármagnseigendum.

 

Þó svo menntakerfið búi til góða sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum þá kennir það einstaklingnum nánast ekkert um praktísk fjármál.  Staðreyndin er sú að sáralítið samhengi er á milli menntunnar og þeirra sem hafa náð langt í fjárhagslegu frelsi.  Það er því umhugsunarvert hvers vegna menntakerfi sem er svona upp byggt leggur ofuráherslu að ná til barnssálarinnar á mótunarárunum þegar hægt er að hafa mestu áhrifin á ríkjandi viðhorf manneskunnar ævilangt.  Kerfi sem frá byrjun hvetur í raun  einstaklingin til taumlausrar skuldsetningar og fjárhagslegrar ánauðar.

 

Forn Grikkir trúðu að menntun væri til þess að kenna fólki að hugsa. Nútíma menntun gengur út á að þjálfa þá fólk í að gera það sem því er sagt frá blautu barnsbeini. Sagt er að menntakerfi nútímans komi að uppistöðu til frá Prússnesku kerfi19. aldar kerfi sem var ætlað að bú til gott starfsfólk og hlýðna hermenn.  Semsagt fólk sem í blindni fylgir fyrirmælum, fólk sem bíður eftir að vera sagt hvað það eigi að gera, þar með talið hvað það á að gera við tíma sinn og peninga.  Framúrskarandi nemendur eru nær því undantekningarlaust verðlaunaðir, með vinnu fyrir hina ríku við að viðhalda því kerfi sem byggt hefur verið upp og auka þannig við auð þeirra efnamestu.

 

Þessi skortur á frjálsri hugsun og fjárhagslegri menntun skólakerfisins hefur leitt til þess að fólk er tilbúið til að gefa stjórnvöldum sífellt meiri völd í lífi sínu.  Vegna þess að það býr ekki yfir nægilegri fjárhagslegri færni til að ráða við eigin framfærslu í flóknu kerfi sem byggir á síaukinni skuldsetningu.  Þess í stað er okkur ætlað að vænta þess að stjórnvöld leysi vandamálin fyrir okkur.  Með þessum hætti framseljum við frelsi okkar til stjórnvalda nútímans sem hafa sannað sig í því að vera verkfæri fjármagnseigenda að vösum almennings sem aldrei fyrr.

 

Því hefur verið haldið að okkur að við eigum ekki að vera of upptekin af peningum og hefur jafnvel verið láti að því liggja "peningar séu rót hins illa" og þá vitnað til hinnar helgu bókar.  Þar er reyndar sagt eitthvað á þá leið að "ágirnd í peninga séu rót hins illa", takið eftir; ágirnd, en ekki peningarnir sjálfir.

 

Það að halda fólki í fjárhagslegri fáfræði er í raun illska.   Það eitt að einhver þurfi að vinna við starf sem hann hefur ekki áhuga á, eða fyrir fólk sem hann ber ekki virðingu fyrir, jafnvel ganga í hjónaband þar sem eingin ást er og ætlast þannig að til að einhver annar sjái um fjárhagslegt öryggi hvort sem það er maki, vinnuveitandi eða stjórnvöld.  Kerfi sem þannig afvegaleiðir manneskjur sem fæðast inn í þennan heim með alla þá kosti sem gerir þá fullfæra um að bjarga sér sjálfir, er í raun rót hins illa.

 

Hvernig verða peningarnir til:

Peningar eru í raun ekki annað en þekking.  Það er hverjum og einum nauðsyn að gera sér skýra grein fyrir því hvernig kerfi virkar þar sem peningar verða til fyrir skuldir því þar geta eignir orðið að skuldum á svipstundu.

Virkni peningakerfisins má lýsa í sinni einföldustu mynd eitthvað á þennan veg, segja sem svo að þú eigir 100 þús og leggir inn í banka, bankinn skuldar þér þar með þessa upphæð og  lofar þér að endurgreiða hana með  5% vöxtum, þ.e.105 þús eftir ár.  Bankinn hefur hins vegar heimild til að lána þessi 100 þús allt að 12 sinnum á sama tíma (bindiskylda ísl. banka var um 8%).  Þar sem útlánsvextir eru alltaf hærri en innlánsvextir þá má hugsa sér vexti bankans 10%.  Bankinn er því búin að hafa rúm 1.200 þús út á 100 þús þín á sama tíma og hann endurgreiðir þér 100 þús ásamt 5 þús í vexti.  Þetta gerir það að verkum að 100 þús krónurnar þínar eru í raun orðnar verðminni eftir að þú ávaxtaðir þær hjá bankanum.  Það gerist í gegnum verðbólguna sem bankinn skapar með því að stórauka peningamagn í umferð, það sem gerir það að 100 þús þín eru ekki því sem næst verðlaus, eftir að þú fékkst bankann til að ávaxta þau fyrir þig, er hve mikið af umframmagni peninga er ónotað eða með öðrum orðum í veltu bankans. 

 

Það má í raun líkja þessu við að þú lánir kunningja þínum 75 cl. flösku af 100%  spíra, hann blandar hana niður með vatni en selur hann frá sér til nokkurra valinna kunningja sinna sem vodka. Allir vita þeir að þeir eru með það sterkt áfengi og að í lagi er að blanda það meira niður til neyslu og áframselja það sem bragðbætta vodka blöndu.   Þetta getur allt gengið þangað til einhverjum dettur í hug að halda veislu og ætlar að grípa til flösku í þeirri trú að um spíra sé að ræða.  Þá kemur í ljós að innihaldið er að mestu vatnsglundur með álíka styrkleika og bjór.  Það var því kunningi þinn og kunningjar hans sem höfðu mest út úr spíranum þínum og þú situr jafnvel uppi með flösku af vatnsglundri sem þú hélst að væri næstum lítir af spíra. 

 

Það sem skiptir öllu máli í þessari útþynningu peninga sem verða til í formi skulda, er hvar þú ert í röðinni.  Hvað þín fjármál varðar, hafðu þig fremstan.

 

Hugleiddu því vel hvernig þú ráðstafar verðmætum þínum sem urðu til vegna þekkingar þinnar og vinnu, sem síðan getur umbreyst í peninga sem eru í raun arfleiður sem urðu til fyrir gullgerðarlist í formi skulda.  Leitastu við að  láta þær skapa þér tekjuflæði, láttu þá vina fyrir þig.  Langtímasparnaður er yfirleitt ekki annað en söfnunarárátta og sóun á þínum fjármunum. 

 

Þeir eru ekki til sem hafa riðið feitum hesti frá fjárfestingu í langtíma sparnaði á bankabókum, verðbólgan hefur séð til þess og það þrátt fyrir hina frábæru sér íslensku verðtryggingu.  Sama gildir um fjárbindingu í lífeyrissparnaði sem er yfirleitt ávaxtaður á hlutabréfamarkaði.  Fárfesting á þeim markaði er eins og fjárhættuspil þú tapar örugglega ef þú ert þar nógu lengi.  Póker og gjaldmiðlabrask gefa jafnvel betri ávöxtun því þar eru markmiðin skýr, fjárfestingin stutt og þar sérð þú á eitthvað af spilunum en á hlutabréfamarkaði hafa innherjar algjört forskot eins og dæmin hafa margsannað.

 

Fjármálafyrirtæki og sjóðir hafa í gegnum tíðina boðið fólki gulltryggar sparnaðarleiðir til lengri tíma og hafa sýnt allskyns meðaltöl yfir ákveði tímabil aftur í tímann um væntanlegar hækkanir framtíðarinnar.  Það að treysta á að eitthvað hækki bara við það að þú fjárfestir í því og ætla öðrum um ráðstöfunina, er stórvarasamt.  Markaðir fara upp og niður, það ráðstafar eingin eins vel  peningum eins og sá sem ætlar sér að njóta ávaxtanna.  Það væru margt fólk í öðrum sporum í dag hefði spá fjármálafyrirtækjanna gengið eftir. En í stað þess situr margir uppi með stökkbreyttar skuldir og glatað sparifé.  Ef þú lætur þér detta í hug að fjármálakerfið ætli að deila byrðunum með þér gegn því að þú treystir því áfram fyrir þinni velferð verður þú einfaldlega í enn verri málum í framtíðinni.

 

Heimasíða Róbert Kiyosaki.

Conspiracy of The Rich

Bóki er að talsverðu leiti byggð á bloggi og hefur vakið umræður víða, eins og HÉR  má sjá.

 

Education Vs. Financial Literacy

http://www.youtube.com/watch?v=ALymGxpyi6M&feature=player_embedded


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Baukur

Takk Magnús,

Góður pistill.

kv.

Haukur

Haukur Baukur, 18.11.2009 kl. 09:22

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Takk fyrir Haukur.  Ég hef verið að kynna mér síðuna "skuldlaus", finnst þar vera um mjög þarfar ábendingar að ræða og tími komin á aðstoð sem sem þar er í boði. 

Ég vil benda fólki á að kynna sér úrræði "skuldlaus" hér.

Magnús Sigurðsson, 18.11.2009 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband