Tímanna tákn


Eitt eilífðar smáblóm

IMG_6132

 

Það mætti ætla að utanaðkomandi innræting sé hinn raunverulegi heimur og veruleikinn því utan okkar sjálfra.

Sem börn höfum við upplifað að draumar eru raunverulegir, vegna þess að draumurinn býr innra með barnssálinni.

Draumur getur verið líkur ást við fyrstu sýn, hjartað hefur gert sér mynd af því hvernig ástin lítur út áður en hún birtist.

Það er ekki fyrr en seinna sem kemur í ljós hvort um tálsýn er að ræða. Mynd hjartans, sú mynd sem beðið hefur verið um hið innra, er eftir sem áður jafn sönn.

Bænin er tilraun til að upplifa draum sem veruleika í heiminum. Tálsýnin er heimurinn þegar við trúum ekki lengur á drauminn.

"Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það, eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."

Hafa ber í huga að flækjast ekki um of í aukaatriðum, og verða eins og sá sem trúði að tunglið skipti miklu meira máli en sólin.

Vegna þess að tunglið lýsti á nóttunni, en sólin skíni á daginn þegar það væri bjart hvort eð er,

-leifum því veruleika barnsins ráða bæn okkar til Guðs.

 

En hugsjónir frjálsar og fagrar

fæðast í þeirra hjörtum

er miða áfram að markinu lengst

móti himninum björtum  

Ljóð; Guðfinna Þorsteinsdóttir.


Kjaftstopp

Það má segja að ég hafi verið orðlaus síðan bjálfarnir við Austurvöll gengu í björg og keyrðu í gegn enn einn skattinn. Kolefnisgjald þess í neðra, vegna Svartsengis og Blanka lónsins. Flón fóru á kostum við sviðsmyndagerð svo ekki var við góðu að búast. Enda kom fram frumvarp eins og þjófur að nóttu um aukaskatt á húsnæði landsmanna svo fjármagna mætti einkavæddar sviðsmyndir af Reykjanesi

Já, 57 flissandi fábjánar greiddu atkvæði með gjörningum, ekki veit ég hvort þeir sex í viðbót sem skreyta þar stóla greiddu atkvæði á móti, sátu hjá, eða voru hreinlega ekki í ástandi til að mæta. Allavega fór gjörningurinn í gegn hratt og smurt gjörsamlega án umræðu úti í samfélaginu, sem á að borga fyrir herlegheitin, -í stað þess að huga að húsnæðisvanda flóttafólks úr Grindavík.

Á eftir að frumvarpið varð að lögum reis upp hver mannvitsbrekkan af annarri og sá fáránleikann, - en bara of seint. Enda hafði ekki nokkrum einasta vanvita á hinu ærulausa alþingi komið til hugar í svo mikið sem eitt augnablik að stinga niður fótum með örlitlum ræðustúf gegn nýrri skattlagningunni í tómar hirslur hins alræmda ríkissjóðs.

Það verður víst hver fugl að fá að fljúga eins og hann er fiðraður hér eftir, en ekki er á sviðsmyndirnar bætandi hjá flónum. Það ættu þeir að vita sem hafa tekið þátt í þeirri hrauka gerð sem nú þegar hafa verið framkvæmdar sem ofanflóðavarnir og stefna í að verða viðsjálli en náttúruhamfarirnar sjálfar.


Völuspá með Skaufhalabálki

Surtur fer sunnan

með sviga lævi,

skín af sverði

sól valtíva.

Hafði áður

hætt útvegi,

nægtir voru þá

og nógar vistir.

Geisar eimi

við aldurnara,

leikur hár hiti

við himin sjálfan.

Matur er eigi meiri

mér í höndum:

halrófu bein

og hryggur úr lambi,

bógleggir þrír

og banakringla.


Thank You Very Much

Nú hafa flónin, sem ætla að verjast eldsumbrotum á Reykjanesskaga með skurðgröfu, fengið flissandi fábjána til að fara fram með frumvarp á Alþingi um það hvernig á að fjármagna flónskuna með hraði. 

Flónskan verður fjármögnuð með ár­legu gjaldi á all­ar hús­eign­ir í landinu, sem nemur 0,08‰ af bruna­bóta­mati sam­kvæmt lög­um um bruna­trygg­ing­ar. Eiga tekj­ur af gjald­inu renna í hinn alræmda rík­is­sjóð.

Þarna er um að ræða svipaða aðferðafræði og var viðhöfð um ofanflóðasjóðinn sem hvarf á dularfullan hátt um árið.

Reikni nú hver fyrir sig hvað þetta mun kosta og segi svo á eftir að ekki borgi sig að fara út um þúfur í gulu vesti með hvítan plasthjálm á hausnum, reka niður hæla og taka sviðsmyndir.


mbl.is Katrín leggur fram frumvarp um að verja innviði á Reykjanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flón

Nú ríkir hamfara blíða á landinu bláa og bjálfarnir láta ljós sín skína í skammdegis myrkrinu. Uppi eru stórhuga áform um að byggja upp bakka við eldgjár og brýr yfir hraunelfur, til viðbótar við allt grjótið sem keyrt eru fjörur til varnar sjávarföllum, og fjöllum sem rutt er til fjalla sem ofanflóðavörnum.

Verklegir vanvitar með sérfræði gráður eigra nú um mela og móa með mælitæki í blíðunni og reka niður hæla svo hefjast megi handa um leið og endanleg staðsetning hefur verið afmörkuð. Á árum áður þurftu þessi flón að gera sig gildandi með því að henda sér fyrir skurðgröfuskóflur svo á þau væri hlustað, -þá oftast við að stöðva framkvæmdir annarra vegna eigin kjarabaráttu.

En nú er öldin önnur þetta eru handhafar sannleikans úr spálíkani, og sem slík skammta þau sér lífsviðurværið sjálf. Það mun gjósa bara spurning hvar og hvenær, þó svo að það verði ekki til annars tjóns en fjárhagslegs þá er aldrei of varlega farið. Það ætti landanum að vera í fersku minni frá því í kóvítinu.

Það sem nú þarf til, umfram allt annað, er að þylja sömu þuluna nógu oft upp úr spálíkaninu í medíuna. Fá flissandi fábjána við Austurvöll til að setja upp áhyggjusvip í beinni, og fara síðan út um þúfur rekandi niður hæla úti á víðavangi sem afmarka innviða skurðgröfunum pláss. Klædd gulum vestum með hvíta plasthjálma á hausnum í guðs grænni náttúrunni.

Þegar þessi flón gera sig gildandi eru hvorki samsæriskenningasmiðir né álhattar á ferð, -þetta eru svokallaðir fræðingar sem byggja allt sitt á vísindum.


Ýsa var það heillin

Nú stýra stórisannleikur og sálusorgararinn umræðunni, og fara með himinskautum. Sá sagna besti er síðan ómerktur, en undirstrikaður svörtum línum og með því að birta söguskýringar skrifaðar við ilm víns og rósa.

Já einmitt, með því að mála sjálfa sig á altaristöflu, en ekki aurinn sem hóf þá til vegs og virðingar. Nú síðast brá sálusorgarinn sér í svörtum gallabuxum og stutterma bol suðir í landið helga til að upplýsa okkur um allan sannleikann.

Það verður seint sagt að smjörklípa fari út um þúfur og sá sem fyrst hverfur úr stríði kunni ekki að setja fingraför sín sannleikann. Því sannleikurinn er ekki bara beggja blands eins og allir hljóta skilja, -hann þarf líka sinn vitjunartíma.

Guð veri börnunum náðugur á meðan.


Þið þekkið Algrím, -er það ekki?

Það kannast sjálfsagt flestir við að eftir að hafa gúgglað þá fyllast síður, sem litið er inn á, af auglýsingum um það sem var gúgglað. Þannig ástand er núna hjá mér m.a. á fésbókinni. Hún er full af sængum víða að úr heiminum eftir að ég gúgglaði íslensk ullarsæng.

Það má segja að ég hafi hitt á algóðan Algrím sem býr til veröld sniðna fyrir mig. Les hugsanir og uppfyllir óskir ekki síður en almættið. Hann býr mér veröld hlýju og væntumþykju, heldur frá mér því óþægilega og þeim ógeðfelldu, á samt til að vera full alúðlegur fyrir minn smekk.

Þegar ég var í Noregi fyrir 11-12 árum eða svo, var íslenskur vefmiðill sem hafði tekið trú á almáttugan Algrím. Þessu komst ég að með því að vera virkur í athugasemdum. Það skemmtilega við þennan fréttamiðil var, að hann bauð bæði upp á þumalinn upp og þumalinn niður, ekki bara like.

Mér tókst oft að fá fjölda þumla, þó oftast mun fleiri niður en upp. Enda var sérviska mín á skjön við helferðarhyskið sem hélt úti netmiðlinum. En vegna þess að nokkrir með minn þankagang voru forvitnir um hvað áhangendur helferðahyskisins höfðu til málanna að leggja kom fyrir að þumlar væru upp við mínum athugasemdum.

Svo gerðist það einn daginn að ég fékk ekki einn einasta þumal, þó svo athugasemdin mín stæði þarna svört á hvítu heldur betur nöturleg, -og skildi hvorki upp né niður í því. Stuttu seinna datt netið út hjá mér, og ég fékk að fara á netið í tölvu fyrirtækisins, sem ég starfaði hjá og var í sama húsi og ég bjó í, -til að hringja á skype heim á landið bláa.

Á meðan ég talaði við hana Matthildi mína á skype þá datt mér í hug að kíkja á netið, þ.m.t. síðu helferðarhyskisins, og viti menn þar var engin athugasemd frá mér við tiltekna frétt. Mér hafði semsagt verið slaufað án þess að það ætti að valda mér óþægindum, því ég gat áfram lesið ruglið í mér sjálfur í minni tölvu eftir að netsambandið mitt komst aftur í lag, -ég fékk aldrei þumal eftir það.

Þetta var þá svo til óþekkt tækniundur, en er orðin staðalbúnaður Algríms í dag. Ég er t.d. með link á bloggið hjá mér í kynningar reit á fésbókarsíðunni minni, ef ég klikka á hann þá kemur þessi texti upp; Your connection is not private! Attackers might be trying to steal your information from www.magnuss.blog.is (for example, passwords, messages, or credit cards). -ásamt stóru rauðu aðvörunar merki.

Síðan er boðið upp á kennslustund í hvernig má forðast fýrinn og flipa til frekara öryggis, eða snúa snarlega aftur í öryggið. Þessi melding poppar líka upp þegar mér verður á að kíkja á blogg síðuna mína í öðrum tölvum en minni. T.d. ef ég stelst til þess í vinunni, því ég er svo svakalega sérvitur að eiga ekki snjallsíma, finnst í því tilfelli betra að slaufa því sem veldur óþægindum.

Þessi slaufunnar menning hófst reyndar strax með símnúmerabirtinum seint á síðustu öld og hefur náð þeirri fullkomnun í dag að ef símhringingu er ekki svarað og hvorki með símtali eða skilaboðum til baka, þá er viðkomandi líklega dáinn, eða allt að því, -alla vega hægt að segja blessuð sé minning hans í Algríms nafni.


Hvað er líkt með krókódíl?

Allt frá því á unglingsárunum, skömmu eftir að einfaldleiki bernskunnar hvarf og himininn varð pastelblár, hefur þessi spurning um krókódílinn oft komið upp í hugann. Það var æsku félagi minn í næsta húsi, tveimur árum yngri en ég, sem lagði þessa spurningu fyrir mig einn daginn í sumarvinnu við byggingar, þar sem við höfðum þann starfa að naglhreinsa og skafa spýtur, sólbjarta daga í hlýrri sunnan golu.

Mér datt augnablik í hug, af því ég átti að vera eldri og lífsreyndari, að það hlyti að vanta hluta spurningarinnar til þess að hún gæti talist rökrétt, en Óli Guð svarði fyrir að spurningin væri villandi og svarið ætti að vera einfalt enda gæti bæði spurningin og svarið allt eins verið komið frá heimspekideild háskólans.

Þessi spurningin ætti því ekki að vera þvælinn, hvorki fyrir börn né fyrir þá sem vita að tveir plús tveir þurfa ekki að vera fjórir frekar en þeim sýnist. Í mörg ár hefði ég viljað eigna speki svarsins þeim stofnunum samfélagsins sem boða þann sannleika sem á að vera til að auka fólki visku og hvetja það til að leita þess óþekkta með síaukinni sérhæfingu, þar til það veit svo mikið um lítið að það getur talist sérfræðingar fimm háskólagráða.

 

Nú, þegar tugir ævinnar eru orðnir fimm er svarið við spurningunni um krókódílinn sífellt að verða skírara enda hafa vísbendingarnar borist að úr ýmsum óvæntum áttum í gegnum tíðina.

Sá maður sem hafði lengst af mest áhrif á mína lífsýn var nafni minn og afi, Magnús bóndi og almúgamaður á sinni tíð. Þegar hann heimsótti mig einn sunnudags eftirmiðdag, háaldraður, um langan veg til að sjá húsið sem ég byggði, og fjölskyldan mín var þá ný flutt í, gaf hann mér púsl í gátuna um krókódílinn.

Lengi vel voru samræður okkar samhengislaus þvæla þennan sunnudags eftirmiðdag, þangað til hann allt í einu bar höndina upp að eyranu og sagði; aaah ég gleymdi að kveikja á heyrnartækinu, ég fór nefnilega í messu í morgunn og slökkti á heyrnartækinu því mér leiðist svo talið í prestunum".

Afi minn hafði verið kirkjurækinn maður allt sitt líf enda amma fyrrverandi prestsfrú sem missti eiginmanninn, unga prestinn frá tveim litlum dætrum. Lengst af var amma svo kirkjuorganisti í sinni sókn og hann afi minn, seinni maðurinn, meðhjálpari í sömu kirkju.

Ég velti því vöngum yfir því árum saman að hann skildi slökkva á heyrnartækinu til að vera laus við að heyra prestana flytja boðskapinn sem ég hélt að ætti að verða okkur kærari sannleikur eftir því sem á ævina líður.

 

Ein er sú kona sem hefur verið til frá því ég man fyrst eftir mér og ég hef getað talað við um mín hjartans mál í gegnum alla tíðina. Það er föðursystir mín sem nú er kominn á níunda tug ævinnar.

Föðursystir mín hefur, eins og allir, sína sérstöku lífsreynslu, hún hefur auk þess að missa faðir sinn sem barn, lifað fjóra af nýju sonum auk eiginmanns, sem fóru í blóma lífsins. Fyrir þremur árum síðan missti hún tvo syni sem voru á mínum aldri, með viku millibili.

Þessi föðursystir mín ræddi það einu sinni við mig fyrir áratugum síðan, þegar ég var enn á táningsaldri, að bróðir hennar, faðir minn, hefði gott af því að fara í kirkju til að sefa sorgina sem fylgdi þeim missi þegar fimm barna móðir og eiginkona hverfur úr blóma lífsins, en þá var pabbi heitinn bitur út í sinn Guð.

Fyrir síðustu jól kom út bókin Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson, bók sem hefur að geima frásagnir miðla þar sem framliðnir lýsa andláti sínu og endurfundum í framlífinu. Flestar frásagnirnar hafa að geyma fagra endurfundi við fjölskyldu og vini í hinu fagra "Sumarlandi".

Það þurfti því ekki að koma mér á óvart að föðursystir mín, prestsdóttirin, hafi séð kirkjuna sem hellubjarg á erfiðum tíma. En núna, eftir að hafa hvatt mig til að lesa bókina, talar Dúna frænka um skilningsleysi prestanna á andans málum, hvernig kenning þeirra byrgir sýn á Sumarlandið og flækir það eina sem skiptir máli, -kærleikann.

 

Þá eru ótaldar allar þær upplýsingar sem berast að í gegnum fjölmiðla og gefa púsl í svarið um krókódílinn.

Þar á ég ekki við þá fjölmiðla sem oftast eru skilgreindir sem slíkir, heldur óritskoðaða visku sem á sér líf í netheimum en er umsviflaust útilokuð sem samsæriskenningar og bábiljur þar sem menn telja sig fara með vísindalegar staðreyndir. Fyrir stuttu lenti ég inn á spjallþráð þar sem hún óskilgreind Sólrún gaf krókódílnum tóninn og sagði m.a.;

"Ég held að skynsemi sé okkur meðfædd og misvel útilátin eins og annað frá náttúrunnar hendi. En það getur alveg verið að það sé hægt að rækta hana úr mannskepnunni með einhverju móti. Íslenski sauðfjár stofninn hefur þótt sérstakur vegna litadýrðar sinnar, grátt mórautt, svart, botnótt, flekkótt og allskonar. Það komu tilskipanir AÐ OFAN að það skyldu allar kindur vera hvítar, ekki væri fínt að vera með mislitt fé. Allir fóru að keppast við að rækta hvítt og settu á allskonar horgemlinga, bara af því að þeir voru hvítir, sem auðvitað fór ekkert vel með stofninn til lengdar og viti menn einn daginn komst í tísku að hafa ullina í sem flestum litum.. markaðurinn vildi það.... Afi minn var skynsamur maður og hélt mikið upp á mórauða túnrollu sem hann átti og var svo slungin að koma sér í túnið að honum tókst aldrei að girða fyrir hana. Hún fann alltaf upp mótleik...." "Þórbergur Þórðarson var ekki hrifinn af menntakerfinu á sínum skóladögum og varla hefur það batnað síðan þá, þegar að honum hafði loksins tekist það sem hann hafði heitast þráð heima í Suðursveit að komast yfir vötnin ströng til Reykjavikur til að njóta æðri menntunar í Kennaraskólanum þá var honum ekki um sel þegar að verið var að kenna þau vísindi þar að kettir hefðu fjórar lappir og rófu. Fannst honum víst til lítils vera barist og átti von á einhverjum meira framandi fróðleik. Hann vildi líka meina að skólar hefðu upphaflega aðeins verið ætlaðir yfirstéttar börnum en þegar að sauðsvartur almúginn fór að læða löppinni þar inn milli stafs og hurðar "ÞÁ FÓRU ÞEIR AÐ KENNA LATÍNU " mál sem var í raun útdautt til að sporna við of mikilli menntun almúgans. Þessi aðferðafræði virðist hafa haldist nokkuð vel hingað til."

 

Svo eru það öll púslin í myndina um krókódílinn sem vinur minn og frændi, hann Helgi, sem átti því láni að fagna að sleppa við staðreyndastagl um fjórar loppur kattarins og eina rófu 14 ára gamall og hafa það gjörvulega framkomu að vera ráðinn á togara.

Þó svo að hann hafi búið hinu megin á hnettinum á meðal andfætlinga s.l. þrjá áratugi hefur hafsjór af upplýsingum sem ekki tilheyra hinni hefðbundnu heimsmynd latínusamfélagsins borist frá honum yfir höfin á alheimsnetinu. Mér hefur oft dottið í hug að sú viska og gjörvuleiki sem hefur veitt honum velfarnað í lífinu komi beint frá hjartanu og jafnvel eitthvað frá ömmu hans sem vissi lengra nefið náði.

Ég hef stundum haft það á orði við systkini mín að mitt mesta ólán í lífinu séu þau ár sem ég hafði hvorki manndóm né bar gæfu til að hlíða hjartanu og tiltek þá sérstaklega skólaárin. Allan þann tíma fannst mér margt það sem var á borð borðið vera á skjön við meðfædda skinsemina, en lét mig hafa það því þeir sem bæru spekina á borð hlytu að vita betur hvað mér væri fyrir bestu en ég sjálfur.

Systkini mín fjögur taka þessum yfirlýsingum elsta bróðir af stólískri ró. Bróðir minn sem er næstur í aldri er sá sem veit hvað ég meina og sýnir skilning þess sem hefur afrekað svipaða skólagöngu. Systur mínar tvær taka þessu með nærgætnum umvöndunum, þó hver á sinn hátt. Báðar hafa þær afrekað sýnar háskólagráðu þó leiðir þeirra að þeim hafi verið ólíkar.

Sú eldri varð stúdent um fertugt og kláraði svo háskólanám með hraði og glans, þrátt fyrir lesblindu og alla þá annmarka sem uppeldi Sumarhúsanna fylgdu, en á föður okkar heitin getur hún varla minnst án þess að minnast á Bjart í Sumarhúsum í framhjáhlaupi. Sú yngri glansaði ung að sinni gráðu og finnst mér örla á meiri efa hjá henni um réttmæti þess að kenna skólagöngu minni um allar mínar ófarir.

Yngsti bróðirinn átti það til að þræta um eyðileggingarmátt skólagöngunnar og jafnvel efast um að spurningin um krókódílinn ætti rétt á sér, enda sótti hann gráðu sem kennd er við master og verkfræði. Samt fór það svo að sannleikurinn fannst ekki í master og meira en milljón á mánuði, nú er hann Buddha munkur sem ætlar að skilja lífið ásamt því fyrra og því sem á eftir kemur. Ég held að krókódíllinn heiti karma á Buddhisku og upp á síðkastið hef ég séð að hann er farinn að greina kvikindið.

 

En hvað með það, fyrrum togarajaxlinn hann Helgi sendi mér viskuna sem lét svarið um hvað sé líkt með krókódíl standa ljóslifandi fyrir mínum hugskotssjónum, sem e-mail í pínulitlum link á youtube.

Þó maður velti fyrir sér spurningu lífsins mestan hluta ævinnar þá þarf það ekki að vera svo að svarið sé flókið, miklu frekar að það hafi alltaf verið fyrir framan nefið og að vitneskjan hafi verið meðfædd áður en barnsálin lagði af stað út í hinn stóra heim. Það mætti því ætla að óþarfi væri að eiða heilli ævi, í að komast að því sem lá ljóst fyrir barninu, um það eina sem skiptir máli, -kærleikann, eins og Dúna frænka segir.

 

En hvernig er svo farið að því að flækja það eina sem skiptir máli í því sem næst heilan mannsaldur?

Ímyndum okkur að skrifuð hafi verið bók þar sem það er útskýrt er fyrir blessaðri barnsálinni í þykku og miklu ritverki andans orða, svipuðu og Biblíunni, hvernig á að læra að hjóla.

Þar sem sagt er frá eðli hjólsins, hvernig jafnvægi þess virkar, hvernig á að bera sig að og í hvaða átt er hægt að fara á hjólinu. Ímyndum okkur að fólk fái þessa bók áður en það prufar að hjólað og það á að þekkja öll atriðin um það hvernig á að fara að því að hjóla þegar þar að kemur, en fyrst verði það að leggja þetta allt á minnið og ná að svara öllum spurningum með tilteknum árangri á 40 mínútna prófi áður en það fær að prufa hjólið.

Gerum jafnframt ráð fyrir að þeir sem skrifuðu þykku kennslubókina og semja prófið um það hvernig á að hjóla, vilja helst ekki að við hjólum því þá gæti verið að við hjóluðum í aðra átt en þau, en vegna þess að við sjáum vísbendingar um hversu hjól eru sniðug allt í kringum okkur þá ákváðu þau að skrifa hjólreyða reglugerðarbókina svo að það væru þau sem settu þó allavega reglurnar.

Með því að skrifa reglurnar um það hvernig fólk lærir að hjóla verða þau við stjórn allra okkar hjólreiðatúra, í hvaða átt við förum, hversu hratt osfv... Þannig verða allar upplýsingar um það hvernig skuli hjóla meira og minna blandaðar hagsmunum þeirra sem vildu ekki að við lærðum að hjóla

Við verðum að fylgja öllum reglunum í bókinni til enda, úr því við fengum náðsamlegast leifi til að læra að hjóla og auk þess að óska eftir endurnýjuðu leyfi í hvert skipti sem ætlum að fara út að hjóla. Þú kannt að hafa allskonar athugasemdir við þessa reglugerða bók en þú ert ekki marktækur vegna þess að þú hefur ekki löggilt leyfi til hjólreiða.

Ef tekið er mið af fagnaðarerindi Krists þá þurfti hann hvorki löggilt leifi eða bók til að hjóla, hann einfaldlega hjólaði.

Í stað þess að skrifa þykka leiðbeiningabók um sínar hjólreyðar reyndi hann að fá fólk til að hjóla, en þeir sem skrifuðu reglugerðabókina um hjólreyðar hafa sett inn allskonar takmarkanir og útúrdúra sem gagnast einungis hagsmunum höfundanna.

 

Af hverju tóku þau sem vilja stjórna kenningu Krists og brengluðu henni?

Það var vegna þess að kenning hans var svo hnitmiðuð og óhrekjanleg svo þau urðu að taka fagnaðarerindið og flækja það með því að setja í bók þar sem bætt var inn mótsögnum til að villa um fyrir saklausum lesendanum.

Flestir kannast við að í ritum nýja-testamentisins má finna "elskaðu óvini þína, dæmdu ekki, sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum" osfv.. Svo eru þar ýmsar mótsagnir sem rugla lesendur í ríminu og hafa verið notaðar til að ala krókódílinn.

"Sá sem ekki er með mér er á móti mér" hvernig á þetta samhljóm með "elskaðu óvini þína"? Myndir þú í nafni kærleikans senda barnið þitt í fyrsta hjólreiðaferðina niður brekku þar sem það næði nægilegri ferð til að halda jafnvægi með þá leiðsögn í farteskinu að taka í handbremsuna fyrir framhjólið þegar það vildi stoppa?

"Engin kemur til föðurins nema í gegnum mig" hentar höfundinum sérdeilis vel. Það eru víða setningar Nýja Testamentinu sem er erfitt að ímynda sér að Kristur hafi sagt, því þær eru í mótsögn við boðskapinn sjálfan, það sama á við þegar kemur að túlkunum Postulasögunnar og bréfa Páls.

Gamla testamentið, sem er mikil lesning svo sígild að það má auðveldlega finna henni stað í nútímanum sem kvikmyndahandrit af Rambó skrifuðu fyrir eigendur og kostara Al Qaeda.

Þannig má endurskrifa fagnaðarboðskap með því að lauma inn setningum sem eru í mótsögn við einfaldan boðskap í þeim tilgangi að lesandinn þurfi heila æfi til að ná merkingunni sem lá ljós fyrir áður en hann lærði að lesa.

Þess vegna er allt gert svo við trúum að við getum ekki hjólað nema að við hjólum með hjálp hjólreyðareglugerðarbókarinnar sem skrifuð er af þeim sem vilja ekki að við hjólum og höldum jafnvægi án hjálpardekkja.

 

Eftir að íbúar þessa heims sáu í gegnum ritsnilld hinna ýmsu krossfara fyrri tíma kom upplýsingin til skjalanna, hin mikla vísindalega menntun sem upphaflega var kennd á latínu. Eftir áralangt latínustagl skildi ekki nokkur lifandi sála þann sem fór með sannleikann, það var þá sem þau fundu upp sérfræðinginn sem veit svo mikið um lítið að engin er marktækur nema vera sérfræðingur með helst fimm háskólagráður.

Það er alltaf gott að fá staðfestingu á alheimsnetinu og youtube að spurningunni um krókódílinn hefur sama svarið og þegar við Óli stóðum hlýrri sunnangolunni undir bláum himninum skafandi spýtur, minnugir kærleika bernskunnar þar sem tveir plús tveir þurftu ekki að vera fjórir frekar en okkur sýndist, vitandi upp á hár að það sem er líkt með krókódíl, er að hann getur hvorki hjólað.

 

 

Ps. Þessi pistill birtist hér á síðunni í maí 2011, áður en algrímið datt á og margir féllu frá, -og er nú endurtekin á myrkum dögum. En ef hann á sér eitthvert upphaf þá á hann engan augljósan endi, þegar barnadráp mega fara fram eftir aljóðalögum svo framarlega að meðalhófs sé gætt. -Hvað sem það nú þýðir? -sem ekki er nú svo gott að segja, -en líkist óneitanlega krókódíl sem getur hvorki hjólað.


Sauðfé

Nú fara sérfræðingar að sunnan með himinskautum og tala fyrir enn frekari útrýmingu sauðfjár. Sérfræðin á MAST seg­ir að aðgerðir gegn riðuveiki hafi borið mik­inn ár­ang­ur, eftir 40 ára raunverulegt árangursleysi. Nema meiningin sé að útríma íslensku sauðkindinni með öllu.

Í Bændablaðinu fyrir rúmum 2 árum var ágætis samantekt um búsetutölu suðkindarinnar á landinu bláa frá því sautjánhundruð og súrkál. Þar kemur fram að suðafé hefur sennilega aldrei verið færra en nú á fróni síðan í Móðuharðindunum þegar sauðfjár stofninn féll um 80-90%. 

Ef svipuð rökræði væri notuð yfir tölu skaðmenntaðra möppudýra yrði sennilega um rúmlega ranghverfa tölfræði að ræða. Suðfé á Íslandi var við upphaf riðuskurðarins fyrir rúmum 40 árum síðan hátt í 900.000 er nú um 300.000, -og hæpið að svo sé akkúrat í dag.

Ef meiningin var að gera sauðkindina að safngrip og koma heilu byggðarlögunum í auðn og kolefnisjafnaða hamfaraórækt ,lyfta um leið undir með kjötinnflutningi þeirra sem eru svo flinkir að panta, þá má kannski segja að skaðmenntaður niðurskurðurinn hafi borðið mikinn árangur.

Samantekt Bandablaðsins má sjá hér


mbl.is 200 þúsund kindur verið felldar vegna riðu síðustu 40 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband