Fífl

Ég missti út úr mér á kaffistofunni um daginn; -eins og þú veist nafni þá er sveitarstjórnarfólk mestu fífl sem fyrir finnast. Þá firrtist nafni við og sagði; -og þetta þykist þú geta sagt hafandi verið sjálfur í sveitastjórn. – Já láttu mig vita það, -svaraði ég þá með þjósti.

-Þetta með fíflskuna er reyndar alls ekki einhlítt hún getur haft sínar ýmsu birtingamyndir í gegnum alla flóruna, og þegar fíflunum fer fjölgandi er rétt að líta í eigin barm.

Nú hefur verið ákveðið að hefja bílastæðagjaldtöku á þremur innanlands flugvöllum. Á það að vera til að “bæta upplifun flugfarþega” með því einu að setja upp gjaldtöku myndavélar, eftir því sem mannauðstjóri upplifunar hins opinbera hlutafélags orðar það, - ISAVIA sem hét áður Flugmálastjórn ríkisins er eftir sem áður jafn mikið ríkisins.

Hvernig bætt upplifun á að fást út úr því að vera rukkaður sérstaklega fyrir að fara á flugvöll er jafn hulin ráðgáta og þegar Reykjavíkurborg rukkar gamalt og fatlað fólk um stöðumælabrot í stæðinu heima hjá sér bara vegna þess að fábjánar með frábærar hugmyndir halda að hægt sé að breyta bílastæði í göngustíg með nýju deiliskipulagi, eða að setja upp skilti með mynd af Óla prik.

Einhverjir tæknilegir örðugleikar urðu reyndar á því að bætta upplifunin gæti hafist þegar til stóð á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrr í vetur, -vegna Reykjavíkurflugvallar. Þeim hefur nú verið rutt úr vegi, sennilega með því að lauma reglugerð í gegnum ráðuneyti sem leifir myndatöku af fólki í landi ríkisins og rukka það.

Það er rétt að hafa í huga að ekki verða önnur bílastæði á flugvöllunum en þau sem bjóða upp á bætta upplifun og að Akureyrar og Egilsstaðaflugvellir eru notaður af fleirum en íbúum þessara staðar. Á Egilsstöðum eru mikið meira en næg bílastæði, bílaleigurnar raða tugum bíla í flest malbikuð stæði utan þeirra sem eru allra næst innganginum með tímamörkum.

Flugvöllurinn er notaður af öllum austfirðingum í tilfelli Egilsstaða. Farlama og fótafúnir fjarðabúar úr innviðaleysinu í neðra, búandi við lélegar eða engar almenningssamgöngur geta þurft að komast í flug vegna sjúkleika til Reykjavíkur og átt yfir 100 km leið á flugvöll, en engin deildskipulögð bílastæði eru fyrir þá í efra og nú fá þeir ekki einu sinni að leggja úti á túni án þess að njóta bættrar upplifunar.

Þá, sem hafa ekki annað en eigin bíl til að komast leiðar sinnar í og úr flugi, gæti þessi bætta upplifun kostað meira en flugferðin suður og jafnvel sjúkrakostnaðinn. Þetta ráðslag ISAVIA ohf í eigu ríkisins er því gott betur en á pari við þá þjóðarsátt sem birtist í heimabönkum landsmanna núna eftir áramótin, -bæði frá ríki og bæ.

Varla heyrist múkk í bæjarstjórnarfólki eða kjörnum fulltrúum löggjafasamkomunnar, hvað þá þjóðarsáttarsemjurum á vöfflukaffistofunni. Og þeir fáu sem fá að tjá sig af almúganum í fjölmiðlum bera sig bara mannalega. Setningar á við - “löngu komin tími til” og - “mig munar nú lítið um 350 kall fyrir korter” eru efst á vinsældarlistanum.

Sjálfur er ég fljótari á flugvöllinn gangandi enn á bíl svo þessi upplifun snertir mig ekki neitt.

Enda,,, -yfir bættri upplifun nöldra náttúrulega bara fífl.


Bloggfærslur 23. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband