19.7.2025 | 06:01
Ísland á hverfanda hveli (myndablogg)
Ég vil minnast íslensku sauðkindarinnar hér á síðunni, með nokkrum myndum, -og mínútu þögn. Hún hefur alla þessa öld, og jafnvel lengur, haft verra orð á sér en landsins forni fjandi og er nú á hvervanda hveli í landinu bláa. Á hreinni íslensku er varla til verra skammaryrði, en að kenna einhvern við kvikindið, -nema ef vera skyldi þann gula.
Það hefur reyndar í seinni tíð verið eitt helsta feimnismál skaðmenntaðra, að viðurkenna á hverju landinn hefur lifað í þessu landi í gegnum aldirnar, því ekki var bókvitið í askana látið þá frekar nú, þó svo að alltaf hafi verið í móð hjá víxlurunum að millifæra í skjóli íþyngjandi regluverks, -líkt og á stjörnum prýddum asnanum sunnar í álfunni.
Nú er hún kölluð ágangsfé af auðrónum og auðnuleysingjum, einkum þeim sem stunda hamfaraórækt á bújörðum, -eftir að hafa um langa hríð legið undir ámæli fyrir að naga gat á jarðskorpuna af 101 lattelepjandiliðinu. Það hefur verið að renna upp fyrir síðuhafa að íslenska sauðkindin er að verða safngripur í eigin landi, -og allt sem henni tilheyrir.
Vond er lygin í landinu, sem bæði líf og dauði valt og veltur á landsins gæðum, -og er nú svo komið að þeir sem snjallastir eru að panta í skjóli skriffinnskunnar, leggja á og millifæra samkvæmt regluverkinu, -fara alfarið með marvælaöryggi landsamanna.
Á síðustu öld var varla hægt að taka ljósmynd á berangri án þess að þar sæist í sauðfé
Eitt sinn drifkraftur tækniframfara til að nýta landsins gæði
Nú er Snorrabúð stekkur
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 06:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.7.2025 | 10:08
Vond er lygin og lukkupotturinn í spilverki þjóðanna
Nú þrusast þær um þusandi, friðlausar fraukurnar, mínar eru sorgirnar, þyngri en blý. Það hélt einhver því hér fram í athugasemd um daginn að eðalbornasti einkasonur Íslandssögunnar hefði hugsanlega verið woke.
Vond er lygin, nú hjá forsætis, brotna þar borgirnar, böl er að því. Sumir vilja meina að græðgi og vopnaburður hafi ekki náð ógnarjafnvægi á landinu bláa á Sturlungaöld því hafi farið sem fór.
Ef ég á að segja alveg eins og er, -þá finnst mér fasískar fraukur hafa orðið meira woke því leiðari sem þær urðu á Jóni, sem lengi vel var mesta frík á Fróni, -og því minni von um frið nú, en því meiri um sturlun.
En hér vantar tólin og tækin og réttu vandamálin. Þær eru menntaður vel og virtar, boðnar og búnar til veislu, -en þú grófst þeim gröf sem trúðu á nýtt og betra líf. Þú skilur, þú skilur, þú afkomandi Sturlunga.
Dægurmál | Breytt 18.7.2025 kl. 20:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2025 | 05:16
Síðasti goðinn og allra síðasti Oddverjinn
Til Oddverja er menning Íslendinga rakin, þó stjórnarfarið sé af Sturlungakyni. Þjóðlíf Íslendinga berst alltaf á milli tveggja skauta: Mikillar menningar í bóklegum og verklegum efnum, og ónotandi siðlauss stjórnarfars.
Það er Oddverjaarfurinn og Sturlungaarfurinn, sem ávaxtast í landinu hlið við hlið, og rífur hinn síðarnefndi niður það, sem hinn fyrri byggir upp.
Gæfulaus þjóð lifir í þessu dásamlega fagra og auðuga landi á sterkri menningarlegri rót, og pínist af gæfuleysi út í sárasta umkomuleysi og neyð, sem saga Íslands vottar.
Þetta stendur í Smiðs-sögu Andréssonar á bls 49, -bók Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi. Smiður varð hirðstjóri yfir Íslandi um nokkurra mánaða skeið, -100 árum eftir að þjóðveldið féll, -og á Smiður að hafa verið norskrar ættar.
Smiður Andrésson hafði tekið landið á leigu til að innheimta skatt fyrri norska kónginn upp á hlut. Áður en hann tók við höfðu verið fjórir hirðstjórar hver með sinn fjórðung, allir íslenskir höfðingjar, -eins og hirðstjórar höfðu verið fram að þeim tíma.
Benedikt Gíslasyni þótti einkennilegt að til greina hefði komið að gera erlendan mann að æðsta umboðsmanni konungs á Íslandi, jafnvel þó svo að hann hafi fljótlega verið drepinn. -Og þá kannski alveg sérstaklega vegna þess hve sagan ber honum illa söguna taldi hann Smið vera Íslending.
Smiður átt að hafa gengið hart fram í skattheimtu, verið svallgjarn og djarfur til kvenna þessa örfáu mánuði sem hann hélt lífi á Íslandi. Grundar-Helga í Eyjafirði á að hafa gert endi á ribbaldahátt Smiðs ásamt Eyfirðingum, með aftöku á honum og liði hans á Grund 8. júlí 1362. Og dráp Smiðs á að hafa verið háðuglegt, þar sem höfuð hans rúllað í mjólkurtrogi Helgu, -samkvæmt þjóðsögunni.
Benedikt trúir varla orði af því sem opinbera sagan segir um Smið Andrésson og leggur margskonar heimildir úr annaálum og bréfum á borðið því til stuðnings. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Jón Smiður Andrésson sé í raun allra síðasti Oddverjinn, sem fór með völd á Íslandi. Nöfn Smiðs, -Jón og Andrésson bendi, meðal margs annars, til Oddverja.
Hverjir voru svo Oddverjar? Þeir voru kenndir við Odda á Rangárvöllum. Þekktasti höfðingi þeirra á Þjóðveldisöld var Jón Loftsson, sonarsonur Sæmundar fróða, en dóttursonur Magnúsar berfætts Noregskonungs. Jón fór fyrir svo kölluðum staðarmálum Íslendinga á Þjóðveldisöld, í upphafi þess að erlent vald, -kaþólska kirkjan, ásældist landsins gæði.
Þannig komst Jón Loftsson að orði þegar hann hafði í fullu tré við páfadóminn úr Róm: Heyra má og erkibiskups boðskap, en ráðin er ég að hafa hann að engu, því ekki held ég að hann viti betur né vilji en ég og mínir foreldrar, Sæmundur hinn fróði og synir hans.
Gissur jarl Þorvaldson á að hafa tekið síðasta Oddverjann af lífi árið 1264, samkvæmt Íslandssögunni, -Þórð Andrésson. En hvað varð svo um Oddverja þessa eðalbornu ætt Íslendinga? Það má með réttu segja að þeir hafi verið komnir í mikinn minnihluta, samkvæmt núgildandi kosningareglum lýðveldisins.
Benedikt leiðir líkum að því að Oddverjar hafi leitað austur á land á náðir síðasta goðans Þorvarðar Þórarinssonar sem átti sitt höfuðból á Hofi í Vopnafirði. Hann var kvæntur Sólveigu Hálfdanardóttir, Sæmundssonar frá Odda.
Þórarinn var síðasti landvarnarmaður Íslands, og lét goðorð sín undir Noregskonung tveimur árum síðar en aðrir íslenskir höfðingjar, ásamt Austfirðingum og Oddverum, allt frá Langanesi í norðri suður um að þjórsá. Þess ber að geta að Íslandssagan lætur lítið með síðasta goðann, getur hans vala, en um hann má fræðast hér og þar í Sturlungasögu og bók Dr Björns Þórðarsonar, -Síðasti goðinn.
Það má öruggt telja að Þorvarður Þórarinsson hefði fengið hærri stall í Íslandssögunni ef ekki væri fyrir Þorgils-sögu skarða, Sturlunga sem átti að gera Ísland að skattlandi Noregskonungs, en Þorvarður tók Þorgils af lífi á Hrafngili í Eyjafirði. Barði Guðmundsson f.v. þjóðskjalavörður telur reyndar Þorvað Þórarinsson vera höfund Njálssögu og hafi notað Odd bróður sinn sem fyrirmynd Gunnars á Hlíðarenda.
Ljóður Þorvarðar var sá að hafði fengið Þorgils skarða Sturlunga í lið með sér við að hefna fyrir dráp Odds bróður síns. Samningur þeirra var sá að Þorvarður myndi ekki setja sig upp á móti því að Þorgils legði undir sig Skagafjörð í því þrotabúi sem þeir Þórður kakali og Gissur jarl höfðu bitist um eftir Haugsnesbardaga. Eftir að hefndin var framgengin krafðist Þorgils Eyjafjarðar einnig, en þá tók Þorvarður þennan samherja sinn í bróðurhefndinni af lífi.
Oddi, bróður Þorvarðar, er einnig lítt haldið á lofti í Íslandssögunni, enda einungis 24 ára þegar hann var drepinn. Ungur aldur breytti ekki því að gegn Oddi var dregin saman stærsti her sem sögur fara af á Íslandi, hátt á annað þúsund manna lið, sem var stefnt til Skagafjarðar þar sem Oddur hafði tekið Hólabiskup í gíslingu. Sturlunga herinn fór þá erindisleysu, en nokkrum mánuðum seinna var Oddur drepin af Eyjólfi ofsa tengdasyni Sturlu Sighvatssonar.
Þeir bræður Þorvarður og Oddur Þórarinssynir voru frá Valþjófstað í Fljótsdal, báðir kvæntir inn í ætt Oddverja. Kona Odds var Randalín Filippusdóttir, dóttir eins Oddabræðra. En Þorvaður var kvæntur Sólveigu sem var dóttir Hálfdans Sæmundssonar á Keldum annars Oddabróðirs og Steinvarar Sighvatsdóttur Sturlungu. Steinvör erfði höfuðbólið Grund eftir Þórð kakala bróðir sinn og fékk Þorvarð tengdason sinn til að gæta arfs síns.
Benedikt telur m.a. útilokað að dráp Smiðs hafi verið gert í þökk Helga á Grund. Smiður Andrésson hafi verið frændi hennar, og sem gestur hefði hann ekki verið tekin af lífi á Grund, hinu forna höfuðbóli Sturlunga, með hennar samþykki. Hún hafi setið á höfuðbóli sem var arfur Steinvarar langömmu hennar, auk þess að vera Oddverji, sem afkomandi þeirra hjóna Hálfdanar og Steinvarar á Keldum. Benedikt vill meina að eiginmaður Helgu hafi aldrei stígið fæti inn á Grund eftir þennan atburð.
Þórður kakali var eitt af stóru nöfnunum á Sturlungaöld, einn af hirðmönnum Noregskonungs sem tekið hafði að sér að gera Ísland að Norskri skattlendu. Hann leitaði til Hálfdans mágs síns á Keldum til að hefna Sighvats föður þeirra og Steinvarar, -Sturlu og þeirra bræðra eftir Örlygstaðabardaga.
Svona segir Sturlungasaga að Steinvör hafi komist að orði þegar Þórður kakali bróðir hennar fór fram á liðveislu Hálfdánar, en hann færðist undan. -Hérna eru búrlyklarnir Hálfdan og skammtaðu fólkinu, en fáðu mér brynhosurnar, svo ég geti veitt lið Þórði bróður mínum.
Benedikt Gílason frá Hofteigi segir í þessu sambandi: - Á Íslandi mátti snúa öllu við á þessum tíma, gera karlmanninn að kvenmanni og kvenmanninn að kalmanni. Þetta er í raun siðspeki tímans, og það sem snýst við, og óhjákvæmilega snýst við, er það, að merkilegasta menningarríki verður skattpínt leppríki útlendra konunga, af þessari pólitík.
Ps. ef svo ólíklega vill til að einhver hefur náð að lesa svona langt og er ekki búin að fá nóg. Þá birtist hér pistill á síðunni fyrir nokkrum árum undir fyrirsögninni Síðasti goðinn og bróðir hans, sem má lesa hér.
Landsins-saga | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.7.2025 | 15:55
Blowin' In The Wind
Það minnast sjálfsagt fáir skrjáfsins í skreiðarhjallinum, þegar sunnan golan blæs blíðlega að sumarlagi, -og þegar þorskhausarnir snérust á bandinu í blíðum blænum, jafnvel heilu golþorskarnir, þar sem þeir héngu til þerris á spírum úti í náttúrunni á meðan þúsund þorskar á færibandinu færðust nær.
Þetta var í þá daga, og ekki er svo langt síðan að þetta mátti sjá í nánast hverju krummaskuð landsins. Þessi verkunar aðferð á fiski hefur verið viðhöfð allt frá landnámi. Síðan hefur Bubbi sungið Ísbjarnarblús, um hana Siggu sem hætti á borði 22 og þegar hann var að spekúlera í að hætta líka ha, ha, hæ. - Já nú er sumar, ég kominn í nokkra vikna frí frá steypunni og nenni ekki að tala um ógæfufólkið við Austurvöll.
Það sama á við í N-Noregi, einkum Lofoten, en þar eru skreiðarhjallarnir samt öllu tilkomumeiri. Skáldið Guðbergur sagði einhvertíma í sjónvarpi að það væri einkenni Íslendinga að skammast sín fyrir það sem hefði gert þeim kleyft í gegnum aldirnar að lifa í þessu landinu. -Og verstu níðyrði sem landinn gætu haft um landann væri að kalla hann þorskhaus eða sauðheimskan. Í Noregi sýndist mér þorskurinn vera kultúr og jafnvel suðkindin líka. En hér á landi er hún nú orðið kölluð ágangsfé af mútuliðinu sem ástundar hamfarórækt.
Í lok 20. aldarinnar var farið að þurrka þorskhausa með jarðvarma á Íslandi, og þeim jafnvel áður keyrt þvers og kruss, -eða jafnvel í hringi um landið. Þannig að eitt af höfuðdjásnum krummaskuðanna, -skreiðarhjallurinn lenti á hverfanda hvel, skömmu eftir að Sigga hætti á borði 22 og gerðist trukkalessa. En á sama tíma gat verið hagkvæmt að reka hausaþurrkun innanhúss jafnvel langt inn í landi hamfaraóræktarinnar s.s. á Laugum og Egilsstöðum.
Síðuhöfundur var svo heppinn að ná að kynnast þessum tímum í mýflugumynd, -að komast bæði í kynni við að seila hausa, hengja upp í hjall, flokka og pakka skreið í striga, auk þess að steyp gólf í jarðvarma þurkkununum. Samt hefur síðuhafa aldrei komið til hugar að starfa við þá gullgerðarlist sem felst í hamfarórækt. Við flokkun og pökkun gat umræðuefnið verið hvort þorskurinn endaði í Nígeríu eða á Ítalíu. Hausinn og ver útlitandi skreið var oftast flokkuð til Nígeríu því sagt var að þar væri soðin fiskisúpu.
Allt frá því þessum stuttu kynnum af skreið hafa skreiðarhjallar heillað, ef þeir eru á annað borð við veginn, sem er orðið mjög sjaldan nú á dögum. Við Matthildur mín keyrðum t.d. fyrsta sunnudag í sumarfríi um hamafaraórækt alla leið inn í Hallormstað, ég við stýrið en hún með lopa á tifandi prjónunum hælandi hamfaraóræktinni, því hún þyrfti ekki lengur að líta af prjónunum út um gluggann þar væri hvort því er ekkert lengur að sjá endilangt Héraðið. Enda útsýnið út um hliðarrúðuna orðið eins og strikamerki, ef ekki heil helvítis Skandinavía.
Ég set hérna inn nokkrar af myndunum, sem ég tók eftir að hjallurinn komst á hvervanda hvel, því til hvers að taka þær ef þær eru engum sýndar. Einnig er hér fyrir neðan Business Insider myndbnd um það hvers vegna þurrkaðir þorskhausar eru svo mikil auðlind að jafnvel olíuríkir Norðmenn sjá sér ekki annað fært en að viðhalda gömlum hefðum.
Já en, -ég ætla aldrei, aldrei, aldrei, aldrei meir að vinna í Ísbirninum. Ég ætla með kíló af hassi út í náttúruna og fíla grasið þar sem það grær. -Nú er reyndar meira inn að telja tærnar á sjálfu með coke á Tene.
Hjallurinn hans Kalla Sveins á Borgarfirði eystra 2014, ég hef grun um að þegar þarna var komið hafi Kalla verið meira umhugað að skreyta fíflana ferðamönnum til yndisauka og halda við gömlu verklagi, en krónur og aurar
Skreiðarhjallurinn á Stöðvarfirði sumarið 2000. Meðan Stöðvarfjörður var og hét þá urðu hæstu þjóðartekjur á mann á Íslandi til í þeim firði, nú er ekki einu sinni sjoppa á staðnum. Bátarnir streyma samt enn í dag inn og út fjörðinn, enda fiskurinn í fjarðarkjaftinum, en bátarnir eru aðkomnir og landa beint í bíl
Sumarið 2012 fórum við Matthildur mín niður Lófótinn og gistum alltaf í Rorbuer(vinsæl gistihús í gömlum verbúðum) og voru komin út á bryggju um leið og við vöknuðum til að rifja upp gamla takta, sem var eitthvað fyrir Matthildi, -sjómannsdóttir og fyrrverandi fiskverkakonu
Löngu horfnir hjallar á Stöðvarfirði
Horfnir hjallarnir á Djúpavog, mynd frá því seint á síðustu öld
Hjallarnir hans Kalla Sveins standa enn, en langt er síðan þar hefur sést til dinglandi þorskhausa
Landsins-saga | Breytt 18.7.2025 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.7.2025 | 13:45
Strandveiðigjöldin
Þær voru margar flækjurnar í mannlegum samskiptum sem komu upp þegar framsalið á kvóta var gert löglegt. Einu sinni voru bónda og bílstjóra sem keyptu sér trillu í bríaríi til að fiska í soðið yfir sumartímann, og upp í kostnað við kaupin.
Síðar réðu þeir togarasjómann á trilluna, sem vildi vera meira heima en langdvölum að heiman að sumarlagi, til að róa á trillunni til fiskjar á sumrin upp á hlut.
Það kom að því að bílstjórinn vildi komast út úr útgerðinni enda ekkert nema vesenið upp úr henni að hafa. Þá var sjómanninum sem réri á trillunni boðið að kaupa hlut bílstjórans, en hann afþakkaði það því það var lítið annað en kostnaður sem hann þyrfti að taka af hlutnum sínum á trillunni eða togaralaununum á öðrum árstímum.
Þannig að bláfátækur bóndinn, sem sjaldnast fór sjálfur á sjó, sat á endanum uppi með allt heila klabbið. Sjómaðurinn hélt samt áfram að róa hjá honum á trillunni á sumrin sæll og ánægður upp á sinn hlut.
Svo kom framsalið, og á trillunni varð til múltí milljóna kvóti, ekki ef hann var veiddur, -heldur ef hann var seldur.
Bóndinn ákvað að losa sig út úr vandræðunum og selja trilluna með aflaheimildum og var af gárungunum eftir það kallaður arðræninginn.
![]() |
Framsögumaður í stjórn strandveiðiútgerðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2025 | 06:18
Japl, jaml og fuður
Það hafa einkennilegar fréttir borist af ógæfufólkinu við Austurvöll undanfarin ár og nú telur það sig hafa fullt umboð til að rétta ríkinu þjóðareign, -ekki bara arfinn af rétti landsmanna til að framfleyta sér í landinu bláa. Það er svo sem ekki alveg nýtt að pótintátar telji sig best til þess fallna að ákveða hvernig skepnan lifir og deyr, en nú skal lengra gengið.
Málþóf hefur staðið um gjaldtöku af svokallaðri auðlindarentu, já hugsa sér annað eins orðskrípi, sem fundið er upp af þeim sem einskis afla og hafa ekki einu sinni geð í sér til að dýfa hendi í kalt vatn, hvað þá míga í saltan sjó.
Nú hafa einhverjar pótintátur eignað sér þjóðareign til að fjármagna stríðsrekstur um fram það sem ekki verður troðið í eigin vasa, -og það í aðdraganda þess að landsmenn fái að borga sérstök afnotagjöld af holunum í þjóðveginum. Sárara er en tárum taki að minnast á heilbrigðiskerfi landsmanna í hinum dreifðu byggðum og almenna biðlista í þessu sambandi.
Og þó svo ekki vanti að fyrrverandi verkalýðsforingjar skreyti þessa ógæfulegu samkomu, kemur ekki eitt orð úr ræðustól um tugþúsunda launahækkanir slektisins umfram almúgann. Þetta er jú að stofninum til sama ógæfufólkið og kom Íslandi fyrir kattarnef í hinu svokallað hruni og kaus annaðhvort að grjóthalda kjafti eða þá krefjast hlýðni á tímum drepsóttarinnar.
Ef einhver heldur að hér sé farið með fleipur þá ætti sá hinn sami að taka saman hvað mikill tími ógæfufólksins hefur farið í að ástunda japl, jaml og fuður við að koma í veg fyrir að fjármunir fari úr landi eyrnamerktir ólyfjan og stríðsrekstri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)