Færsluflokkur: Dægurmál

Svarta bókin

Ein af elstu bókum í mínum fórum, sem þarf samt ekki að vera svo gömul, hefur að geyma fágætan rithátt og magnaðan kveðskap á íslensku. Bókin, sem er nafnlaus, kemur frá afa mínum og nafna. Ég hélt að þetta væri sálmabók, -eða þar til ég setti mig inn í textana.

Bókinni hefur greinilega verið mikið flett, eru gulnuð blöð hennar orðin snjáð og rétt svo að hún hangi saman. Fremst á bakhlið kápu er hún er merkt systkinum sem fæddust og ólust upp í torfbæjum á Héraði snemma á 20. öldinni. Á öftustu blöðum og bakhlið kápu hefur verið æfð skrift.

Hversu gömul bókin er ómögulegt að segja því í henni virðist aldrei hafa verið neitt titilblað. Hún gæti allt eins hafa komið úr pússi foreldra þeirra systkinanna og því verið frá 19. öldinni, rétt eins og flestöll ártöl sem koma fram í henni.

En bókin byrjar á þessum orðum:

Til Lesndanna. – Þat hefur af Góðum monnum vacit til umræþo at ec munda rett rita arker af egin yðrom spunnom, á inni veranþi ári almenningi til dægurstytto, eþur oc einkunnar á framhaþi anþa þjoðernisins, , , 

Þarna er ekki beint um nútíma rithátt eða stafsetningu að ræða, og í lok formálans segir;

, , ,  Þetta fyrzta sínhyrni læt ec sva niþur bera hjá mannutiz oc avþgom Bónþa Hjálmarr Loptzyni á heiðþrudu cynnisleite.

Þjonuztusamligaz H: Jónaz: Eyfirðingr, 

Ökrum ennum iþri d: 10. mart: 1852

Það er ekki hægt að sjá í hvenær þessi bók hefur verið prentuð hún bara byrjar á þessum formála án frekari skýringa, en þegar hún er skoðuð þá er í henni nokkuð um ævi og kveðskap Bólu-Hjálmars á mun skiljanlegar skrifaðri íslensku, auk Skagfirsks kveðskapar.

Hjálmar Jónsson, betur þekktur sem Bólu-Hjálmar (fæddur á Hallandi í Eyjafirði 29. september 1796, dáinn í Brekkuhúsum skammt frá Víðimýri í Skagafirði 25. júlí 1875) var bóndi og ljóðskáld, segir wikipedia.

Móðir Hjálmars var heimilislaus þegar hún eignaðist hann, kom að kvöldi dags að Hallandi á Svalbarðsströnd og tók léttasótt um nóttina. Daginn eftir fór vinnukona á Hallandi með barnið í poka áleiðis til hreppstjórans. Hún kom við á Dálksstöðum og húsmóðirin þar fann svo til með drengnum að hún tók hann í fóstur og ól hann upp til átta ára aldurs. Þá fór hann til föður síns og ólst þar upp samkvæmt þekktri sögu.

Í bókinni er einungis kveðskapur, auk einnar lítillar frásagnar Hjálmars af því þegar hann fór vetrarlangt í fóstur á Dagverðareyri, þá á sjötta ári. Hann lét vel af verunni hjá hjónunum þar, sagði að þau hefðu komið fram við sig sem sinn son og húsbóndinn, Oddur Gunnarsson, hefði kennt sér að yrkja.

Hann segir frá því þegar Oddur á Dagverðareyri réri með hann um vorið, tveimur árum á móti suðaustan kylju, austur yfir Eyjafjörð í Dálksstaði, - þá var eins og báturinn  steytti á skeri út á miðjum firði og breytti um stefnu. Hjálmar varð hræddur og kvað við Odd með tárin í augunum:

Eitthvað heggur kaldan kjöl,

kippir leið af stafni. 

Oddur kvað á móti og mælti:

Okkar beggja ferju fjöl

flýtur í drottins nafni.

Stuttu á eftir kom upp hrefna í kjölfarinu, og sagði Hjálmar að Oddi hefði ekki staðið nokkur ótti af henni. Þegar hann skilaði Hjálmari aftur í móðurskaut Sígríðar fóstru hans á Dálksstöðum, -"kvaddi hann mig með tárum, fyrirbón og signingu, sem þá var títt hjá guðhræddu fólki" 

Árið 1824 orti Hjálmar Afmælissaungur, -þá 28 ára, -sem segir talsvert um ævi hans í Eyjafirði.

Æfin líður áfram mín

eins og vatna straumur,

þrauta vafin þungri pín

þánkinn stynur aumur.

Af syndugum mig til sæði bjó

sjóli æðstur metinn,

í Eyjafirði illum þó

eg var fyrsta getinn.

Forlög öll mín fyrir sá

faðirinn alda’ ógleyminn,

þá konu var mér keltu frá

kastað inn í heiminn.

Ólánsdagur mundi mér,

meðan eg grátinn þreyi,

þegar eg fæddist, því er ver,

á þessum fimmtudegi.

Snemma ævi til þess tókst

að tvinnast þrauta byrði,

aldur mér og ólán jókst

Eyja- hér í -firði.

Á Eyjafjarðar téðu torg,

með tárum þetta ræði,

reynt hef eg bæði sult og sorg,

svita, frost og mæði.

Hefði ei drottins hjálp og náð,

mér hlíft fyrir varga tönnum,

orðinn væri eg að bráð

Eyjafjarðarmönnum.

Loforð þeirra og heiptar hjal,

hjartað særir lúna,

snúin bæði af snót og hal,

snaran fallsins búna.

Þeirra hefur faðmur flár

fundizt banvænligur,

og höggvið mér í hjarta sár

heiptugur góma vígur.

Yndisblóm er byrjandi

böl og harmur stirði,

sjáðu mig faðir, syrgjandi

samt í Eyjafirði.

Kær þín, drottinn, gæzkan greið

gerir létta byrði,

bú mér sjálfur beina leið

burt úr Eyjafirði.

Þolinmæðin mýkir þrá

meðan tími er settur,

hugsa eg minn sé himnum á

hæsti borgar réttur.

Síðan guði sjálfum hjá

sorg mun fram úr rakna,

aldrei jeg um eilífð þá

Eyjafjarðar sakna. (bls 12)

Hjálmar fór úr Eyjafirði til Skagafjarðar og kynntist þar konu sinni Guðnýju Ólafsdóttur, en mæður þeirra voru systur. Þau bjuggu fyrst á Bakka í Öxnadal en fluttu svo til Skagafjarðar og bjuggu fyrst á Nýabæ í Austurdal í fimm ár. Árið 1829 fluttu þau að Bólu (Bólstaðargerði) í Blönduhlíð, og við þann bæ var Hjálmar kenndur.

Lengi á Bólu sé eg sól,

sumar gólar hvert fíól,

líknar sjóli ljær mér skjól,

lífs við ról á eyðihól. (bls 48)

Hjálmar var ekki vinsæll í sveitinni og þegar nágrönnunum þótti fé heimtast illa féll grunur á hann og gerð var þjófaleit hjá þeim hjónum 1838. Þau voru sýknuð ári síðar en hröktust burt frá Bólu. Sauðaþjófnaður var einhver alvarlegasti glæpur bændasamfélagsins og féll Hjálmari kæran þungt.

Hræsnarinn kallar helga menn,

sem höfðingsglæpi fela,

að drýgja hór og drepa menn,

dýrka goð og stela. (bls 157)

Hjálmar var sjálfmenntaður, einkum á forn fræði. Hann var rímnaskáld að hefðbundnum sið sem gat bæði kveðið með þeim hætti hvassyrt kvæði og miskunnsöm Heilræði til samtíðar sinnar.

Náðar kljáðu þáðan þráð,

þjáðum ljáðu dáð ómáð,

fjáð heilráðin fáðu aðgáð,

fláðu af háði smáða í bráð. (bls 156)

Hjálmar var hæðinn og þótti þar bæði óvæginn og illskeyttur. Því átti hann sér ýmsa óvildarmenn. Hann átti líka marga vini og var oft fenginn til að skemmta því hann var fróður og góður sögumaður, skemmti fólki með kveðskap og gat verið hrókur alls fagnaðar þegar hann vildi.

Einhvern tímann hittust Árni á Skútum og Bólu Hjálmar. Þá kvað Árni:

Maður skálmar mikill þar,

mjög sem tálmar dyggðum.

Er það Hjálmar auðnuspar,

sem yrkir sálma háðungar.

Hjálmar lét ekki standa á svari, -né Árna eiga neitt inni hjá sér:

Árni á Skútum er og þar,

úldinn grútar snati.

Hrafna lút í hreiður bar;

hans eru pútur dæturnar. (bls 28)

Vísan Eptirmæli gefur vel til kynna hversu neyðarlega níðskældin Hjálmar gat verið.

Kvaddi drylla kappa fans,

kviðar spilling búin,

burt er frilla fúskarans,

fremd og snilli rúin. (bls 170)

Nafnlausa litla svarta bókin, sem greinilega hefur mikið verið flett af systkinunum í torfbænum, byrjar hins vegar á þessu lífshlaups ljóði:

Hægra mér þótti

hinnig tíðar,

þá fjör og kraptur

fleytti mundum,

hamar, taung, knífur,

hefill, exi,

sveifla sveðju grass

eður sægögnum.

 

Hángandi hrör

í helgin opið

fálmar fluggögnum

fjaðurhjarðar,

skjálfandi mund

við skýjuð augu

lætur lítt

að letra smíði.


Fimbulfamb

Nú er baksað við að koma á orkuskorti í landinu með kjaftæði, og byggja húsnæði með handaböndum. Þó svo að allir viti að íslendingar séu ein örfárra þjóða sem framleiða mörgu sinnum meiri orku en þeir þurfa að nota, og það umhverfisvæna eins og þeir kalla hana sem þegar græða á því einu að selja upprunavottorð, -sem er einstakt á meðal þjóða.

Græðgivæðing amlóða án verkvits er komið á það stig að ekki verður hjá því komist að ryðja kontórana, það getur engin borgað fyrir nema brot af vankunnáttunni sem þaðan vellur og húsbyggingar bjarga litlu. Þar eru einfaldlega orðnir of margir í því að fá frábærar hugmyndir við færibandið, en eru algerlega handalausir þegar kemur að því að koma þeim í framkvæmd.

Um þetta vitna m.a. fyrirhuguð brú yfir Fossvog, endalausir sáttmálar vegna nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurflugvöll á meðan gróðapungar byggja háhýsi fyrir flugbrautarendann, á fótboltavelli sem fékk að vera þar á sínum tíma á öryggissvæðinu. Svo ekki sé talað um Borgarlínu, Sundabraut, Fjarðarheiðargöng, -og bara nefndu það, -hvað þá Þjóðarhöll sem nú er orðin forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar.

Þetta er orðin fáviska á sjálfstýringu þar sem fimbulfambandi lið fullt af frábærum hugmyndum flytur inn mállausa niðursetninga í þúsundatali, og lætur sig dreyma um að flytja inn enn fleiri, til að fara illa með í hagnaðarskini og reynir að telja Íslendingum trú um að það sé að vinna bug á orku og íbúðaskorti.

Staðreyndin er að regluverk lobbýista fjórhelsisins leyfir orðið algerlega frjálsan  innflutning á byggingarefni og fólki, sem ætlað er - og býr við - allt aðfarar aðstæður en íslenskar, til að hrófla upp gróða hreysunum út hverju sem er, svo framarlega sem það fylgir ESB regluverki fjórhelsisins.

Og nú þegar þetta vesalings lið er með allt niðrum sig þegar kemur að verkviti og fjármálalæsi þá dettur því helst í hug að ganga lengra í að vinna á CE vottuðu ESB gullhúðununum sínum, sem hafa gert venjulegu fólki í landinu ófært að komast í gegnum regluverkið með hænsnakofa.

Verkleg vankunnátta fimbulfambaranna og óhæft innflutt byggingarefni fyrir íslenskar aðstæður, hefur nú náð þeirri tæknilegu fullkomnun að húsnæði er orðið óíbúðarhæft vegna mygla áður en það kemst í notkun, -og þá dettur vanvitunum helst í hug að fá að möndla kennsluefni fyrir iðnaðarmenn sjálfir.


Unnið með rassgatinu

Eins og einhverjir hafa væntanlega orðið varir við þá hafa brotist út gríðarleg fagnaðarlæti í landinu í kjölfar undirritunar kjarasamninga. Þeir sem greiða sér verðbólginn arðinn í eigin vasa, hvort sem það er beint eða með kaupaukum, gera nú meira en glotta út í annað.

Jötuliðið kemst frá borðinu með sinn feng, ekki eitt boffs um tugaprósenta hækkanir ríkis og bæja um síðustu áramót. Nú geta mannauðstjórar hinna ýmsu sviða gert sig gildandi með því að láta reyna á reikningskunnáttuna við að svelta skólabörn.

Almennir launþegar duttu svo heldur betur í lukkupottinn fengu rúmlega 3 prósent til fjármagana fagnaðinn. Unga fólkið má nú vænta innan tíðar að hækkanirnar hætti að hækka og afborganir sem hækkuðu á tveim árum úr 250 þúsund í 400 þúsund stöðvist í stöðugleika vaxta til næstu þriggja ára.

Segi svo einhver að gamla góða þjóðarsáttin skili ekki sínu. Já, það má aldeilis segja að sjaldan hafi borgar sig betur að sitja á rassgatinu.


Lýðskrum

Veröld illskunnar er tvöföld, verður að hafa tvö lið sem berjast í endalausu stríði vonlausra hjaðningavíga mennskunnar. Þú byrjaðir og skalt gjalda fyrir – þú hefur drepið fleiri nú má ég. Ástæðan fyrir því að sjá ekki það, sem ávalt hefur verið skrifað í skýin, er blinduð andleg vitund fjöldans.

Það er ofviða okkur sem sækjum visku í medíu sérfræði og sviðsmynda, að treysta á eigin vitund. Þessi innrætta vitund upplýsinganna er keppnis, hún skipar í lið, -innrætir að taka afstöðu með eða móti óásættanlegum kostum. Dómgreind byggð á þannig visku velur þann skárri sem medían býður.

Flokkadrættir eru ekki byggðir á upplýsingu, þeir eru áróður byggður á upplýsingaóreiðu og oftar en ekki falsfréttum. Ef eitthvað ber að forðast þá er það dómgreind sem réttlætir að skjóta sig í gegnum barnahópinn, með það að markmiði að ráða niðurlögum myrkrahöfðingjans, -í stað bænar til almættisins.

 

Éljaklakkar


Í minningu Björgvins


Á hverfanda hveli

Sjálfsagt kemur upp í huga einhverra Hollywood, -Gone with the Wind við þetta orðatiltæki. Allavega er það fyrst til að koma upp á google. Eins mætti hugsa sér eitthvað sem er að hverfa af yfirborðinu eða út í veður og vind, líkt og skilningur á íslensku máli.

Þetta máltæki er reyndar ævafornt, ættað úr Hávamálum, einum af gersemum íslenskrar tungu. Orðasambandið kemur fram í 84. erindi, sem er fyrsta kvæði Mansagna Hávamála, annars hluta heilræðanna;

Meyjar orðum

skyldi manngi trúa

né því er kveður kona,

því að á hverfanda hveli

voru þeim hjörtu sköpuð,

brigð í brjóst um lagin.

Af þessu má ætla að kvenfólki sé hreint ekki treystandi þar sem hjörtu þeirra séu hverflynd (á hverfanda hveli) og að upplagi svikul (brigð í brjóst um lagin). Hverfanda er lýsingarháttur nútíðar af sögninni hverfa sem merkir snúa. Hvel var orð yfir hjól í fornu máli.

Bókin Örlög orðanna þættir um Íslensk orð og orðtök eftir Halldór Halldórsson byrjar einmitt á Hvervanda hveli. Og þar er þetta máltæki krufið ítarlega á mörgum síðum, með því að vitna í vísa menn og forna texta. Einn af textunum má finna í Alvíssmálum Eddukvæða;

Máni heitir með mönnum,

en mylinn með goðum,

kalla hverfanda hvél helju í,

skyndi jötnar,

en skin dvergar,

kalla alfar ártala.

Þarna er vísað til kvartilaskipta tunglsins sem tímatals, og mánans sem hvels sem hverfur í hringferli. Mörg þjóðtrúin bendir til þess að tíðahringur kvenna hafi með hverflyndi og sviksemi að gera, en því er ekki haldið fram í Örlögum orðanna að þar sé uppruna orðasambandsins að finna.

Höfundur Örlaga orðanna telur uppruna máltækisins eiga eingöngu rætur að rekja til Hávamála. Hann nefnir þó kenningar um að það kunni að hafa komið í Hávamál í líkingu Rota Fortuna -hamingjuhjólið sem hafi verið þekkt þegar Hávamál voru færð í letur.

Einnig kemur fram athyglisverð kenning um að hvelið í gæti verið leirgerðarhjól. Samkvæmt þeirri kenningu hafa hjörtu kvenna verið sköpuð við leirsmíði. En það telur höfundur Örlaga orðanna langsótt og fái tæplega staðist að höfundi hafi verið það í huga.

Eins og mátt hefur greina í síðustu bloggum þá hefur síðuhafi verið uppnuminn í garði Gunnlaðar. Í gegnum tíðina hafa það verið konurnar sem veitt hafa okkur karlmönnunum skáldskaparmjöðinn.

Berum því virðingu fyrir þeim sem okkur hafa á brjóstum borið og gefið okkur innblástur til orðs og æðis, -gefum þeim blóm.


Með kostulegri kveðju

Á meðan himnarnir hrynja

yfir þá heimilislausu

stend ég keikur í dyrunum

og öskra út í tíðarandann

 

Haldið kjafti snúið skafti

étið skít heima hjá ykkur

óþjóða hryðjuverkalýður

– og skelli hurðinni

 

Geng inn og sest

við upplýstan skjáinn

-innbyrði sannleika heimsins

í postulegri kveðju Morgunnblaðsins


mbl.is Leyfislaus söfnun fyrir Palestínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munið þið þegar miðlínan var gul?

-Það var fyrir EES, Schengen, túristavaðalinn og mest af þeirri óáran sem unioninu fylgir. Nú er búið að heilaþvo heilu kynslóðirnar með þeirri möntru að allt sé betra. Stuttbuxnadeildin varð sú fyrsta, sem var vöskuð milli eyrnanna í trú á að Dabbi kóngur hefði komið Íslendingum inn í nútímann. Það dugði þangað til hann hrapaði af Svörtuloftum og fór sem próventukarl upp í Hádegismóa.

Eftir hið svokallaða hruni kom smá icesave glæta, en þá voru blessuð börnin vöskuð enn betur á milli eyrnanna með falsfréttum, ólæsi og hroða ensku, -af Davos dúkkulýsum. Og nú er svo komið að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi veit varla hvað Ísland er annað en millilandaflugvöllur sem flytur landann í sólina á Tene og flækinga á klakann.

Á meðan hefur landráðaliðið framselt fullveldi og auðlindir landsins út í eitt og það verður trauðla endurheimt nema að taka afleiðingunum af því að segja sig frá EES og Schengen. Þó svo að það gæti kostað smá töf til Tene þá yrði Ísland á eftir meira á íslenskum forsemdum, -fiskurinn sem unnin var í Grindavík yrði unnin á landinu bláa en ekki á meðgjöf í unioninu.

Útlendingaiðnaðurinn er orðin helsti tekjumöguleiki innfæddra s.s ferðaþjónusta mönnuð með erlendu starfsfólki, byggingaiðnaðurinn er í sama fasa, -ekki nema nokkrir dagar síðan að rúmenskur vinnuflokkur bjargaði hitaveitunni á Suðurnesjum sem er í erlendri eigu. Allt gert til að hirða mismun af lágum launum og okri auðrónum til yndisauka.

Glópelskur landinn er orðinn eins og kotbændur fyrri tíma, sem héldu að þeir væru stórbokkar ef þeir fengu niðursetning, því það var borgað með þeim og hægt að fara illa með þá að auki. Allt heila helvítis fræðingabáknið og sviðsmyndaveldið þrífst orðið á niðursetningum og flækingi.

Í grófum dráttum eru niðursetningar lögfræðistóðsins hælisleitendur, og innflutta vinnuaflið þjónustar túristavaðalinn og byggir innviðina. Á meðan flestir innfæddra erum orðnir fákunnandi bjánar með fræðigráður á fundi.

-Eða í starfshóp á vegum ríkisins og fá frábærar hugmyndir á færibandi, en hafa hvorki hendur né verkkunnáttu til að framkvæma, hvað þá sjálfstæði, - og geta nú orðið varla þrifið eftir sig skítinn.

Já man einhver þegar miðlínan var gul? -og Ísland var Ísland – Bubbi hafði hár og söng óræð ljóð.

 


Fífl

Ég missti út úr mér á kaffistofunni um daginn; -eins og þú veist nafni þá er sveitarstjórnarfólk mestu fífl sem fyrir finnast. Þá firrtist nafni við og sagði; -og þetta þykist þú geta sagt hafandi verið sjálfur í sveitastjórn. – Já láttu mig vita það, -svaraði ég þá með þjósti.

-Þetta með fíflskuna er reyndar alls ekki einhlítt hún getur haft sínar ýmsu birtingamyndir í gegnum alla flóruna, og þegar fíflunum fer fjölgandi er rétt að líta í eigin barm.

Nú hefur verið ákveðið að hefja bílastæðagjaldtöku á þremur innanlands flugvöllum. Á það að vera til að “bæta upplifun flugfarþega” með því einu að setja upp gjaldtöku myndavélar, eftir því sem mannauðstjóri upplifunar hins opinbera hlutafélags orðar það, - ISAVIA sem hét áður Flugmálastjórn ríkisins er eftir sem áður jafn mikið ríkisins.

Hvernig bætt upplifun á að fást út úr því að vera rukkaður sérstaklega fyrir að fara á flugvöll er jafn hulin ráðgáta og þegar Reykjavíkurborg rukkar gamalt og fatlað fólk um stöðumælabrot í stæðinu heima hjá sér bara vegna þess að fábjánar með frábærar hugmyndir halda að hægt sé að breyta bílastæði í göngustíg með nýju deiliskipulagi, eða að setja upp skilti með mynd af Óla prik.

Einhverjir tæknilegir örðugleikar urðu reyndar á því að bætta upplifunin gæti hafist þegar til stóð á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrr í vetur, -vegna Reykjavíkurflugvallar. Þeim hefur nú verið rutt úr vegi, sennilega með því að lauma reglugerð í gegnum ráðuneyti sem leifir myndatöku af fólki í landi ríkisins og rukka það.

Það er rétt að hafa í huga að ekki verða önnur bílastæði á flugvöllunum en þau sem bjóða upp á bætta upplifun og að Akureyrar og Egilsstaðaflugvellir eru notaður af fleirum en íbúum þessara staðar. Á Egilsstöðum eru mikið meira en næg bílastæði, bílaleigurnar raða tugum bíla í flest malbikuð stæði utan þeirra sem eru allra næst innganginum með tímamörkum.

Flugvöllurinn er notaður af öllum austfirðingum í tilfelli Egilsstaða. Farlama og fótafúnir fjarðabúar úr innviðaleysinu í neðra, búandi við lélegar eða engar almenningssamgöngur geta þurft að komast í flug vegna sjúkleika til Reykjavíkur og átt yfir 100 km leið á flugvöll, en engin deildskipulögð bílastæði eru fyrir þá í efra og nú fá þeir ekki einu sinni að leggja úti á túni án þess að njóta bættrar upplifunar.

Þá, sem hafa ekki annað en eigin bíl til að komast leiðar sinnar í og úr flugi, gæti þessi bætta upplifun kostað meira en flugferðin suður og jafnvel sjúkrakostnaðinn. Þetta ráðslag ISAVIA ohf í eigu ríkisins er því gott betur en á pari við þá þjóðarsátt sem birtist í heimabönkum landsmanna núna eftir áramótin, -bæði frá ríki og bæ.

Varla heyrist múkk í bæjarstjórnarfólki eða kjörnum fulltrúum löggjafasamkomunnar, hvað þá þjóðarsáttarsemjurum á vöfflukaffistofunni. Og þeir fáu sem fá að tjá sig af almúganum í fjölmiðlum bera sig bara mannalega. Setningar á við - “löngu komin tími til” og - “mig munar nú lítið um 350 kall fyrir korter” eru efst á vinsældarlistanum.

Sjálfur er ég fljótari á flugvöllinn gangandi enn á bíl svo þessi upplifun snertir mig ekki neitt.

Enda,,, -yfir bættri upplifun nöldra náttúrulega bara fífl.


Bárujárnsrokk

Í gegnum svefninn

hlusta ég á snjókomuna

þekja þykka þögnina

sem gjálfrar á hleinum

neðan við kot

 

Heyri hnullunga

rúlla og mala

í sogi úthafsöldu

niður básinn

í Þúfnafjörunni

 

Ég kom til að sofa

tímana tvenna

á brim strönd

úti við ysta haf

í hundrað ára

gulu húsi

 

Í faðmi bárujárns

læt ég sem ég sofi

en mun samt vaka

-vonandi til vors


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband