28.8.2020 | 06:07
Heilagir hundar
Við keyrðum burt frá öllu saman og það ætti svo sem ekki að segja nokkrum lifandi manni frá því, eða líkt og segir í hinni helgu bók "gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín".
En af því að margir lesendur eiga það til að líta hér inn reglulega þá ætla ég að gefa þeim örlitla sýn á hvað við vinnufélagarnir vorum að bauka bak við hús þessa vikuna.
Kannski réttara sagt þeir, því ég fæ yfirleitt að fljóta með svona til halds og traust, enn ekki það að ég geri mikið meira en að njóta kyrrðarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2020 | 06:10
Tvímánuður
Það ætti náttúrulega hvergi að vera betra golunni að geispa en blíðum í blænum sunnan í bláum berjamó. Eins og flestir landsmenn þá er ég orðinn dauðleiður á dularfullu drepsóttinni, og farin til berja. En það er samt ekki verra en vant er, þar er fámennt og góðmennt, og ekki mikið mál að halda tveggja metra reglunni grímulaust. Þessu virðast sárafáir hafa áttað sig á, kannski sem betur fer.
Nú er kominn tvímánuður (hefur ekkert með tvo metra að gera), sem er fimmti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst ævinlega á þriðjudegi í 18. viku sumars, eða hinni 19., ef sumarauki er, þ.e. 22. 28. ágúst. Í Snorra-Eddu heitir mánuðurinn kornskurðarmánuður, en mætti nú allt eins kalla berjamánuð eftir að tæknin bauð upp á að geyma uppskeruna í frystikistu.
Gömlu mánaðaheitin eru talin upp í tveimur ritum. Annað nefnist Bókarbót og er varðveitt í handriti frá um 1220. Hitt ritið er Snorra-Edda og eru mánaðaheitin talin þar upp í Skáldskaparmálum. Ekki ber mánaðaheitunum saman. Í Bókarbót er tvímánuður talinn upp á milli fjórða mánaðar sumars og sjötta mánaðar sumars.
Nafnið kornskurðarmánuður skýrir sig sjálft þar sem hann ber upp á þann tíma ársins sem vænta má kornuppskeru. Páll Vídalín vildi skýra nafngiftina tvímánuður á þann hátt að tveir mánuðir væru nú eftir að sumri, líkt og einmánuður bæri nafn sitt vegna þess að einn mánuður væri eftir af vetri.
Undanfarin ár hef ég farið í berjamó frekar en taka lyfin mín. Ég komst að því að bláber lækkuðu bæði blóðþrýsting og magn slæms kólesteróls í blóði. Vandamálið var að kólesteróllækkandi lyf, af læknanna ólyfjan, ullu mér verulegum vandræðum, þau eiga það til að valda minnistapi.
Vinnustaðurinn minn var um tíma orðinn með minnistöflum upp um alla veggi og ég vafrandi á milli veggja með minnismiða. Það var ekki fyrr en bókarinn spurði; "hvað ætlarðu svo að gera þegar þú verður búin að gleyma hvar minnistöflurnar eru", -að ég fór í berjamó.
Þessa dagana mætir maður grandvöru fólki á förnum vegi, bæði í búð og einu sér í sínum bíl, glíma við að leggja mat á tvo metrana jafnvel með grímuna fyrir smettinu. Ég var næstum búin að keyra út af niður á nesi um daginn þegar ég sá myndar konu skokkandi í spandex með grímu, átti í erfiðleikum með að standa fyrir máli mínu gagnvart Matthildi minni, þar sem við vorum að koma úr berjamó.
Hún hefur hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur af því að ég væri að gefa kvenfólki hýrt auga, þó hún hafi oft séð sig knúna til að setja út á aksturslagið. Ég spurði hvort hún hefði ekki tekið eftir að þetta var stútungs kelling á aldri við okkur alein út á túni í sumarblíðunni með drepsóttar grímuna. Það væri varla nema von að manni fipaðist.
Heimildir;
https://is.wikipedia.org
http://www.arnastofnun.is/page/ordpistlar_tvimanudur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.8.2020 | 06:02
Við skulum bara tala íslensku hérna
var máltæki eins vinnufélaga, og þegar hann hafði haft þennan formála yfir með viðeigandi gæsalöppum, gerðum með fingrum við eyru, vissum við hinir að von var á yfirhalningu.
Einu sinni sleppti hann alveg formálanum og sagði að réttast væri að skera af mér hausinn. Ég áttaði mig strax á að þarna væri töluð hrein íslenska, þó að í viðtenginga hætti væri. Reif af mér vinnuvettlingana úti í miðri steypu og rétti honum spaðann og baðst afsökunar á orðaleppunum sem ég hefði látið mér um munn fara. Hann tók í höndina á mér, þó með semingi væri rétt eins og hann tryði ekki alveg eigin augum.
Það er auðvitað hvergi mikilvægara en í miðri steypu að menn misskilji ekki hvorn annan og vinni vel saman, þetta vissum við báðir. Þessi uppákoma varð ekki til þess eftirá að neinn skugga bæri á okkar félagsskap. Það kom samt fyrir eftir þetta atvik að aðrir vinnufélagar hefðu orð á því við vinnuveitandann að ef hann ætlaði að senda félagann og mig aftur með þeim í steypu þá væri vissara að leita áður af sér allan grun um hugsanlegt blóðbað í vösunum okkur félaganna.
En hversu stóran þátt á íslenskan í því að við skiljum samhengi hlutanna? Er hægt að skilja og skýra myndina svo vel sé t.d. á ensku, þegar maður er alinn upp á íslensku? , , , og skiljum við orðið yfir höfuð hreina íslensku? Ég hef oft verið að velta fyrir mér hve mörg samsett orð hafa villt mönnum sýn. Þannig; að þó merking orðanna sé á hreinu sem mynda samsetta orðið, þá virðast flestir leggja í það aðra merkingu en orðin segja. Ég ætla að taka þrjú örstutt dæmi.
Persónuleiki; er samsett úr orðunum persóna og leikur s.b. persónur og leikendur. Orðið persóna er upprunnið í latínu og merkir upphaflega gríma. Orðið leikur þarf varla að skýra en þar getur verið átt við ærslafullan leik barna, eða leik eftir ákveðnum reglum, jafnvel leik sem felst í að sýnast eitthvað annað en maður er, s.b. persónur og leikendur. Ég hygg að margir ætli að orðið persónuleiki sé haft yfir innsta eðli, þegar það er í raun yfir leikgrímuna sem sett er upp til að sýnast í lífsins ólgu sjó.
Trúarbrögð; samsett úr trú og brögð. Orðið trú er einfalt og getur varla misskilist, -ég allavega treysti því. En annað á við viðtenginguna brögð þar virðist um auðugri garða að gresja. Á ensku er notast við orðið religion með rót í latneska orðinu religio, sem er sagt geta átt við virðingu fyrir því sem er heilagt, lotning fyrir guðunum; samviskusemi, réttlætiskennd, siðferðilegri skyldu; ótta við guðina; guðsþjónustu, trúarathafnir osfv. Íslenska orðið bragð eða brögð getur t.d. átt við athöfn, framkvæmd, verk osfv. Einnig geta verið brögð í tafli, og ef talað væri um trúarbragðaref þá væri sú merking auðskilin.
Vísindi; samsett úr vís og indi. Á Vísindavef HÍ er þetta um orðið að finna "orðið vísindi er leitt af lýsingarorðinu vís í merkingunni vitur, sem hefur þekkingu til að bera. Síðari liðurinn -indi er viðskeyti einkum notað til að mynda nafnorð af lýsingarorðum, til dæmis sannindi af sannur, heilindi af heill, harðindi af harður, rangindi af rangur." Hvað ef orðið væri til komið af því að einhver hefði haft yndi af því að vera vís?
Á ensku er notast við orðið sciense, sagt komið úr gamalli frönsku og þýddi þar þekking, s.s. nám, í beitingu mannkyns þekkingar. Orðið á rót í latneska orðinu scientia sem þýddi þekking eða reynsla, eftir því sem ég kemst næst hjá gúggul.
Það eru kannski ekki allir sem vita að íslenska orðið vísindi er ævafornt orð og var notað löngu fyrir daga "nútíma vísinda", rétt eins og scientia í latínu. Orðið var haft yfir þá sem vissu nefi sínu lengra, s.s. seiðkarla á við Óðinn alföður og Loka Laufeyjarson, eins skapanornir á við Urði, Verðandi og Skuld sem sköpuðu mannfólkinu örlög.
Síðar breyttust seiðkarlar og skapanornir smásaman í nútíma vísindamenn, jafnvel spákonur rýnandi í spákúlu um tíma. Síðustu sex mánuði hefur þríeyki setið seiðhjallinn í beinni og skapað okkur örlög lík Urði, Verðandi, Skuld, rýnandi í spálíkanið. Um vísindin, -því sem næst eins og þau eru praktíseruð dag í dag; má lesa 1000 ára íslenska frásögn í Grænlendingasögum, sjá hér.
Vísindin eru í raun þau trúarbrögð nútímans sem fá okkur til að setja upp grímuna og leika eins og til er ætlast, jafnvel þó okkur gruni innst inni að kenningin sé orðin samsærið sjálft. Þess vegna er því þannig farið að það getur borgað sig að tala bara íslensku þegar til stendur að skera hausinn af, jafnvel þó svo að í viðtenginga hætti sé. En ekki er samt víst að allir þoli orðaleppa, sem ekki geta misskilist, -nema þeir séu sagðir með orðhengilshætti undir rós.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.8.2020 | 06:00
Perlur og svín
Það mætti ætla að náttúruperlur færu ekki forgörðum þó svo að ferðamönnum yrði meinaður aðgangur að landinu bláa á meðan kóvítið geysar, þeir gengju að þeim vísum þegar kóvinu slotaði. En er það nú alveg víst?
Þjónustan við ferðamenn hefur verið sá drifkraftur sem kom Íslandi upp úr hruninu, um það deila fáir. Vegna þess hve stór sá þáttur er í tekjuöflun landsmanna þá er eðlilega mikil eftirsjá í erlendu ferðamönnum og störfum þeim tengdum.
Að sjálfsögðu fer fögur náttúra landsins ekki forgörðum á því að loka fyrir ferðamenn en það gæti samt farið svo að sumir þeirra staða sem vinsælir eru í dag misstu aðdráttarafl sitt, vegna þess að perlurnar verði glataðar þegar kóvinu slotar.
Það er t.d. ekki útilokað að stórframkvæmdir á við virkjanir fallvatna verði nú taldar brýnni ásamt sæstreng til að skapa störf og afla tekna. Náttúruspjöll réttlætt á svipaðan máta og við Kárahnjúkavirkjun m.a. með því að samfara þeim skapist í framtíðinni aðgengi að svæðum sem voru flestu óaðgengileg áður.
Því geti allt eins farið svo að nýjar perlur líti óvænt dagsins ljós. Rétt eins og Stuðlagil, sem kom úr kafinu í farvegi Jökulsár á Dal við það að Jökla var flutt yfir í Lagarfljót. Þetta sumarið var Stuðlagil ein af vinsælu náttúruperlum landans.
Til eru aðrir staðir þar sem tíminn mun afmá aðdráttaraflið nema með nýju rusli. Bieber, Gaga og Cruise heiðri síðan svínaríið með nýrri selfý, því að þegar opnað verður eftir kóvið verði allir búnir að gleyma þannig perlum í ölduróti tískunnar. En 300 milljóna markaðssetning úr ríkissjóð við að öskra slíkan stað á kortið dugar sennilega skammt.
Þessir staðir eru nú víða um land og hafa kostað mannslíf á við hálft kóvíti, t.d. herflugvélarflakið á Sólheimasandi þar sem æskufélaginn, Benedikt sveitaruddi Bragason, sá sér ekki annað fært en að girða sandinn af, -sem kom samt ekki í veg fyrir það að nú síðast í vetur varð ungt ferðafólk úti í hríðar kófi við að berja flugvélaflakið augum.
Í sumar fór ég að venju í Mjóafjörð sem er hérna hinumegin við hólinn. Þar er eitt vinsælasta myndefni ferðamanna haugryðgað flak landgöngupramma í fjörunni. Ef google er skoðaður þá er flakið vinsælla myndefni úr firðinum fagra en sjálfir Klifbrekkufossarnir.
Þessi riðkláfur er varla lengur á vetur setjandi og fer hver að verða síðastur að berja hann augum. En það var ekki fyrr en núna í sumar sem mér varð að fullu ljós tilvera hans á Tanganum í Mjóafirði. Saga flaksins í Mjóafirði hefur nú verið sett á skilti ferðamönnum til glöggvunar, og þá kemur í ljós að þessi myndræna perla er hreinræktað rusl.
Landgöngupramminn: Flakið er af landgöngupramma sem legið hefur hér í fjöruborðinu á Tanga allt frá árinu 1966.
Pramminn kom vestan af fjörðum þar sem ameríski herinn notaði hann, knúinn tveimur díselvélum, til flutninga til ratsjárstöðvarinnar á Straumnesfjalli. Hann var einnig nýttur í Ísafjarðardjúpi til að ferja m.a. jarðýtur á milli staða, en hægt var að leggja niður gaflinn að framan og keyra upp í sandfjöru.
Þegar komið var upp síldarplani í Brekkuþorpi árið 1965 var pramminn fenginn vélarlaus austur til að flytja burt síldarafskurðinn. Var pramminn þá dreginn frá Mjóafirði til Norðfjarðar þar sem landað var í bræðslu.
Pramminn var einungis í notkun í Mjóafirði tvö sumur áður en honum var endanlega lagt hér á þessum stað. Hann þótti óhagstæður vegna þess að hann er þver fyrir og voru menn hvað eftir annað rétt við að missa hann niður á leiðinni yfir á Norðfjörð. (Heimildarmaður; Sigfús Vilhjálmsson)
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 06:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2020 | 11:07
Vegtyllur vísindanna
Það er ekki ólíklegt að margir sem sögðu "ég hlýði Víði" í vetur, hugsi nú með sér "ég hýði Víði". Stutt er á milli feigs og ófeigs, en sennilega hefur engum dottið í hug að mæla það á eins víðum vísinda grunni og ósýnilegu pestarveiruna covid-19. Eins er hægt að mæla feig og ófeig samkvæmt almannarómi.
Það er ekki lengra síðan en 17. júní að forsetinn hengdi fálkaorður á þríhjólandi vísindagengið í viðurkenningaskini fyrir hönd þjóðarinnar. Þetta mun vera einsdæmi í heiminum þegar kóvítið er annars vegar, en forsetin var ekki það fíflið að vita ekki hvað til síns friðar heyrði korter í kosningar. Því er raunhæf spurning hvort tjara og hænsnafiður verður næsta viðurkenning frá Bessastöðum eftir að margboðuð og innflutt seinni bylgja pestarinnar ræður orðið ríkum.
Vísindi hafa frá örófi alda byggst á að greina hið óþekkta og koma spekinni á framfæri með spásagnar sjónhverfingum á við galdur, enda orðið vísindi þaðan ættað. Þegar spálíkanið bregst og keisarinn stendur strípaður þá er stutt í galdrafár og hýðingar ef ekki tekst að halda sjónhverfingunum lifandi á nýjum bylgjum almennra ásakana. Tjara, fiður og fálkaorður eru svo tákn tímanna sem viðurkenningar valdhafana.
Í Grænlendingasögum má lesa 1000 ára gamla frásögn um vísindakonuna Þorbjörgu lítilvölvu, þegar hún bjargaði samfélagi norrænna manna frá mikilli vá á Grænlandi á dögum Leifs heppna Eiríkssonar, og naut til þess hjálpar Guðríðar Þorbjarnardóttur sem nokkurskonar Víðis.
Margt er enn líkt með skyldum, og beina þúsund ára útsending á Grænlandi minnir um margt á nútíma Eurovision. En því er ekki að neita að ólíkt var Þorbjörg vísindakona betur búin tækjum en þær sem nú skima í kóvinu klæddar blárri búrku með einota grímu og hanska, ásamt einum extra löngum eyrnapinna.
"Sú kona var þar í byggð er Þorbjörg hét. Hún var spákona og var kölluð lítilvölva. Hún hafði átt sér níu systur og voru allar spákonur og var hún ein eftir á lífi.
Það var háttur Þorbjargar á vetrum að hún fór á veislur og buðu menn henni heim, mest þeir er forvitni var á um forlög sín eða árferði. Og með því að Þorkell var þar mestur bóndi þá þótti til hans koma að vita hvenær létta mundi óárani þessu sem yfir stóð. Þorkell býður spákonu þangað og er henni búin góð viðtaka sem siður var til þá er við þess háttar konu skyldi taka. Búið var henni hásæti og lagt undir hægindi. Þar skyldi í vera hænsnafiðri.
En er hún kom um kveldið og sá maður er í móti henni var sendur þá var hún svo búin að hún hafði yfir sér tuglamöttul bláan og var settur steinum allt í skaut ofan. Hún hafði á hálsi sér glertölur. Hún hafði á höfði lambskinnskofra svartan og við innan kattarskinn hvítt. Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn. Hún hafði um sig hnjóskulinda og var þar á skjóðupungur mikill. Varðveitti hún þar í töfur þau er hún þurfti til fróðleiks að hafa. Hún hafði kálfskinnsskó loðna á fótum og í þvengi langa og sterklega, látúnshnappar miklir á endunum. Hún hafði á höndum sér kattskinnsglófa og voru hvítir innan og loðnir.
En er hún kom inn þótti öllum mönnum skylt að velja henni sæmilegar kveðjur en hún tók því eftir sem henni voru menn skapfelldir til. Tók Þorkell bóndi í hönd vísindakonunni og leiddi hana til þess sætis er henni var búið. Þorkell bað hana þá renna þar augum yfir hjörð og hjú og híbýli. Hún var fámálug um allt.
Borð voru upp tekin um kveldið og er frá því að segja að spákonunni var matbúið. Henni var ger grautur af kiðjamjólk en til matar henni voru búin hjörtu úr alls konar kvikindum þeim sem þar voru til. Hún hafði messingarspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var af brotinn oddurinn.
En er borð voru upp tekin gengur Þorkell bóndi fyrir Þorbjörgu og spyr hversu henni virðist þar híbýli eða hættir manna eða hversu fljótlega hann mun þess vís verða er hann hefir spurt eftir og menn vildu vita. Hún kveðst það ekki mundu upp bera fyrr en um morguninn þá er hún hefði sofið þar um nóttina.
En að áliðnum degi var henni veittur sá umbúningur sem hún skyldi til að fremja seiðinn. Bað hún fá sér konur þær sem kynnu fræði það er þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita. En þær konur fundust eigi. Þá var að leitað um bæinn ef nokkur kynni.
Þá svarar Guðríður: "Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona en þó kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði Varðlokur."
Þorbjörg svaraði: "Þá ertu fróðari en eg ætlaði."
Guðríður segir: "Þetta er þess konar fræði og atferli að eg ætla í öngvum atbeina að vera því að eg er kona kristin."
Þorbjörg svarar: "Svo mætti verða að þú yrðir mönnum að liði hér um en þú værir þá kona ekki að verri. En við Þorkel met eg að fá þá hluti hér til er þarf."
Þorkell herðir nú að Guðríði en hún kveðst mundu gera sem hann vildi. Slógu þá konur hring umhverfis en Þorbjörg sat uppi á seiðhjallinum. Kvað Guðríður þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist fyrr heyrt hafa með fegri raust kveðið sá er þar var.
Spákona þakkar henni kvæðið. Hún hafði margar náttúrur hingað að sótt og þótti fagurt að heyra það er kveðið var "er áður vildu frá oss snúast og oss öngva hlýðni veita. En mér eru nú margir þeir hlutir auðsýnir er áður var bæði eg og aðrir duldir. En eg kann það að segja að hallæri þetta mun ekki haldast lengur en í vetur og mun batna árangur sem vorar. Sóttarfar það sem lengi hefir legið mun og batna vonum bráðara. En þér Guðríður skal eg launa í hönd liðsinni það sem oss hefir af staðið því að þín forlög eru mér nú öll glöggsæ. Það muntu gjaforð fá hér á Grænlandi er sæmilegast er til þó að þér verði það eigi til langæðar því að vegir þínir liggja út til Íslands og mun þar koma frá þér ættbogi bæði mikill og góður og yfir þínum ættkvíslum mun skína bjartur geisli. Enda far nú vel og heil, dóttir mín."
Síðan gengu menn að vísindakonunni og frétti hver eftir því sem mest forvitni var á. Var hún og góð af frásögnum. Gekk það og lítt í tauma er hún sagði. Þessu næst var komið eftir henni af öðrum bæ og fór hún þá þangað. Þá var sent eftir Þorbirni því að hann vildi eigi heima vera meðan slík heiðni var framin.
Veðrátta batnaði skjótt þegar er vora tók sem Þorbjörg hafði sagt."
Eiríks-saga Rauða
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2020 | 09:22
Kellingafár í beinni
Þegar ég hitti kunningja fyrir margt löngu, sem er áratugum eldri en ég, -spurði hann hvað væri títt. Ég sagðist hafa komist að því að tveir plús tveir þyrftu ekki að vera fjórir frekar en manni sýndist. Já veistu það, þetta vissu þær alltaf húsmæðurnar; -svaraði kunningi minn.
Nú hafa tekið við aðrir tímar þar sem kellingar spálíkans lokaritgerðarinnar hafa fært sig upp á skaftið, -og hornsteinum heimsins hefur verið kastað á glæ; hámenntaðar fraukur, í Þórálfa líki, sem líta skimandi yfir gleraugun í beinni, og eineygra bláklæddra Óðins hana.
Húsfreyjan hefur verið rammflækt í lokaritgerðinni, fleygt á haugana eins og hverri annarri flugfreyju svo allt geti verið á sjálfstýringu í aðflugi stórfyrirtækisins til alheimsyfirráða. Mynd sem var, er komin á hverfanda hvel, -heimurinn yfirfljótandi í sótthræddum kellingum.
Upp hefur risið haukleg mær, -og lafandi lostakústur. Valkyrja, sem með rafrænum smáskilaboðum fær hvern þann, sem á móti blæs; með metoo myllumerki og stjörnusýslumanni stones borinn út í eyjar. Engin er lengur þjóðhátíð, -femenisk er Þórðargleðin.
Húsmóðirin sér nú sinn sal standa sólu fegri, gulli þakin á Gimlé: Þar skulu dyggar dróttir byggja og um aldurdaga yndis njóta, þar muna ósánir akrar vaxa, böl mun allt batna; -engin er þar litla gula hænan, -allt samkvæmt lokaritgerðinni.
En þar mun sem áður, fljúga hinn dimmi dreki, naðar fránn, neðan frá Niðafjöllum; bera sér í fjöðrum, fljúgandi völl yfir, Níðhöggur nái, -þar mun hún sökkvast.
Hvað verður svo um leiðsögnina fyrir blessuð börnin, -í siðblindu kóvinu? - Hvernig verður hægt að lifa af tvo plús tvo, -í digital brjálæðinu?
Við höfum skipt út blessun húsmóðurinnar, sem benti barninu á almáttugan skaparann og bróður besta, er innra með barninu byggju; -út fyrir gervigreind lokaritgerðar sérfræði kenningarinnar.
Við staulumst nú um tvo metrana, rammvillt með grímuna; og annað augað hálfopið, blinduð í kóvinu, hitt á símanum í lófanum; -vitandi innst inni að kenningin er fyrir löngu orðin að samsærinu sjálfu.
Við þorum ekki öðru ern lúta leiðsögninni í beinni, skref fyrir skref, þó það eina sem þurfi til að rata, -sé að slökkva á símanum og sjónvarpinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
3.8.2020 | 06:04
Síðasta sumarið í sæluríkinu
Það hefur sjálfsagt farið fram hjá fáum, sem líta reglulega hér inn, að á þessari síðu lætur steypukall móðan mása og telur sig eiga því láni að fagna að hafa ekki lent í lokaritgerðinni.
Kannski finnst ekki öllum þeir vera fæddir undir þeirri heillastjörnu að staður og stund tilheyri þeirra hjartans þrá og þurfa því á öllu sínu sumarfríi að halda.
Það á samt ekki við þegar ævistarfið verður til út frá leikjum bernskunnar þar sem kofasmíði breyttist í launaða vinnu við varanleg minnismerki í formi húsa.
Síðuhöfundur hefur verið í algjöru sumarfríi og hafa pistlarnir undanfarnar vikur borið þess merki og þessa dagana er gamli sorrý Cherokee þar að auki haltur.
Til að ljúka sumarleyfis hjali þetta árið þá ætla ég að setja hér fyrir neðan video frá síðasta sumrinu í sæluríkinu, þar sem frístundunum var varið á Harstad Camping.
Í dag eru akkúrat sjö ár síðan, þeir sem vilja söguna geta lesið hér.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)