Bjarni berfætti – drap konu sína og var gert að gagna hringinn í kringum Ísland

Það má segja að með annálsritun fyrri alda hafi verið skráð það sem fréttnæmast þótti, og annálar því verið nokkurskonar fjölmiðlar síns tíma.

Stórir hlutar Íslandssögunnar byggja á annálum og dómsskjölum. Sumir annálar eru samsafn gamalla minnissmiða sem voru ekki endilega færðir í annaál fyrr en löngu eftir að atburðir gerðust.

Þegar sumt er skráð um leið og það gerðist og sumt seinna, er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hversu trúleg atburðarásin er. Enda hefur annálsritarinn talsvert um það að segja þegar hann orðar atburðinn.

Biskupsstólar landsins voru iðnir við safna saman annálum og jafnvel að sjá um skrásetningu, hvort sem það fór fram á setrunum sjálfum eða keyptur voru til þess menn utan þeirra, líkt og var með Björn Jónsson frá Skarðsá.

Skarðsárannáll er einn þekktasti annáll landsins. En það var Þorlákur Skúlason Hólabiskup,  sem fékk Björn á Skarðsá til að rita þann annál, -sem geymir helstu heimildir um atburði á Íslandi frá 1400 til 1640.

Hversu áreiðanlegir annálar eru, sem trúverðugar heimildir um fyrri tíma, er nú aðeins hægt að ímynda sér, en þó er margt í þeim sem má lesa á milli línanna.

Hér á eftir koma þrjú dæmi:

 

Nýi annáll 1398

Höggvinn Páll gaddur Guðmundsson fyrir það, er hann særði Jón bónda Hákonarson lemstursári í þingreið. Komst hann í kirkju á Eiðum í Fljótsdalshéraði, og var síðan tekin þaðan með þeim hætti, að hann var borinn út úr kirkjunni sofandi; gerðu það þrír menn í dularklæðum, og urðu eigi kenndir af alþýðu. Var hann fluttur norður um land og höggvinn á Húnavatnsþingi; bauð hann mörg boð áður sér til lífs, og vildu Norðlendingar þau eigi hafa, því engir  treystust að eiga hann yfir höfði sér.

Nýi annáll telst ekki samtímaheimild þó hann sé að nokkru byggður á heimildum sem orðið hafa til samtímis atburðum. Hann er talinn vera settur saman úr gömlum annálsbrotum í Skálholti.

Þessi frétt að ofan segir stóra sögu í of fáum orðum til að átta sig á málavöxtu. Þingreiðina má ætla að hafi verið til alþingis á Þingvöllum. Eiðar eru hins vegar því sem næst hinu megin á landinu. Páll gaddur er fluttur til aftöku langa leið frá Austurlandi vestur um Norðurland.

Ætla má að þetta mál hafi verið það vel þekkt á sinni tíð að ekki hafi þurft að geta málavaxta. Þó ekkert sé lengur vitað frekar um málsatvik; -Pál gadd Guðmundsson né Jón bónda Hákonarson, þá er þessi 727 ára frétt í annaálsbroti upplýsandi um margt og bendir til að málsatvik hafi snúist um meiri menn en meðal.

Tilefni dauðadómsins kemur til í þingreið, ekkert kemur samt fram um að Jón Hákonarson haf hlotið bana af lemstursárinu sem Páll veitti Jóni er varð síðar til lífláts Páls.

Páll var fluttur þvert um landið til aftöku á Húnavatnsþingi, sem bendir til að Jón hafi verið talin metinn meiri maður en Páll, sem þó hefur átt eitthvað undir sér miðað við að minnst er á að Páll hafa boðið mörg boð sér til lífs.

Annað hvort hefur Páll verið valdamaður eða ofstopamaður, nema hvoru tveggja sé, þar sem Norðlendingar vildu hann frekar feigan en treysta á að eiga hann yfir höfði sér.

Athyglisverðust eru þó kirkjugriðin, sem þarna koma fram, hversu mikils þau hafa verið metin á þessum tíma. Að sérataklega skuli tekið fram að þeir sem báru Pál sofandi út úr Eiðakirkju, hafi verið í dularklæðum, svo þeir þekktust ekki af alþýðu manna, -sem bendir til óhæfuverks.

 

Skarðsárannáll 1553

Í þann tíma bar svo við: Austur á landi bjó einn maður, er Bjarni hét. Hann átti nokkur piltbörn með konu sinni. Bjarni var hversdagslega gæfur maður og ráðvandur, en kona hans sinnisstærri og málhrópsöm.

Piltar þeirra voru gangfráir, er þetta bar við. Það var máltæki þessarar konu og hótun við drengina, er þeim varð á nokkuð, eða breyttu af hennar vilja, að hún sagðist skyldi skera undan þeim. Þessa hætti hennar hugfestu sveinarnir, og nefndu þetta hver við annan.

Svo var það eitt sinn, er þau hjón voru að heyskap, en börnin heima við hús að leik sínum, að yngri pilturinn misþóknaðist þeim eldra, svo hinn elsti hótaði honum að skera undan honum, ef hann gerði ekki eins og honum væri sagt. Hinn yngri gegndi því ekki, og fékk hann sér þá hníf, og lagði þann yngri niður, og skar af honum hans leyndarlim og dó svo barnið.

Kom nú móðirin og sá hvað um var, og varð bæði hrygg og reið, og sló drenginn þann, sem barnið skaðaði, og varð meira en hún hugði, svo að hann dó og. Eftir það kom Bjarni heim frá verki sínu, og leit nú börnin dauð. Varð honum þá og mjög mikið um, er hann vissi konan hafði sálgað barninu, en hitt skeð fyrir hennar orðbragð, varð hann reiður og slóg konuna meira en skyldi, eður vildi, og dó svo konan.

Kom þá hryggð að Bjarna og angur, sagði mönnum til, hvernig komið væri, og iðraðist verka sinna. Er svo mælt að höfðingjum landsins hafi litist, hann skildi ganga um kring Ísland og á hverja kirkju, og berfættur öllum þeim tímum, er hann þyldi, með því fleira, er þá tíðkaðist í söngum, því þann tíma voru skriftir og carinur á málum, en ekki alltíðum féútlát, eður og líka, að þeim þótti Bjarni ekki fær af landinu að fara fyrir sorg og vílsemi.

Bjarni þessi gekk þrisvar í kringum Ísland, og um síðir nam hann staðar í Skagafirði á Skaga, giftist þar og bjó. Var hann ei við alþýðu viðfelldinn, sem að sjá sísorgandi maður. Hann bjó til dauða síns margt ár í Efranesi á Skaga; átti þau Arndís, kona hans, einn pilt, sem Jón hét. Hann var nær 20 ára gamall, og bar svo við, hann réri við sjó í Kelduvík þar niðri, hjá þeim manni, er Guðmundur hét Óttarsson, og sonum hans þremur. Þeir voru orðhákar og hrakmálir, sem faðir þeirra.

Einn tíma komu þeir feðgar af sjó og fluttu Jón Bjarnason dauðan í land, sögðu hann bráðkvaddan orðið hafa. Var svo maðurinn grafinn, en foreldrum hans féll þetta yfrið þungt, ekki síður Bjarna; var maður þessi og þá þeirra fyrirvinna. Dó þessi Bjarni litlu síðar, angraður mjög, en Arndís var flutt til Skagafjarðar inn.

Var Jón Sigurðsson lögmaður þá á Reynistað og hafði sýslu í Skagafirði. Hann hafði mál það uppi, og var tekin einn af þeim bræðrum, og fékkst ekkert til sanninda eður styrkingar málinu. Féll það mál niður, en Jón lögmaður veitti Arndísi framfæri, meðan hún lifði.

Gvendur þessi varð vesæll og hans synir, og dóu svo á þeim hörðu árum litlu síðar, sem fleira vegfarandi fólk. Það var til merkis um landgang Bjarna, að hann var sífelldlega berfættur, og hann gekk svo hart um grjót, sem hver einn skófataður.

Þarna er á ferðinni annálsklif, sem einna helst mætti líkja við þjóðsögu, enda skrifað um atburði sem gerast fyrir fæðingu Björns á Skarðsá. Alls óljóst er hver fjölskylda Bjarna er og hvar hún bjó áður en Bjarni gekk á Skaga, annað en að harmasagan gerist austur á landi.

Einna helst má ætla að um flökkusögu í Skagafirði hafi verið að ræða sem Birni á Skarðsá eða jafnvel Hólabiskupi hafi þótt rétt að varðveita. Vissulega segir sagan frá tíðarandanum um siðaskiptin þar sem talað er um að í þá tíð hafi verið á skriftir og carinur (vægðarsemi) á málum en ekki alltíðum féútlát.

Einnig glittir í gömul Úlfljótslög Þjóðveldisins, þegar segir að Bjarni hafi verið ófær um að fara af landinu. Fjörbaugsgarður og skógargangur voru refsingar á Þjóðveldistímanum, sem þýddu að dæmdir fjörbaugsmenn urðu að fara af landinu í þrjú ár og dæmdir skógarmenn í 20 ára útlegð.

Skömmu eftir þessar hremmingar Bjarna kom Stóridómur (1564) til sögunnar með  líflátsdómum og aftökum. Þarna hefur fólki eins og Bjarna berfætta enn verið vægt vegna þeirra aðstæðna sem leiddu til óhæfuverksins, og má vera að það sé einmitt þess vegna, -sem því sem næst, -þjóðsaga kemst í annál.

 

Þriðja og síðasta annálsbrotið, sem hér er birt, er talin nákvæmlega skráð samtímaheimild.

Skaðsárannáll 1602

Tekinn af á alþingi Björn Þorleifsson fyrir kvennamál og svall, fékk góða iðran. Biskupinn herra Oddur áminnti hann sjálfur. Hann kvaddi menn með handabandi, áður en sig niður lagði á höggstokkinn, og bauð svo öllum góða nótt. Var hann með öllu óbundinn. Jón böðull, er höggva skyldi, var þá orðinn gamall og slæmur og krassaði í höggunum, en Björn lá kyrr á grúfu, og þá sex höggin voru komin, leit Björn við og mælti: Höggðu betur maður! Lá hann svo grafkyrr, en sá slæmi skálkur krassaði ein 30 högg, áður af fór höfuðið, og var það hryggilegt að sjá. Voru þá áminningar aðrar gerðar yfirvöldum þeim veraldlegu, að hafa örugga menn til slíks embættis, svo landið yrði ekki að spotti í þeirri grein.

Þegar þessir atburðir gerast er annálsritarinn, Björn á Skarðsá í blóma lífsins, -28 ára gamall. Talið er að hann hafi sjálfur verið viðstaddur þessa aftöku nafna síns. Orðalags textans gefur það sterkt til kynna að vera ritað af sjónarvotti, sérstaklega setningarbrotið, -og var það hryggilegt að sjá.

Einhverjum kann að finnast þessi frásögn ótrúleg og hálfgerð gamansaga, -en svo er ekki. Þarna er nýtt réttarkerfi tekið við eftir siðaskiptin, -Stóridómur.

Þegar samtímaheimildir frá 17. öldinni, sem  að hluta var kölluð var Brennuöldin, eru skoðaðar þá kemur í ljós að þeir sem teknir voru af lífi voru ekki alltaf ósáttir við líflátið og höfðu verið vel undirbúnir.

Í þessari annálsfrétt er talað um að Björn Þorleifsson hafi fengið góða iðran og Oddur biskup hafi áminnt hann sjálfur. Bæði er getið andlegs- og veraldlegs valds og þá að veraldlega valdið yrði að standa sig betur, svo landið yrði ekki að spotti.

Þeir sem komu galdramönnum á bálið, þjófum í gálgann og hórdómsfólki á höggstokk eða í drekkingarhyl, töldu sig jafnvel vera að vinna góðverk. Þetta má t.d. lesa út úr Píslarsögu Jóns Magnússonar sem er samtímaheimild skrifuð í þessu aldarfari.

Það að menn gengu í opin dauðann með þeim hætti sem annálsritari segir um Björn Þorleifsson, gefur til kynna að búið hafa verið að fyrirgefa honum, af andanum og valdinu, -og sannfæra um betri vist eftir dauðann.


Drónafréttir og stríðsæsingar

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum að við lifum á viðsjárverðum tímum. Svo eldfimt er ástandið að dómsmálaráðherra hefur í hyggju að takmarka aðgengi almennings að reiðufé til að koma í veg fyrir útbreiðslu gereyðingarvopna, peningaþvætti og hryðjuverkastafsemi.

Nú í vikunni hefur farið hæðst í fréttum að yfirvöld víða um norðurlönd hafi orðið vör við ógnvænlega drónasvermi á lofti. Jafnvel tekið sértaklega eftir þeim í myrkri, ljósanna vegna. Stórum flugvöllunum hefur þurft að lokað hjá frændum vorum, öryggisins vegna, má þar m.a. nefna Kastrup og Gardemóen, -já og Álaborg ítrekað.

Getum hefur verið að því leitt að þessum drónasvermum sé flogið frá skuggflota rússa sem sagður er svamla svo til stefnulaust um Eystrasaltið. Skuggaflota, sem fyrst gat sér frægðar fyrir að sprengja upp gasleiðslu á Eystrasalti, -já einmitt þá sem Rússar áttu sjálfir.

Frændur vorir í Færeyjum voru nokkuð snöggir að kveða niður drónaógnina þegar hún kom upp í höfuðstaðnum Þórshöfn. Þar hafði lögreglan verið að rannsaka drónaflug yfir franskri freigátu og taldi sig hafa komist í heimsfréttirnar með því að hafa mann í myrkum klæðum grunaðan.

Færeyskir fréttamiðlar hringdu þá einfaldlega í þann sem þeir vissu að ætti bæði dróna og svört föt. Kom þá í ljós að áhugaljósmyndari í Þórshöfn hafði flogið yfir hafnarsvæðið til að taka myndir þó svo að hann vildi ekki viðurkenna að hann væri að taka myndir af frönsku freigátunni sérstaklega.

Nú sit ég oft við stofugluggann minn því hvergi er betra útsýni yfir Héraðið nema ef vera skyldi úr kirkjuturninum sem er beint á móti stofuglugganum. Efst á kirkjuturninum loga tvö rauð ljós vegna þess að hann er í aðfluginu að Egilsstaðaflugvelli.

Á hinni húshliðinni er eldhúsglugginn og fyrir utan hann er flugvöllurinn. Ég hef oft tekið eftir drónum á lofti, bæði að degi og nóttu til, -og þá vegna ljósanna, -á aðflugsleiðinni að flugvellinum án þess að hafa komið til hugar að tilkynna lögreglunni það sérstaklega, -enda hef ég ekki haft Rússa grunaða.

Þegar ég hef haft sérstakan áhuga á að vita hverjir stunda þetta dónaflug fyrir utan stofugluggann þá fer ég stundum á facebook og kanna hverjir hafa verið að pósta myndum, -t.d. af kirkjunni. En í þessu tilfelli nágrannlandann væri kannski réttara að velta vöngum yfir hverjum gagnast fréttirnar.

Öll þessi ár sem liðin eru síðan ég fór að taka eftir drónunum hef ég ekki orðið var við eitt orð í fréttum um að þá þurfi að óttast vegna flugs. En nú ber nýrra við, og fraukan Frederiksen búin að lýsa yfir stríði.

Ps. Ég setti HÉR inn færslu frá því fyrr á árinu um hvernig orðsifjarnar eru notaðar til að vekja ótta og æsing.


Fyrstu kaup

Nú er rætt hvernig hægt verði að lokka fyrstu kaupendur inn á íbúðamarkaðinn. Hefð er fyrir því á landinu bláa að náhirðin japlandi við jötuna maki krókinn á ungu og saklausu fólki þegar þakið yfir höfuðið er annars vegar. Nýjasta nýtt eru svokölluð hlutdeildarlán markaðarins. Í gegnum aldirnar hefur ýmsu verið tjaldað til, -verðtryggingu, vistarbandi, fardrögum og bara nefndu það.

Fyrsta húsið sem ég eignaðist var Ásbyrgi á Djúpavogi. Ég keypti það hús seinnipart sumars 1986, var þá að verða 26 ára. Tildrögin voru þau að kunningi minn hafði flutt frá Djúpavogi og þurfti að losna við húsið sem hann hafði átt í tæp tvö ár.

Ég hafði keypt bíl fyrr um sumarið, þegar við Matthildur mín vorum í okkar fyrstu Reykjavíkurferð saman, -og var ekki ánægður með bílinn. Vildi losna við hann og datt þá í huga að bjóða kunningja mínum bílinn upp í Ásbyrgi, -svona meira í bríaríi. Átti bíllinn að vera tæplega helmingur kaupverðs og það sem umfram var staðgreitt. Kunningi minn tók þessu tilboði, og kom austur um hæl, um helgi, til að ganga frá sölunni.

Strax á mánudegi, eftir helgina, þegar kaupin höfðu verið undirrituð og greiðslan farið fram, þá fékk ég símtal frá fyrri eiganda hússins, þar sem hann spurði út í hvernig hefði farið og hversu mikið ég hefði greitt fyrir húsið. Hann sagði mér að sennilega væri ég búin að tapa bæði bílnum og peningunum vegna þess að hann ætti ennþá eftir að fá húsið greitt. Það væri fjárnám í húsinu og það færi á uppboð innan skamms þar sem hann myndi leysa það til sín.

Kunningi minn hafði haft meðferðis veðbókarvottorð þegar við gengum frá kaupunum og á því kom ekkert fram um fjárnám. Fyrri eigandi sagði það vottorð ekki vera sannleikanum samkvæmt. Ég hringdi í kunningja minn við fyrst tækifæri, því ég vissi að þennan mánudag var hann á ferðinni suður símasambandslaus, og spurði hann út í þetta atriði. Viðurkenndi hann strax að eiga eftir að gera upp við fyrri eiganda en það stæði til um leið og hann kæmi bílnum í verð.

Ég spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann hefði framvísað röngu veðbókarvottorði, ég hefði haldið að við værum það góðir vinir að handsalið eitt dygði okkar á milli. Hann sagði að okkar handsal væri tryggara en nokkuð veðbókaravottorð. En hann hefði verið hræddur um að ef ég vissi hvernig í pottinn væri búið þá hefði ég ekki keypt Ásbyrgi og hann þar af leiðandi ekki getað leyst sín mál. Nú hefði hann allt til þess og ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur þess vegna, -fjárnámið yrðu losað af húsinu. -Og það stóð eins og stafur á bók.

Við húsið hafði ég lítið að gera. Við Matthildur bjuggum þá í Sólhól undir þaki pabba hennar og ég var byrjaður á að byggja drauma húsið okkar Tuborg, komin upp með sökkla og gólfplötu. Ásbyrgi hafði verið í leigu fyrir farandverkafólk á meðan kunningi minn átti það en sú leiga fylgdi ekki með í kaupunum. Ég leigði samt húsið út í ár fyrir lítið meira en rafmagni, -en það var mjög illa farið af áratuga viðhaldsleysi. Eins var ég með um tíma lager vegna málningarsölu í húsinu.

Þetta var fyrir u.þ.b. 40 árum síðan og hygg ég að svona möguleiki sé vandfundinn í dag. Auk þess sem ungu fólki hefur verið gert ómögulegt að koma sér upp þaki yfir höfuðið af eigin rammleik, með regluverki. Ég hef áður sagt frá Ásbyrgi hér á síðunni, án aðdraganda kaupanna og læt þá sögu fljóta hér með aftur.

Ásbyrgi var sem sagt, fyrsta húsið sem ég eignaðist, keypti það árið 1986. Það var byggt á Djúpavogi árið 1947 af Birni Gústafssyni og Rakel Jónsdóttir, sem þá voru um tvítugt. Þegar þau fluttu úr húsinu til Akraness árið 1963 höfðu þau eignast 6 börn. Margir höfðu búið í húsinu í eftir Birni og Rakel, lengst af Kristján og Antonía ættforeldrar margra Djúpavogsbúa, sem kennd voru við Garða.

Þegar ég eignaðist Ásbyrgi var það farið að líta verulega upp á landið en samt í notkun sem verbúð fyrir farandverkafólk. Margir vildu meina að húsið væri ónýtt þegar ég keypti það og best færi á að brjóta það niður og nota lóðina annað. Steyptir veggir voru illa farnir, gluggar ónýtir og múrhúð víðast hrunin.

Þegar ég leitaði fjármögnunar í Landsbankanum á Djúpavogi var húsið ekki talið lánshæft. Það kom ekki til þessa að fjármagna þyrfti endurbætur í gegnum banka. Fljótlega eftir að þær hófust árið 1989 kom fram áhugi á að kaupa húsið uppgert. Rifið var innan úr húsinu, fyllt í kjallara þar sem hafði verið olíukynding.

Við endurgerð innanhúss var fyrra skipulag látið halda sér að mestu en þó var einu litlu herbergi bætt við stofu, forstofa breikkuð og höfð opin inn í húsið til að auka birtu og rími. Eins var baðherbergi stækkað um 20-30 cm á báðar hliðar á kostnað eldhúss og hjónaherbergis. Útveggir eingraðir og múrhúðaðir á hefðbundinn hátt. Milliveggir hlaðnir úr vikri og múrhúðaðir. Allt rafmagn - og vatnslagnir endurnýjaðar. Út úr þessu fékkst lítið fjögra herbergja einbýlishús.

Fyrri part sumars 1989 var húsið gert upp að utan, múrhúðað og skipt um pappa og járn á þaki. Steypan í útveggjum hafði valdið mér heilabrotum, og þá hvort betra væri að klæða húsið og einangra að utan.

Niðurstaðan varð sú að gera við steypu og múrhúða húsið með hrauni, sem sagt hefðbundið verklag á steinsteyptum útveggjum fyrri hluta 20. aldar. Sökklar og fyrrum kjallaraveggir voru einangraðir og klæddir að utan með STO múrkerfi til að fá einangrun fyrir gólfplötu. Allt steypuefni var fengið úr næstu fjöru eins og venjan var þegar húsið var byggt.

Síðar sumarið 1989, komu þau hjónin Björn og Rakel á Djúpavog og bönkuðu upp á hjá mér að kvöldlagi og báðu mig um að sýna sér húsið, sem var þá komið á loka stig endurbótanna. Ég sýndi þeim það náttúrulega með glöðu geði, en óttaðist satt að segja svolítið að ég hefði breytt húsinu þannig að þeim myndi ekki líka.

Oftar en einu sinni sagði Rakel; „Bjössi af hverju höfðum við þetta ekki svona“, -þar var um að ræða baðherbergið sem var stærra og því pláss fyrir þvottavél, en þvottahúsið ásamt kyndikompunni, hafði verið niður í kjallara sem var utangengur. Annað atrið sem hún minntist á var staðsetningin á eldhúsvaskinum sem var kominn við glugga þannig að Búlandstindurinn, staðar prýði Djúpavogs, blasti við þegar vaskað var upp.

Þegar Rakel var sest út í bíl spjölluðum við Björn í smá stund og hann sagði mér hversu erfitt hefði verið með aðföng og efni þegar þau byggðu húsið, allt í höftum og skömmtunum, -enda skömmu eftir stríð. Þetta vissi ég vel því fyrr um nágranni þeirra hafði sagt mér að hann hefði byggt sitt hús á sama tíma og upphaflega hefðu þau verið eins. Sá sagðist hafa verið betur settur en Björn og Rakel að því leiti að hann hefði haft sambönd austur á Norðfjörð og getað fengið þar eitt og annað tilfallandi.

Þó svo að Ásbyrgi hafi ekki verið ætlað langt líf af mörgum þegar ég keypti það þá hefur það nú þjónað núverandi eigenda í rúm 36 ár, -er vel viðhaldið, í alla staði Djúpavogi til prýði og eigenda sínum til mikils sóma.

Ef farið er aftur fyrir þá tíma þegar Björn og Rakel byggðu Ásbyrgi, þá er frásögn í bók Tryggva Emilssonar – Baráttan um brauðið, -góð lýsing á því hvernig almenningur kom sér upp þaki yfir höfuðið fyrri hluta 20. aldarinnar þegar höft helsisins höfðu verið brotin á bak aftur með fullveldinu. Tryggvi lýsir þar þegar hann byggði íbúðarhús yfir sig og Steinunni konu sína í Glerárþorpi við Akureyri fyrir hátt í hundrað árum, en hann hafði í upphafi hugsað sér að notast við aldagamla aðferð Bjarts í Sumarhúsum.

Allt stóð sem faðir minn hafði sagt í bréfi um byggingarlóðina og eins það að reisa mátti torfbæ á því landi. En þegar norður kom sýndist mér að ekki hæfði lengur að byggja íbúðarhús úr torfi og grjóti og eins þótt flestir kofar þar í kring væru torfbæir og þar með hús föður míns. Fylltist ég nú stórhug og stærilæti og ákvað að á lóðinni skyldi rísa steinhús. Engan þurfti að spyrja um útlínur eða efnisval, hvað þá útlit þess sem byggt var, allt var frjálst og því hófst ég handa án tafar, keypti mér malarreku og haka og gróf fyrir grunni að steinhúsi, af engum lattur eða hvattur.

Ekki þurfti djúpt að grafa þar sem húsið var byggt á hörðum mel en mölin, sem ég mokaði upp úr grunninum, var svo hrein steypumöl að hún var mér gulls ígildi. Ég leit hlýjum augum til árinnar sem rann þarna framhjá og hafði skilið þessa möl eftir á þurru fyrir nokkrum öldum svona hreina og hæfilega sandborna í steypuna. Þessi möl gerði mér glatt í sinni og að fáum dögum umliðnum gekk ég ofan á Eyri með aurana mína í vasanum, keypti mér timbur hjá Sigurði Bjarnasyni og sement í Gránu og flutti allt í einni ferð heim á melinn. Eftir þessa verslunarferð átti ég hallamál, hamar og sög og vann eins og kraftar leyfðu við uppslátt og flekasmíði. Síðan hófst steypuvinna, ég stóð einn að verki, blandaði saman sementi og möl og vatni úr Gleránni og steypti. Þá var dálítið gaman að lifa þegar þessum áfanga var náð enda skein sól yfir Súlutindum og fannst mér það góðs viti.

Ég fór upp klukkan fjögur hvern dag og vann mig eins uppgefinn og úttaugaðan eins og maðurinn með álfkonuspíkina forðum, en timburstaflinn hrökk til uppsláttarins og að viku liðinni var ég farinn að moka möl og undirbúa steypuvinnu, síðan var hrært og steypt dag eftir dag þangað til mótin stóðu landafull af steypu, tuttugu sentímetra þykkir veggir, það voru mörg handtök og enn fleiri svitadropar. (Tryggvi Emilsson-Baráttan um brauðið bls 122-123)

Þessi möguleiki hefur verið tekinn frá ungu fólki með höftum og rándýru regluverki, þess í stað er boðið upp á hlutdeildarlán á helfrosnum íbúðamarkaði.


Bjart er yfir Íslandi

Það er aldeilis hreint stórkostlegt þegar lögblindingjar sjá ljósið, -og ekki er síðra að sérfræðingar hafi komið ráðherra í ríkisstjórn Íslands í skilning um að lántakendur húsnæðislána eigi ekki að greiða bönkunum nema 20% af því sem þeir geri mánaðarlega.

-Og þetta allt vegna bókunnar 35. Nú er bara spurning hvort þrautpíndir lántakendur taki sig ekki til og hætti að greiða af húsnæðislánunum. -Í það minnsta debóneri einungis með fimmþúsundkallinum þangað til ESB kemur skikk á málin.

Ef allt stefnir í þrot þá geta lántakendur gripið til sama örþrifaráðs og fyrirtækið Vélfag ehf, sem var í fyrrverandi heimabæ lögblinda ráðherrans, og höfðað mál gegn ríkissjóð Íslands, m.a. fyrir EFTA og EES dómsólunum í Lúxemborg.


mbl.is Inga Sæland sá ljósið og hefur nú skipt um skoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í sveita síns andlits

Það sem af er ári hefur landinn bætt eigið met í utanlandsferðum, -yfir 20% aukning. En það gerir víst ekkert til því erlendum ferðamönnum fjölgaði með verðmætan gjaldeyri til landsins.

Bara í síðasta mánuði jafngilda tölurnar því að um 60 þúsund Íslendingar hafi brugðið sér af bæ og það um háskaðræðistímann. Við vitum að stærsta vandmál almennings á Vesturlöndum er að of mikið hefur verið til af öllu umfram það nauðsynlega.

Þetta hefur gerst með því að útvista framleiðslu til láglaunalanda, m.a. á því sem þarf til að lifa, -og svo flytja inn lálaunafólk til að vinna í sveita síns andlits til að þrífa  skítinn. En nú hefur Trumpinn ruggað bátnum og sett tolla á transportið til að græða sjálfur örlítið meira.

Afþreying leitar líka til landa sem hafa upp á ódýrari gistingu og mat að bjóða, svo það er kannski ekki skrítið þó svo að landinn sé nú á faraldsfæti með kolefnissporið strókandi aftan úr rassgatinu á meðan vond er lygin leifir.

Jafnvel þó svo að sumarið hafi verið þokkalegt þá ríkti dýrtíðin og túristavaðallinn á Fróni. Lífsleikninni við að lifa á landsins gæðum er nú verið kastað fyrir róða á ótrúlegum hraða með massífum innflutningi, jafnhliða því sem mörlandinn leitar út fyrir landsteinana eftir afþreyingu.

-Gullöld kann einhverjum að detta í hug. -Þegar mörlandinn hefur meira upp úr því að panta, flytja inn og leggja á en strita í sveita síns andlits. -Svo má nota mismuninn til að ferðast til fjarlægra landa.

En um leið er búið að setja upp kerfi pöntunar og álagningar sem er þrjár máltíðir frá hungursneyð. Allt byggist á greiðum aðflutningi og að ódýru  allsnægtirnar fáist erlendis áfram. Bjartur í Sumarhúsum þrífst hvort eð er ekki lengur á landinu bláa, þó svo að Gróa á Leit blaðri enn af og til niður á alþingi milli utanlandsferða.

Óvitarnir við Austurvöll plotta nú það að forframa þjóðina í ESB, -glepja landann inn í brennandi hús. Allt til að jabblandi hjörðin við jötuna fái áfram þrifist og hún geti haldið áfram að flækjast í burn out-inu, -svo lengi sem vond er lygin dinglar ekki í gálganum.

-Já enn fljúga farþegaþoturnar, skipin sigla með góssið heim að ströndum landsins bláa og trukkarnir bruna í nóttinni um blæðandi þjóðveginn með þessar þrjár máltíðir sem skilja á milli allsnægta og hungursneyðar.


Dagar íslenskrar ónáttúru

Nú hefur rignt hvern dag í á fjórðu viku í fjórðungi sólarinnar. Það var svo sem búið að spá þessu af þeim sem lengra vita en nefið nær. Ég notaði meir að segja votviðrisspá Héraðsbónda til að píska vinnufélagana áfram eftir að ég fékk hana upp úr honum snemma í ágúst. Engin veit sína ævina hvorki í heyskap né steypu, -eða þannig.

Það getur allt eins stytt upp með stórhríð og ísbjörnum þegar hann liggur lengi aust-norð-austan úr öllum áttum. Svona veður er ekki bara vafasamt fyrir flata steypu, sem hundar kettir og ísbirnir mega ekki stíga í áður en hún harðanar, heldur getur skapið orðið dumbungslegra eftir því sem dagarnir líða.

Ég hef lítið farið út í síðsumarið upp á síðkastið nema til að steypa í uppstyttum. Það hefur ekki einu sinni verið hægt að bögglast um í berjamó í þessum votviðris vosbúðar fjanda sem verið hefur. Því hef ég varið tímanum í að horfa út um gluggann á rigninguna og dumbunginn.

Nú hef ég komist að því að máríerlurnar verða félagslyndar í rigningu. Líkar betur múslíið á svölunum, sem ég sáldra á svalahandriðið til að hafa þær fyrir framan stofugluggann, þó svo að þær skimi áfram eftir flugum. Hef samt ekki enn komist að því hvort máríerlum leiðist beinlínis rigning. Býst við að áhorfinu á máríerlurnar ljúki núna um haustjafndægrin, en þá eru þær vanar að taka flugið til Afríku.

Sjálfur er ég löngu kominn á síðasta snúning í steypunni. Skakklappast um skældur og gigtveikur, eins og kviðrifin rolla fram um miðjan dag. Kem mér síðan heim og læt strákana um slétta steypuna með stæl. Þeir eiga það til að fara á gæsa- og hreindýraveiðar á milli steypubíla og gefa upp aflatölur í kaffitímum. Rigningin truflar þá ekki við þá iðju eins og mig í berjamónum, -þar væri það þá freka þokan.

Í kaffitímum er ég helst í essinu mínu þessa dagana. Tala um níðingsverk sem ekki nokkur maður ætti að grobba sig af ógrátandi. þeir eigi eftir að sjá eftir þessar iðju þegar á ævina líður. Að hafa drepið næstum ófleyga unga, sem skriðu hnarreistir úr eggjunum í sumar með eftirvæntingu um að komast út í heiminn, og það til þess eins að hafa verið drepnir í þúsundatali, -til að rífa úr þeim bringurnar.

Þetta sé ekki veiðiskapur, segi ég; -hvað þá gæsaveiðar, heldur gæsabringu-ungaveiðar. Svona veiðiskapur hafi verið talin til níðingsverka í mínu ungdæmi og ekki nokkur heilvita maður hefði viljað láta svona spyrjast til sín. Svo hafi þeir ekki einu sinni lyst á bringunni sjálfir, reyni að selja veitingahúsum níðingsverkið sem villibráð.

Þá spyr sá sem eldri er en strákarnir, en ekki eins gamall og ég, - hvernig var það nú aftur með þig Maggi minn þegar þú varst ungur og hringormanefndin var og hét, það hefur varla sést útselur við landi síðan. – Já láttu mig þekkja það, -segi ég, og þykist enn betur vita hvað sé í veði þegar sálarheill á efri árum er umræðuefnið.

Já hvað fækkaði hringormunum mikið í fiskistofnum landsins við að sel var því sem næst útrýmt við Íslandsstrendur? -Greitt úr opinberum sjóðum fyrir drápsæðið rétt eins og um hamfaraórækt væri að ræða, -sem gaf meiri aura í aðra hönd en hægt var að hafa upp úr steypunni.

Þetta kostaða hávísindalega brjálæði náði hámarki 1985, og síðan hafa útskrifaðir náttúrufræðingar fáviskufabrikkunnar verið látnir sjá um að skaffa ríkinu tekjur í eftirlitið til að kosta sjálfa sig, -með því að halda bókahald um gæsabringur og dauðar hreindýrsbeljur, allt saman vandlega árangurstengt við veiðikortið og sölu á veiðileifum.

Já hvað skildi svo hafa orðið af hringorminum þarna um árið, ætli hann sé kannski kominn í menn? Eins gott að valkyrjurnar okkar komist ekki að því. Þá er hætt við að hætt yrði að senda úr landi milljarða til manndrápa. Næg eftirspurn fyrir fjármagnið heima fyrir og fáviskufabrikkan sett í málið sem hver annar innviður.

Já svona fer nú önuglyndið með mann 23. rigningardaginn í röð. Og varðandi hreindýrin þá hefur sá sem séð hefur tárvotan hrínandi hreindýrskálf, og hreindýrskúna dauða á næsta leiti, þar sem verið er að velta innan úr henni og hluta skrokkinn í sundur upp á sexhjólið sem er upp á kerrunni sem hangir aftan í Landcrusernum, -ekki nokkur áhugi á þeim veiðitölum.

Það er alveg nóg að rekast á myndirnar á facebook af öllum kellingunum í nýtísku veiðigöllum, sigri hrósandi, með rándýru rifflana yfir hræi af belju. Þar sem þess er vandlega gætt tugmilljóna vélknúna útgerðin, sem við ónáttúruna er notuð, sé ekki í mynd, -þetta eru jú náttúruunnendur, sjáðu.

Nei ég fer ekki mikið til fjalla á þessum árstíma, of viðkvæmur til þess. Ég hef bögglast um í berjamó með henni Matthildi minni fram undir hausjafndægur ár eftir ár, en nú bregður svo við að móarnir eru haugrennandi. þúfurnar með pollum á milli og berin orðin saft á belgjum sem ekki er nokkur leið að snerta án þess að þau springi.

Svona getur nú ónáttúran farið með sálartetrið þegar berjamórinn er blautur. Hreindýraveiðitímabilinu líkur, sem betur fer núna um helgina, og gæsirnar eru farnir að æfa oddaflugið suðu á bóginn svo kannski næ ég mér upp úr dumbungnum eftir brottför máríerlanna í hauslitunum.

Nýtt tungl um helgina, sem kviknar í vestri, daginn fyrir haustjafndægur. Farið er að grilla í hann á norðan í spám veðurfræðinganna, með mínus gráðum á fjöllum og snjó í kortunum, -á samt að standa stutt -eða skyldu veðurfræðingar ljúga?


If All Else Fails, They Take You to War


Sóun sem engin vill

Það eru fleiri en túristar sem vilja ekki rafmagnsbíla. Sjálfsagt kæmu verri niðurstöður í ljós ef bílaeign Íslendinga væri skoðuð af einhverju viti. 

Efast má um að 3 af hverjum 10.000 íslendingum, sem eiga rafmagnsbíl, eigi bara rafmagnsbíl. Það hlutafall er sennilega mun lægra.

Þeir landsmenn, sem á annað borð eiga rafmagnsbíl, eiga flestir rafmagnsbíl samhliða eldsneytisbíl, -einum eða fleirum.

Aðalástæðan fyrir rafbílaeign landsmanna er sú að ríkið hefur lagt kapp á skattalegar ívilnanir fyrir rafmagnsbíla, -og lágt raforkuverð, -sem nú fer ört hækkandi, -að sögn vegna orkuskorts.

Rafmagnsbílum er því einungis komið út með aukinni sóun, sem fylgir stærri bílaflota í landinu, því engin keyrir nema einn bíl í einu. Og ef valið stendur einungis á milli rafmagnsbíls og eldsneytisbíls þá verður valið augljóst.


mbl.is Ferðamenn vilja ekki rafmagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið hefur fé betra

Nú eru góð ráð dýr, litlu lukkudýrin komin af fjöllum, til að sýna á spilin og slá ryki í augu almennings – já ógæfufólkið er mætt við Austurvöll, og TikTok forsetinn hélt ræðu.

Lukkupotturinn hafði þegar boðað 10 ára áætlanabúskap a la Sovét, jafnvel þó svo að aðeins séu rúm 3 ár eftir af kjörtímabilinu, -partur af planinu, eða þannig.

Fjármálaséníið, sem engin kaus, hefur gefið það út að hann ætlar að setja ný lög um brunavarnir, -meðfram öllu skattahækkununum í fjárlögunum.

Já ekki veitir af að leikbrúður stjórnsýslunnar sjái um búsældina, því ekki fækkar í sveit bakherbergjanna japlandi við jötuna á meðan húsið brennur.

Blessun fólksins komin heim, eftir að hafa verið í vinnunni í allt sumar og sent hugheilar kveðjur frá Tene. 

Verst að hugur fylgdi ekki máli heldur gamlar lummur sem taldar voru óætar í fyrra. En Kúlulánadrottningin hefur sem betur fer enn fullar hendur fjár handa umboðslausa leikaranum sem ver lýðræðið í Evrópu.

Og þjóðin hún lækar því þjóðin er glöð. Nýbúin að fá auðlindarentuna inn um bréfalúguna, ekki amalegt að vaða í vellystingum og þurfa hvorki að míga í saltan sjó né dýfa hendinni í kalt vatn. Hvað þá að skíta sig út á slori. -Bókun 35 verður samt fyrst mál á dagskrá.

Já og meðan ég man; Jón Ásgeir á nú kaupfélagið okkar, sem varð gjaldþrota á 100 ára afmælinu um árið, -í hinu svo kallaða hruni, og heyrst hefur að hann ætli að breyta því úr Netto í Prís.

Er nema von að manni detti í hug gamli júróvísiJón slagarinn, -til hamingju Ísland með að ég fæddist hér.


Hold kæft mand

Það er kannski ekki rétt að segja frá samtölum þó allrar athygli séu verð. En ef, -þá er rétt að sleppa því sem getur valdið særindum þó sárt sé umræðuefnið sem sagt er frá.

Fyrir stuttu hafði félagi minn og vinur frá því í bernsku samband við mig með vinarbeiðni á facebook, við áttum margt saman að sælda fram yfir tvítugt, en þá skyldu leiðir. Hann flutti í borgina og fljótlega þaðan til Danmerkur.

Síðan þá hef ég aðeins heyrt einu sinni í honum, fyrir tæpum 20 árum síðan. En þá var honum mikið niðri fyrir vegna ógæfu sem hann vildi afstýra og bað mig um að hafa milligöngu þar um, þetta tengdist því hvers vegna hann yfirgaf æskustöðvarnar.

Hann hafði sagt mér þetta allt saman skömmu áður en hann fór héðan, þannig að ég var inn í málinu og gat sagt honum að vera alveg rólegum því ég hefði þegar varað viðkomandi við og sá væri meira en meðvitaður um hvað málið snérist.

Ég hafði ekki heyrt í þessum æskufélaga frá því að hann hafði samband, þarna um árið, með símhringingu um miðja nótt. Síðan var það núna í gærkvöld að skilboð komu upp á facebook um hvort það væri í lagi að hann hefði samband. Ég ok-ey-aði það.

Hann hringdi strax og spurði á dönsku hvort það væri í lagi að hann talaði dönsku því hann hefði týnt niður íslenskunni og síðan spurði hann hvernig ég hefði það, sagðist hafa séð áhugaverðar myndir sem ég hafði póstað á facebook.

Ég sagði honum að danska væri í lagi mín vegna, en ég myndi tala íslensku því hann hlyti að skilja hana betur en ef ég færi að rifja upp norskuna mína, -og ég hefði það bara þokkalegt, væri enn í steypunni eins og myndirnar bæru með sér á facebook. - Spurði svo um hans hagi.

Það kom löng þögn frá félaganum, og síðan að hann væri bara ekki viss um að hann væri að tala við réttan mann, -hann kannaðist ekki við röddina í mér, þannig að hann væri ekki tilbúin til að tjá sig um sína hagi.

Ég sagði honum að það væri samt sá Magnús, sem hann hefði óskað eftir samtali við, sem hann væri að tala við, og það væri einkennilegt að hann rengdi mig um að vera sá sem ég segðist, -maður sem nú talaði dönsku með orðaforða og raddbeitingu sem ég kannaðist ekki við af honum frá bernsku.

Samtalið gekk nokkuð stirt um tíma, en svo spurði hann hvort ég myndi eftir atviki úr okkar bernsku, um fuglinn, þegar við fórum upp á kletta, hann myndi bara ekki lengur hvað klettarnir hétu. Ég sagði honum að þeir hétu Hamrar. Hann meðtók það ekki og efaðist áfram um hver ég væri.

-Þetta voru Hamrarnir; sagði ég, -og fuglinn var rjúpa. – Manstu hvernig fuglinn drapst; spurði hann. – Rjúpan át einangrunarplast; svaraði ég. – Hold kæft mand du er Magnús.

Eftir þetta gekk samtalið greiðlega og varð bæði langt og ánægjulegt þar sem ýmislegt var rifjað upp. Hann kom inná atburðina sem urðu til þess að hann yfirgaf æskustöðvarnar, og sagði að kannski væri best að hann kæmi til baka og kveddi drauginn niður.

Ég hvatti hann til þess og sagðist skyldi taka á móti honum og segja honum við það tækifæri framhald þeirrar húsbyggingar draugasögu, sem mér væri nú sennilega kunnari en honum.

Hann sagði að til Íslands hefði hann ekki haft nokkurn áhuga á að koma í 30 ár og hann efaðist um að hann hefði sig í það eftir þetta, búinn að koma sér vel fyrir í Danmörku. Spillingin væri bara svo yfirgengileg á Íslandi að furðulegt væri að það hefðu ekki fleiri yfirgefið klakann. Og bauð mér síðan að heimsækja sig til Danmerkur til að ræða málin.

Ég sagði honum að hann þyrfti ekkert að segja mér um spillingu á Íslandi, ég hefði flúið til Noregs eftir hið svokallaða hrun og búið þar í 3 ár til að senda hverja krónu heim, en komið til baka við fyrsta tækifæri.

Og nú væri ég búin með kvótann utan landsteinana hefði bæði starfað í Ísrael og Færeyjum, ferðast oft þvers og kruss um Bandaríkin í sambandi við steypu þó svo að ég hafi ekki starfað þar né búið.

Þar að auki hefði besti vinur minn og frændi búið í Ástralíu yfir 40 ár, yngsta systir mín búið í S-Frakklandi lengur en hann í Danmörku og yngsti bróðir í Englandi hátt í 20 ár.

það væru fleirum en honum sem ekki hugnaðist að búa á Íslandi, en út fyrir landsteinana gæti ég ekki hugsað mér að fara úr þessu.

-Hold kæft mand; sagði hann þá, -og við kvöddumst sáttir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband