30.4.2009 | 10:05
Salthúsmarkaður á Stöðvarfirði
Nú þegar sumarið er á næsta leiti langar mig til að geta um eitt af mínum hjartans málum hérna á síðunni. Frá því í vetur höfum við félagi minn verið með verkefni í samvinnu við skapandi fólk í ferðamálanefnd Fjarðabyggðar og á Stöðvarfirði. Verkefnið hefur mætt mikilli velvild í alla staði s.s. hjá handverksfólki, ljósmyndurum, listamönnum og hinum ýmsu styrktaraðilum. Í upphafi hefði maður ekki þorað að vona að svona vel myndi ganga að afla hugmyndinni brautargengis, en nú hyllir í að hún verði að veruleika.
Eftirfarandi kynningartexti um verkefnið er settur saman af Hildigunni Jörundsdóttir ferðamálafulltrúa í Fjarðabyggð.
Í sumar verður nýjung í afþreyingu fyrir ferðamenn á Stöðvarfirði en þar verið er að setja upp Salthúsamarkað. Það eru frumkvöðlarnir Magnús Sigurðsson og Einþór Skúlason sem einnig reka Gistihúsið Sólhól á Stöðvarfirði eiga frumkvæði að þessu verkefni.
Um er að ræða 1000 m2 aflagt fiskvinnsluhús í hjarta bæjarins sem nýtt er á veturna sem geymsla fyrir húsbíla og fellihýsi en staðið tómt á sumrin, hugmyndin var að gæða húsið lífi enda stendur það við aðalgötuna í miðjum bænum skammt frá veitingahúsinu Brekkunni og Galleri Snærós.
Fjöldi fólks heimsækir Stöðvarfjörð á hverju sumri og er þar Steinasafn Petru sem dregur flesta að en auk þess og annarra afþreyingar í bænum geta nú ferðamenn einnig heimsótt Salthúsið og kynnst Stöðvarfirði ennþá betur.
Í húsinu verður glæsilegur handverksmarkaður, auk ljósmyndasýningar sem sýnir fiskverkun á Stöðvarfirði í gegnum árin, video verk frá Gjörningaklúbbnum ILC Thank You og sýning á myndum frá náttúru Stöðvarfjarðar. Ýmislegt fleira verður í boði í sumar og ýmsar uppákomur í húsinu þar sem húsnæðið er mjög stórt eru möguleikarnir miklir.
Markaðurinn verður opin frá kl. 10-16 alla daga vikunnar í sumar 5.júní til 23. ágúst.
Menning og listir | Breytt 27.2.2010 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)