12.11.2010 | 17:12
Þarf þjóf til?
Þau fara stórum tryggingafélögin í að verjast þjófum á landinu blá þessa vikuna. VÍS með svikhnappinn Sjóvá með nágrannavörsluna í samstarfi við Securitas, Símann og raðgjaldþrota 365. Svolítið sérkennilegt af þessum fyrirtækjum, ef litið er til þess hvaða hlutverk þau léku í hruni sem rændi íslensk heimili um 185 milljarða. En nú eru bjartir tímar framundan skattgreiðendur búnir að endurreisa Sjóvá og rétt að hafa allan varan á gagnvart þjófum og svikahröppum.
Eitt af því sem hefur vakið athygli mína undanfarin ár er sístækkandi skógur eftirlitsmyndavéla. Í sumar ákváðum við hjónin ásamt vinafólki að fara á bræðsluna á Borgarfirði. Áður en við lögðum af stað þurftum við að koma við á bensínstöð til að kaupa batterí. Á meðan konurnar fóru inn fórum við að telja eftirlitsmyndavélarnar á horni hússins, þær voru fjórar. Þar sem ekki fengust batterí á þessari Shell stöð var farið á N1. Áhugi okkar á eftirlitsmyndavélum var vakinn og á N1 töldum við átta vélar, bara yfir dælunum.
Bræðslan er ein af vinsælustu sumarhátíðum landsins, í litlu sjávarplássi koma saman þúsundir manna allstaðar af landinu eina helgi í júlí þar sem vinsælustu tónlistarmenn landsins troða upp, auk þess sem yfirleitt er boðið upp á eitt heimsþekkt númer. Þegar við kíktum inn á Álfakaffi var löng bið eftir afgreiðslu. Svo við höfðum nægan tíma til að skoða gersemar sem voru í hillum upp um alla veggi. Hver slípaði demanturinn um annan, steinar úr ríki Borgafjarðar, verðlagðir frá þúsund og upp í tugir þúsunda. Félagi minn hnippti í mig og sagði "sjáðu það er engin eftirlitsmyndavél hérna inni, það er stappað af allskonar fólki og það er ekki hægt að sjá að neinu hafi verið stolið".
Það sem mér datt í hug við þessa athugasemd var "þarf þjóf til að setja upp eftirlitsmyndavél".
Það hafa fáir forsvarsmenn fyrirtækja verið staðnir af eins grófri markaðsmisnotkun gagnvart viðskiptavinum sínum og hjá olíufélögum og bönkum þar sem frumskógur eftirlitsmyndavéla er hvað þéttastur. Það sem undarlegra er að myndavélunum í þessum fyrirtækjum er beint að viðskiptavinunum. Þegar í raun þeim hefði betur verið beint að forsvarsmönnum þessara fyrirtækja svo viðskiptavinirnir hefðu getað fylgst með hvaða launráð væri verið að brugga í bakherbergunum.
Eitt átakanlegast dæmið, þar sem eftirliti hefur verið snúið á haus þegar kemur til blekkinga gagnvart viðskiptavinum, er nágrannavörslu auglýsingaherferð Sjóvá. Eftir að bótasjóðir félagsins höfðu verið tæmdir innan frá, hver skúffa þurrausin af peningum svo ekki var til fyrir útborgun launa, voru skattgreiðendur látnir leggja fyrirtækinu til milljarða svo ekki þyrfti að setja starfsemina í þrot. Einum manni var skipt út, forstjóranum. Síðan farið út í umfangsmikla auglýsinga herferð sem gengur út á nágrannavörslu. Þar sem starfsfólk þessa fyrirtækis er boðið og búið til að aðstoða fólk við að finna þjófana í sínu nánasta umhverfi. Og helst má skilja á auglýsingunum að þeir leynist í hverju garðshorni.
Þegar ég lít út um stofugluggann hjá mér, sem er með frábæru útsýni, sé ég tvo skóla. Gamla barnaskólann minn og menntaskóla. Á þessu byggingum get ég talið fjölda eftirlitsmyndavéla bara þar sem ég stend við gluggann. Það væri t.d. útilokað að fara á bak við skóla og reykja í frímínútum eins og við gerðum í gamla daga án þess að athæfið næðist á myndavél. En er þetta það þjóðfélag sem við viljum láta börnin okkar alast upp við? Gera það að glæp að prófa að reykja á bak við skóla, en leyfa djöflunum að ganga af göflunum inn á kennarastofunni.
![]() |
Svikahnappur andstæður lögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mannréttindi | Breytt 30.1.2011 kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)