Ægishjálmur - lengra að kominn en Goðin og Darwin æðstiprestur.

IMG 2178

 

Fyrir nokkrum mánuðum barst mér sérkennileg sending hingað á 69°N.  þetta voru tveir píramídar hlaðnir dularfullri orku komnir alla leið úr heimsálfunni "down under".  Frá þessu greindi ég í bloggi "Organite og orkuflögur" stuttu eftir að þeir bárust.  Það sem síðan hefur gerst er um margt merkilegt og mörgu varla hægt að segja frá nema eiga það á hættu að vera talinn snarruglaður.  En þær leiðbeiningar fylgdu svo sem þessum organite píramídum að þeir gögnuðust þeim betur sem væru ekki alveg samkvæmt norminu.

Píramídarnir hafa vísað mér á undarlega heima þar sem ýmislegt kynngimagnað hefur átt sér stað.  Fyrir það fyrsta þá birtist hér fluga sama dag og þeir voru teknir úr umbúðunum.  Flugan sú hnitaði hringi í kringum þá á stofuborðinu en virtist auk þess eiga mikið erindi við okkur Matthildi mína með suði sínu, sem var þá hérna hjá mér í norðurhjara sólinni.  Jafnvel eftir að henni hafði verið vísað kurteislega út um stofugluggann og lokuð úti um tíma, þá kom hún inn með hálfu stærra erindi en áður þegar glugginn var opnaður næst. 

Eftir að Matthildur yfirgaf 69°N snemma í ágúst hélt flugan sig enn innandyra, hafði orðið sér úti um herbergi í hinum stafninum á risinu, en kom annað slagið út úr því til að spjalla og lét sig aldrei vanta ef ég var að bauka í eldhúsinu. Einu sinni heimsótti ég hana í herbergið sitt, opnaði gluggann eldsnöggt tókst að koma henni út og loka.  Þegar ég var svo á leiðinni eftir ganginum inn í stofu sem er í hinum stafninum fékk ég það á tilfinninguna að ég myndi mæta henni, þar sem ég var með opinn stofugluggann.  Það passaði hún var þegar komin inn og þusaðist með suði og vængjaslætti eftir endilöngu ganginum inn í sitt herbergi. 

Á þessum tíma fór ég í fjögurra daga vinnuúthöld norður í nes Finnanna.  Þó svo að ég hafi verið frekar ógestrisin við fluguna þá brást það ekki að hún fylgdi mér niður að útidyrunum til að kveðja  á mánudagsmorgnum og tók mér fagnandi á móti á fimmtudagskvöldum.  Þetta gerðist í tvær vikur en eftir það hvarf hún.  Sérfræðingar segja, en þess má finna stað einhverstaðar í sérfræðikverinu sem hefur hlotið löggildingu í fávisku fabrikkum ríkisins, að meðalaldur húsflugu sé sex vikur sem gæti hugsanlega skýrt hvarf hennar úr mínum híbýlum og jafnvel þessum heimi.

Einnig fékk ég um þær mundir sterkt hugboð að setja  fram hér á síðunni bloggið "Huliðsheimar og galdrastafir"  um ægishjálm, það væru tengsl á milli hans, píramídana og flugunnar.  Þetta blogg virtist kannski vera sett fram í hálfkæringi, en þegar ægishjálmur er annars vegar er betra að vera ekki með neinn hálfkæring.  Þetta var gert til að fiska upplýsingar um töfratáknið sem mér hefur verð hugleikið í gegnum tíðina og fannst lítið vera til um á alheimsnetinu.  Þetta blogg virtist kannski ekki skilaði miklu, en þó vísbendingu sem ég hef fylgt eftir og ætla m.a. að segja frá hérna á síðunni.  Að vísu er fyrirboðinn ekki hagstæður því þegar ég ætlaði að koma þessu frá s.l. fimmtudag læsti tölvan mig úti og það lengur en ég fluguna, kemst því ekki með nokkru móti í upplýsingarnar sem hún hefur að geima um ægishjálminn.  Ég varð að draga fram gömlu tölvuna sem er sjö ára forngripur, er því með nokkhverskonar morstæki hérna í loftkeytaklefanum miðað við nýjustu samskiptagræjur í netheimum og þar að auki að notast við mitt stopula minni.

Á wikibedia (alfræðiriti almennings)  segir svo frá ægishjálmi; "Ægishjálmur er gamall íslenskur galdrastafur sem er til í fjölmörgum gerðum og útgáfum. Hans er getið í Eddukvæðum, Sigurður Fáfnisbani bar Ægishjálm þegar hann sigraði drekann Fáfni á Gnitaheiði. Ægishjálmurinn er öflugur varnarstafur, bæði gegn öllu illu og einnig örugg vörn gegn reiði og yfirgangi höfðingja. Honum fylgir svohljóðandi formáli:

Fjón þvæ ég af mér
fjanda minna
rán og reiði
ríkra manna.

Það mætti kannski ætla að beinast lægi við að komast að töfrum ægishjálmsins með því að skoða þær vísbendingar sem koma fram í wikipedia úr goðafræðinni.  Eins og þar kemur fram á Sigurður Fáfnisbani að hafa borið hjálminn þegar hann drap drekann Fáfni, fara þessar upplýsingar víða um í netheimum.  Þannig að ég varð mér úti um Völsunga sögu en þar segir m.a. frá þvi þegar Reginn egnir Sigurð "síðasta Völsunginn" Sigmundsson til að vega Fáfnir bróðir sinn til fjár.  En Fáfnir hafði sér það til saka unnið að hafa myrt Hreiðmar föður þeirra Regins til að komast yfir gull sem hálfjötuninn Loki hafði stolið af dvergnum Andvara til að bæta Hreiðmari sonarmissi þegar Loki drap son hans Otur (bróðir þeirra Regins og Fáfnis) af misgáningi þegar Loki var á ferð með Óðni æðstum goða við Andvarafoss.

Reginn setti saman sverðið Gram fyrir Sigurð,  nokkurskonar ættargrip sem hafði hrokkið í tvo hluta í lokaorrustu Völsunga.  Síðan hvetur hann Sigurð til að grafa sér holu við vatnsból Fáfnis og stinga hann með sverðinu þegar hann skríður yfir holuna á leið sinni til vatnsbólsins.  Allt gengur þetta eftir, en á eftir drepur Sigurður einnig Reginn með sverðinu Gram þar sem þeir sitja að sumbli við að drekka blóð Fáfnis, voru þeir ekki einhuga um hvor þeirra ætti að éta hjartað.  Þetta gerir hann til að þurfa ekki að deila með honum fjársjóð Fáfnis.  Verður ekki annað séð af Völsunga sögu en fjársjóður Fáfnis hafi haft ægishjálminn að geyma. Á samtali Sigurðar og Fáfnis á banabeði Fáfnis kemur m.a.fram;

Eftir að Fáfnir hafði fengið banasár spurði hann m.a: "Hver eggjaði þig þessa verks eða hví léstu að eggjast? Hafðir þú eigi frétt það hversu allt fólk er hrætt við mig og við minn ægishjálm? Hinn fráneygi sveinn, þú áttir föður snarpan."

Sigurður svarar: "Til þessa hvatti mig hinn harði hugur, og stoðaði til að gert yrði þessi hin sterka hönd og þetta hið snarpa sverð er nú kenndir þú. Og fár er gamall harður ef hann er í bernsku blautur."-----

Einnig segir Fáfnir: "Heiftyrði tekur þú hvetvetna því er eg mæli. En gull þetta mun þér að bana verða, er eg hefi átt."

Sigurður svarar: "Hver vill fé hafa allt til hins eina dags, en eitt sinn skal hver deyja." -------

Enn mælti Fáfnir: "Eg bar ægishjálm yfir öllu fólki síðan eg lá á arfi míns bróður. Og svo fnýsti eg eitri alla vega frá mér í brott að engi þorði að koma í nánd mér og engi vopn hræddist eg og aldrei fann eg svo margan mann fyrir mér að eg þættist eigi miklu sterkari, en allir voru hræddir við mig."

Sigurður mælti: "Sá ægishjálmur, er þú sagðir frá, gefur fáum sigur því að hver sá er með mörgum kemur má það finna eitthvert sinn að engi er einna hvatastur."

Fáfnir svarar: "Það ræð eg þér að þú takir hest þinn og ríðir á brott sem skjótast, því að það hendir oft að sá er banasár fær, hefnir sín sjálfur." 

Eftir að Sigurður hafði afhöfðað Reginn;  "etur hann suman hlut hjartans ormsins en sumt hirðir hann. Hleypur síðan á hest sinn og reið eftir slóð Fáfnis og til hans herbergis og fann að það var opið, og af járni hurðirnar allar og þar með allur dyraumbúningurinn og af járni allir stokkar í húsinu, og grafið í jörð niður. Sigurður fann þar stórmikið gull og sverðið Hrotta, og þar tók hann ægishjálm og gullbrynjuna og marga dýrgripi. Hann fann þar svo mikið gull að honum þótti von að eigi mundi meira bera tveir hestar eða þrír. Það gull tekur hann allt og ber í tvær kistur miklar, tekur nú í tauma hestinum Grana. Hesturinn vill nú eigi ganga og ekki tjár að keyra. Sigurður finnur nú hvað hesturinn vill. Hleypur hann á bak og lýstur hann sporum og rennur sjá hestur sem laus væri."

Síðar í sögunni kemur ægishjálmurinn aftur til tals þegar Sigurður leitar til Brynhildar örlaganornar sinnar til að gefa sér heilræði.  En þegar Sigurður kemur á hennar fund og vekur hana spyr hún; "hvað svo var máttugt er beit brynjuna "og brá mínum svefni. Eða mun hér kominn Sigurður Sigmundarson er hefir hjálm Fáfnis og hans bana í hendi?" 

Svo mörg voru þau orð um ægishjálm, fimm sinnum er hans getið og ekki með nokkru móti hægt að ráða í það hvernig hann kemur að gagni.  Vísbendingin sem sem var gefin um að Sigurður Fáfnisbani hafði borði ægishjálm þegar hann banaði Fáfni reyndust því ekki réttar samkvæmt Völsungasögu.  Ægishjálmurinn kemur ekki meira við sögu en fjársjóður Fáfnis er síður en svo til gæfu því hver harmleikurinn af öðru ríður þar röftum uns Svanhildur dóttir Sigurðar Fáfnisbana er að lokum drepin með því að hleypt er á hana hestum og líkur með því sögu Völsunga. 

En til hvers er þá ægishjálmurinn sem sagður er vera máttugur verndarstafur sem m.a. færði Sigurði sigurinn yfir Fáfni og hvaðan kemur hann?

IMG 2181

Eftir að hafa lagst í rannsóknir í netheimum báru þær mig fljótlega út til stjarnanna.  Ef drekinn Fáfnir hafði ægishjálminn að geyma í sínum fjársjóði þá getur hann allt eins verið mun eldri en norræn goðafræði.  Þegar ægishjálmur er teiknaður kemur margt upp í hugann, hann hefur jafn fullkominn hlutföll og þegar dropinn gárar vatnsflötinn.  Hann minnir á vegvísi og til eru hugmyndir um að hann hafi vísað á hina ýmsu heima norrænnar goðafræði, sé jafnvel útgáfa af Yggdrasill (lífsins tré).  Einnig minnir hann hann á stjörnu sem hefur það umfram festar aðrar að hafa átta arma.  Og ekki síður minnir hann á kaungulóravef sem beinir athyglinni að miðju vefsins, getur því verið vegvísir inn á við til sjálfshjálpar líkt og vísan í formála ægishjálmsins gefur til kynna, "Fjón þvæ ég af mér fjanda minna,,," ofv..

 


Bloggfærslur 13. nóvember 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband