20.3.2016 | 19:22
Er fuglinn eða táknið vandamálið?
Á síðustu öld spann Þýskaland nasismans sinn örlagavef með myrkum öflum, þar sem rúnir komu við sögu. Hinn kynngimagnaði hakakross var merki nasistaflokksins og þriðja ríkis Hitlers. Hakakrossinn er víða til í táknfræði og er þar kenndur við sólarhjólið. Það voru krosslagðar sólrúnir sem mynduðu hinn illræmda hakakross og tvær þeirra hlið við hlið voru notaðar sem tákn stormsveitanna. En sól-rúnin stendur m.a.fyrir þrumufleyg Þórs, sem var eitt ginnhelgasta tákn goðafræðinnar. Gunnfánar, skyldir og jafnvel skriðdrekar nasista voru merktir fornum rúnum. Ástæðan fyrir því að þeir völdu þessi tákn var ekki einvörðungu vegna germansks uppruna, ekki síður vegna þess að hugmyndfræðingar þeirra trúðu á töframátt rúnanna. Sennilega hefur nasismanum tekist að koma meira óorði á rúnir og vísdóm þeirra en galdrabrennum fyrri alda.
Sólarrúnin (sunna eða Sowilo) er rún lífsorku, árangurs, heilbrigðis, bjartsýni, vonar og vaxtar. Þetta er rún sólarinnar sem er frumorka alls lífs, rún bjartsýni, vaxtar og velgengni, þegar markmiðum skal náð. Sunna vísar því til sólarhjólsins sem drífur hringrás orkunnar. Þegar nasistar notuðu sólrúnina í sinni táknfræði komu þeir óorði á notagildi hennar. Tvöföld krosslögð myndaði rúnin hinn illræmda hakakross og hlið við hlið var hún tákn stormsveitanna. Það sem þessi rún varar sterklega við er sýndarmennska, ósanngirni og hégómi. Forðast ber dramb og hroka, gæta þess að láta velgengni ekki blinda sýn því þá mun hún brenna upp á skömmum tíma. Það má því segja að Þýskaland nasismans hafi á endanum uppskorið neikvæðar hliðar sólrúnarinnar.
![]() |
Hvað á að gera við örninn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)