Í EES við vögum vær með vora byrði þunga

Sú stund virðist nálgast óðfluga að þjóðin taki loks afstöðu til EES samningsins, sem hún var svikin um að fá að kjósa um hvort hún vildi undirgangast. Stjórnmálamenn hafa í reynd aldrei staðið vörð um hagsmuni almennings þegar EES hefur verið annars vegar þó svo að öll opinber umræða hafi mært þann samning fram til þessa. Nú síðast taldi landráðaliðið (sem staðið hefur verið að því kjararáðssópa ofan í eigin vasa) ekki verða hjá því komist að samþykkja erlent boðvald við að markaðsvæða orkuna.

EES samningurinn hefur opnað allar gáttir, eða eins og stjórnmálaforingjar síns tíma orðuðu það svo smekklega "allt fyrir ekkert". Ágætt er að hafa það á bak við eyrað, ef fólk hefur ekki verið vaknað nógu snemma í morgunn, að kl 7:15 var öllum kirkjuklukkum landsins hringt vegna þess mikla fíkniefnavanda sem við blasir í landinu. Það hefði ekki þýtt að segja það nokkrum lifandi manni eftir að stjórnmálmenn með EES stjörnurnar í augunum stefndu á fíkniefnalaust Ísland árið 2000 að öllum kirkjuklukkum landsins yrði hringd 2019, til að vekja fólk til vitundar um að fíkniefnavandinn í landinu hefði náð áður óþekktum hæðum, sama dag og forræðið yfir orkunni var látið af hendi

En hvað hefur EES samningurinn raunverulega fært Íslendingum? Nú síðast í dag voru orkuauðlindirnar settar í uppnám hvað íslenskan almenning varðar. Fyrr á árinu kom í ljós að í skjóli hans voru skorður á innflutningi hrárra kjötvara fallnar. Þær raddir hafa orðið háværari sem bent hafa á að fullt tollafrelsi gagnvart ESB hafi aldrei verið uppfyllt hvað sjávarafurðir áhrærir eins og til stóð þegar EES samningurinn var í upphafi kunngjörður.

Síðuhöfundur lét sig hafa það árið 1993 að lesa EES samninginn, þá íslensku útgáfu sem utanríkisráðuneytið bauð almenningi upp á, og komst þá að þeirri niðurstöðu að þetta væri vondur samningur sem gæti þýtt "allt fyrir ekkert" fyrir þann sem væri meiri máttar. Þegar EES samningurinn var kynntur fyrir almenningi, á sínum tíma, bar hæðst tollafrelsi á unnum sjávarafurðum sem brothættar byggðir landsins þurftu sannarlega á að halda. Allir vita hvernig fór stærstur hluti brothættu byggðanna brotlenti, og sjávarfang fer nú óunnið úr landi sem aldrei fyrr.

Um síðustu aldamót upplifði ég stór tímamót. Það Ísland sem ég þekkti var horfið og fiskimiðin endanlega komin á markað, breytingarnar tóku aðeins örfá ár. Síðasta árið sem ég bjó á staðnum, sem átti að verða mitt heima í þessu lífi, dundaði ég mér við að mála myndir. Einn daginn kom til mín vinkona, sem vann í fiski, með smásagnabók eftir Selmu Lagerlöf og bað mig um að mála mynd eftir einni sögunni í bókinni. Henni langaði svo mikið til að vita hvaða mynd ég læsi út úr sögunni. Ég varð við þessari bón og máliði mynd fyrir hana og lét texta fylgja.

 

Hreiðrið

Sagan Hreiðrið eftir Selmu Lagerlöf segir frá einbúanum Hattó sem fór út í auðnina og bað Drottinn engrar smábænar, hvorki meira né minna en um að tortíma heiminum. Því svo miklar voru syndir mannanna að frelsa þurfti þá ófæddu frá lífinu sjálfu. Þann tíma sem hann var á bæn komu máríerlurnar og gerðu hreiður í hendi hans vegna þess að eina tréð í nágreninu var greinalaust og Hattó líkari tré sem veitti skjól. Hattó fór smá saman að finna til samkenndar með íbúum hreiðursins og sannfæringarmáttur bænar hans dvínaði smátt og smátt. Að endingu bað hann hreiðrinu griða.

Sævar sjómaður hafði aldrei beðið bæna í líkingu við bæn Hattós. Hér áður fyrr þegar fiskverð var lágt, hafði honum í versta falli komið það til hugar að kaupfélagið væri dragbítur á framfarir og mætti því missa sig. Með tímanum tóku við nýir siðir sem Sævar átti erfitt með að skilja, hann mátti ekki veiða nema ákveðinn afla hvernig sem gaf. Það undarlega var að verðið sem hann þurfti að fá fyrir fiskinn fékk hann fyrir hann óveiddan og kallaðist þetta markaðsvæðing. Kaupfélagið fór á hausinn því það réði ekki við að kaupa óveiddan fisk á markaðsverði.

Svo hrundi vitinn í gjörningaveðrinu mikla og leiðsögnin brást. Á endanum varð hið gjöfula haf sem ófær eyðimörk fyrir Sævari og hann gat hvorki flotið burt á sínum brotna bát né séð fjölskyldunni farborða. Fram til þessa höfðu Sævar og Hattó aðeins átt eina bæn sameiginlega, þá að biðja Drottinn um að þyrma hreiðrinu.


Bloggfærslur 2. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband