Medían

Rétttrúnaðar rasisminn ríður ekki við einteyming þessi misserin. Sjálfssagt þykir, hvar sem gott fólk í flokki stendur, að koma í veg fyrir upplýsingaóreiðu með lögum. Ritskoðun medíunnar breytir flæði upplýsinga á þann veg að ómeðvitað er sveigt á braut sjálfsritskoðunar, sem er drifkraftur þeirrar hjarðhegðunar sem hvað eftir annað hefur farið með heilu samfélögin fram af bjargbrúninni.

“Óvinurinn er síbyljan, hvort sem manni líkar söngurinn eða ekki”; -einhvern veginn þannig komst George Orwell að orði, höfundur bókarinnar Animal farm. (“The enemy is the gramophone mind, whether or not one agrees with the record that is being played at the moment.” ~George Orwell)

Fólk er dregið í dilka hægri vinstri eftir því hvað það lætur uppi um skoðanir sínar. Fjölmenning, frjálshyggja, femínismi, fasismi, kommúnismi, anarkismi, rasismi, , , -bara nefndu það. Allra hættulegastir eru svo þeir sem setja fram falsfréttir í samsæriskenningum. Gegn því gildir ekkert annað en að koma á alheims-net-skimandi löggjöf um upplýsingaóreiðu. Því svo oft fer kenningin nálægt samsærinu sjálfu að vissara þykir að ekki glitti í hryðjuverkin fyrr en þau hafa verið framin.

Á hátt í heilli ævi má finna margt sem taldist til persónulegs frelsis sem fengið hefur að fjúka með rétttrúnaðinum. Farið hefur fé betra segja sjálfsagt flestir eftir að hafa ritskoðað sjálfa sig samkvæmt síbyljunni. En það er samt svo að þeir sem hafa verið sjálfum sér samkvæmir; trúir sínum uppruna og sinni köllun, standa uppúr út yfir gröf og dauða í hjarðhegðunar fjölmenningu samfélagsins.

Má þar nefna marga listamenn á við Kim Larsen, sem söng sína söngva á því sem næst óskiljanlegu hrognamáli sinnar þjóðar, og barðist þar að auki svo hetjulegri baráttu fyrir því að fá að handfjatla sígrettuna að hann mætti ekki í sjónvarp án þess að halda þeim rétti sínum jafnvel þó svo rétttrúnaðurinn hefði lagt blátt bann við.

Eins má nefna Bob Marley sem samdi söngva frelsis Redemption Song og spurði góða fólkið á afró enskunni sinni; -munuð þið ekki hjálpa til við að syngja frelsissöngva? Af því frelsið er allt sem ég hef nokkhverntíma átt, stolinn frá Afríku, fluttur til Ameríku eins og hver annar hjarðhermaður.

Það er varla að hvítur miðaldra karlmaður fullmótaður af feðraveldinu þori orðið að láta í ljós skoðun á óritskoðuðum skoðunum og benda á að fjölbreytileikinn er það eina sem hefur afstýrt óskapnaði í gegnum tíðina. Jafnvel þó svo að tíðarandinn básúni síbyljandi frasa á við að frelsi einstaklingsins takmarkist við að komist sé fyrir að skaða skoðanir annarra.

Samkvæmt merkjamáli tíðarandans eru svona útúrsnúningar nánast hreinn rasismi.


Bloggfærslur 15. nóvember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband