23.11.2020 | 05:57
Ýlir
vælir úti í veðri og vindi á meðan hungurvofan um gáttir gægist. Hvíslar undan veðum föllnum sígild harmasaga. Já dularfulla drepsóttin er að ganga frá fleiru dauðu en bara ferðaþjónustunni, -þegjandi og hljóðalaust. Búið að loka sextíu ára Sögu Bændahallarinnar og í gær var Gistihúsinu á Egilsstöðum lokað fram á sumar, þar sem óðalsbændur hafa boðið gesti og gangandi velkomna í rúma öld. Vetur harðnandi fer og því rétt að minna á smáfuglana.
Frá hinu "svokallaða hruni" fjölgaði litlum þjónustu fyrirtækjum í mínum smáheimabæ, og slöguðu veitingastaðirnir í tuginn þegar best lét. Fjölgunin hófst í kjölfar stærstu framkvæmdar Íslandssögunnar. Að vísu eftir hið svokallaða hrun, og að kaupfélagið varð gjaldþrota á 100 ára afmælinu, ásamt stærsta verktakafyrirtæki bæjarins, sem safnað hafði molum smáfuglanna saman undir sinn væng. Nú fara margar rútur verri helmingsins niður í neðra dag og nótt til að sækja lífsviðurværið í rauðglóandi smeltiverkið. Það er víst mikið hagkvæmara að skulda stórt en smátt þegar atvinnurekstri er kastað fyrir ætternisstapann.
Það hefur ekki verið beint björgulegt um að litast af hjólinu upp á síðkastið. En ég hjóla yfirleitt til og frá vinnu og stysta leiðin liggur fram hjá íþróttahúsi með sundlaug og líkamsrækt, fyrr um fimm gistiheimilum, snyrtistofu og tveim veitingahúsum. Litlum atvinnufyrirtækum sem byggja á betri helmingnum, einhver verður jú að vera heima til að taka á móti blessuðum börnunum. Undanfarið hefur verið meira og minna lokað og óvíst hvenær opnar. Enda sú árstíð komin að spólað er meira en hjólað nema tifað sé á tveimur jafnfljótum.
Ýlir er annar mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann tekur við af gormánuði og hefst á mánudegi í fimmtu viku vetrar á tímabilinu 20. til 27. nóvember og ríkir þar til mörsugur tekur við seint í desember. Ýlir er í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu nefndur frermánuður. Eina heimildin um nafnið ýlir til forna er í svonefndri Bókarbót sem varðveitt er í handriti frá um 1220. Ásgeir Blöndal Magnússon málfræðingur telur orðið ýlir skylt orðinu jól, en uppruni þess er umdeildur.
Árni Björnsson þjóðháttfræðingur telur mánaðarheitið ýlir ver helstu röksemd fyrir heiðnu jólahaldi í desember. Árni telur að norræn jól hafa í öndverðu verið skammdegishátíð, en þær hafa þekkst um víða veröld. Þetta virðist hafa verið veislur og einhvers konar ástarleikir. Þekkt sé að kynferðislegir helgileikir hafi þekkst meðal fólks sem bjó í náinni snertingu við náttúruna og að frjósemi í mannlífinu hafi átt að kalla á frjósemi í náttúrunni. Oft sé því talað um að blóta til árs og friðar á jólum þar sem ár merkir árgæska. Telur Árni þessu til stuðnings megi nefna kvæði um Harald hárfagra. Þar sem hann er sagður vilja drekka jól úti og heyja Freys leik. En Freyr og Freyja voru frjósemis goð í heiðnum sið.
Sennilegt er að heiðin jól hafi verið sólstöðuhátíð að vetri og hafi ekki verið á neinum vissum degi, heldur þegar vel stóð á tungli í svartasta skammdeginu. Í Grettissögu segir frá þúsund ára jólum sem Grettir átti þegar hann dvaldi í Noregi hjá Þorfinni í Háramarsey. Í móti jólum býst Þorfinnur að fara til bús síns þangað sem hét í Slysfirði. Það er á meginlandi. Hafði hann boðið þangað mörgum vinum sínum. Húsfreyja Þorfinns mátti eigi fara með bónda því að dóttir þeirra frumvaxta lá sjúk og voru þær báðar heima. Grettir var heima og húskarlar átta. Þorfinnur fór nú við þrjá tigu frelsingja til jólaveislunnar. Var þar hinn mesti mannfagnaður og gleði.
Þess er skemmst að geta að Háleyskur víkingalýður var á sveimi við Háramarsey um þessi jól er áttu Þorfinni bónda grátt að gjalda, tveir bræður eru nefndir til að verstir voru. Hét annar Þórir þömb en annar Ögmundur illi. Þessi flokkur hafði þann hátt á að; Þeir gengu berserksgang og eirðu öngu þegar þeir reiddust. Þeir tóku á burt konur manna og höfðu við hönd sér viku eða hálfan mánuð og færðu síðan aftur þeim sem áttu. Þegar þeir Hálendingar komu í Háramarsey á aðfangadag gekk Grettir til móts við þá og fagnaði vel þeim víkingum sem þar voru á ferð og bauð þeim bæði bæði öl og annan fagnað, við það stukku fram konur allar og sló á þær óhug miklum og gráti.
En jólaboð Grettis var ekki allt sem sýndist. Strax að veislu lokinni á aðfangadagskvöld hófst hann handa; sex féllu þar víkingar og varð Grettir banamaður allra. Síðan barst leikurinn út úr bænum; Tvo drap Grettir í naustinu en fjórir komust út hjá honum. Fóru þá sinn veg hvorir tveir. Hann eltir þá sem nær honum voru. Gerði nú myrkt af nótt. Þeir hlupu í kornhlöðu nokkurra á þeim bæ sem fyrr var nefndur er á Vindheimi hét. Þar áttust þeir lengi við en um síðir drap Grettir báða. Var þá ákaflega móður og stirður en mikið var af nótt. Veður gerði kalt mjög með fjúki. Nennti hann þá ekki að leita víkinganna, þeirra tveggja er þá voru eftir. Gekk hann nú heim til bæjar. En þess má geta að þeir tveir sem undan komust fann Grettir króknaða daginn eftir. Grettir varð frægur af verki þessu um allan Noreg en átti eftir að stríða við myrkfælni og drauga í skammdeginu það sem eftir lifði ævi.
Smælingjanna gjaldföllnu daga sólu fjarri á flæðiskerinu norðan nepjan nú nagar. Á myrkum mána metrana tvo grímuklæddar hjarðir hljóðar hrekjast um náströndina. Bónus er eftir sem áður opinn upp á gátt fyrir grímuklædda í skammdeginu. Mér varð á að fara þangað grímulaus með henni Matthildi minni skömmu fyrir skylduna. Var þá strax kominn í spor Ögmundar illa. Fólk hrökk frá eins og það hefði mætt þeim Þóri þömb á kvennafarinu forðum í Háramarsey, -þegar sló á þær óhug miklum og gráti.
Nema einn hugdjarfur kunningi sem hefur verið til alla ævi. Hann gekk sallarólegur upp að mér og spurði; -hvers vegna ert þú ekki með grímu? Ég sagði honum eins og var; að þá kæmi móða á gleraugun mín og Bónus væri búin að hafa endaskipti á búðinni allavega tvisvar í kóvinu. Ég ætlaði ekki að tefjast við að fálma mig um í þoku á fordæmalausum tíma. Já veistu, þetta er víst einhver sölusálfræði til að fólk kaupi einhverja vitleysu sem það ætlaði ekki að kaupa; -sagði kunningi minn.
Í vinnunni hafði ég svo orð á því við vinnufélaga í gegnum tíðina. Hvort hann tæki ekki ofan grímuna þegar við vorum að fara á myrkum morgni til að vinna viðvik fyrir gamla konu. Það væri öruggara svo við vektum ekki óhug. Og ekki yrði hringt á lögregluna vegna grunsamlegra manna að sniglast í kringum húsið. Hann sagði mig vaða villu og svima, því bófarnir væru grímulausir þessa dagana. Svo hnerraði hann með heljarinnar orrustu öskri og leit tárvotur yfir grímuna í augun á mér og sagði; nú værirðu dauður ef ég hefði ekki haft grímu.
Heimildir;
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=49887
http://www.visindavefur.is/svar.php?id=5478
http://www.snerpa.is/net/isl/grettir.htm
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)