1.3.2020 | 06:04
Munið eftir smáfuglunum
heyrðist oft óma á besta tíma ljósvakans í denn. Nú fer meira fyrir því sem efst er á baugi heimsmálanna s.s. hamfara hlýnun, almennum hryðjuverkum og nú síðustu vikur kóróna veirunni. En það er ekki minni ástæða til að muna eftir smáfuglunum nú á tímum gulu óvissunnar þennan veturinn frekar en í þá daga sem gamla gufan var ein um að blása boðskapnum út um allt land á viðsjálum vetrum. Enda hjó ég eftir að einn veðurfræðingurinn lét þennan gamla frasa fljóta með enn einni gulu viðvöruninni í vikunni.
Hún Matthildur mín hefur séð um það í okkar kotbúskap að muna eftir smáfuglunum en ég í mesta lagi um að virða þá fyrir mér þegar þeir flögra fyrir svala gluggann. Og var búin að taka eftir því að um fuglaskarann í trjátoppunum fór kliður þegar sést til Matthildar þegar hún gengur heim frá skólanum þar sem hún vinnur, -þangað til núna í vetur að ég þurfti að leysa hana af í tvisvar sinnum tvær vikur og sé nú á eftir þessa smáfugla í allt öðru ljósi.
Ég fór sem sagt að fylgjast með þeim af nákvæmni. Flestir fuglarnir eru snjótittlingar og annað slagið kemur hópur auðnutittlinga en af þeim hefur verið minna þennan veturinn. Svo sína hrafnarnir fóðrun smáfuglanna einstakan áhuga því að af og til eru veisluréttir s.s. brauð blandað fitu. Hrafnarnir eru einstaklega kurteisir þegar snjótittlingarnir eru annars vegar og leyfa þeim alltaf að njóta forgangs. Ég er ekki frá því að þeir séu bæði þeirra verndarenglar og útfararstjórar.
Þegar smyrillinn tekur flugið eða felur sig í trénu þá fer það ekki fram hjá Matthildi, hún þeytist út á svalir og klappar saman lófunum hreytandi ókvæðisorðum að smyrlinum. Þegar hún kemur inn þá segir hún nötrandi "það vildi ég að ég ætti byssu þá myndi ég skjóta kvikindið". Ég stilli mig um að minnast á að nú kæmi haglabyssan sér vel, sú sem ég lagði í búið í upphafi okkar búskapar, en sú var litin þvílíku hornauga á heimilinu að ég losaði mig við hana hið snarasta. Allir erum við samt furðufuglar sem fylgjumst með smáfugla fóðrun Matthildar.
Það er ekki auðvelt að ná myndum af hinum hraðfleyga Hauki frænda, smyrlinum, en stundum á hann það til að reyna að fela sig í snjómuggu upp í uppáhalds tré snjótittlinganna
Það er ótrúlegt að fylgjast með snjótittlingunum, ef einhverstaðar er í gildi einn fyrir alla allir fyrir einn þá er það hjá þeim. Þeir eru norðlægustu spörfuglar á jörðinni og hafa að mestu vetursetu hér, þó eru einhverjir sem fara til Skotlands en það eru þá aðallega snjótittlingar sem koma hér við á leið frá sumarstöðvum sínum á Grænlandi. Á sumrin kallast þessi fugl sólskríkja og þá er karlinn hvítur með svörtu baki og kvenfuglinn ljósbrúnn.
Um sumar halda sólskríkjurnar ekki hópinn heldur fer hvert par til fjalla og nýtur sumarsins í faðmi fjölskyldunnar með ungunum. Sagt er að þessi fugl pari sig einu sinni, -eða þar til dauðinn aðskilur. Þjóðtrúin geymir ekki margt um snjótittlingana. Þó munu þeir hafa spáð fyrir um veður. Söfnuðust þá heim að bæjum á undan byl en létu lítið fyrir sér fara á undan hláku og hlýindum. Hurfu með sumrinu, svo er þetta reyndar allt saman enn þann dag í dag.
Hrafninn er kannski ekki neinn smáfugl en hann er bæði spör- og staðfugl, einn helsti einkennisfugl Íslands sem allir landsmenn þekkja. þessi stóri svarti fugl er bæði er elskaður og hataður. Enda eru vitsmunir hans á við okkar mananna þegar kemur að útsjónarsemi og hrekkjum. Þannig hefur hann komist í þá vafasömu stöðu að vera réttdræpur hvar og hvenær sem er og er það sennilega vegna þess að hann borgar ekki skatt eins og við. Hrafnar eru drepnir þúsundum saman á hverju ári. En íslensk náttúra yrði snautleg án hrafnsins og er nú farið að heyrast að rétt sé að friða hann.
"Guð launar fyrir hrafninn", sagði máltækið, en hver skyldu laun guðs vera ef hrafninum yrði eytt á Íslandi? Mönnum þykir sú hugsun kannski með ólíkindum að það sé hægt að útrýma hröfnum á landinu bláa? Fugli sem virðist blasa við fólki hvert sem litið er? En umræður þess efnis meðal náttúrufræðinga, að setja hrafninn á váfuglaskrá benda til að ekki sé allt með felldu og ástæða sé til að endurskoða sess krumma í íslenskri náttúru.
Guð launar fyrir hrafninn og hér eru þeir á flugi heim í kirkjuturninn neðan við glitský í ljósaskiptunum
Sagt er að draga verði verulega úr veiðum hér á landi, til að koma í veg fyrir að hann nánast hverfi. Fáir íslenskir fuglar, ef nokkrir, eiga sér tvær jafn skarpar og ólíkar hliðar og hrafninn. Engir fuglar koma jafn oft fyrir í spádómum þjóðtrúarinnar og hrafninn, skemmst er að minnast hrafna Óðins. Hann er talinn spá fyrir um afar mismunandi atburði einkum þó feigð manna og veðurfar.
Hrafnar slá öllum öðrum fuglum við í klókindum og hafa að sumu leiti greind sambærilega okkar mannanna. Þetta staðfesta rannsóknir þar sem m.a. kom fram að það sem þeir éta ekki á staðnum fela þeir í nágrenninu til að sækja síðar. Sumir hrafnar sérhæfa sig jafnvel í að ræna fæðufelustaði kollega sinna. Hrafnar leggja mikið á sig er þeir fela mat og búa meðal annars til platfelustaði til að villa um fyrir öðrum hröfnum sem hyggja á að ræna fengnum.
Smyrillinn er algengasti íslenski ránfuglinn og sést víða um land, líkur fálka en mun minni. Hann er harðfleygur sem orrustuþota, veiðifugl sem þreytir oft bráð sína með því að elta hana, snjótittlingarnir sjá þó oftast við honum með því að hópurinn hækkar flugið stöðugt og rásar í allar áttir til að rugla hann í ríminu. Smyrillin virðist þurfa að komast upp fyrir bráð sín til að hremma hana með klónum, eða slá niður.
Smyrillinn er að mestu farfugl. Meirihluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum, fáir fuglar eru sagðir hafa vetursetu hér á landi. Íslenski stofninn er talinn vera 1000-1200 pör. Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari sagði að smyrilinn hefði líka verið kallaður dvergfálki og mikilsvert hefði þótt fyrir töfra og galdramenn að ná í smyrla til ýmissa töfrabragða. Tunga smyrils átti t.d. að hafa hjálpað mönnum að skilja fuglamál.
Þetta eru semsagt fuglarnir sem ég hef verið að fylgjast með síðustu vikurnar og verð ég að taka undir það með gömlu gufunni og gula veðurfræðingnum í vikunni að taka hana Matthildi mína til fyrirmyndar á köldum vetri með jarðbönn af snjó og svellum, því harðasti vetrarmánuðurinn er framundan. Það er aldrei að vita nema að með tímanum læri maður fuglamál í kaupbæti líkt og Sigurður Fáfnisbani, í það minnsta er alltaf von til að eignast góða vini á himninum.
Ps. Í þessu myndbandi má sjá smáfuglana, hrafnana svífa í yfir snjótittlingnum hérna í Útgarðinum sem stendur á klettahæð með uppstreymi í öllum áttum og sá sem sér smyrillinn þjóta um trjátoppana í lok myndbands er með haukfrá augu og á góða möguleika á að læra fuglamál.
Dægurmál | Breytt 8.3.2020 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)