24.3.2020 | 06:00
Einmánuður
Þessi vetur hefur verið vindasamur með slyddu, krapa, snjó og frostum. Hrafnarnir sveima nú sársvangir innanbæjar í leit að æti. Hérna fyrir framan svalirnar í Útgarðinum fer flugfimi þeirra ekki framhjá mér, þegar þeir fylgjast með gjöf snjótittlinganna hjá henni Matthildi minni. Stundum fellur til brauð og fita sem hrafnarnir hremma. Smyrillin á það til að fela sig upp í öspinni í von um að geta náð um snjótittling til að seðja sárasta hungrið. Austanlands má segja að hafi verið fannhvítur vetur frá því fyrir fyrsta vetrardag þann 26. október og með jarðbönnum á Héraði frá því í desember, landið er orðið eins og jökull yfir að líta.
Nú kviknar nýtt tungl á fyrsta degi einmánaðar. Nýtt tungl gefur væntingar um breytt veðurlag, en næsta víst er að ekki er vetrinum liðinn. Nú kviknar tungl í SA en undanfarin tungl hafa kviknað SV og V. Ég ætla að leifa mér að spá því að nú verði vindátt á landi vestanstæðari næstu vikurnar, jafnvel útsynningur Vestanlands en sólbráð að degi og frost að nóttu Austanlands. Gamla tímatalið hefur fleira í nánd við mánaðamót en tunglkomur, stjörnumerkjum skiptir á svipuðum tímamótum. Stjörnumerki Fiskanna rann sitt skeið á vorjafndægrum 20. mars. Daginn sem sólin nær yfirhönd á norðurhveli jarðar tekur merki Hrútsins við með lengri degi en nótt.
Hestar á íslenskum útigangi í Norðfjarðarsveit s.l. viku, daginn fyrir vorjafndægur, svona lítur Austurlandið út þegar varla sést á dökkan díl. Myndir frá þessum vetri má nálgast HÉR eða skoða í myndaalbúminu Vetur 2020 sem er til hægri á síðunni
Einmánuður er sjötti og síðasti vetrarmánuðinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar, eða 20. til 26. mars. Elstu heimildir um einmánuð eru úr Bókarbót frá 12. öld og Skáldskaparmálum Snorra Eddu frá 13. öld. Hann ásamt gormánuði, þorra og góu eru einu mánaðarnöfnin í gamla norræna tímatalinu sem koma fyrir í fleiri en einni heimild. Líklega er nafnið dregið af því að hann var síðasti mánuður vetrar líkt og orðið eindagi sem þýðir síðasti dagur.
Góu sem lauk á degi sem kallast Góuþræll eins og Þorra sem lauk á sínum þræl. Fyrsti dagur einmánaðar kallast yngismannadagur og er helgaður piltum eins og harpa stúlkum, -þorri og góa húsbændum og húsfreyjum. Áttu stúlkur þá að fara fyrstar á fætur til að taka á móti einmánuði og veita piltum glaðning. Síðustu dagar Einmánaðar kallast sumarmál enda tími til komin að fá vorið, en í gamla íslenska tímatalinu voru árstíðirnar aðeins tvær, -vetur og sumar.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um vorverk í Einmánuði að ef vorgott væri þá væri hentugur tími að stífla vatn, sem veitast skal yfir land svo vatnið standi þar á meðan vorleysing er mest. Það átti að vera vegna þess að það grugg, sem setur sig undir leysingavatnið á meðan það stendur yfir landinu væri betra en nokkur áburður.
Eins að sá sem vill ná grjóti upp úr jörð, því sem upp úr stendur, hann geri það þá þegar jörð er hálfa alin þíð ofan til eða nokkuð minna. Þá væri það bæði lausast og ylti líka á klakanum svo erfiðið yrði minna.
Einmánuður er auk þess að vera síðasti mánuður vetrar, sá þriðji af útmánuðum en svo voru þrír síðustu mánuðir vetrar kallaðir, þau þorri, góa og einmánuður. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti mánuður vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði. Eftirfarandi vísa um útmánuði er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:
Langi Þorri leiðist mér
lata Góa á eftir fer.
Einmánuður yngstur er,
hann mun verða þyngstur þér.
Í þjóðsögum austfirðingsins Sigfúsar Sigfússonar er þetta haft eftir álfkonu; Þurr skyldi þorri, þeysin góa, votur einmánuður og þá mun vel vora.
Ps. Munið eftir smáfuglunum.
Heimildir: http://is.wikipedia.org/wiki/Einm%C3%A1nu%C3%B0ur
Dægurmál | Breytt 14.4.2021 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)