Allir vinna – steypa, gúmmístígvél og hjólbörur

Eitt sinn á Stefán Jónson rithöfundur, framsóknar-alþýðubandalagsmaður og Kára pabbi, ásamt mörgu fleiru, að hafi haldið því fram að sveitungar hans hafi kennt ónefndum nágrönnum að ganga uppréttir. Þetta á að hafa gerst með því einu að kenna þeim á hjólbörur. Nú er langt um liðið og heyra hjólbörur og asnakerrur sögunni til þegar til framfara horfir.

Á fyrri hluta 20. aldarinnar fór skófatnaður úr gúmmíi að breiðast út um landið, sumir 20. aldar menn hafa lýst gúmmískóm sem stærstu framförunum á tilveru sinni við að valhoppa á milli þúfna í drulludíum landsins. Vaðstígvél úr gúmmí þóttu hér á landi lengi vel stöðutákn hins framfarasinnaða heimsmanns. Þetta má sjá á gömlum myndum á Þjóðminjasafninu.

Nú eru aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar fyrirferðamiklir í umræðunni og átakið allir vinna hefur verið endurvakið frá því í bankaóhappinu um árið. Pakkinn allir vinna hefur ekki farið fram hjá okkur gömlu mönnunum í mínu fyrirtæki sem varla höfum haft stundlegan frið síðan kófvítis pestin fór á stjá. Síðan þá hefur landinn setið þúsundum saman heima og fengið frábærar hugmyndir og eru margar þeirra þannig að til að hrinda þeim í framkvæmd þarf steypukall í gúmmístígvélum.

Hjólbörur

Verkamenn snemma á 20. öldinni við gerð varnargarða á bökkum Markarfljóts með hjólbörurnar einar að vopni, skammt ofan við þar sem nú svamla sanddæluskip um Landeyjahöfn 

Það má segja að fyrsta Íslandsmetið í langstökki inn í nútímann hafi verið setta af verkamönnum í gúmmístígvélum með hjólbörur sér til stuðnings. Eftir að þessum tækni undrum var endanlega blandað saman komst þjóðin svo loksins af mýrkenndu moldarkofagólfinu. Þessar framfarir urðu á 20. Öldinni og gerðu lítið annað en að þróast frekar er á öldina leið.

Það eru samt engin áform uppi um að bæta íslandsmet á þessari öld með öllum þessum aðgerðapökkum, ekki einu sinni matvælasjálfbærni í viðsjálu. Sýklafjölónæm framleiðslan flýtur að ströndum landsins sem aldrei fyrr í boði stjórnvalda. Er vandséð að 21. öldin eigi nokkur met eftir að bæta sem til framfara horfa öðru en smitrakningar-appinu.

Steypan var sennilegast sú tækniframför sem hefur gagnast Íslendingum hvað best frá því á síðustu öld og má segja að hún kom í rökréttu framhaldi af gúmmístígvélum og hjólbörum. Því segja má að steypan hafi hreinlega komið Íslendingum af mýrlendum moldargólfunum. Steypa er því alltaf tilvalin þar sem „allir vinna“.

Fyrir nokkrum árum var ég sendur á byggingastað til að steypa fyrir þá í stóru greiðslustöðvununum sem ekki hafa efni á uppsagnarfrestinum. Þar var allt gæðavottað í bak og fyrir, umhverfismetið þrátt fyrir vistvænt gjaldþrot,- vatnið mælt, vestin gul og öryggisgirðingin allt um kring.

Þarna voru haldnir vikulegir fundir og farið yfir öryggismál og það sem aflaga hafði farið bundið inn í gormamöppur með súluritum, texta og ljósmyndum öllum til viðvörunar í kaffitímum. Sérfræðingar að sunnan komu með morgunnfluginu til að fylgja öryggismálunum eftir og verkfræðingar blautir á bak við eyrun létu ljós sitt skína með hvítan hjálm úti undir berum himni á sólskinsdögum, sannkallaður „allir vinna“ byggingastaður.

Einn fundinn vorum við pólsku vinnufélagar mínir helsta myndefni gormabókanna. Það hafði komið öryggissérfræðingur að sunnan og smellt af okkur myndum illa tilhöfðum, ógreiddum og þar að auki hjálmlausum innanhúss. Þarna voru við sakaðir um að brjóta alla öryggisstaðla. Að loknum fundi bað ég pólsku félaga mína að tína saman gormabækurnar af borðum kaffistofunnar og færa mér, sem þeir gerðu. Þegar ég hafði fengið þær á borðið fyrir framan mig reif ég úr þeim myndirnar af okkur í strimla ofaní rusladallinn og sagði svona gerðu menn ekki.

Í næstu steyptu neyddist ég þar að auki til að lýsa því yfir að þetta yrði sennilega í síðasta sinn sem ég steypti fyrir fábjána. Umboðsmaður byggingastjóra sagði að ég áhveddi hvorki steypu uppskriftir né verkferla á þessum byggingastað, það gerðu menn með til þess bæra menntun. Ég sagði honum að þeir skildu þá halda sýningu um horfna atvinnuhætti í anda Ábæjarsafnsins því þessi steypa væri torf fyrirskrifuð af fábjánum sem sætu aftast á merinni þegar til nútíma tækni væri litið og væru ekki einu sinn í gúmmístígvélum.

Hann veifaði þá framan í mig snjallsíma og spurði hvort ég vildi að hann spilaði þetta fyrir "fábjánana", því hann hefði tekið upp orðaleppana. Ég bað hann endilega um að gera það því það bæði sparaði mér sporin og geðillskuna. Ég væri nefnilega fyrir löngu orðin hundleiður á því að verða brjálaður í steypu vegna fábjána sem ekkert kynnu. Hann tillit sér þá á tá og benti á hliðið á girðingunni sem umlukti byggingasvæðið og þrumaði „ég vísa þér út af svæðinu“, og það stígvélalaus í miðri steypu.

Ég bað hann um að ræða þetta við vinnuveitanda minn því það hefði verið hann sem sendi mig og félaga mína innan um fábjána, en ég yrði því fegnastur af öllum að fá lausnina, og hélt svo áfram að steypa. Stuttu seinna hringdi vinnuveitandi minn og spurði hvernig ég hefði það. Ég spurði hann til hvers hann hefði hringt. Hann sagðist ekki vita það almennilega, en hann hefði fengið skrýtið símtal sem hefði hafist á afsökunarbeiðni.

Ég sagðist ekki sjá hvernig ég ætti að ráða fram úr þessu dularfulla símtali. Jú hann sagði að ég hefði verið nefndur og talað hefði verið um að farið hefði verið yfir strikið, af því striki stafaði afsökunarbeiðnin. Þegar hann hefði svo spurt hvort það væri þá ekki réttara að tala um þetta við Magnús þá hefði komið smá þögn í símann, og síðan ákveðið nei. Eftirmálin urðu svo ekki önnur en að eftirleiðis var komið vel fram við vinnufélaga mína, meir að segja skjallaðir með „hér eru allir í gulum vestum nema Magnús hann er eins og vanalega í gömlu gráu lopapeysunni sinni“.

Það var því meir en lítið undarlegt að ég skildi taka undir grobbsögur með gömlum félögum í vetur þegar því var treglega við komið að steypa samkvæmt nýjustu tækni. En félagar mínir fóru þá að dásama hjólbörur í stað steypudælu og sögðu að þetta hefði ekki verið neitt mál í gamla daga. Segja má að fyrir okkur hafi farið líkt og þeim halta sem leiddi blindan, eða eins og gamall 20.aldar maður sagði mér þegar hann tók félaga sinn með í sund.

Þannig var að þriðji félaginn hafði orðið fyrir því óhappi að gleyma því að fara í sundskýluna áður en hann skellti sér í laugina. Þetta óhapp olli því að flestir sundlaugargestir steinhættu að láta sjá sig, allavega betri helmingurinn. Gripið var til þess ráðs að hafa frítt í sund en allt kom fyrir ekki, þá var einnig farið að bjóða upp á kaffi og með því.

Gamli 20.aldarmaðurinn ákvað að fá aldinn félaga með í sund til að njóta veitinga og rifja upp gamla takta enda var sá vatnshani mikill á yngri árum. Hann sagði að þó svo innganga þeirra í afgreiðsluna hafi ekki verið beint kappaleg, þar sem hann var rangskreiður og nýstiginn upp úr heilablóðfalli og félaginn gamall og haltur, þá hafi þeim verið tekið opnum örmum af sundlaugarvörðunum boðið upp á kaffi og lánaðar sundskýlur.

Sá gamli sagði starfsfólkinu sögur af ótrúlegum sundafrekum sínum fyrr á tíð, bæði köfun og dýfingum. Þegar þeir svo skakklöppuðust á skýlunum út á sundlaugarbakkann vissi hann ekki fyrri til en sá gamli stökk út í djúpaendann og snérist umsvifalaust á haus og spilaði löppunum upp í loft og gat enga björg sér veitt. Hann sá strax að ísaldarleirinn hafði runnið til á milli eyrnanna á honum þannig að ballestin var kominn efst í hausinn.

Nú voru góð ráð dýr því ekkert gekk að tala við sundlaugarverðina sem dáðust að og héldu að sá gamli væri að leika kúnstir, hann varð því að svamla áfram eins og særður sjófugl sífellt út á hlið til að komast til félaga síns og snúa honum við í lauginni og draga hann hálf rænulausan að bakkanum. Það varð ekki meira um sundferðir hjá þeim félögum í bráð.

Það munaði minnstu að eins færi fyrir okkur gömlu steypuköllunum í vetur, sem erum bak-, hjart- og nýrnabilaðir, ungu mennirnir voru fljótir að sjá að steypu hjólbörurnar gerðu meira en að kenna þeim að ganga uppréttum þær voru tilvalið krossfitt tæki.

Gjörið svo vel, hjólbörusteypa þar sem allir vinna.

Ps. þetta myndband tók einn ungi maðurinn upp á snjallsímann sinn. Þegar hann hafði uppgötvað að um horfna atvinnu hætti væri að ræða. Sá kann nú aldeilis á tæknina til að gera langa steypusögu stutta.


Bloggfærslur 29. apríl 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband