Sólmánuður

Nú er tími hins magnað miðnættis, orka norðurhjarans er yfirþyrmandi, þegar allt þarf að gerast og leggja verður nótt við dag. Þetta vita furðufuglar himinsins og náttúrulega við öll. Það ætti engin að sleppa því að upplifa sumarnóttina úti í íslenskri náttúru í grennd við sólstöður. Því það eru forréttindi að hafa aðgang að svo magnaðri upplifun.

Í dag hefst sólmánuður sem er þriðji mánuður sumars samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst alltaf á mánudegi í 9. viku sumars (18 – 24 júní). Nafn mánaðarins skýrir sig sjálft, þegar sól er hæst á lofti og hlýjasti tíminn er framundan á norður hveli jarðar. Sólmánuður sem einnig er nefndur selmánuður í Snorra-Eddu, er níundi mánuður ársins samkvæmt gamla tímatalinu.

Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal (f. 1724 d. 1794) skrifaði í riti sínu Atli sem kom fyrst út í Hrappsey 1780, um sólmánuð, að hann byrjar á sólstöðum og fyrst í honum fara menn á grasafjall. Um það leyti safna menn þeim jurtum, sem til lækninga eru ætlaðar og lömb gelda menn nálægt Jónsmessu, en færa frá viku seinna. Engi, sem maður vill tvíslá, sé nú slegið í 10. viku sumars. Vilji maður uppræta skóg skal það nú gjörast; þá vex hann ei aftur. Einnig er hvannskurður bestur síðast í þessum mánuði.

Nú sannast að kraftaverk eru eðlileg, og þegar þau gerast ekki þá hafi eitthvað farið úrskeiðis. Þetta má t.d. til sanns vegar færa með kríuna, sem flýgur svo að seigja heimskautanna á milli til að vaka í hinni eilífu miðnætursól. Sólmánuður hefst á þessum hápunkti sumarsins auk þess á nýju tungli. Því ætti engin að láta fram hjá sér fara að vaka undur miðsumars næturinnar, hvort sem það eru sólstöðurnar sjálfar, Jónsmessunóttin; eða aðrar nætur í grennd við kraftaverkið; -þegar maður tímir öllu öðru en að sofa.

Við Matthildur mín upplifðum magnað miðnætti núna um sumarsólstöðurnar, þar sem við vöfruðum um norðurhjarann hátt á annan sólahring. Fórum norður Fjöllin, niður Jökulsárgljúfrin, út á Melrakkasléttuna; -hlustuðum á vell spóans gnagg ósofinnar kríunnar og dýrðarinnar  sumarsöng lóunnar; -horfðum á yrðlinga veltast um í ærslaleik, forvitni litlu lambanna og fyrstu sundtök andarunganna.

Við lágum í tjaldi stund og stund, fundum landið nötra í jarðhræringunum, sáum sólina hnita lágt næturhimininn og spegla sig í gylltum skugga hafflatarins. Héldum út að Núpskötlu í glampandi sólskini kl. 4 að morgni að skoða súlubyggð. Til að gera langa sögu stutta geri ég orð kríunnar og dægurflugunnar að mínum "mikið var ég feginn því að lifa þessa nótt".

IMG_7229

Á mögnuðu miðnætti er aldrei að vita hvaða kraftaverki maður mætir. Það gæti allt eins verið sjálf drottning draumanna


Bloggfærslur 22. júní 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband