13.7.2020 | 06:07
Leiðin á Landsenda
Þessa dagana brunar margur landinn "fast trac selfy road trip" með hólhýsið dinglandi aftan í druslunni og reiðhjólin, eða kajakana, flækta í toppgrindinni nema hvoru tveggja sé. Og ríkisstjórnin lofar öflugri innspýtingu vegaframkvæmda upp á áður óþekkta milljarða til að létta 8.700 hlutabótaþegum lundina eftir sumarfrí í samvinnu við fjárfesta. Og það jafnvel þó svo að ekki sé hægt að finna innlendar vinnandi hendur í helming þeirra framkvæmda sem nú þegar eru í gangi í landinu, samkvæmt þeim sem best til þekkja. Þetta á víst að vera til að slá á atvinnuleysið hjá fábjánum með frábærar hugmyndir.
Það skal semsagt efna til fjárplógsstarsemi fyrir fjárfesta og auðnuleysingja á kostnað ferða almennings, jafnvel innan eigin sveitarfélags. Er þetta kallaða innviðauppbygging af flissandi fyllibyttum og auðrónum. Verklausir fræðingar ásamt kennitöluflökkurum kætast svo handlama yfir öllu saman því hægt er að auka innflutning vinnandi handa með þóknun ofan á hlutabætur og 25.000 kall á tímann. Og eru þetta hreinir smáaurar úr vösum almennings við að keyra upp hagvöxtinn að teknu tillit til þess sem þarf að borga malbikuðum Rúmenum í miðju kóvítinu. Það liggur við að manni detti í hug gamli frasinn; -"ertu á landinu".
Hvort vegagerðarframkvæmdir eigi að miða við hugvit sjálfhverfra samfélagsmiðlara er svo kapítuli út af fyrir sig. Gullni þríhyrningurinn sunnan heiða hefur hingað til verið talin einhver besti túristatrekkjarinn fyrir höfuðborgina. Þannig að höfuðstaður Norðurlands varð að fá sinn demantshring sem í eiga að glitra helstu náttúruperlur Norð-Austurlands; Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Hljóðaklettar, Ásbyrgi og hvalaskoðun á Húsavík. Um þetta svæði á fljótlega að vera hægt að bruna á dagparti. Helstu kostirnir við demantinn voru kynntir á þann veg af mannvitsbrekkunum, að hægt væri að fljúga norður að morgni og suður að kvöldi, sannkallað "fast trac selfy road trip", þar sem allir græða nema sérvitringarnir sem döguðu uppi úti í auðninni.
Í júní brunuðum við hjónin niður með Jökulsá á Fjöllum einn eftir miðdag. En fyrir sex árum síðan fórum við niður með Jökulsá að austanverðu að Dettifossi áfram niður í Ásbyrgi og enduðum fyrri daginn í Vesturdal við Hljóðakletta. Síðari daginn fórum við upp með Jökulsá að vestanverðu að Dettifossi og þaðan í Námaskarð. Við urðum dagþrota báða dagana því þetta var sannkallað "safari jurney" í rykmekki og þvottabrettisins glímu við þjóðveginn, hina grýttu braut, -samt hverrar holu virði. Núna í júní var þetta meira skottúr á milli hápunkta og fyrir ofan Hljóðakletta er verið gera hringtorg svo allra stystan tíma taki að skanna pleisið og jafnvel hægt að taka af sér selfí út um bílrúðuna á ferð, með Hljóðaklettum á.
Það stóð samt ekki til hafa þennan pistil um landsins gagn og nauðsynjar, en þetta flaug samt í gegnum hugann þegar ég vaknaði í gærmorgunn. Svo þegar ég leit út um eldhúsgluggann sá ég að það var sólskin úti á Landsenda. Þá fattaði ég að við Matthildur mín vorum bæði komin í sumarfrí þannig að ég bauð henni í gamaldags skottúr út í Jökulsárhlíð. Í ný útkominni bók Skúla Júlíussonar "101 Austurland - Gönguleiðir fyrir alla", hafði ég kynnt mér gönguleið út á Landsenda. En í þeirri bók eru margir laufléttar göngutúrar fyrir þá sem gefa sér tíma til að hossast leiðina án þess að vera með hugann við næsta fast trak selfí punkt. Bókin greinir meir að segja frá gönguleiðum sem hægt er að fara án sítengds snjallúrs.
Þegar við komum að skilti landeiganda um að öll umferð ökutækja væri stranglega bönnuð, eftir að hafa sikk sakkað malarveginn út Hlíð, lögðum við jeppanum og skakklöppuðumst af stað. Við höfðum ekki gengið lengi þegar við sáum sannkallaðan húsfjallabíl á erlendum númerum, sem hafði farið veginn alveg á enda þrátt fyrir strangt bann, -að vísu á kjarnyrtri íslensku. Þegar við gengum fram hjá sat frúin vel vöknuð úti við morgunnverðarborðið og horfði austur í sólina merla sjóinn og gera tíbrá á svarta Héraðssandana. Hún gaf sér samt tíma til að brosa blítt og segja "good morning" glaðlega í andaktinni, um leið og hún lýsti því yfir að hún væri stödd í paradís, -sem við náttúrulega vissum.
Að loknum óskum um góðan dag þá höktum við áfram rollugöturnar um fjörur, klettasnaga og bjargbrúnir. Matthildur jagaðist á því hvað svona ferðalag ætti eiginlega að þýða, hvað ég ætlaði að gera þegar hún hrapaði fyrir björg. Hvort ég ætlaði þá að hringja í neyðarlínuna og biðja um þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ég sagði henni að hún gæti allavega hlakkað til þess að fyrirsögn þeirrar fréttar yrði "Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaða göngukonu á Landsenda", -mikið magnaðra yrði það varla.
Auðvitað komumst við léttilega alla leið á Landsenda og er engu um það logið í 101 bók Skúla að gönguleiðin er að mestu lauflétt fjörulall. Það er ekki fyrr en farið er í Þerribjörg, sem eru fyrir utan Landsenda, sem þarf keppnis göngufólk. En upplýsingar um þann göngutúr verða lesendur að verða sér úti um í bókinni um gönguleiðir fyrir alla sem er um miklu fleiri en 101 göngutúr, því hún hefur að geyma góðar upplýsingar á yfir 200 gönguleiðum á Austurlandi.
Landsendi og Þerribjörg eru við norðanverðan Héraðsflóa, utan við veginn þar sem farið er upp á Hellisheiði til Vopnafjarðar, í fjöllum sem í stórum dráttum heita Kollumúli og Múlakollar Héraðsmegin. Fjöldi annarra nafna eru á fjöllum í fjöllunum s.s. Landsendafjall og svo heita þau allt annað Vopnafjarðarmegin. Þessir fjöll eru úr ljósgrýti (líparít), og hengiflugin fyrir ofan Landsenda og Þerribjörg einstaklega tilkomumiklar. Þerribjörg hafa það víst fram yfir, að mér skilst, að vera bæði stærri og með fjöru fyrir neðan sem hægt er að spóka sig um.
Út af Kollumúla er Bjarnarey þar sem Jón lærði dvaldi á 17. öld ásamt konu sinni, tvö ár í felum fyrir íslenskum yfirvöldum. Þegar valdsmenn sóttust eftir að brenna Jón fyrir galdur, allt þar til að hann fór úr Bjarnarey til Kaupmannhafnar og fékk dóm íslenskra yfirvalda felldan úr gildi. Það dugði samt ekki Jóni til að fá að vera hvar sem var á Íslandi, því þegar hann kom aftur og sýndi yfirvaldinu fyrir sunnan sýknuna, vísaði það honum aftur austur á Hérað því það treysti sér ekki til að brenna hann í trássi við kónginn. Hann bjó svo hjá syni sínum Guðmundi presti á Hjaltastað í Hjaltastaðaþinghá til dauðadags.
Fyrr á öldum var líka búið á Landsenda og má því víða finna tóftarbrot. Talið er að búsetu hafi verið hætt þegar bjarndýr gengu þar á land. Á leiðarenda er gestabók, sem hægt er að rita nöfn sín í og fá stimpil um komuna þangað. Með gestabókinni fylgir sögulegur fróðleikur, s.s. samantekt um Eyjaselsmóra einn magnaðast draug sem upp hefur verið vakinn á Íslandi. Hann var pestardraugur sem vakinn var upp af lyfjum á Ketilsstöðum, næsta bæ fyrir innan Landsenda, en flutti sig svo í Eyjasel sem er svolítið austar á Héraðssandinum. Hann fór hamförum í 150 ár. Drap bæði menn og skepnur, varð vart allt til 1930.
Leiðin á Landsenda er náttúruperlufesti sem er hverrar holu virði og þarf enga hagvaxna innviðaspýtingu, þar fer best á að leyfa sérvitringum að skakklappast áfram í friðsælli paradísinni.
Landsendafjall; litskrúðugt ljósgrýtið er áberandi í fjöllunum sitt hvoru megin við svarta sandströnd Héraðsflóans
Séð inn Héraðið þar sem Kaldá fellur til hafs, og yfir Héraðssanda sem eru ættaðir úr Vatnajökli. Auk Kaldár falla þrjú stórfljót til sjávar í Héraðsflóa; Jökulsá á Dal, Lagarfljót og Selfljót
Strandlengja Héraðssanda er hátt í 30 km löng og þar má finna ýmislegt í tíbránni, þarna er rekið stórhveli
Í ljósgrýtis björgunum leynist fjölskrúðugt fuglalíf
,,,og að sjálfsögðu selfí
Ferðalög | Breytt 16.7.2020 kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)