Tvímánuður

Það ætti náttúrulega hvergi að vera betra golunni að geispa en blíðum í blænum sunnan í bláum berjamó. Eins og flestir landsmenn þá er ég orðinn dauðleiður á dularfullu drepsóttinni, og farin til berja. En það er samt ekki verra en vant er, þar er fámennt og góðmennt, og ekki mikið mál að halda tveggja metra reglunni grímulaust. Þessu virðast sárafáir hafa áttað sig á, kannski sem betur fer.

Nú er kominn tvímánuður (hefur ekkert með tvo metra að gera), sem er fimmti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann hefst ævinlega á þriðjudegi í 18. viku sumars, eða hinni 19., ef sumarauki er, þ.e. 22. – 28. ágúst. Í Snorra-Eddu heitir mánuðurinn kornskurðarmánuður, en mætti nú allt eins kalla berjamánuð eftir að tæknin bauð upp á að geyma uppskeruna í frystikistu.

Gömlu mánaðaheitin eru talin upp í tveimur ritum. Annað nefnist Bókarbót og er varðveitt í handriti frá um 1220. Hitt ritið er Snorra-Edda og eru mánaðaheitin talin þar upp í Skáldskaparmálum. Ekki ber mánaðaheitunum saman. Í Bókarbót er tvímánuður talinn upp á milli fjórða mánaðar sumars og sjötta mánaðar sumars.

Nafnið kornskurðarmánuður skýrir sig sjálft þar sem hann ber upp á þann tíma ársins sem vænta má kornuppskeru. Páll Vídalín vildi skýra nafngiftina tvímánuður á þann hátt að tveir mánuðir væru nú eftir að sumri, líkt og einmánuður bæri nafn sitt vegna þess að einn mánuður væri eftir af vetri.

Undanfarin ár hef ég farið í berjamó frekar en taka lyfin mín. Ég komst að því að bláber lækkuðu bæði blóðþrýsting og magn slæms kólesteróls í blóði. Vandamálið var að kólesteróllækkandi lyf, af læknanna ólyfjan, ullu mér verulegum vandræðum, þau eiga það til að valda minnistapi.

Vinnustaðurinn minn var um tíma orðinn með minnistöflum upp um alla veggi og ég vafrandi á milli veggja með minnismiða. Það var ekki fyrr en bókarinn spurði; "hvað ætlarðu svo að gera þegar þú verður búin að gleyma hvar minnistöflurnar eru", -að ég fór í berjamó. 

Þessa dagana mætir maður grandvöru fólki á förnum vegi, bæði í búð og einu sér í sínum bíl, glíma við að leggja mat á tvo metrana jafnvel með grímuna fyrir smettinu. Ég var næstum búin að keyra út af niður á nesi um daginn þegar ég sá myndar konu skokkandi í spandex með grímu, átti í erfiðleikum með að standa fyrir máli mínu gagnvart Matthildi minni, þar sem við vorum að koma úr berjamó.

Hún hefur hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur af því að ég væri að gefa kvenfólki hýrt auga, þó hún hafi oft séð sig knúna til að setja út á aksturslagið. Ég spurði hvort hún hefði ekki tekið eftir að þetta var stútungs kelling á aldri við okkur alein út á túni í sumarblíðunni með drepsóttar grímuna. Það væri varla nema von að manni fipaðist.

Heimildir;

https://is.wikipedia.org

http://www.arnastofnun.is/page/ordpistlar_tvimanudur


Bloggfærslur 25. ágúst 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband