Jöklarnir bráðna - lofið vorn drottinn

IMG_8400

Það fer mikið fyrir hamfarahlýnun þessi misserin enda gæti hver farið að verða síðastur til að missa ekki af henni ef eitthvað er að marka 30 ára sveifluna sem bent hefur verið á af reynsluboltum í veðurfræði. Það er svolítið sérstakt að sjá Breiðamerkurjökul sérstaklega tilgreindan sem hamfarahlýnunar-dæmi á Sky, því eins nafn og jökulsins ber með sér var þarna gróið land sem hann gekk yfir.

Það er vitað að byggð var víða um landnám þar er jökull gekk síðar yfir og eyddi. Þar á meðal Breiðamörk sem jökullinn var síðar við kenndur. Áður fyrr var byggð undir Breiðamerkurfjalli í A-Skaftafellssýslu sem eyddist undan ágangi jökulsins. Þar stóð bærinn Fjall, landnámsjörð Þórðar Illuga, eða Illuga Fellsgoða. Austar með Breiðamerkurfjalli stóð Breiðamörk sem talin er hafa heitið Breiðá þar á undan þar bjó Kári Sölmundarson sá sem um er getið í Brennunjálssögu. 

Í sumar gerði ég það að gamni mínu að keyra upp undir Breiðumarkarjökul. Það land sem nú er að koma undan jökli er ekki beint búsældarlegt, lítið annað en urð og grjót auk bráðins jökulvatns. En hver veit hvað verður ef hamfarhlýnunin heldur sínu striki, kannski verður þá þarna búsældarlegir landkostir svipaðir og fyrir 1000 árum, eftir 100-150 ár eða svo, en Breiðamörk er talin hafa endanlega horfið undir jökul um 1700.

Það sem vakti þó meiri athygli mína þegar ég fór um Breiðumörk í stórgrýtis urðinni sem gerði gamla Cherokee draghaltan, var skilti sem ég rakst á upp við jökullónið undir Breiðamerkurfjalla. Á þessu skilti var mögnuð saga af lífsbaráttu bænda í Öræfum á 20. öld við Breiðamerkurjökul. Ég ætla að leifa mér að birta hana hér fyrir neðan.

Þann 7. nóvember 1936 voru Sigurður Björnsson á Kvískerjum, þá 19 ára gamall, og Gunnar Þorsteinsson á Hofi, að huga að sauðum í Breiðamerkurfjall. Þá féll á þá snjóflóð. Gunnar lenti í vesturjaðri flóðsins og stöðvaðist fljótlega. Sigurður lenti í miðju flóðsins og barst með því um 200 m niður bratta og grýtta hlíðina og stöðvaðist loks vel skorðaður á hvolfi og í kafi í snjó, 28 m niður í djúpri gjá á milli jökulsins og fjallshlíðarinnar.

Eftir að hafa leitað Sigurðar um stund gekk Gunnar heim að Kvískerjum eftir hjálp, en þangað var þriggja klukkustunda gangur. Sigurðar var leitað án árangurs til miðnættis þann dag, m.a. í gjánni þar sem hann lá. Daginn eftir var maður látinn síga niður í gjána og heyrði hann þá Sigurð syngja sálminn "Lofið vorn drottinn, , ," fullum hálsi.

Sigurður var dreginn upp úr gjánni kaldur og máttfarinn eftir að hafa legið þar í 25 klukkustundir. Hann var bundinn á sleða og fluttur heim að Kvískerjum. Svo heppilega vildi til að Héraðslæknirinn var staddur í Öræfunum þennan dag. 

Nokkru fyrir slysið hafði Sigurður lesið bók um það hvernig haga ætti sér við slíkar aðstæður til að eiga möguleika á að lifa af. Sagt var að menn ættu að reyna að sofna eins fljótt og þeir gætu meðan þeir væru óþreyttir. Þetta gerði Sigurður en þegar hann vaknaði aftur fór hann að syngja sálma sér til hugarhægðar og til að halda á sér hita.

Það varð til þess að leitarmenn heyrðu til hans. Sigurður var vel klæddur í ullarnærföt, en einnig hafði hann troðið jakkann sinn fullann af heyi til að gefa sauðunum. Heyið hefur eflaust hlíft honum í fallinu og einangrað hann gegn kulda á meðan hann beið bjargar.

IMG_8403


mbl.is Hvernig Ísland er að bráðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband