24.9.2020 | 06:09
Haustmánuður
Nú lengjast skuggar og kular um kaun þegar krafsar í mann kuldinn. Bara allt í einu komið hrímkalt haust. Jafndægur var fyrir tveimur dögum og nóttin er nú lengri en dagurinn þó svo að ekki sé komin nein myrkurtíð hefur sumarið nú þegar frosið á framrúðunni.
Þessi árstími tekur meira í með hverju árinu sem liður. Gömlu grónu meiðslin, sem safnast hafa á skrokkinn í gegnum árin, segja til sín með kala eftir að hafa legið í dvala bjartsýninnar á hlýju sumri. Steypa dagsins þyngri þraut en torf og verkir vaka langar nætur fram á dimma morgna, -jafnvel þó vinnudagur sé örstuttur hjá hrumu hrói.
Haustmánuður er sjötti og þar með síðasti sumarmánuðurinn samkvæmt gamla norræna tímatalinu, sem deilir árstíðinni í tvennt, -sumar og vetur. Haustmánuður var einnig talin vera 12. mánuður ársins. Hann hefst alltaf á fimmtudegi í 23. viku eða 24., ef sumarauki er, þ.e. 21.-27. september. Haustmánuður er nefndir svo í Snorra Eddu, en hefur einnig verið kallaður garðlagsmánuður, því þessi tími árs þótti hentugur til að bæta túngarða, engigarða, haga- eða skjólgarða og grannagarða.
Samkvæmt gamalli venju er nú tími að plægja land það sem sáð skal í að vori. Vatnsveitingaskurði er gott að stinga svo ekkert vatn geti staðið yfir landi á vetrum heldur að það súra vatn fái gott afrennsli. Jarðarávexti skal nú upp taka og láta nokkuð þorrna, grafa þá síðan niður hvar frost má ei að þeim koma. Um þennan tíma fellir melur fræ, má nú safna því áður og sá strax í sendið land og breiða mold yfir, kemur upp næsta vor. Hvannafræi og kúmeni má nú líka sá þar sem menn vilja þær jurtir vaxi síðan.
Sumri og vetri er samkvæmt gamla tímatalinu skipt í tvær jafnlangar árstíðir. Haustmánuður byrjar nálægt jafndægri að hausti og er yfir tíma þar sem nóttin er lengri en dagurinn, ætti því samkvæmt gangi sólar að tilheyra vetrinum. Þar sem Harpa er fyrsti sumarmánuðurinn, sem hefst í kringum 20. apríl, telst Haustmánuður sjötti mánuður sumars.
Það sýnir vel hvað gamla tímatalið var vel ígrundað, að það tók ekki einungis mið af afstöðu sólar við miðbaug, einnig tók það mið af lofthita og gangi náttúru jarðar sem er mun hagstæðari fyrsta mánuð eftir haustjafndægur heldur en á fyrstu vikum eftir vorjafndægur, sem eru um 20. mars.
Undanfarin sumur hef ég jórtrað íslenskt ofurfæði, því ég nenni ekki lengur að setja niður kartöflur. Langt er síðan ég fékk áhuga á að kanna hversu hollar villtar jurtir væru úr íslenskri náttúru. Flóran sem ég hef prufað er orðin fjölbreitt má þar helst telja; bláber, fjallagrös, njóla, fífla, hundasúrur, hvönn, melfræ, beitilyng, blóðberg og nú síðast í haust hvannarfræ. Rabbabarinn ruglast með þó hann teljist ekki til villijurta ennþá eins og njólinn og hvönnin, sem upphaflega var garðagróður ræktaður til matar og lækninga.
Fyrir veturinn söfnum við Matthildur mín því sem hægt er að geyma af lystisemdunum. Í frosti eru það bláber og rabbabari. Fjallgrösin eru auðveld í geymslu og núna í haust bættist við fræ af hvönn. Það hefur varla liðið dagur síðustu 5-6 árin sem eitthvað úr villtri náttúru hefur ekki verið á borðum. Meir að segja er það orðið svo, um það bil þrjá mánuði yfir sumartímann, að uppistaða matmálstíma er úr flóru landsins.
Það má segja að undanfarin ár hafi verið farið út um þúfur og lagst í berjamó upp úr verslunarmannahelgi. Hreyfingin og upplífgandi útiveran innan um fugla himinsins gefur miklu meira en hálfa hollustuna. Um síðustu helgi var punkturinn settur yfir i-ið á þessu sumri í aðalbláberjamó við lognstylltan Mjóafjörðinn og á vindasömu grasafjalli á heiðum Vopnafjarðar.
Það má vel vera að ég birti hér á blogginu einn daginn lokaritgerð um lækningamátt íslensks illgresis, en læt það vera að sinni, því betra er að æra ekki óstöðugan þegar löggilt læknanna ólyfjan er annars vegar.
Allt fram streymir endalaust,
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust,
horfin sumarblíða.
Kristján Jónsson
Heimildir;
https://is.wikipedia.org
http://natturan.is/samfelagid/efni/7426/
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)