10.3.2021 | 13:39
Saga sifja, spella og blóðskammar
Þó svo drekar fortíðar hafi vissulega verið lygilegri ógn en veirur nútíðar getur verið gagn af því að vita uppruna sinn, enda byggir genafræði nútímans á þeirri vitneskju. Íslendingar ku víst vera komnir af Sigurði Fáfnisbana, en Sigurður vó drekann Fáfni, sem var engin venjuleg kvefveira. Þetta gerðist á Gnitheiði sælla minninga.
Samkvæmt sifjunum var Sigurður sonur Sigmundar sem var sonur Völsungs sonar Rera er var sonur Siga sonar Óðins. Lengra er ekki vafrað í þá áttina. En Sigurður Fáfnisbani og Brynhildur Buðladóttir eignuðust Áslaugu kráku, þá er átti Ragnar loðbrók víking í Danmörku. Þeirra synir voru Ívar beinlausi víkingakonungur á Englandi, Björn blásíða konungur í Svíþjóð, Sigurður ormur í auga og Hvítserkur.
Það er út af þeim Sigurði ormi í auga og Birni blásíðu sem Íslendingar eru sagðir komnir. En Sigurður ormur átti Blæju dóttir Ella konungs, en fornaldar Danakonungar eru komnir af Hörða-Knúti syni þeirra, sem átti svo dótturina Áslaugu en af henni var Haraldur hárfagri kominn og þar með allir Noregskonungar. Og nú erum við komnir á síður Íslendingabókar svo gramsi nú hver fyrir sig.
Ég hef semsagt verið að lesa Völsunga sögu og það ekki í fyrsta sinn. Þetta er einstök ástarsaga sem varðveitist á Íslandi, en á sér samsvörun í þeim Niflungakviðum sem þriðja ríkið gerði að sínum helgu véum. Sagan er stutt, en margþætt, og er að stærstum hluta um tvo ættliði. Sagan gerist ekki á Íslandi heldur í víða um Evrópu. Þáttur Sigurðar og Brynhildar er talin gerast í Þýskalandi og Frakklandi.
Sá hluti Sögunar sem tekur til Sigmundar, föður Sigurðar Fáfnisbana, og Völsungs afa hans á sér víðar skírskotanir landfræðilega. Þó svo að Sigmundur hafi eignast Sinfjötla sinn eftirlætis son með systur sinni Signý, þá voru það engin afdala sifjaspell. Sá ættleggur varð svo að engu við dauða Sinfjötla.
Framan af sögu höfðu þeir feðgar legið í útlegð sem varúlfar í Moldavíu, og dundað sér við að drepa menn og börn Signýjar systur sinnar og móður, auk þess að drepa mann hennar Siggeir konung, þegar þau systkinin hefndu í sameiningu Völsungs föður síns. Eftir það fór hagur Sigmundar að vænkast og fékk hann Borghildi sem konu og átti með henni synina Hámund og Helga Hundingsbana.
Þeir bræður blésu til stórorrustu, sem nú á tímum engin virðist vita hvar og hvernig fór, en í aðdraganda hennar beið Helgi þess að mikill flokkur kom til þeirra úr Héðinsey og mikið lið úr Njörvasundum með fögrum skipum og stórum. Liðsöfnuðurinn hefur því náð allt frá Svartahafi til Gíbraltarsunds og taldi tugi þúsunda manna. Bræðurnir Helgi Hundingsbani og Sinfjötli urðu sigursælir. En frú Borghildur öfundsjúk og drap Sinfjötla með eitri að Sigmundi manni sínum ásjáandi.
Án þess að nánar sé hér farið út í söguþráðinn, annað en forsögu Fáfnisbana, þá heldur hin ótrúlega saga ásta, töfra og blóðhefnda áfram. Engin virðist lengur vita nákvæmlega hvar sagan gerist eða um hvaða atburði hún fjallar. Einfaldast væri því að afgreiða hana á sama hátt og drekann Fáfni. Fræðimenn telja þó marga atburði hennar trúverðuga og hún gerist við fall keisaraveldisins í Róm. Þetta er því tímamótasaga þegar heimsmynd hverfur og ný verður til, saga aðdraganda hinna myrku miðalda. Enda verður ekki annað skynjað við lestur hennar.
Margir hafa fengið sína andargift af Völsungasögu má þar t.d. nefna Tolkien, sem talin er hafa verið innblásinn af horfnum heimi sögunnar, þegar hann skrifaði Lord of the Rings, sem varð að þekktri kvikmynd í upphafi þessarar aldar. Enn á ný bankaði ættartal Fáfnisbana upp á öldina og afþreyingariðnaðinn í sjónvarpsþáttunum Vikings árið 2013, sem fjalla um Áslaugu kráku og Ragnar loðbrók.
Og nú kunna margir að spyrja; heldur maðurinn virkilega að sagan sé sönn? En ættu mun frekar að spyrja sig; hvernig stendur á því að slíkar sögur varðveitast í ættartölu Íslendinga?
Þó svo að tímalína sögunnar sé ekki samsíða hinni opinberu mankynsögu segir það ekki neitt. Þó svo að háskólaðir fræðimenn bendi á að sagan ruglist fram og aftur í tíma, jafnvel þó að hátt í 400 ár séu á milli dótturinnar kráku og föðurins Fáfnisbana, segir það nákvæmlega ekki neitt. En sagan ásamt Ragnarssögu loðbrókar er af fræðimönnum talin gerast að mestu á tímabilinu 400 800 eftir Krist.
Í þessu sambandi mættu fleiri íhuga orð gamla bóndans á Jökuldal sem sagði að hálka væri einungis hugarástand eftir að hann hafði í þrítugasta sinn þvælst út af á svelluðum veginum, -hann hefði bara keyrt aðeins of hratt. Það er nefnilega svo að tími er sjónhverfing notaður sem mælieining til að skýra liðna atburðarás, og við það eitt verður atburðurrásin ekki staðreynd.
Eins þurfa 2 + 2 ekki að vera 4 frekar enn hverjum og einum sýnist, útkoman 4 er einungis samkomulagsatriði, -rétt eins og verðtryggðir 10. Ávalt ber því að hafa í huga að það er sigurvegarinn sem skrifaði mankynsöguna. Einmitt þetta kemur svo vel fram í sögunni hans Sigurðar, sem varð ekki sigurvegari sögunnar þrátt fyrir Fáfnis drápið.
Þó svo Völsungasaga sé sögð sú fornaldarsaga norðurlanda sem geimi meinlokur norrænnar goðafræði fjallar hún jafnframt á undarlega lygilegan hátt um óræða atburði víða í Evrópu. Því er hún af sama meiði og Íslendingasögurnar, -sagna sem segja hina óopinberu mankynssögu. Svo sem af heimsálfunni í vestri, sem mankynssagan segir að hafi ekki uppgötvast fyrr en 500 árum eftir að Íslendingar vissu af þeim heimi.
Völsungasaga segir frá heimsmynd sem tíðarandi nútímans segir að hafi ekki verið til og af atburðum sem eru sagðir aldrei hafa gerst. En Völsunga saga er sannari en mankynsagan, þegar kemur að greina frá því að það er hjartað sem ræður að endingu ævi mannanna, sama hvort um er að ræða dreka eða veirur.
Goðsagnir og Þjóðsögur | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)