27.4.2021 | 06:11
Fíflalegt
Það eru óræk merki um vorkomuna þegar fyrstu fíflarnir skína við sólu. Fíflar eru ekki aðeins til ánægju og yndisauka sem vorboðar, heldur eru þeir býsna ljúffengir í heilsusamlegan mat. Hér áður fyrr kunni fólk almennt betur að nýta sér ávexti jarðar. Hver sem er getur tínt jurtir og haft þær til notkunar í eldhúsinu; það þurfa engin mörk að vera milli notkunar þeirra við matargerð og til heilsubótar.
Það er bæði hollt og skemmtilegt að nema slík fræði og ekki er margt grænmetið sem fæst algerlega ókeypis líkt og túnfífillinn hefur gert frá örófi alda. Hann þykir með bestu vatnslosandi jurtum sem völ er á, og hefur lengi verið notaður í alþýðulækningum. Blöð túnfífilsins eru mjög næringarrík og voru áður fyrr notuð til lækninga við bjúg, sérstaklega ef hann orsakaðist af máttlitlu hjarta.
Sjálfur hef ég notað fíflablöð með hundasúrum og njóla í ferskt salat og þá saltað það örlítið og blandað með niðurbrytjuðum ferskum tómat bátum ásamt söxuðum sólþurrkuðum tómötum og helt smá olíu yfir. Svona salat er ljúffengt, t.d. með túnfiski eða harðsoðnum eggjum.
Fífla, hundasúrur og njóla má finna næstum hvar sem er, tómatana ferska og sólþurrkaða fær maður í Bónus. Upphaflega fékk ég áhuga á fíflunum vegna frásagna af lækningamætti þeirra við bjúg sem orsakaðist af máttlitlu hjarta og get staðfest að þeir virka.
Máttur fífla, sem fæðu við að bæta heilsu, hefur verið þekktur frá örófi alda. Þetta má t.d. finna um fíflablöð í ritgerð um íslensk matvæli frá því á ofanverðri 18. öld: "Þau eru ein sú hollasta fæða handa magaveikum. Skal saxa þau og sjóða vel í mysu eða vatnsblandaðri mjólk; smekkurinn er ísnarpur. Þau eiga vel við vatnsbjúg, skyrbjúg, tannholdsveiki og sinakreppu (sinadráttur), sem skyrbjúgum fylgja.
Þegar þessi veikindi gengu eftir jarðeldinn 1783, ráðlagði Thodal stiftamtmaður að brúka fíflablaðagraut mest matar, og batnaði flestum að fárra daga eða vikna fresti, betur en af skarfakáli, sem allir geta sannað, er brúkuðu þennan graut eftir ráðum mínum. Hefur brúkun þess og síðan haldist við, þó helst hjá þeim efnaðri í salati."
Þó svona speki þyki fíflaleg fræði nú á bólusetningar dögum heilbrigðisiðnaðarins, þá má alltaf hugga sig við það að þegar er orðið fíflalegt um að litast, þá gefur útiveran við að höndla stöffið mikið meira en hálfa hollustuna í d-vítamíni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)